„1.–7. júní. Alma 5–7: ‚Hefur þessi gjörbreyting orðið í hjörtum yðar?‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók 2020 (2020)
„1.–7. júní. Alma 5–7,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020
1.–7. júní
Alma 5–7
„Hefur þessi gjörbreyting orðið í hjörtum yðar?“
Alma 5–7 getur hjálpað ykkur að ígrunda viðvarandi trúarviðsnúning ykkar til Jesú Krists. Skráið það sem andinn kennir ykkur við lesturinn.
Skráið hughrif ykkar
Alma vissi ekki um hinar lífgefandi skurðaðgerðir hjartaígræðslna, þar sem heilbrigt hjarta er sett í stað skemmds eða sjúks hjarta, Hann vissi þó um hina undursamlegu „[umbreytingu í hjarta]“ (Alma 5:26) – sem á sér stað þegar frelsarinn gefur okkur nýtt andlegt líf, líkt og að „fæðast andlega“ (sjá Alma 5:14, 49). Alma fékk séð að margir Nefítanna höfðu einmitt þörf fyrir þessa breytingu hjartans. Sumir voru ríkir og aðrir fátækir, sumir drambsamir og aðrir auðmjúkir, sumir ofsækjendur og aðrir sættu ofsóknum (sjá Alma 4:6–15). Öll þurftu þau þó að koma til Jesú Krists, til að læknast – rétt eins og við öll þurfum. Hvort sem við reynum að sigrast á drambi eða komast í gegnum hörmungar, þá er boðskapur Alma sá sami: „Komið og óttist ekki“ (Alma 7:15). Látið frelsarann breyta hörðu, syndugu og særðu hjarta og gera það auðmjúkt, hreint og nýtt.
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Ég þarf að upplifa – og halda áfram að upplifa – gjörbreytingu í hjarta.
Þær sjálfsskoðandi spurningar sem Alma spurði fólkið í Sarahemla í Alma 5:14–33, geta hjálpað ykkur að skoða eigin sál og skilja merkingu þess að upplifa „[gjörbreytingu í hjarta]“ alla ykkar ævi. M. Russell Ballard forseti útskýrði gildi þessara spurninga: „Ég [þarf] að spyrja sjálfan mig reglubundið: ‚Hvernig er ég að standa mig?‘ Það er eins og að eiga viðtal við sjálfan sig í einrúmi. … Þegar ég sjálfur fer í slíka naflaskoðun, finnst mér gott að lesa og ígrunda hin áminnandi orð í fimmta kapítula Alma“ („Endurkoma og endurgjald,“ aðalráðstefna, apríl 2017).
Íhugið að lesa spurningar Alma, líkt og þið væruð að eiga viðtal við ykkur sjálf og skoðið eigið hjarta. Þið gætuð viljað skrá viðbrögð ykkar við þessum spurningum. Hvað finnst ykkur þið knúin til að gera eftir viðtalið?
Sjá einnig Dale G. Renlund, „Að varðveita gjörbreytingu hjartans,“ aðalráðstefna, október 2009.
Ég get hlotið eigin vitnisburð um frelsarann og fagnaðarerindi hans með heilögum anda.
Alma gaf máttugan vitnisburð um frelsarann og fagnaðarerindi hans og útskýrði líka hvernig hann öðlaðist þann vitnisburð. Hann gat þess ekki að hafa séð og hlýtt á engil í vitnisburði sínum (sjá Mósía 27:10–17), en sagði fremur frá gjaldinu sem hann þurfti að greiða til að þekkja sjálfur sannleikann. Hvað lærið þið af Alma 5:44–51 um hvernig Alma komst til þekkingar á sannleikanum? Hvernig getið þið fylgt fordæmi hans í þeirri viðleitni ykkar að öðlast eða styrkja vitnisburð ykkar? Hvað lærið þið um frelsarann af kenningum Alma í Alma 5:33–35, 48–50 og 57–60?
