Nýja testamentið 2023
20.–26. nóvember. 1. og 2. Pétursbréf: „Fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði”


„20.–26. nóvember. 1. og 2. Pétursbréf: ‚Fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Nýja testamentið 2023 (2022)

„20.–26. nóvember: 1. og 2. Pétursbréf,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2023

Jesús Kristur prédikar fagnaðarerindið í andaheiminum

Kristur prédikar í andaheiminum, eftir Robert T. Barrett

20.–26. nóvember

1 og 2. Pétursbréf

„Fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði”

Þegar þið lesið Pétursbréfin, gætuð þið hlotið andleg hughrif. Skráið þau strax á meðan þið eruð „enn í andanum“ (Kenning og sáttmálar 76:80), svo þið fáið nákvæmlega munað það sem Guð kennir ykkur.

Skráið hughrif ykkar

Stuttu eftir upprisu sína, greindi frelsarinn frá spádómi sem hlýtur að hafa valdið Pétri hugarangri. Hann sagði fyrir um að Pétur yrði drepinn vegna trúar sinnar: „Annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki, … með [slíkum] dauðdaga [munt þú] vegsama Guð“ (Jóhannes 21:18–19). Mörgum árum síðar, þegar Pétur ritaði bréfin sín, vissi hann að líða tók að hinum fyrirspáða dauða sínum: „Ég veit að þess mun skammt að bíða að tjaldbúð minni verði svipt. Það hefur Drottinn vor Jesús Kristur birt mér“ (2. Pétursbréf 1:14). Orð Péturs voru þó ekki fyllt ótta eða bölsýni. Þess í stað kenndi hann hinum heilögu að „[fagna],“ jafnvel þótt þeir væru „í margs konar raunum.“ Pétur sagði að „trúfesti [þeirra] … sem … er reynd í eldi,“ myndi leiða til „lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists“ og „[frelsunar] sálna [þeirra]“ (1. Pétursbréf 1:6–7, 9). Trú Péturs hlýtur að hafa verið þessum fyrrum heilögu hughreystandi, sem og hinum heilögu okkar tíma, sem líka hafa „[tekið] þátt í píslum Krists til þess að [við megum] einnig gleðjast og fyllast fögnuði þegar dýrð hans birtist“ (1. Pétursbréf 4:13).

táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

1. Pétursbréf 1:3–9; 2:19–24; 3:14–17; 4:12–19

Ég get fundið gleði á tímum þrauta og þrenginga.

Tíminn eftir krossfestingu Krists var hinum kristnu ekki auðveldur, eins og fram kemur í fyrsta bréfi Péturs. Í fyrstu fjórum kapítulunum sjáið þið orð og orðtök sem lýsa erfiðleikum: hryggjast, í margs konar raunum, móðganir, líður saklaus og í píslum (sjá 1. Pétursbréf 1:6; 2:19; 4:12–13). Þið munið þó líka sjá orð sem lýsa gleði – og gætuð skráð það sem þið finnið. Hvað vekur von um að þið fáið notið gleði, jafnvel mitt í erfiðleikum, t.d. eftir lestur 1. Pétursbréfs 1:3–9; 2:19–24; 3:14–17; og 4:12–19?

Þið gætuð líka lesið boðskap Russells M. Nelson forseta „gleði og andleg þrautseigja“ (aðalráðstefna, október 2016) og gætt að því hvað líkt er með kenningum Péturs og Nelsons forseta. Hvað er það varðandi sáluhjálparáætlunina og fagnaðarerindi Jesú Krists sem vekur ykkur gleði?

Sjá einnig Ricardo P. Giménez, „Finna skjól frá stormum lífsins,“ aðalráðstefna, apríl 2020.

1. Pétursbréf 3:18–20; 4:1–6

Fagnaðarerindið er boðað hinum dánu, svo mögulegt sé að dæma þá réttvíslega.

Dag einn mun hver einstaklingur standa frammi fyrir dómgrindunum og „gera reikningsskil þeim sem reiðubúinn er að dæma lifendur og dauða“ (1. Pétursbréf 4:5). Hvernig getur Guð dæmt alla menn réttvíslega þegar þeim er svo misbúið að skilja og lifa eftir fagnaðarerindinu? Gætið að því hvernig kenningin sem Pétur greindi frá í 1. Pétursbréfi 3:18–20; 4:6 hjálpar við að svara þessari spurningu. Hvernig styrkja þessi vers trú ykkar á sanngirni og réttvísi Guðs?

Til þess að kanna þessa kenningu enn fremur, lærið þá Kenningu og sáttmála 138, opinberun sem Joseph F. Smith forseti hlaut eftir að hafa ígrundað þessi orð Péturs. Hvaða aukinn sannleika lærði Smith forseti?

