„Viðauki A: Hvernig vitnar andinn fyrir mér um sannleiksgildi Mormónsbókar?“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók 2020 (2020)
„Viðauki A,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020
Viðauki A
Hvernig vitnar andinn fyrir mér um sannleiksgildi Mormónsbókar?
Þið gætuð verið kunnug loforði Morónís til allra þeirra sem lesa Mormónsbók: „Ef þér spyrjið í hjartans einlægni, með einbeittum huga og í trú á Krist, mun hann opinbera yður sannleiksgildi [Mormónsbókar] fyrir kraft heilags anda“ (Moróní 10:4). Hver er merking þess að þekkja sannleikann „fyrir kraft heilags anda“? Hvernig getið þið vitað þegar heilagur andi talar til ykkar?
Það gæti verið gagnlegt að hafa í huga að heilagur andi á samskipti við okkur á allt annan hátt en eftir þeim leiðum sem við notum til að eiga samskipti við hvert annað. Himneskur faðir vill þó hjálpa ykkur að bera kennsl á andann. Hann hefur gefið ykkur Mormónsbók, þar sem nokkrir trúir þjónar segja frá upplifun sinni af rödd Drottins.
Nefí sagði t.d. bræðrum sínum frá því að Drottinn hefði talað til þeirra „lágri, hljóðlátri röddu,“ sem þó væri ekki endilega rödd sem þeir gátu heyrt með eyrum sínum. Nefí sagði bræður sína í raun „[orðna tilfinningalausa]“ og að þeir gætu ekki „skynjað orð hans“ (1. Nefí 17:45, skáletrað hér). Enos lýsti bænheyrslu sinni sem „rödd Drottins“ sem bærist „í huga [hans]“ (Enos 1:10). Íhugið líka þessi orð sem lýsa rödd sem kom af himni, er hinn upprisni frelsari birtist í landi Nægtarbrunns: „Þetta var hvorki hörð rödd né hávær, en … nísti sál þeirra, svo að hjörtu þeirra brunnu“ (3. Nefí 11:3).
Kannski hafið þið upplifað eitthvað álíka þessu eða upplifun ykkar hefur verið öðruvísi. Heilagur andi á samskipti á margvíslegan hátt og opinberun getur borist hverju okkar á ólíkan hátt. Þegar andinn er í lífi okkar munum við sjá að áhrifa hans á okkur mun gæta á ótal vegu. Páll postuli ræddi um „[ávöxt] andans – sem væri tilfinning „[Kærleika, gleði, friðar, langlyndis, gæsku, góðvildar, trúmennsku og hógværðar]“ ásamt fjölda annarra (Galatabréfið 5:22–23).
Hér eru nokkrar fleiri kenningar og dæmi úr Mormónsbók um heilagan anda. Við lestur þeirra gætuð þið komist að því að heilagur andi hefur talað til ykkar oftar en ykkur var ljóst, vitnandi fyrir ykkur um að Mormónsbók sé sannlega orð Guðs.
Þakklæti og gleði
Mormónsbók hefst á dásamlegri sýn spámannsins Lehís. Í sýninni var honum færð bók og boðið að lesa hana. „Á meðan hann las,“ eins og segir í heimildinni, „fylltist [hann] anda Drottins.“ Þessi upplifun fékk Lehí til að lofa Guð fyrir „vald [hans, gæsku] og miskunn“ og „sál [Lehís] fylltist fögnuði og hjarta hans varð gagntekið“ (1. Nefí 1:12, 14–15).
Hafið þið einhvern tíma upplifað eitthvað álíka? Hefur lestur Mormónsbókar einhvern tíma fyllt hjarta ykkar þakklæti fyrir gæsku og miskunn Guðs? Hafa ritningarvers í Mormónsbók einhvern tíma orðið sál ykkar unun? Slíkar tilfinningar eru áhrif andans, sem vitna um að orðin sem þið lesið séu frá Guði og kenni sannleika hans.
