Kom, fylg mér
25.–31. maí. Mosiah 29–Alma 4: „Þeir [voru] staðfastir og óhagganlegir“


„25.–31. maí. Mósía 29 – Alma 4: ,Þeir [voru] staðfastir og óhagganlegir,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók 2020 (2020)

„25.–31. maí. Mósía 29 – Alma 4,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020

Alma yngri prédikar

Alma yngri prédikar, eftir Gary L. Kapp

25.–31. maí

Mósía 29–Alma 4

„Þeir [voru] staðfastir og óhagganlegir“

Lestur ritninganna eykur líkur á opinberun Verið opin fyrir þeim boðskap sem Drottinn ætlar ykkur.

Skráið hughrif ykkar

Sumir gætu séð tillögu Mósía konungs um að skipta konungunum út fyrir kosna dómara einungis sem skynsamlega stjórnmálalega umbót. Þessi breyting var þó líka andlega mikilvæg Nefítunum, einkum þeim sem lifað höfðu við ofríki hins rangláta Nóa konungs. Þeir höfðu séð hvernig ranglátur konungur hafði valdið „óhæfu“ og „mikilli tortímingu“ meðal fólks síns (Mósía 29:17) og vildu „óþreyjufullir“ hverfa frá slíkum aðstæðum. Þessi breyting myndi gera þeim kleift að bera sjálfir ábyrgð á eigin réttlæti og „svara fyrir eigin syndir“ (Mósía 29:38; sjá einnig Kenning og sáttmálar 101:78).

Auðvitað leysti það ekki allan vanda í samfélagi Nefítanna að konungar yrðu ekki lengur við völd. Slóttugir einstaklingar, eins og Nehor og Amlikí, kyntu undir fölskum hugmyndum, vantrúaðir ofsóttu hina heilögu og margir meðlimir kirkjunnar urðu hrokafullir og fráhverfir. „[Hinir auðmjúku fylgjendur Guðs]“ voru þó áfram „staðfastir og óhagganlegir,“ burt séð frá aðstæðum umhverfis (Alma 1:25). Þeir gátu, sökum þeirrar breytinga sem Mósía innleiddi, „[sagt] álit sitt“ til að hafa góð áhrif á samfélag sitt (Alma 2:6).

Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Mósía 29:11–27; Alma 2:1–7

Ég get haft góð áhrif í samfélagi mínu.

Þegar valdatíð dómaranna hafði einungis staðið yfir í fimm ár, kom upp mál þar sem reyndi á þá staðhæfingu Mósía að rödd fólksins veldi yfirleitt hið rétta (sjá Mósía 29:26). Málið snérist um trúfrelsi: Maður að nafni Amlikí reyndi að „svipta [fólkið] rétti sínum og réttindum kirkjunnar“ (Alma 2:4). Hafið þið fundið trúfrelsinu ógnað í landi ykkar eða samfélagi? Hvað lærið þið af viðbrögðum Nefítanna við þessari ógn? (sjá Alma 2:1–7).

Samfélag ykkar tekst líklega á við mörg mikilvæg málefni. Hvernig getið þið, líkt og Nefítarnir, tryggt að rödd ykkar fái heyrst meðal „raddar fólksins“? Ef til vill búið þið á stað þar sem rödd fólksins hefur takmörkuð áhrif á stjórnvöld; ef svo er, getið þið þá haft góð áhrif á samfélag ykkar á annan hátt?

Alma 1

Ég get auðkennt falskar kenningar og hafnað þeim.

Þótt Nehor hefði að endingu viðurkennt að kenningar hans væru rangar, þá höfðu þær áhrif á Nefítanna í mörg ár (sjá Alma 1:15–16; 2:1–2; 14:14–18; 15:15; 21:4; 24:28). Hvað gæti hafa heillað fólk við kenningar Nehors? Þegar þið lesið Alma 1:2–4, reynið þá að bera kennsl á það sem rangt er við kenningar Nehors; ykkur verður líklega ljóst að þær fela í sér sannleika að hluta.

Gídeon stóðst Nehor „með orðum Guðs“ (Alma 1:7, 9). Getið þið komið fram með ritningarvers sem afsanna lygi Nehors? Hér eru nokkur dæmi, en mörg fleiri eru til: Matteus 7:21–23; 2. Nefí 26:29–31; Mósía 18:24–26; and Helaman 12:25–26. Hvernig geta þessi vers hjálpað ykkur að afsanna ósannindi sem kennd eru á okkar tíma?

