Kom, fylg mér
Viðauki C: Vitnin þrjú


„Viðauki C: Vitnin þrjú,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók 2020 (2020)

„Viðauki C,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020

Viðauki C

Vitnin þrjú

Í rúm fimm ár – frá því að engillinn Moróní vitjaði fyrst Josephs Smith til 1829 – var Joseph einum leyft að sjá gulltöflurnar. Það leiddi til mikilla aðfinnslna og ofsókna frá þeim sem trúðu að hann væri að blekkja fólk. Ímyndið ykkur því gleði Josephs, er hann þýddi Mormónsbók og komst að því að Drottinn hugðist leyfa öðrum að sjá töflurnar og að þeir myndu líka „vitna um sannleik bókarinnar og þess, sem í henni stendur“ (2. Nefí 27:12–14; sjá einnig 2. Nefí 11:3; Eter 5:2–4).

Í júní 1829 báðu Oliver Cowdery, David Whitmer og Martin Harris um leyfi til að vera vitnin þrjú sem Mormónsbók sagði fyrir um. Drottinn varð við beiðni þeirra (sjá K&S 17) og sendi engil, sem sýndi þeim töflurnar. Þessir menn urðu kunnir sem vitnin þrjú og ritaður vitnisburður þeirra er í öllum eintökum Mormónsbókar.1

Dallin H. Oaks forseti úrskýrði ástæðu þess að vitnisburður vitnanna þriggja væri svo sannfærandi: „Vitnisburður vitnanna þriggja að Mormónsbók er gríðarlega öflugur. Hvert hinna þriggja vitna hafði ærna ástæðu og átti kost á að afneita vitnisburði sínum, ef hann hefði verið ósannur, eða þeim hefði orðið tvírætt um það sem gerðist, ef eitthvað hefði verið óljóst. Eins og vel er kunnugt, þá var hverju þessara þriggja vitna vikið úr Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, um átta árum eftir að vitnisburður þeirra var birtur, vegna ósættis eða afbrýðissemi sem tengdist öðrum leiðtogum kirkjunnar. Allir þrír fóru þeir hver sína leið, án þess að hafa nokkurn sameiginlegan hug á sviksamri viðleitni. Ekkert hinna þriggja vitna hvikaði samt frá sínum yfirlýsta vitnisburði eftir brottvikningu sína, allt til loka lífs síns – sem var allt frá 12 til 50 ár – eða sagði nokkuð sem hefði getað rýrt sannleiksgildi hans.“2

Vitnin þrjú voru óhagganlega staðfastir vitnisburði sínum um Mormónsbók allt til æviloka.

Oliver Cowdery

Eftir að Oliver skírðist aftur í kirkjuna, og skömmu fyrir andlát hans, heimsótti hann trúboða nokkurn, öldung Jacob Gates, sem átti leið um Richmond, Missouri, á leið sinni til að þjóna í trúboði í Englandi. Öldungur Gates innti Oliver eftir vitnisburði hans um Mormónsbók. Öldungur Gates sagði svo frá viðbrögðum Olivers:

„Það virtist snerta Oliver djúpt að vera spurður þessa. Hann sagði ekki orð, heldur reis upp úr stóli sínum, gekk að bókahillunni, dró fram fyrstu útgáfu Mormónsbókar, fletti upp á vitnisburði vitnanna þriggja og las hátíðlega orðin sem hann hafði skrifað nafn sitt við fyrir um tuttugu árum. Hann horfði á föður minn og sagði: ,Jacob, ég vil að þú festir í huga þér það sem ég segi þér. Ég er dauðvona og hvaða hag hefði ég af því að bera þér ljúgvitni? Ég veit,‘ sagði hann, ‚að Mormónsbók var þýdd fyrir gjöf og kraft Guðs. Augu mín sáu, eyru mín heyrðu, og skilningur minn upplýstist, og ég veit því að það er satt sem ég vitna um. Þetta var enginn draumur, engin fánýt ímyndun – þetta var raunverulegt.‘“3

David Whitmer

Á sínum efri árum varð David Whitmer var við orðróm um að hann hefði afneitað vitnisburði sínum um Mormónsbók. David staðfesti ennfrekar vitnisburð sinn eftir þann orðróm með bréfi sem birt var í fréttablaði svæðisins, Richmond Conservator:

„Svo veröldin megi þekkja sannleikann, þá óska ég þess nú, er degi fer að halla í lífi mínu, og af ótta við Guð, að láta frá mér þessa opinberu yfirlýsingu:

Að ég hef aldrei nokkurn tíma afneitað þessum vitnisburði, eða nokkrum hluta hans, sem fyrir svo löngu var birtur í þessari bók, sem eitt af hinum þremur vitnum. Þeir sem mig best þekkja vita að ég hef alltaf verið trúr þessum vitnisburði. Svo enginn maður fái efast um sannfæringu mína nú, þá staðfesti ég enn á ný sannleika allra yfirlýsinga minna, sem þá voru gerðar og birtar.

