„18.–24. september. 2. Korintubréf 8–13: ‚Guð elskar glaðan gjafara,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Nýja testamentið 2023 (2022)
„18.–24. september. 2. Korintubréf 8–13,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2023
18.–24. september
2. Korintubréf 8–13
„Guð elskar glaðan gjafara“
Að skrá andleg hughrif mun hjálpa ykkur að muna eftir því sem þið lærðuð í ritningarnámi ykkar. Þið gætuð skrifað í námsdagbók, glósað á spássíur ritninga ykkar, skráð athugasemdir í Gospel Library smáforritið eða búið til hljóðupptöku með hugsunum ykkar.
Skráið hughrif ykkar
Hvað myndið þið gera ef þið heyrðuð að söfnuður heilagra á öðru svæði ætti erfitt vegna fátæktar? Páll lýsti einmitt slíkum aðstæðum fyrir hinum heilögu í Korintu í 2. Korintubréfi 8–9. Hann vonaðist til þess að fá sannfært hina heilögu í Korintu til að gefa öðrum þurfandi heilögum eitthvað af ofgnótt sinni. Auk beiðni Páls um að láta af hendi rakna, fólst í orðum hans djúpur sannleikur um að gefa: „Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara“ (2. Korintubréf 9:7). Á okkar tíma eru enn heilagir út um allan heim sem þarfnast liðsinnis. Stundum getum við einungis fastað og gefið föstufórnir í þeirra þágu. Í öðrum tilvikum getum við gefið milliliðalaust og persónulega. Af hvaða toga sem fórnir okkar eru, þá er vel þess virði að íhuga ásetninginn að baki gjafa okkar. Eru fórnir okkar kærleikstjáning? Hvað sem öllu líður, þá er ásetningur hins glaða gjafara kærleikur.
Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi
Ég get gefið öðrum það sem ég á af gleði, til að blessa fátæka og þurfandi.
Það eru svo margir í heiminum sem búa við neyð. Hvernig getum við mögulega veitt liðsinni? Öldungur Jeffrey R. Holland veitti þessa leiðsögn: „Hvort heldur við erum rík eða fátæk, þá ber okkur að ‚gera allt í okkar valdi‘ þegar aðrir búa við neyð [sjá Markús 14:6, 8]. … [Guð] mun leiða ykkur í miskunnarverki lærisveinsins, ef það er stöðug þrá ykkar og bæn og viðleitni að halda það boðorð sem hann hefur gefið svo oft“ („Erum vér ekki öll beiningamenn?,“ aðalráðstefna, október 2014).
Lesið 2. Korintubréf 8:1–15; 9:6–15 og skráið reglur sem Páll kenndi um að annast hina fátæku og þurfandi. Hvað innblæs ykkur varðandi leiðsögn Páls? Þið gætuð beðist fyrir um leiðsögn til að vita hvað þið getið gert til að blessa einhvern í neyð. Gætið þess að skrá öll hughrif sem ykkur berast og bregðist við þeim.
Sjá einnig Mósía 4:16–27; Alma 34:27–29; Russell M. Nelson, „Annað æðsta boðorðið,“ aðalráðstefna, október 2019; Henry B. Eyring, „Sú fasta, sem mér líkar,” aðalráðstefna, apríl 2015.
2. Korintubréf 11:1–6, 13–15; 13:5–9
„Rannsakið hvort trú ykkar kemur fram í breytni ykkar.“
Á okkar tíma, sem og á tíma Páls, eru þeir sem reyna að leiða okkur frá „einlægri og hreinni tryggð við Krist“ (2. Korintubréf 11:3). Af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að gera það sem Páll lagði til: „Rannsakið hvort trú ykkar kemur fram í breytni ykkar“ (2. Korintubréf 13:5). Þið gætuð byrjað þetta ferli á því að íhuga hvað felst í orðunum „hvort trú ykkar kemur fram í breytni ykkar“? Hvernig við þið hvort þið trú ykkar komi fram í breytni ykkar? Gætið að tækifærum til að rannsaka ykkur sjálf.
Í sjálfskönnun ykkar, gætuð þið líka íhugað orðtakið „einlægri og hreinni tryggð við Krist“ (2. Korintubréf 11:3). Hafið þið fundið einlægni og hreina tryggð við Krist og fagnaðarerindi hans? Hvernig kunna hugsanir ykkar „að spillast og leiðast burt frá [slíkri einlægni]“? Hvaða gagnlega leiðsögn finnið þið í 2. Korintubréfi 11:1–6, 13–15?
Íhugið líka þessa leiðsögn frá Dieter F. Uchtdorf forseta: „Ef þið teljið einhvern tímann að fagnaðarerindið sé ekki að virka vel fyrir ykkur þá býð ég ykkur að taka eitt skref afturábak, horfa á líf ykkar af hærri sjónarhóli og einfalda nálgun ykkar á lærisveinahlutverkinu. Einblínið á grundvallarreglur, kenningar og hagnýtingu fagnaðarerindisins. Ég lofa að Guð mun leiða og blessa ykkur á vegi ykkar til fyllra lífs og fagnaðarerindið mun vissulega virka betur fyrir ykkur“ („Það virkar dásamlega!,“ aðalráðstefna, október 2015).
Náð frelsarans nægir til að hjálpa mér að finna styrk í veikleikum mínum.
Við vitum ekki hver „fleinn í holdi“ Páls var, en við höfum öll okkar flein sem við vildum að Guð fjarlægði úr lífi okkar. Hugsið um ykkar fleina við lestur 2. Korintubréfs 12:5–10 og íhugið það sem þið lærið um Jesú Krist í þessum versum. Hvað kenndi Páll í þessum versum um raunir og veikleika? Hver finnst ykkur merking þess vera að „náð [Guðs] nægir“ ykkur?
Sjá einnig Mósía 23:21–24; 24:10–15; Eter 12:27; Moróní 10:32–33.
Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar
-
2. Korintubréf 8–9.Hvað finnum við í þessum kapítulum sem innblæs okkur til að liðsinna hinum fátæku og öðrum nauðstöddum? Þetta gæti verið góður tími til að ráðgera að þjóna einhverjum nauðstöddum sem fjölskylda.
-
2. Korintubréf 9:6–7.Þekkir fjölskylda ykkar einhvern sem mögulegt væri að lýsa sem „glöðum gjafara“? Hvernig getum við verið glaðari þegar við þjónum öðrum? Yngri fjölskyldumeðlimir gætu búið til merkispjöld sem á er ritað: „Ég er glaður gjafari.“ Þið gætuð gefið fjölskyldumeðlimum merkispjöldin í hvert sinn sem þið sjáið þá þjóna öðrum af gleði.
-
2. Korintubréf 10:3–7.Hvernig getið þið kennt fjölskyldu ykkar um „vígið“ gegn ranglæti? Gæti fjölskylda ykkar haft gaman að því að byggja vegg eða virki með stólum og teppum? Það gæti leitt til umræðna um hvernig getum við brotið niður allt sem leiðir okkur frá Guði og hvernig getum við „[hertekið] hverja hugsun til hlýðni við Krist“? Hver eru andlegu „vopnin“ sem við notum til að ná stjórn á eigin hugsunum? (sjá Efesusbréfið 6:11–18).
-
2. Korintubréf 11:3.Hvað getur fjölskylda ykkar gert til að huga meira að „einlægri og hreinni tryggð við Krist“?
Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.
Tillaga að söng: „Gefum,“ Barnasöngbókin, 116.