Umbreytt hjarta
Eftir að Benjamín konungur hafði prédikað undursamlega um friðþægingu Jesú Krists (sjá Mósía 2–4), þráði hann að vita hvort fólk hans „[tryði] þeim orðum, sem hann hafði mælt til [þess].” Það sagðist trúa orðum hans. Hvers vegna? „Því að andi Drottins almáttugs hefur valdið svo mikilli breytingu á okkur, eða í hjörtum okkar, að við hneigjumst ekki lengur til illra verka, heldur stöðugt til góðra verka“ (Mósía 5:1–2).
Þið hafið kannski veitt einhverju álíka athygli í hjarta ykkar er þið hafið lesið Mormónsbók. Þið hafið til að mynda kannski fundið innblástur til að verða betri manneskjur, hverfa frá synd eða gera góðverk fyrir einhvern. Þetta er hið andlega vitni sem þið leitið eftir um að bókin sé innblásin af Guði. Því líkt og Mormón kenndi: „Allt, sem hvetur og lokkar til góðs og til að elska Guð og þjóna honum, [er] innblásið af Guði“ (Moróní 7:13; sjá einnig 2. Nefí 33:4, 10; Alma 19:33; Eter 4:11–12).
Upplýstur hugur
Þegar Alma vildi hjálpa Sóramítum að „gjöra tilraun með orð [hans],“ til að þeir gætu sjálfir vitað hvort vitnisburður hans væri sannur, líkti hann orði Guðs við sáðkorn: „Ef þið gefið rúm í hjarta ykkar, þannig að gróðursetja megi sáðkorn þar,“ útskýrði hann, „þá mun það fara að þenjast út í brjóstum ykkar. Og þegar þið finnið þessar vaxtarhræringar, munuð þið segja með sjálfum ykkur: Þetta hlýtur að vera gott sáðkorn – eða að orðið sé gott – því að það er farið að víkka sálarsvið mitt. Já, það er farið að upplýsa skilning minn, já, það er farið að verða mér unun“ (Alma 32:27–28).
Þið „gefið“ orðum Mormónsbókar „rúm“ í hjarta ykkar þegar þið látið þau hafa áhrif á líf ykkar og stjórna vali ykkar. Hvernig munu þessi orð „útvíkka sálarsvið [ykkar]“ og „upplýsa skilning [ykkar]“? Þið gætuð skynjað að þið eruð orðin andlega styrkari. Þið gætuð fundið aukna elsku og skilning til annarra. Þið gætuð líka fundið að skilningur ykkar hefur aukist, einkum á því sem andlegt er – næstum eins og ljós lýsi upp hug ykkar. Þið gætuð þá orðið einhuga um að kenningin sem kennd er í Mormónsbók sé „[unaðsleg].“ Slíkar tilfinningar geta hjálpað ykkur að skilja að þið hafið sannlega hlotið andlegt vitni um sannleika, líkt og Alma sagði: „Er þetta þá ekki raunverulegt? Ég segi ykkur, jú, vegna þess að það er ljós, og allt, sem er ljós er gott, vegna þess að hægt er að greina það, þess vegna hljótið þið að vita, að það er gott“ (Alma 32:35).
Þið þurfið ekki að velkjast í vafa
Þetta eru aðeins nokkrar þeirra leiða sem andinn notar til að hafa samskipti við okkur. Það eru margar aðrar leiðir. Haldið áfram að leita tækifæra til að hlusta á rödd andans og þið munið hljóta hans viðvarandi, staðfestandi vitni um sannleiksgildi Mormónsbókar.
Russell M. Nelson forseti hefur lofað: „Þið þurfið ekki að velkjast í vafa um hið sanna. Þið þurfið ekki að velta fyrir ykkur hverjum má örugglega treysta. Fyrir tilstilli persónulegrar opinberunar, getið þið sjálf hlotið staðfestingu á því að Mormónsbók er orð Guðs, að Joseph Smith sé spámaður og að þetta sé kirkja Drottins. Burt séð frá því hvað aðrir gætu eða gætu ekki sagt, þá getur engin afmáð vitnisburð um sannleika sem staðfestur er í hjarta og huga“ („Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf,“ aðalráðstefna apríl 2018).