„11.–17. september. 2. Korintubréf 1–7: ‚Látið sættast við Guð,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Nýja testamentið 2023 (2022)
„11.–17. september. 2. Korintubréf 1–7,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2023
11.–17. september
2. Korintubréf 1–7
„Látið sættast við Guð“
Þegar þið lærið bréf Páls til Korintubúa, skráið þá hjá ykkur eitthvað af reglum fagnaðarerindisins sem þið uppgötvið og íhugið hvernig þið getið tileinkað ykkur þær.
Skráið hughrif ykkar
Stundum þurfa kirkjuleiðtogar að segja ýmislegt sem erfitt er. Það á jafnt við um tíma Páls sem okkar tíma. Fyrra bréf Páls til hinna heilögu í Korintu hafði að geyma leiðréttingar sem ollu særindum. Í bréfi sínu, sem síðar varð 2. Korintubréf, reyndi hann að útskýra af hverju hann hefði áður verið harðorður: „Af mikilli þrengingu og hjartans trega skrifaði ég ykkur með mörgum tárum, ekki til þess að þið skylduð hryggjast heldur til þess að þið skylduð komast að raun um þann mikla kærleik sem ég ber til ykkar“ (2. Korintubréf 2:4). Þegar leiðtogi leiðréttir ykkur af einhverri ástæðu, er vissulega gott að vita að hún er innblásinn af kristilegum kærleika. Jafnvel þótt það ætti ekki við í einhverjum tilvikum, væri auðveldar að bregðast rétt við hverskyns misgjörðum ef við værum fús til að sýna öðrum sömu elsku og Páll gerði. Öldungur Jeffrey R. Holland leiðbeindi: „Verið því ljúf gagnvart mannlegum breyskleika ‒ ykkar eigin sem þeirra sem þið þjónið með í kirkju, sem leidd er af dauðlegum körlum og konum í sjálfboðastarfi. Allt frá upphafi tímans hefur Guð aðeins unnið með ófullkomnu fólki, fyrir utan sínum fullkomna eingetna syni“ („Ég trúi,“ aðalráðstefna, apríl 2013).
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
2. Korintubréf 1:3–7; 4:6–10, 17–18; 7:4–7
Raunir mínar geta orðið mér til blessunar.
Af öllu því sem Páll þurfti að takast á við í eigin lífi, þá er engin furða að hann hafi ritað heilmargt um tilgang og blessanir þrenginga. Þegar þið lesið 2. Korintubréf 1:3–7; 4:6–10, 17–18; 7:4–7, íhugið þá hvernig raunir ykkar geta orðið til blessunar. Þið gætuð t.d. íhugað hvernig Guð „hughreystir [ykkur] í sérhverri þrenging [ykkar]“ og hvernig þið getið á sama hátt „hughreyst alla aðra í þrengingum“ (2. Korintubréf 1:4). Þið gætuð líka þess í stað íhugað hvernig ljós Jesú Krists hefur „skinið“ í hjarta ykkar, jafnvel þegar þið voruð „aðþrengd“ og „buguð“ (2. Korintubréf 4:6, 8).
Sjá einnig Mósía 24:13–17; Henry B. Eyring, „Prófuð, sannreynd og fáguð,“ aðalráðstefna, október 2020; Leiðarvísir að ritningunum, „Mótlæti,“ KirkjaJesuKrists.is, Ritningar/Námshjálp.
Fyrirgefning er blessun sem ég get bæði gefið og hlotið.
Við þekkjum ekki mikið til þess manns sem Páll vísaði til í 2. Korintubréf 2:5–11 – aðeins að hann hafði brotið af sér (sjá vers 5–6) og Páll vildi að hinir heilögu fyrirgæfu honum (sjá vers 7–8). Hvernig látum við stundum bregðast að sýna ástvini sem hefur misboðið okkur „kærleika í reynd“? (vers 8). Á hvaða hátt skaðar það aðra og okkur sjálf að vera ekki fús til að fyrirgefa? (sjá vers 7, 10–11). Á hvaða hátt getur „Satan náð tökum á okkur“ ef við erum ekki fús til að fyrirgefa? (vers 11).
