Kom, fylg mér
8.–14. júní. Alma 8–12: Jesús Kristur mun koma og endurleysa fólk sitt


8.–14. júní. Alma 8–12: Jesús Kristur mun koma og endurleysa fólk sitt,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók 2020 (2020)

„8.–14. júní. Alma 8–12,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020

Ljósmynd
Alma prédikar

Kennir sanna kenningu, eftir Michael T. Malm

8.–14. júní

Alma 8–12

Jesús Kristur mun koma og endurleysa fólk sitt

Lestur ritninganna eykur líkur á opinberun. Þegar þið lesið Alma 8–12, skráið þá hughrif andans þegar hann kennir ykkur úr boðskap Alma og Amúleks.

Skráið hughrif ykkar

Verk Guðs mun ekki bregðast. Viðleitni okkar til að hjálpa við verkið, virðist þó stundum bregðast – við fáum hið minnsta kannski ekki séð strax þær niðurstöður sem við væntum. Stundum kann okkur að líða eins og Alma, þegar hann prédikaði fagnaðarerindið í Ammóníaborg – honum var hafnað, á hann hrækt og honum vísað burtu. Þegar engill bauð Alma hinsvegar að fara til baka og reyna aftur, „sneri hann í skyndi aftur“ (Alma 8:18) hugdjarfur og Guð bjó honum leið. Hann sá Alma ekki einungis fyrir mat til að eta og stað til að dvelja á, heldur fyrirbjó hann líka Amúlek, sem varð samstarfsfélagi hans, eldheitur talsmaður fagnaðarerindisins og trúfastur vinur. Þegar við verðum fyrir bakslagi og vonbrigðum í þjónustu ríkis Drottins, getum við minnst þess hvernig Guð studdi og leiddi Alma og treyst því að Guð muni líka styðja og leiða okkur, jafnvel við erfiðar aðstæður.

Ljósmynd
Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Alma 8

Viðleitni mín við að miðla fagnaðarerindinu gæti krafist þolgæðis og þolinmæði.

Þótt einhver kunni að hafna vitnisburði ykkar um fagnaðarerindið, ættuð þið ekki að missa von – Drottinn mun ekki gefast upp á þeim einstaklingi og sýna ykkur hvernig bregðast skuli við. Í tilviki Alma, þá bauð engill honum að fara aftur til Ammóníaborg til að prédika fagnaðarerindið, jafnvel þótt fólkið þar hefði áður hafnað honum harðlega (sjá Alma 8:14–16). Hvað lærið þið af því fordæmi Alma að miðla fagnaðarerindinu, þrátt fyrir áskoranir og andstreymi? Hvaða vers í Alma 8 auka þrá ykkar til að miðla fagnaðarerindinu?

Sjá einnig 3. Nefí 18:30–32; Jeffrey R. Holland, „Gjald og blessanir lærisveinsins,“ aðalráðstefna, apríl 2014.

Alma 9:18–25; 10:16–23

Guð dæmir börn sín samkvæmt ljósi og þekkingu þeirra.

Þegar þið lesið hvernig Nefítarnir í Ammóníaborg komu fram við þjóna Drottins, er auðvelt að gleyma að þeir lifðu eitt sinn eftir fagnaðarerindinu og nutu „mikillar hylli Drottins“ (Alma 9:20). Hluti af boðskap Alma til fólksins í Ammóníaborg var í raun sá, að sökum þess að þeir höfðu hert hjörtu sín, eftir að verið svo ríkulega blessaðir, var ástand þeirra verra en Lamanítanna, sem að mestu syndguðu vegna fáfræði. Hvað kennir þessi mótsetning okkur um hvernig Guð dæmir börn sín?

Þegar þið lesið um hinar miklu blessanir sem Guð veitti fólki Nefís (sjá einkum Alma 9:19–23), ígrundið þá hinar miklu blessanir sem hann hefur veitt ykkur. Hvað gerið þið til að vera trúföst þessum blessunum? Hvaða breytingar finnst ykkur þið þurfa að gera?

Sjá einnig Kenning og sáttmálar 82:3.

Alma 11–12

Áætlun Guðs er endurlausnaráætlun.

Spámenn Mormónsbókar notuðu hin ýmsu nöfn til að lýsa áætlun Guðs fyrir börn hans, eins og sáluhjálparáætlun eða sæluáætlun. Í Alma 11–12 vísa Alma og Amúlek til hennar sem endurlausnaráætlunar. Þegar þið lesið þessa kapítula, ígrundið þá afhverju hugtakið „endurlausn“ er notað til að lýsa áætluninni. Þið gætuð líka skráð stutta samantekt á kennslu Alma og Amúleks um eftirfarandi þætti áætlunarinnar.