Önnur aðferð til að að læra Alma 1 er að bera saman Nehor og fylgjendur hans (vers 3–9, 16–20) og „Guðs fólk“ (vers 25–30; sjá einnig 2. Nefí 26:29–31). Hvernig getið þið verið líkari fólki Guðs? Hafið þið tekið eftir „prestaslægð“ í þjónustu ykkar?

Alma 1:27–31; 4:6–15

Sannir lærisveinar Jesú Krists elta ekki ólar við ríkidæmi.

Kapítular 1 og 4 segja báðir frá tímabili þar sem kirkjan naut velsældar og hvernig meðlimir brugðust ólíkt við í hvoru tilviki. Hvað er fráburgðið í þessum tilfellum? Hvernig mynduð þið lýsa viðhorfi „hinna auðmjúku fylgjenda Guðs“ (Alma 4:15) gagnvart ríkidómi og velsæld? Hvaða eigin viðhorfsbreytingar finnst ykkur þið hvött til að gera?

Alma 4

„Orð Guðs“ og „hreinn vitnisburður“ megna að umbreyta hjörtum.

Hvað gerði Alma „mjög harmþrunginn“ (Alma 4:15) í Alma 4? Einhverjir gætu sagt að í embætti aðaldómara hefði Alma verið í ákjósanlegri stöðu til að leysa vandamál sem hann sá meðal fólks síns. Alma fannst þó betri leið vera til. Hvað hrífur ykkur varðandi hvernig hann liðsinnti fólki sínu? Þið gætuð hlotið innblásnar hugsanir við námið um hvernig þið getið haft réttlát áhrif á þá sem umhverfis eru; ef svo er, bregðist þá við þeim hugsunum.

Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Þegar þið lesið ritningarnar með fjölskyldu ykkar, getur andinn hjálpað ykkur að vita hvaða reglur ber að ræða og leggja áherslu á, til að uppfylla þarfir fjölskyldu ykkar. Hér eru nokkrar ábendingar.

Alma 1:19–25

Fjölskylda ykkar gæti haft gagn af því að átta sig á hvernig kirkjumeðlimir bregðast ólíkt við ofsóknum í þessum versum. Þið gætuð ef til vill æft hvernig rétt væri að bregðast við þegar aðrir gera aðför að trú ykkar. Religious Freedom Videos [Myndbönd um trúfrelsi] gætu verið gagnleg.

Alma 3:4

Hverju vildu Amlikítar koma á framfæri þegar þeir „auðkenndu sig“? (sjá Alma 3:4, 13). Hvaða skilaboð gætum við sent – meðvitað eða ómeðvitað – með útliti okkar? Þegar hér er komið gæti verið tilvalið að rifja upp „Klæðnaður og útlit“ í Til styrktar æskunni (2011), 6–8.

Alma 4:2–3

Hvaða hlutir eða upplifanir hafa „[vakið okkur] til minningar um skyldur [okkar]“ við Guð? (Alma 4:3). Ef til vill væri áhrifaríkt að miðla þessum versum, eftir að þið vekið fjölskyldu ykkar að morgni. Þið gætuð þá rætt hvernig sú áskorun að vakna líkamlega auðveldar okkur að skilja áskorunina að vakna andlega.

Alma 4:10–11

Hvernig getum við forðast að vera þeim „hrösunarhella, sem ekki [tilheyra] kirkjunni“? (Alma 4:10). Það gæti líka verið gagnlegt að ræða hvernig við getum tryggt að breytni annarra, einkum meðlima kirkjunnar, verði ekki okkur sjálfum hrösunarhella andlegrar framþróunar.

Alma 4:19

Þið gætuð hjálpað fjölskyldu ykkar að skilja máttug áhrif vitnisburðar með því að biðja þau að hugsa um það þegar vitnisburður einhvers hafði djúp áhrif á þau. Afhverju gæti Alma hafa kosið að nota vitnisburð og orð Guðs til að snerta hjörtu fólksins? (sjá einnig Alma 31:5). Afhverju er þetta áhrifaríkara en aðrar aðferðir sem hægt væri að nota til að sannfæra aðra um að breytast? Gætum við styrkt trú einhverra með því að miðla þeim vitnisburði okkar?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Bæta persónulegt nám

Tileinkið ykkur ritningarnar. Ígrundið hvernig sögur og kenningar ritninganna eiga við um líf ykkar sjálfra. Þið gætuð t.d. fundið hliðstæður í okkar heimi og samfélagsvandanum sem Nefítarnir glímdu við í Alma 1–4.

Nefítar berjast við Amlikíta

Alma og Amlikí, eftir Scott Snow