Sjá einnig Leiðarvísir að ritningunum, „Sáluhjálp fyrir hina dánu“ (KirkjaJesuKrists.is, Ritningar/Námshjálp).

2. Pétursbréf 1:1–11

Ég get tileinkað mér guðlegt eðli fyrir mátt Jesú Krists.

Hefur ykkur einhvern tíma fundist það vera ómögulegt að líkjast Jesú Kristi og tileinka ykkur eiginleika hans? Öldungur Robert D. Hales sagði þessi hughreystandi orð um hvernig við getum tileinkað okkur kristilega eiginleika: „Eiginleikar frelsarans … eru samofnir, bæta upp hver annan og eru samverkandi hið innra. Með öðrum orðum, þá er ekki mögulegt að hljóta einn eiginleika Krists, án þess að það hafi áhrif á aðra og þeir fylgi líka með. Ef einn eiginleiki styrkist, þá styrkjast margir aðrir um leið“ („Verða lærisveinn Drottins Jesú Krists,“ aðalráðstefna, apríl 2017).

samofinn vefnaður

Hver sá kristilegi eiginleiki sem við tileinkum okkur, hjálpar okkur að vefa hinn andlega vefnað lærisveinshlutverksins.

Þegar þið lesið 2. Pétursbréf 1:1–11, skuluð þið íhuga þá eiginleika er tengjast „guðlegu eðli“ sem tilgreindir eru í þessum versum. Hvernig eru þeir „samofnir“ að ykkar mati, eins og öldungur Hales lýsir? Hvernig styrkja þeir hvern annan? Hvað annað lærið þið af þessum versum um ferlið að verða kristilegri?

Þið gætuð líka hugleitt hin „dýrmætu og háleitu fyrirheit“ sem Guð gefur hinum heilögu – einnig ykkur (2. Pétursbréf 1:4). Boðskapur öldungs Davids A. Bednar „Hin dýrmætu og háleitu fyrirheit“ (aðalráðstefna, október 2017) getur hjálpað ykkur að skilja hver þessi loforð eru og hvernig á að hljóta þau.

táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

1. Pétursbréf 2:5–10.Þegar þið lesið þessi vers með fjölskyldu ykkar, íhugið þá að nota steina til að hjálpa fjölskyldumeðlimum að sjá fyrir sér Pétur kenna að frelsarinn er „[valinn og dýrmætur hornsteinn].“ Hvernig erum við eins og „lifandi steinar“ sem Guð notar til að byggja upp ríki sitt? Hvað lærum við af Pétri um frelsarann og hlutverk okkar í ríki hans? Hver er boðskapur Péturs til fjölskyldu ykkar?

1. Pétursbréf 3:8–17.Hvernig getum við „verið ætíð reiðubúin að svara“ þeim sem spyrja um trú okkar? Fjölskylda ykkar gæti haft gaman að því að leika aðstæður þar sem einhver spyr spurninga um fagnaðarerindið.

1. Pétursbréf 3:18–20; 4:6.Hvað getur fjölskylda ykkar gert til að tengjast betur áum sínum? Ef til vill gætuð þið haldið upp á afmæli látins ættmennis með því að búa til eftirlætis máltíð þess, skoða myndir eða segja sögur úr lífi þess. Ef mögulegt er, gætuð þið líka ráðgert að taka á móti helgiathöfn fyrir áa ykkar í musterinu (til að fá aðstoð, farið þá á FamilySearch.org).

2. Pétursbréf 1:16–21.Í þessum versum minnir Pétur hina heilögu á reynslu sína á fjalli ummyndunar (sjá einnig Matteus 17:1–9). Hvað lærum við um kenningar spámanna af þessum versum? (sjá einnig Kenning og sáttmálar 1:38). Hvað veitir okkur trúarfullvissu til að fylgja lifandi spámanni okkar tíma?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Ættarskráin mín,“ Barnasöngbókin, 100.

Bæta kennslu okkar

„Vera ætíð reiðubúin.“ Óformlegar stundir á heimilinu til kennslu geta komið og farið hratt og því er mikilvægt að grípa tækifærið þegar þær gefast. Hvernig getið þið reynt að vera „ætíð reiðubúin“ að kenna fjölskyldumeðlimum ykkar trúarsannleika og miðla „voninni sem þið eigið“ (1. Pétursbréf 3:15) þegar tækifæri gefast til kennslu? (Sjá Teaching in the Savior’s Way [Kenna að hætti frelsarans], 16.)

Pétur prédikar yfir hópi fólks

Þótt Pétur hafi sætt miklum ófsóknum og mótlæti, var hann staðfastur í vitnisburði sínum um Krist.