Fráhvarfið:

Lausnarinn:

Iðrun:

Dauði:

Upprisa:

Dómur:

Gætið að áhrifunum sem orð Amúleks höfðu á fólkið (sjá Alma 11:46). Afhverju haldið þið að þessar reglur hafi haft svo kröftug áhrif? Hvernig hafa þær haft áhrif á líf ykkar?

Sjá einnig D. Todd Christofferson, „Upprisa Jesú Krists,“ aðalráðstefna, apríl 2014.

Alma 12:8–18

Ef ég herði ekki hjarta mitt, get ég tekið á móti fleiri orðum Guðs.

Sumir gætu velt fyrir sér afhverju himneskur faðir gerir okkur ekki allt kunnugt. Í Alma 12:9–14 útskýrir Alma eina mögulega ástæðu þess að leyndardómum Guðs er stundum haldið frá okkur. Þessar spurningar gætu hjálpað við að ígrunda það sem hann kenndi:

  • Hver er merking þess að herða hjarta sitt? Hafið þið einhvern tíma veitt athygli þessari tilhneigingu í ykkur sjálfum?

  • Afhverju ætli Drottinn haldi orði sínu frá þeim sem hafa hert hjörtu sín?

  • Hvernig hafið þið upplifað loforðið um að „veitast stærri hluti orðsins“? (Alma 12:10). Hvernig var sú upplifun ykkar?

  • Hvað getið þið gert til að tryggja að orð Guðs „[finnist í ykkur]“? (Alma 12:13). Hvað áhrif hefði það á „orð,“ „verk“ og „hugsanir“ ykkar, ef orð Guðs fyndist í ykkur? (Alma 12:14).

Berið saman Amúlek og annað fólk í Ammóníaborg, sem dæmi um þessar reglur. Hvernig sýnir upplifun Amúleks (sjá einkum Alma 10:1–11) það sem Alma kenndi í þessum versum?

Ljósmynd
Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Þegar þið lesið ritningarnar með fjölskyldu ykkar, getur andinn hjálpað ykkur að vita hvaða reglur ber að ræða og leggja áherslu á, til að uppfylla þarfir fjölskyldu ykkar. Hér eru nokkrar ábendingar.

Alma 8:10–18

Hvað getum við lært af Alma um að hlýða Drottni „í skyndi“ (vers 18), jafnvel þótt erfitt gæti verið? Þið gætuð farið í leik, til að auka skilning yngri barna á þessari reglu, með því að gefa fyrirmæli um verkefni og sjá hve fljótt fjölskyldumeðlimir leysa það. Þið gætuð til að mynda séð hver gæti brotið saman flík í skyndi.

Alma 10:1–12

Hvað getum við lært af reynslu Amúleks í þessum versum? Hver voru áhrif vitnisburðar hans á þá sem á hlýddu? Biðjið fjölskyldumeðlimi að ráðgera að gera eitt í þessari viku, byggt á því sem þau lærðu af fordæmi Amúleks.

Alma 10:22–23

Hvað lærum við af þessum versum um þau áhrif sem réttlátur hópur fólks getur haft á rangláta borg?

Alma 11:34–37

Hver er munurinn á því að Jesús Kristur frelsi okkur í syndum okkar og frá syndum okkar? (sjá Helaman 5:10; sjá einnig 1. Jóhannesarbréfið 1:9–10). Þið gætuð, til að sýna fram á það sem Amúlek kenndi, lesið söguna í upphafi ræðu öldungs Allens D. Haynie „Minnist þess á hvern þið hafið sett traust ykkar“ (aðalráðstefna, október 2015). Hvernig frelsar Jesús Kristur okkur frá syndum okkar?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Bæta persónulegt nám

Lærið orð síðari daga spámanna og postula. Lesið það sem síðari daga spámenn og postular hafa kennt um sannleikann sem þið finnið í ritningunum. Þið gætuð t.d. auðkennt efni í Alma 8–12 og leitað þess efnis í nýlegustu aðalráðstefnu (sjá Teaching in the Savior’s Way [Kenna að hætti frelsarans], 21).

Ljósmynd
Alma snæðir með Amúlek

Teikning af Alma að snæða með Amúlek, eftir Dan Burr

Prenta