„Hugmyndir til að bæta ritningarnám fjölskyldunnar,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)
„Hugmyndir til að bæta ritningarnám fjölskyldunnar“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021
Hugmyndir til að bæta ritningarnám fjölskyldunnar
Reglubundið ritningarnám fjölskyldunnar er árangursrík leið til að hjálpa fjölskyldu ykkar að læra fagnaðarerindið. Hversu mikið og hversu lengi þið lesið saman sem fjölskylda er ekki jafn mikilvægt og að læra jöfnum höndum. Þegar þið gerið ritningarnám að mikilvægum hluta fjölskyldulífsins, munið þið hjálpa fjölskyldumeðlimum ykkar að verða nánari hver öðrum og Jesú Kristi og grundvalla vitnisburð sinn á orði hans.
Hugleiðið eftirtaldar spurningar:
-
Hvernig getið þið hvatt fjölskyldumeðlimi til að læra ritningarnar á eigin spýtur?
-
Hvernig getið þið hvatt fjölskyldumeðlimi til að miðla því sem þeir eru að læra?
-
Hvernig getið þið lagt áherslu á reglurnar sem þið lærið í Kenningu og sáttmálum í hverri lærdómsstund?
Hafið í huga að heimilið er besti staðurinn til trúarnáms. Þið getið lært og kennt fagnaðarerindið á heimilinu á þann hátt sem ekki er mögulegt að gera í námsbekkjum kirkjunnar. Verið skapandi er þið hugleiðið leiðir til að hjálpa fjölskyldu ykkar að læra úr ritningunum.
Hugmyndir að verkefnum
Hugleiðið einhverjar af eftirfarandi hugmyndum til að auðga ritningarnám fjölskyldu ykkar:
Nota tónlist
Syngið söngva sem styrkja reglurnar sem þið kennið í ritningunum. Sjá má lista yfir ráðlagða sálma eða barnasöngva í öllum vikulegum lexíudrögum. Þið gætuð spurt um merkingu orða og orðtaka í textunum. Auk þess að syngja, getur fjölskylda ykkar gert hreyfingar sem eiga við um söngvana eða hlustað á söngvana á meðan önnur verkefni eru gerð.
Miðla mikilvægum ritningarversum
Gefið fjölskyldumeðlimum tíma til að miðla ritningarversum sem þeim hefur fundist mikilvæg í sínu persónulega ritningarnámi.
Nota eigin orð
Biðjið fjölskyldumeðlimi að segja með eigin orðum hvað þeir læra af ritningarnámi ykkar.
Heimfæra ritningarnar upp á eigið líf
Biðjið fjölskyldumeðlimi að segja frá því hvernig boðskapurinn fellur að lífi þeirra, eftir lestur ritningarversa.
Spyrja spurninga
Biðjið fjölskyldumeðlimi að spyrja spurninga um trúarefni og gefið ykkur síðan tíma til að leita versa sem gætu svarað spurningunum.
Sýna ritningarvers
Veljið vers sem ykkur finnst mikilvægt og staðsetjið það þar sem fjölskyldumeðlimir sjá það oft. Biðjið aðra í fjölskyldunni að skiptast á um að velja ritningarvers til að hafa á áberandi stað.
Búa til lista með ritningarversum
Veljið vers saman sem fjölskylda, sem þið viljið ræða í komandi viku.
Læra ritningarvers utanbókar
Veljið ritningarvers sem eru fjölskyldu ykkar mikilvæg og biðjið fjölskyldumeðlimi að læra þau utanbókar með því að endurtaka þau daglega eða farið í minnisleik.
Hafa sýnikennslu
Finnið hluti sem tengjast köflunum og versunum sem þið lesið saman sem fjölskylda. Biðjið fjölskyldumeðlimi að ræða hvernig hver hlutur tengist kenningunum í ritningunum.
Velja efni
Látið fjölskyldumeðlimi skiptast á um að velja efni sem fjölskyldan lærir saman. Notið Topical Guide, Bible Dictionary eða Leiðarvísi að ritningunum (scriptures.ChurchofJesusChrist.org) til að finna ritningarvers um efnið.
Teikna mynd
Lesið fáein vers saman sem fjölskylda og gefið síðan fjölskyldumeðlimum tíma til að teikna eitthvað sem tengist lestrarefninu. Gefið ykkur tíma til að ræða teiknaðar myndir hvers annars.
Leika sögu
Biðjið fjölskyldumeðlimi að leika sögu eftir lestur hennar. Ræðið að því loknu hvernig sagan tengist því sem þið upplifið sem einstaklingar og fjölskylda.
Kenna börnum
Ef ung börn eru í fjölskyldu ykkar, má finna hér verkefni sem gætu auðveldað þeim námið:
Syngja
Sálmar og söngvar úr Barnasöngbókinni, miðla kenningum á áhrifaríkan hátt. Öll lexíudrög í þessari kennslubók hafa að geyma tillögu að söng. Þið gætuð líka notað efnislykilinn aftast í Barnasöngbókinni, til að finna söngva sem tengjast trúarreglunum sem þið kennið. Hjálpið börnum ykkar að heimfæra boðskap söngvanna upp á eigið líf.
Hlusta á eða leika sögur
Ung börn hafa yndi af sögum – úr ritningunum, lífi ykkar, sögu kirkjunnar eða kirkjutímaritum. Leitið leiða til að virkja þau í frásögninni. Þau gætu haldið á myndum eða hlutum, teiknað myndir af því sem þau heyra, leikið frásögn eða jafnvel hjálpað við að segja söguna. Hjálpið börnum ykkar að skilja hinn trúarlega sannleika sem tengist frásögn ykkar.