Kostgæfin hlýðni gerir mér kleift að vera „á þeim vegi, sem liggur til Guðs ríkis.“
Fólkið í Gídeon glímdi ekki við sömu vandamál og fólkið í Sarahemla, svo andinn gerði Alma kleift að greina þarfir þess og kenna því á annan hátt (sjá Alma 7:17, 26). Þið gætuð tekið eftir blæbrigðamun á boðskap Alma í Sarahemla (sjá Alma 5) og í Gídeon (sjá Alma 7). Alma sá til að mynda að fólkið í Gídeon var „á þeim vegi, sem liggur til Guðs ríkis“ (Alma 7:19). Alma kenndi fólkinu margt víða í prédikun sinni til þess, varðandi það að halda sig á veginum (sjá Alma 7). Hvaða leiðsögn veitti hann því? Hvað af því getið þið tileinkað ykkur nú?
Frelsarinn tók á sig syndir mínar, sársauka og sorgir.
Hefur ykkur einhvern tíma fundist engin skilja erfiðleika ykkar og áskoranir? Ef svo er, getur sannleikurinn sem kenndur er í Alma 7:7–16 hjálpað. Öldungur David A. Bednar vitnaði: „Sonur Guðs fær algjörlega skilið og þekkt, því hann hefur upplifað og borið byrðar okkar. Vegna hinnar óendanlegu og eilífu fórnar hans (sjá Alma 34:14), hefur hann fullkomna samhyggð og megnar að rétta okkur miskunnararm sinn“ („Bera byrðar þeirra léttilega,“ aðalráðstefna, apríl 2014).
Þegar þið lesið Alma 7:7–16, ígrundið þá hvað þessi vers hjálpa okkur að skilja um tilgang fórnar frelsarans. Hvernig tengjumst við krafti hans í lífi okkar? Íhugið að skrá hugsanir ykkar.
Sjá einnig Jesaja 53:3–5.
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
Þegar þið lesið ritningarnar með fjölskyldu ykkar, getur andinn hjálpað ykkur að vita hvaða reglur ber að ræða og leggja áherslu á, til að uppfylla þarfir fjölskyldu ykkar. Hér eru nokkrar ábendingar.
Alma 5:6–13
Afhverju vildi Alma að fólk hans minntist miskunnsemi Drottins gagnvart forfeðrum þess? Hvaða sögur úr ættarsögu ykkar kenna um miskunn hans? Ef til vill gætuð þið farið á familysearch.org/myfamily til að skrá þessar sögur.
Alma 5:14–33
Fjölskyldumeðlimir ykkar gætu þekkt þá tilfinningu að vera viðbúin – eða óviðbúin – útileguferð, skólaprófi eða atvinnuviðtali. Hvaða nýlegri reynslu gætu þau miðlað til að útskýra mikilvægi þess að vera viðbúin? Þið gætuð beðið fjölskyldumeðlim að rifja upp Alma 5:14–33 og finna þær spurningar sem Alma spurði til að búa fólk sitt undir að mæta Guði. Ef til vill gæti hver fjölskyldumeðlimur valið spurningu og sagt frá því hvernig hún getur búið okkur undir að mæta Guði. Fjölskylda ykkar gæti líka haft nokkrar spurninga Alma á áberandi stöðum á heimilinu til ígrundunar.
Alma 6:4–6
Hverjar eru sumar ástæðna þess að við komum saman sem heilagir? Hvernig getum við gert tíma okkar í kirkjunni gagnlegri okkur sjálfum og öðrum?
Alma 7:9–16
Hvað lærum við í þessum versum sem hjálpar okkur að „[óttast] ekki“ (Alma 7:15) þegar við þurfum að iðrast og breytast? Hvað kenna þessi vers okkur um að snúa sér til frelsarans þegar þörf er á hjálp? Hvað annað höfum við gert til að hljóta hjálp hans? Hvernig hefur hann liðsinnt okkur?
Alma 7:23
Hvern þekkjum við sem er gott fordæmi um einn þeirra eiginleika sem tilgreindur er í þessu versi? Af hverju er mikilvægt að þroska þessa eiginleika?
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.