Sjá einnig Kenning og sáttmálar 64:9–11.
Ég get náð sáttum við Guð fyrir tilverknað friðþægingar Jesú Krists.
Páll vissi jafnvel og hver annar hvað í því fólst að verða „nýr maður“ (2. Korintubréf 5:17). Hann lét af því að ofsækja hina kristnu og varð óttalaus málsvari Krists. Þegar þið lesið 2. Korintubréf 5:14–21, hugsið þá um spurningar eins og þessar: Hver er merking þess að sættast? Hvað felst í því að sættast við Guð? Íhugið hvað það gæti verið sem aðskilur ykkur frá Guði. Hvað þurfið þið að gera til að njóta betur velþóknunar hans? Hvernig gerir frelsarinn það mögulegt?
Þið gætuð líka hugleitt merkingu þess að vera „erindreki“ Krists í „þjónustu sáttargerðarinnar“ (vers 18, 20). Hvaða aukinn skilning hljótið þið af boðskap öldungs Jeffreys R. Holland „Þjónusta sáttargjörðar“? (aðalráðstefna, október 2018).
Sjá einnig 2. Nefí 10:23–25.
Guðleg hryggð leiðir til iðrunar.
Yfirleitt hugsum við ekki um hryggð sem eitthvað gott, en Páll ræddi um „hryggð sem er Guði að skapi“ (2. Korintubréf 7:10) sem mikilvægan þátt iðrunar. Íhugið það sem þið hafið lært um guðlega hryggð af eftirfarandi efni: 2. Korintubréf 7:8–11; Alma 36:16–21; Mormón 2:11–15; og boðskap systur Michelle D. Craig „Guðlegt ósætti“ (aðalráðstefna, október 2018). Hvenær hafið þið fundið fyrir guðlegri hryggð og hvaða áhrif hafði hún á líf ykkar?
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
2. Korintubréf 3:1–3.Hafa fjölskyldumeðlimir ykkar einhvern tíma beðið einhvern að skrifa meðmælabréf fyrir þá, t.d. vegna atvinnu- eða skólaumsóknar? Biðjið þá að ræða þá upplifun. Páll kenndi að líf hinna heilögu væri eins og meðmælabréf fyrir fagnaðarerindi Jesú Krists, „ekki skrifað með bleki heldur með anda lifanda Guðs.“ Þegar þið lesið saman 2. Korintubréf 3:1–3, ræðið þá hvernig fordæmi okkar er eins og bréf sem allir menn geta séð … og lesið“ og staðfestir sannleika og gildi fagnaðarerindisins. Ef til vill getur hver fjölskyldumeðlimur skrifað bréf og greint frá því hvernig annar fjölskyldumeðlimur hefur verið gott fordæmi sem lærisveinn Jesú Krists. Þeir gætu lesið bréfin sín fyrir fjölskylduna og gefið þau fjölskyldumeðlimnum sem þau skrifuðu um. Af hverju er mikilvægt að skilja að líf okkar er eins og „[bréf sem Kristur hefur ritað]?
-
2. Korintubréfið 5:6–7.Hver er merking þess að „lifa í trú án þess að sjá“? Hvað gerum við til að sýna að við trúum á frelsarann, jafnvel þótt við fáum ekki séð hann?
-
2. Korintubréfið 5:17.Getur fjölskylda ykkar hugsað um eða fundið dæmi í náttúrunni um eitthvað sem fer í gegnum miklar breytingar og verður að nýrri veru? (sjá myndina aftast í þessum lexíudrögum): Hvernig getur fagnaðarerindi Jesú Krists breytt okkur?
-
2. Korintubréf 6:1–10.Hver er merking þess að vera „þjónn Guðs“ vers 4, samkvæmt (2. Korintubréfi 6:1–10). Hvaða eiginleikar prýða þjóna Guðs?
-
2. Korintubréf 6:14–18.Hvernig getum við fylgt þeirri leiðsögn Páls að „[fara] burt frá [hinum ranglátu] og [skilja okkur] frá þeim,“ en samt elskað þá sem umhverfis eru?
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Hjálpa mér, faðir“ Barnasöngbókin, 52.