Kom, fylg mér
18.–24. maí Mósía 25–28: „Þeir nefndust Guðs lýður“


„18.–24. maí Mósía 25-28: ‚Þeir nefndust Guð lýður,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók 2020 (2020)

„18.–24. maí Mósía 25-28,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020

Ljósmynd
Engill birtist Alma og sonum Mósía.

Trúskipti Alma yngri, eftir Gary L. Kapp

18.–24. maí

Mósía 25–28

„Þeir nefndust Guðs lýður“

Eftir að „rödd Drottins [barst] til [Alma],“ ritaði hann orðin sem Drottinn mælti við hann, „til að varðveita þau“ (Mósía 26:14,33). Hvernig munið þið fylgja fordæmi Alma?

Skráið hughrif ykkar

Eftir nálega þriggja kynslóða aðskilnað í landinu, urðu Nefítar eitt fólk á ný. Fólk Limís, fólk Alma og fólk Mósía – jafnvel fólk Sarahemla, sem ekki voru afkomendur Nefís – var nú allt „talið til Nefíta“ (Mósía 25:13). Margir þeirra óskuðu eftir að verða einnig meðlimir kirkjunnar sem Alma hafði stofnað. Þannig að „hver sá, sem hafði hug á að taka á sig nafn Krists“ var skírður „og þeir nefndust Guðs lýður“ (Mósía 25:23–24). Eftir áralanga misklíð og ánauð virtist sem Nefítar gætu loks notið tímabils friðar.

Áður en langt um leið hófu trúlausir menn þó að ofsækja hina heilögu. Það sem gerði þetta svo átakanlegt var, að hinir trúlausu voru sjálfir börn hinna trúuðu – hin „upprennandi kynslóð“ (Mósía 26:1), þar á meðal synir Mósía og einn sona Alma. Þá átti sér stað kraftaverk, en heimildir um það hafa veitt angistarfullum foreldrum von í margar kynslóðir. Sagan um trúskipti Alma er hinsvegar ekki einungis fyrir foreldra villuráfandi barna. Sönn trúskipti eru kraftaverk sem verða að eiga sér stað hjá okkur öllum á einn eða annan hátt.

Ljósmynd
Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Mósía 26:1–6

Ég ber ábyrgð á eigin trú og vitnisburði.

Þeir sem hlýddu á trúarræðu Benjamíns konungs upplifðu undursamleg trúskipti (sjá Mósía 5:1–7), en trúskipti er persónuleg reynsla sem ekki er hægt að miðla áfram til eigin barna, líkt og arfi. Við verðum öll að snúast til trúar á fagnaðarerindi Jesú Krists. Þegar þið lesið í Mósía 26:1–6 um hina „upprennandi kynslóð“ vantrúaðra Nefíta, takið þá eftir afleiðingum vantrúar þeirra. Þið gætuð líka hugsað til þeirra sem þið vilduð geta leitt til Krists. Þótt þið getið ekki gefið þeim ykkar eigin trúskipti, getur andinn hvíslað ýmsu sem þið getið gert til að hjálpa þeim að öðlast trú. Þegar þið lesið Mósía 25–28, um hvernig Alma og aðrir kirkjumeðlimir lögðu hinni upprennandi kynslóð lið, gætu komið fleiri atriði í huga ykkar.

Sjá einnig Kenning og sáttmálar 68:25–29.

Mósía 26:6–39

Trúir þjónar Guð leitast við að gera vilja hans.

Stundum teljum við að kirkjuleiðtogar eins og Alma viti ávallt hvað rétt er að gera. Í Mósía 26 lesum við um vandamál í kirkjunni sem Alma hafði aldrei fengist við og „hann óttaðist að gjöra rangt í augum Guðs“ (Mósía 26:13). Hvað gerði Alma í þessum aðstæðum? (sjá Mósía 26:13–14, 33–34, 38–39). Hvað kennir reynsla Alma um hvernig þið gætuð tekist á við erfið vandamál í fjölskyldu ykkar eða í þjónustu í kirkjunni?

Áhugavert gæti líka verið að skrá niður þann sannleika sem Guð opinberaði Alma í Mósía 26:15–32. Gætið að því að eitthvað af þessum sannleika tengdist ekki beint svari við fyrirspurn Alma. Hvað segir þetta ykkur um bæn og að hljóta persónulega opinberun?

Mósía 27:8–37

Allir karlar og allar konur verða að endurfæðast.

