„12.–18. júní. Lúkas 22; Jóhannes 18: „Verði þó ekki minn heldur þinn vilji,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Nýja testamentið 2023 (2022)
„12.–18. júní. Lúkas 22; Jóhannes 18,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2023
12.–18. júní
Lúkas 22; Jóhannes 18
„Verði þó ekki minn heldur þinn vilji“
Gefið ykkur tíma í þessari viku til að lesa Lúkas 22 og Jóhannes 18. Ígrundið og biðjið varðandi það sem þið lesið. Það getur veitt andanum tækifæri til að bera ykkur vitni í hjarta að ritningarnar eru sannar.
Skráið hughrif ykkar
Það voru aðeins þrjú vitni að þjáningum Jesú Krists í Getsemanegarðinum – og þau sváfu að mestu allan tíman. Í garðinum og síðar á krossinum, tók Jesús á sig syndir, sársauka og þjáningar allra manna sem einhvern tíma munu lifa, þótt næstum enginn lifandi maður hefði á þeim tíma vitað hvað var að gerast. Mikilvægustu atburðir eilífðarinnar líða oft hjá án mikillar eftirtektar heimsins. Guð faðirinn vissi þó af þessu. Hann heyrði sára bón síns trúfasta sonar: „Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji. Þá birtist honum engill af himni sem styrkti hann“ (Lúkas 22:42–43). Þótt við höfum ekki verið sjónarvottar að þessu óeigingjarna og auðmjúka verki, þá erum við vitni að friðþægingu Jesú Krists. Alltaf þegar við iðrumst og hljótum fyrirgefningu synda okkar, alltaf þegar við upplifum styrkjandi mátt frelsarans, getum við borið vitni um þann raunveruleika sem átti sér stað í Getsemanegarðinum.
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Lúkas 22:31–34, 54–62; Jóhannes 18:17–27
Trúarumbreyting er viðvarandi ferli.
Íhugið upplifun Péturs með frelsaranum – kraftaverkin sem hann var vitni að og kenninguna sem hann lærði. Af hverju sagði frelsarinn þá við Pétur: „Styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við“? (Lúkas 22:32, skáletrað hér). Þegar þið ígrundið þetta, gæti verið gagnlegt að íhuga kennslu öldungs Davids A. Bednar um muninn á því að hafa vitnisburð og að vera sannlega snúinn til trúar (sjá „Snúin til trúar á Drottin,” aðalráðstefna, október 2012).
Þegar þið lesið um upplifun Péturs í Lúkas 22:31–34, 54–62 (sjá einnig Jóhannes 18:17–27), íhugið þá eigin trúskipti. Hafið þið einhvern tíma fundið fyrir þeirri skuldbindingu, eins og Pétur, að þið væruð „reiðubúinn að fylgja [frelsaranum] bæði í fangelsi og dauða“? (Lúkas 22:33). Af hverju fjara sumar þessara tilfinninga stundum út? Okkur gefast dagleg tækifæri til að afneita Kristi eða bera vitni um Krist; hvað munið þið gera til að vitna daglega um hann? Hvaða fleiri lexíur lærið þið af upplifun Péturs?
Þegar þið haldið áfram að lesa Nýja testamentið, gætið þá að vísbendingum um áframhaldandi trúarumbreytingu Péturs. Gætið líka að því hvernig hann meðtók boð frelsarans: „Styrk þú trúsystkin þín“ (Lúkas 22:32; sjá Postulasagan 3–4).
Sjá einnig Markús 14:27–31.
Frelsarinn þjáðist fyrir mig í Getsemane.
Russell M. Nelson forseti bauð að „við [gæfum] okkur tíma til að læra um frelsarann og friðþægingarfórn hans („Að færa kraft Jesú Krists inn í líf okkar,“ aðalráðstefna, apríl 2017).
Íhugið hvað þið munið gera til að taka á móti boði Nelsons forseta. Þið gætuð byrjað á því að ígrunda af kostgæfni þjáningar frelsarans í Getsemane, eins og þeim er lýst í þessum versum, og skráð hughrif og spurningar sem vakna.
