„5.–11. júní. Jóhannes 14–17: „Verið stöðug í elsku minni,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Gamla testamentið 2023 (2022)
„5.–11. júní. Jóhannes 14–17,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2023
5.–11. júní
Jóhannes 14–17
„Verið stöðug í elsku minni“
Þegar þið lesið kenningar frelsarans í Jóhannes 14–17, mun heilagur andi hjálpa ykkur að bera kennsl á boðskap ætlaðan ykkur. Skráið hughrifin sem ykkur berast.
Skráið hughrif ykkar
Á okkar tíma köllum við það „síðustu kvöldmáltíðina,“ en við vitum ekki hvort lærisveinum Jesú hafi verið fyllilega ljóst, er þeir komu saman til árlegar páskahátíðar, að þetta væri síðasta máltíð þeirra með meistara sínum, áður en hann dæi. Jesús „vissi [þó] að stund hans var komin“ (Jóhannes 13:1). Að því leið að hann myndi þjást í Getsemane, verða svikinn og honum afneitað af nánustu vinum sínum og líða þjáningarfullan dauða á krossi. Samt, með allt þetta vofandi yfir sér, hugsaði Jesús ekki um sjálfan sig, heldur lærisveina sína. Hvað myndu þeir þurfa að vita fyrir komandi daga og ár? Hinar ljúfu kenningar Jesú í Jóhannes 14–17 sýna hvað honum fannst um lærisveina sína, þá og nú. Meðal hinna mörgu hughreystandi sanninda sem hann miðlaði, var, í einum skilningi, fullvissan um að hann myndi aldrei yfirgefa okkur. Hann lofaði: „Ef þér haldið boðorð mín verðið þér stöðug í elsku minni“ (Jóhannes 15:10).
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Ég sýni elsku mína til Jesú Krists með því að halda boðorð hans.
Þegar þið lesið Jóhannes 14–15, gætuð þið skráð eða merkt við hvernig orðið elska er notað. Þið gætuð veitt því athygli að orðið boðorð er oft endurtekið með orðinu elska í þessum kapítulum. Hvað lærið þið um sambandið á milli elsku og boðorða í kenningum frelsarans? Hvaða önnur orð og orðtök finnið þið sem tengjast elsku í þessum kapítulum?
Íhugið hvernig elska frelsarans hefur haft áhrif á ykkur.
Sjá einnig Jóhannes 13:34–35; Sjá D. Todd Christofferson, „Vera stöðugur í kærleika mínum,“ aðalráðstefna, október 2016.
Heilagur andi hjálpar mér að framfylgja tilgangi mínum sem lærisveinn Jesú Krists.
Það hlýtur að hafa verið lærisveinunum mikil vonbrigði að heyra að tími frelsarans væri senn liðinn. Þeir gætu líka hafa haft áhyggjur af því hvernig þeir myndu komist af án hans. Þegar þið lesið Jóhannes 14–16, gætið þá að því sem frelsarinn sagði þeim til hughreystingar. Gætið einkum að því sem hann kenndi þeim um heilagan anda. Hvað lærið þið um heilagan anda af orðum frelsarans í eftirfarandi versum?
Af hverju þurftu lærisveinarnir þessa hjálp frá heilögum anda? Hvernig hefur heilagur andi uppfyllt þessi hlutverk fyrir ykkur? Íhugið hvað þið getið gert til þess að áhrif hans verði meiri í lífi ykkar?
Sjá einnig 3. Nefí 19:9; 27:20; Kenning og sáttmálar 11:12–14; HDP Móse 6:61; Michelle D. Craig, „Andleg hæfni,“ aðalráðstefna, október 2019.
Þegar ég er í Kristi, mun ég bera góðan ávöxt.
Hverja teljið þið vera merkingu þess að „vera í“ Kristi? (Jóhannes 15:4). Hver er „ávöxturinn“ sem sýnir að þið eruð áföst vínviðnum, sem táknar Jesú Krist?
Jesús Kristur biður fyrir lærisveinum sínum.