,Hver sem eyru hefur, hann heyri,‘ að það var engin blekking! Það sem stendur sem ritað er – og megi sá skilja sem les.“4

Martin Harris

Martin Harris yfirgaf kirkjuna um tíma, líkt og Oliver Cowdery gerði, en var loks skírður aftur. Á efri árum var hann þekktur fyrir að halda á eintaki af Mormónsbók undir hendi sinni og vitna um sannleiksgildi hennar fyrir öllum sem á vildu hlýða: „Ég veit að Mormónsbók er hreinn sannleikur. Þótt allir menn afneituðu sannleika þessarar bókar, myndi ég ekki voga mér að gera það. Hjarta mínu verður ekki bifað. Ó Guð, hjarta mínu verður ekki bifað! Ég gæti ekki vitað það áreiðanlegar eða af meiri vissu en ég þegar geri.“5

George Godfrey, kunningi Martins, ritaði: „Fáeinum stundum fyrir dauða [Martins] … spurði ég hann hvort honum fyndist ekki, hið minnsta að einhverju leyti, að svik og blekkingu væri að finna í því sem ritað og sagt var um fram komu Mormónsbókar, og hann svaraði eins og alltaf áður … og sagði: ,Mormónsbók er ekki fölsun. Ég veit það sem ég veit. Ég hef séð það sem ég hef séð og ég hef heyrt það sem ég hef heyrt. Ég hef séð gulltöflurnar sem Mormónsbók er rituð á. Engill birtist mér og fleirum og vitnaði um sannleiksgildi heimildarinnar, og ef ég hefði verið fús til að sverja rangan eið gegn þeim vitnisburði sem nú í mér býr, hefði ég orðið auðugur maður, en ég get ekki vitnað á annan hátt en ég hef gert og geri nú, því þetta er sannleikur.‘“6

„Jafnmargra vitna og honum sjálfum gott þykir“

Vitnisburðir vitnanna þriggja eru einkar áhrifamiklir í ljósi reynslu þeirra bæði innan og utan kirkjunnar.7 Oliver, David og Martin létu aldrei af því að vitna um upplifun sína, hvað sem á dundi, og báru vitni um að Mormónsbók væri þýdd með gjöf og krafti Guðs. Þeir voru ekki þeir einu.

Nefí sagði til forna: „Drottinn Guð [mun] halda áfram að leiða orð bókarinnar fram í ljósið. Og fyrir munn jafnmargra vitna og honum sjálfum gott þykir mun hann staðfesta orð sitt“ (2. Nefí 27:14). Auk spámannsins Josephs Smith og vitnanna þriggja, valdi Drottinn líka átta önnur vitni til að sjá töflurnar. Vitnisburður þeirra er líka í hverju eintaki Mormónsbókar. Vitnin átta voru, líkt og Oliver, David og Martin, sönn bæði vitnisburði sínum um Mormónsbók og gulltöflurnar.

William E. McLellin var meðal fyrstu trúskiptinga kirkjunnar og þekkti mörg vitni Mormónsbókar persónulega. William yfirgaf kirkjuna að lokum, en áhrif hinna óyggjandi vitnisburða sem hann heyrði frá vitnunum urðu áfram með honum.

„Ég spyr nú,“ ritaði McLellin undir lok lífs síns, „hvað á ég að gera við slíkan fjölda trúfastra vitna, sem vitna af slíkri festu og einurð? Í blóma lífs síns sáu þessir menn engil og báru öllum vitni um það. Átta menn sáu töflurnar og handléku þær. Þessir menn vissu því allir að það sem þeir sögðu væri óyggjandi satt. Þeir lýsa yfir því sama nú sem gamlir menn og þeir gerðu áður sem ungir menn.“8

Þótt við höfum ekki séð gulltöflurnar eins og vitnin þrjú gerðu, getum við fundið styrk í vitnisburði þeirra. Þessir ráðvöndu og hugrökku menn voru trúir vitnisburði sínum allt til enda, jafnvel þótt orðstír þeirra væri í húfi og lífi þeirra ógnað út af þeim vitnisburði.

  1. Lesið um reynslu þeirra í Heilagir: Saga Kirkju Jesú Krists á Síðari dögum, bindi 1, Sannleiksstaðall, 1815–1846 (2018), 73–75.

  2. Dallin H. Oaks, „The Witness: Martin Harris,“ Ensign, maí 1999, 36.

  3. Jacob F. Gates, „Testimony of Jacob Gates,“ Improvement Era, mars 1912, 418–19.

  4. Í Lyndon W. Cook, útgáfa David Whitmer Interviews: A Restoration Witness (1991), 79.

  5. Í Mitchell K. Schaefer, „The Testimony of Men: William E. McLellin and the Book of Mormon Witnesses,“ BYU Studies, útg. 50, nr. 1 (2011), 108; stafsetning færð í nútímahorf.

  6. George Godfrey, „Testimony of Martin Harris“ (óbirt handrit), vitnaði í Eldin Ricks, The Case of the Book of Mormon Witnesses (1961), 65–66.

  7. Sjá t.d. Heilagir, 1:182–83.

  8. Í Schaefer, „Testimony of Men,“ 110.