Greinilegt var að Alma yngri þarfnaðist andlegrar endurfæðingar, því hann og synir Mósía voru „hinir svívirðilegustu meðal syndara“ sem gengu um til „að tortíma kirkju Guðs“ (Mósía 28:4; 27:10). Skömmu eftir trúskipti sín vitnaði Alma um að trúskipti væru möguleg – og nauðsynleg – fyrir alla: „Undrast ekki,“ sagði hann, „að allt mannkyn … þurfi að endurfæðast“ (Mósía 27:25; skáletrað hér). Það á vitanlega líka við um ykkur.

Þegar þið lesið um reynslu Alma í Mósía 27:8–37, gætuð þið sett ykkur sjálf í hans spor. Þið eruð ekki að reyna að tortíma kirkjunni, en þið gætuð örugglega fundið eitthvað í ykkar fari sem þyrfti að breyta. Hver styður ykkur og biður fyrir ykkur „í mikilli trú,“ líkt og faðir Alma gerði? Hvaða reynslu búið þið yfir sem „[sannfærir] ykkur um kraft og vald Guðs“? (Mósía 27:14). Hve „mikið“ hefur Drottinn gert fyrir ykkur eða fjölskyldu ykkar sem þið ættuð að „[minnast]“? (Mósía 27:16). Hvað lærið þið af orðum Alma yngri og viðbrögðum hans við merkingu þess að endurfæðast? Spurningar sem þessar gætu hjálpað ykkur að meta eigin framför í ferli endurfæðingar.

Sjá einnig Mósía 5:6–9; Alma36; „Trúskipti, Trúskiptingur,“ Leiðarvísir að ritningunum, https://www.churchofjesuschrist.org/study/scriptures/study-helps?lang=isl.

Ljósmynd
Alma yngri borinn inn í hús föður síns

Faðir hans fagnaði, eftir Walter Rane

Mósía 27:14, 19–24

Guð heyrir bænir mínar og mun svara þeim að hans eigin vilja.

Ef til vill þekkið þið foreldra í fótsporum Alma eldri, hverra sonur eða dóttir taka skaðlegar ákvarðanir. Ef til vill eruð þið þessir foreldrar. Hvað finnið þið í Mósía 27:14, 19–24 sem veitir ykkur von? Hvaða áhrif gætu þessi vers haft á bænir ykkar fyrir öðrum?

Ljósmynd
Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Þegar þið lesið ritningarnar með fjölskyldu ykkar, getur andinn hjálpað ykkur að vita hvaða reglur ber að ræða og leggja áherslu á, til að uppfylla þarfir fjölskyldu ykkar. Hér eru nokkrar ábendingar.

Mósía 25:5–11

Hvernig leið fólki Mósía eftir að Mósía hafði lesið fyrir það frásögnina af fólki Seniffs og fólki Alma? Hefur fjölskylda ykkar skráð heimildir sem þið getið lesið? Ef til vill getið þið bætt við eigin heimildir eða byrjað á þeim. Hvað getið þið skráð sem gæti hjálpað fjölskyldu ykkar (þar á meðal komandi kynslóðum) að „[fyllast] innilegri gleði“ og fræðast meira um „hina áþreifanlegu gæsku Guðs“? (Mósía 25:8, 10).

Mósía 25:16

Hvers vegna var það mikilvægt fyrir fólk Limís að minnast þess að Drottinn hafði leitt það úr ánauð? Hvað hefur Drottinn gert fyrir okkur sem við ættum að minnast?

Mósía 26:29–31; 27:35

Hvað þarf maður að gera til að hljóta fyrirgefningu, samkvæmt þessum versum?

Mósía 27:21–24

Þegar þið lesið þessi vers, hafið þá einhvern í huga sem fjölskylda ykkar gæti beðið og fastað fyrir.

Mósía 27–28

Til að hjálpa fjölskyldu ykkar að sjá fyrir sér frásögnina í þessum kapítulum, gætuð þið beðið hana um að teikna myndir af fólkinu sem þar kom fram og nota myndirnar til að endursegja söguna. Þau gætu einnig leikið söguna; hvernig væri hægt að leika breytinguna sem Alma og synir Mósía upplifðu?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Bæta kennslu okkar

Notið listsköpun. Í Trúarmyndum og í Media Library á ChurchofJesusChrist.org eru margar myndir og mörg myndbönd sem geta hjálpað fjölskyldu ykkar að sjá fyrir sér trúarreglur eða atburði.

Ljósmynd
Engill birtist Alma yngri

Mynd af engli að birtast Alma yngri, eftir Kevin Keele

Prenta