Orð Jesú sem skráð eru í Jóhannes 17 eru kunn sem fyrirbæn Jesú. Í þessari bæn bað Jesús fyrir lærisveinum sínum og „fyrir þeim sem á [hann] trúa fyrir orð þeirra“ (Jóhannes 17:20). Það merkir að hann var að biðja fyrir ykkur. Hvers bað Jesús föður sinn í þágu ykkur og allra annarra trúaðra? Hvað kennir það um tilfinningar hans til ykkar?
Þessi bæn kennir líka djúpan, eilífan sannleika. Hvaða sannleika finnið þið? Þegar þið lesið þennan kapítula, íhugið þá að skrá það sem þið lærið um eftirfarandi:
-
Bæn
-
Samband frelsarans við föður sinn
-
Samband frelsarans við lærisveina sína
-
Hvernig lærisveinum ber að standa upp úr í heiminum
-
Annan sannleika sem vekur áhuga ykkar
Fullkomin eining ríkir á milli himnesks föður og Jesú Krists.
Í bæn sinni í Jóhannes 17, leggur Jesús áherslu á einingu hans og föðurins. Hvernig eru faðirinn og sonurinn „eitt“? (Jóhannes 17:11, 21–23). Gætið að því að frelsarinn bað þess að lærisveinar hans mættu vera eitt „eins og“ – eða á sama hátt – og hann og faðir hans eru eitt (Jóhannes 17:22). Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir ykkur? Íhugið sambönd ykkar – til að mynda við maka ykkar eða aðra fjölskyldumeðlimi, við deildarmeðlimi og aðra samkristna. Hvernig getið þið unnið að sömu einingu og ríkir á milli Jesú og föður hans?
Sjá einnig Quentin L. Cook, „Hjörtu tengd böndum réttlætis og einingar,“ aðalráðstefna, október 2020; Sharon Eubank, „Með tilfinningu einingar öðlumst við kraft með Guði,“ aðalráðstefna, október 2020.
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
Jóhannes 14:5–6.Fjölskyldumeðlimir gætu haft gaman að því að skiptast á við að leiða fjölskylduna á göngu eftir veg. „Hvernig er Jesús „vegurinn“? Hvert leiðir hann okkur?
-
Jóhannes 14:26–27.Hvernig er friður Jesú ólíkur þeim sem „heimurinn gefur“? Fjölskyldumeðlimir gætu sagt frá því hvernig þeir hafa fundið frið og huggun með heilögum anda.
-
Jóhannes 15:1–8.Það gæti verið skemmtilegt að lesa þessi vers úti, við hlið vínviðs, trés eða annarrar plöntu. Hvað gerist fyrir grein þegar hún er fjarlægð frá plöntu? Þið gætuð rætt hvernig við erum eins og greinar og merkingu þess að „vera í“ frelsaranum og „bera ávöxt.“
-
Jóhannes 15:17–27; 16:1–7.Af hverju haldið þið að Jesús Kristur hafi varað lærisveina sína við ofsóknum? Hvernig eru lærisveinar Krists ofsóttir á okkar tíma? Hvernig getur leiðsögn frelsarans í þessum versum hjálpað okkur þegar við sætum ofsóknum?
-
Jóhannes 16:33.Hvernig hefur Jesús Kristur sigrað heiminn? Hvernig hefur friðþæging hans fært okkur frið og von? (sjá einnig Kenning og sáttmálar 68:6).
-
Jóhannes 17:21–23.Hvað myndi hjálpa fjölskyldu ykkar að læra að vera sameinaðri, eins og Jesús Kristur og himneskur faðir? Ef til vill gætuð þið rætt um eftirlætis íþróttalið og hvernig það vinnur saman að sameiginlegu markmiði. Þið gætuð líka þess í stað hlustað á kór eða hljómsveit og rætt hvernig tónlistarfólkið er samstíga í því að skapa fallega tónlist.
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Heilagur andi,“ Barnasöngbókin, 56.