Lesa ritningavers
Ung börn gætu hugsanlega ekki lesið mikið, en þið gætuð samt fengið þau til að vera með í ritningarnáminu. Þið gætuð þurft að leggja áherslu á eitt vers, lykilorðtak eða orð.
Horfa á mynd eða myndband
Spyrjið spurninga um mynd eða myndband sem tengist reglu fagnaðarerindisins, sem þið ræðið. Þið gætuð t.d. spurt: „Hvað er að gerast á þessari mynd eða í þessu myndbandi? Hvaða tilfinningar vekur það?“ Smáforritið Gospel Library, Gospel Media Library á ChurchofJesusChrist.org og children.ChurchofJesusChrist.org eru góðir staðir til að leita að myndum og myndböndum.
Skapa
Börn geta byggt, teiknað eða litað eitthvað sem tengist frásögn eða reglum sem þeim er kennt.
Þátttaka í sýnikennslu
Einföld sýnikennsla getur hjálpað börnum ykkar að skilja trúarreglu sem erfitt getur verið að skilja. Leitið leiða til að fá börn ykkar til þátttöku þegar þið hafið sýnikennslu. Þau munu læra meira með því að taka sjálf þátt, í stað þess að horfa aðeins á sýnikennsluna.
Hlutverkaleikur
Þegar börnin leika aðstæður sem líklegt er að þau upplifi í eigin lífi, reynist þeim auðveldar að skilja hvernig trúarregla á við um líf þeirra sjálfra.
Endurtaka verkefni
Yngri börnin gætu þurft að heyra hugmyndir ótal sinnum til að skilja þær. Þið gætuð t.d. sagt sögu úr ritningunum nokkrum sinnum á ýmsa vegu – lesið úr ritningunum, sagt hana með eigin orðum, látið börnin hjálpa ykkur að segja söguna, beðið þau að leika söguna o.s.frv.
Tengja við persónuleg vaxtarmarkmið
Ritningarnám fjölskyldunnar getur verið hvetjandi fyrir unglinga og börn til að setja sér markmið um andlegan, líkamlegan, vitsmunalegan og félagslegan vöxt (sjá Lúkas 2:52).
Kennsla unglinga
Ef það eru unglingar í fjölskyldu ykkar, þá eru hér nokkur verkefni sem geta auðveldað þeim námið:
Bjóða þeim að kenna
Við lærum yfirleitt meira þegar við kennum eitthvað sjálf, heldur en að hlusta aðeins á efnið. Veitið unglingnum ykkar tækifæri til að leiða fjölskylduumræður um ritningarnar.
Tengja efnið trúarskóla yngri deildar
Á þessu ári eru nemendur trúarskóla yngri deildar að læra Kenningu og sáttmála. Ef ykkar ungmenni sækja trúarskóla yngri deildar, bjóðið þeim þá að miðla því sem þau læra þar.
Tileinka sér ritningarnar
Stundum eiga unglingar erfitt með að sjá hvernig kenningar og reglur ritninganna tengjast lífi þeirra. Hjálpið þeim að sjá hvernig sögurnar og kenningarnar í ritningunum tengjast aðstæðum þeirra á heimilinu, í skólanum eða í vinahópnum.
Spyrjið spurninga sem hvetja til íhugunar
Margir unglingar bregðast vel við spurningum sem gera þeim kleift að tjá hugsanir sínar og tilfinningar um ritningarnar, frekar en að endurtaka einfaldlega það sem ritningarnar segja. Þið gætuð t.d. spurt: „Hvað gæti Drottinn verið að kenna ykkur í þessum versum?” eða „Af hverju haldið þið að þessi opinberun hafi haft þýðingu fyrir hina heilögu á fjórða áratug 19. aldar?”
Tengja við persónuleg vaxtarmarkmið
Ritningarnám fjölskyldunnar getur verið hvetjandi fyrir unglinga og börn til að setja sér markmið um andlegan, líkamlegan, vitsmunalegan og félagslegan vöxt (sjá Lúkas 2:52).
Vera opin fyrir spurningum
Spurning ungmennis veitir dýrmætt tækifæri til að miðla sannleika og leita skilnings á efni sem það hefur virkilegan áhuga á. Verið ekki hrædd við spurningar og leiðið þær ekki hjá ykkur, jafnvel þótt spurningarnar virðast ekki tengjast umræðuefninu. Það er í lagi að þið hafið ekki öll svörin. Heimilið er kjörinn staður til að leita saman að svörum.
Hvetja þau til að deila innsýn
Unglingar hafa einstök sjónarmið og innsýn til að leggja sitt af mörkum til ritningarnáms fjölskyldunnar. Látið þau finna að þið hafið áhuga á því sem andinn kennir þeim um ritningarnar. Þið gætuð jafnvel beðið þau að deila innsýn sem tengist persónulegu námi þeirra.
Vera sveigjanleg
Ef ungmenni ykkar er ekki fúst til að vera með í ritningarnámi fjölskyldunnar, reynið þá að tengjast því á annan hátt. Gætuð þið t.d. talað á eðlilegan hátt um fagnaðarerindið í samtölum ykkar eða miðlað mikilvægu ritningarversi, án þess að prédika eða sýna oflæti? Ritningarnám þarf ekki að vera eins í öllum fjölskyldum. Sumum börnum gæti gengið betur að læra ritningarnar í einkakennslu. Hafið bæn í huga og fylgið innblæstri andans.