Ef þið viljið læra enn frekar um frelsarann og friðþægingu hans, reynið þá að kanna önnur ritningarvers til að fá svör við spurningum sem þessum:
-
Af hverju var friðþæging frelsarans nauðsynleg? (Sjá 2. Nefí 2:5–10, 17–26; 9:5–26; Alma 34:8–16; 42:9–26.)
-
Hvað upplifði frelsarinn í þjáningum sínum? (Sjá Jesaja 53:3–5; Mósía 3:7; Alma 7:11–13; Kenning og sáttmálar 19:16–19.)
-
Hvaða áhrif hafa þjáningar Krists á líf mitt? (Sjá Jóhannes 10:10–11; Hebreabréfið 4:14–16; 1. Jóhannes 1:7; Alma 34:31; Moróní 10:32–33; Dallin H. Oaks, „Styrkt af friðþægingu Jesú Krists,“ aðalráðstefna, október 2015.)
-
Aðrar spurningar sem ég hef:
Þegar þið lærið um það sem gerðist í Getsemanegarðinum, þá gæti verið áhugavert að vita að Getsemane var garður með olífutrjám, þar var einnig olíupressa sem notuð var til að kremja olífur og fá úr þeim olíu sem notuð var til lýsingar og matargerðar og einnig lækningar (sjá Lúkas 10:34). Hvernig getur vinnsluferli olífuolíunnar verið táknræn fyrir það sem frelsarinn gerði fyrir okkur í Getsemane? Til að fá fleiri hugmyndir, sjá þá D. Todd Christofferson, „Vera stöðugur í kærleika mínum,“ aðalráðstefna, október 2016.
Sjá einnig Matteus 26:36–46; Markús 14:32–42.
„Ríki [frelsarans] er ekki af þessum heimi.“
Sem stjórnmálaleiðtogi var Pontíus Pílatus kunnugur valdi og ríkjum þessa heims. Jesús talaði þó um mjög ólíkt ríki. Hvaða vísbendingar sjáið þið um að „ríki [hans sé] ekki af þessum heimi, ef þið hugsið um það sem þið lásuð áður um frelsarann? (Jóhannes 18:36). Af hverju er mikilvægt fyrir okkur að vita þetta? Hvað annað vekur áhuga ykkar í orðum Jesú til Pílatusar?
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
Lúkas 22:31–32.Hvernig gæti Pétri hafa liðið að vita að Jesús hafði beðið fyrir honum og trú hans? Hverjum getum við beðið fyrir „að trú [þeirra] þrjóti ekki“? (vers 32).
-
Lúkas 22:39–46.Að læra um þjáningar frelsarans í Getsemane, getur verið helg upplifun fyrir fjölskyldu ykkar. Íhugið hvað þið getið gert til að stuðla að anda lotningar og tilbeiðslu við námið Lúkas 22:39–46. Þið gætuð spilað eða sungið saman einhverja af eftirlætis sálmum eða barnasöngvum fjölskyldunnar. Þið gætuð leitað mynda sem tengjast efninu eða horft á myndband eins og „The Savior Suffers in Gethsemane [Þjáningar frelsarans í Getsemane]“ (ChurchofJesusChrist.org). Þegar þið lesið þessi vers, gætu fjölskyldumeðlimir miðlað ritningarhlutum sem þeim finnst einkar áhugaverð – ef til vill ritningarhlutum sem hjálpa þeim að finna elsku frelsarans (sjá einnig Matteus 26:36–46; Markús 14:32–42). Þið gætuð líka boðið þeim að gefa vitnisburði sína um Jesú Krist og friðþægingu hans.
-
Lúkas 22:42.Fjölskyldumeðlimir gætu sagt frá upplifun þar sem þeim lærðist að segja: „Verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“
-
Lúkas 22:50–51; Jóhannes 18:10–11.Hvað lærum við um Jesú af þessum versum?
-
Jóhannes 18:37–38.Hvernig mynduð þið svara spurningu Pílatusar: „Hvað er sannleikur?“ (vers 38). Til að fá fleiri hugmyndir, sjá þá Jóhannes 8:32; Kenning og sáttmálar 84:45; 93:23–28; og „Ó, segðu oss frá því hvað sannleikur er,“ Sálmar, nr. 99.
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Um Jesú ég hugsa,“ Sálmar, nr. 65.