„13.–19. september. Kenning og sáttmálar 102–105: ,Eftir mikið andstreymi … kemur blessunin,’” Kom, fylg mér – Fyrir sunnudagaskólann: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)
„13.–19. september. Kenning og sáttmálar 102–105,“ Kom, fylg mér – Fyrir sunnudagaskólann: 2021
13.–19. september
Kenning og sáttmálar 102–105
„Eftir mikið andstreymi … kemur blessunin”
Þegar þið búið ykkur undir að kenna Kenningu og sáttmála 102–5, hlustið þá á hughrif andans. Andinn gæti leitt ykkur að reglu sem ekki er fjallað um í þessum lexíudrögum, sem mun blessa þá sem þið kennið.
Skráið hughrif ykkar
Boð um að miðla
Meðlimir bekkjarins gætu skrifað eitt eða tvö vers í Kenningu og sáttmálum 102–5 sem þeim finnst sjálfum mikilvæg. Þeir gætu síðan skipst á versum við annan meðlim bekkjarins og rætt hvor við annan um það sem þeir lærðu af þessum versum.
Kennið kenninguna
Við hljótum reynslu og dýrmætar lexíur af þrengingum okkar.
-
Þegar meðlimir bekkjarins lærðu kafla 103 og 105 í þessari viku, gætu þeir hafa fundið reglur sem geta hjálpað á tíma þrenginga eða mótlætis; fáið þá til að miðla því sem þeir fundu. Þið gætuð líka þess í stað beðið þá að leita að slíkum reglum í Kenningu og sáttmálum 103:5–7, 12, 36; 105:5–6, 9–12, 18–19 (sjá einnig „Fleiri heimildir“). Hvað segja þessar reglur um hvernig við getum brugðist við þegar erfiðleikar eða vonbrigði blasa við? Meðlimir bekkjarins gætu verið fúsir til að miðla upplifunum þar sem blessanir hlutust „eftir mikið andstreymi“ (Kenning og sáttmálar 103:12).
-
Ef ykkur finnst einhver sögulegur bakgrunnur eða persónulegar frásagnir um Síonarfylkinguna koma að gagni, biðjið þá einhvern að kynna sér eftirfarandi efni fyrir kennslu og segja stuttlega frá því sem lærðist: Saints [Heilagir], 1:194–206; „The Acceptable Offering of Zion’s Camp [Ásættanleg fórn Síonarfylkingarinnar]“ (Revelations in Context [Opinberanir í samhengi], 213–18); eða Raddir Endurreisnarinnar: Síonsfylkingin“ (í lexíudrögum þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur). Hvað gætum við sagt til að hvetja þá, ef við gætum ferðast aftur í tímann og rætt við Síonarfylkinguna? Hvað gætu þeir sagt til að hvetja okkur?
Kenning og sáttmálar 104:11–18
Við erum öll „ráðsmenn [jarðneskra] blessana.“
-
Til að hjálpa meðlimum bekkjarins að heimfæra kenningarnar í Kenningu og sáttmálum 104:11–18 yfir á sig sjálfa, gætuð þið beðið þá að ímynda sér að þeir væru að treysta einhverjum fyrir einhverju dýrmætu. Hvað myndu þeir segja við þann einstakling? Hvers myndu þeir vænta af honum? Meðlimir bekkjarins gætu síðan lesið Kenningu og sáttmála 104:11–18 til að læra hvað Drottinn hefur falið í okkar umsjá og hvers hann væntir af okkur. Hvernig gætu þessi vers haft áhrif á viðhorf okkar til heimsins, blessana okkar eða fólksins umhverfis?
-
Til að hjálpa meðlimum bekkjarins að skilja betur hvernig „Drottinn [hefur] ákvarðað að sjá um [sína] heilögu“ (Kenning og sáttmálar 104:16), íhugið þá að sýna myndbandið „Labor of His Hands [Verk handa hans]“ (ChurchofJesusChrist.org). Hver er háttur Drottins við að sjá fyrir sínum heilögu, byggt á því sem við lærum af þessu myndbandi og í Kenningu og sáttmálum 104:11–18? Þið gætuð líka miðlað þessari tilvitnun í Marion G. Romney forseta: „Drottinn … gæti annast hina [fátæku] án okkar hjálpar, ef það þjónaði tilgangi hans. … En við þörfnumst þessarar reynslu; því við fáum einungis þróað kristilega elsku og nauðsynlegt eðlisfar til að verða hæf til að snúa aftur í návist hans með því að læra hvernig annast á hvert annað“ („Living Welfare Principles,“ Ensign, nóv. 1981, 92). Gefið meðlimum nokkrar mínútur til að skrá hughrif sín um hvernig þeir geti hjálpað við að annast aðra að hætti Drottins.
Fleiri heimildir
Hinn hreinsandi máttur þrenginga.
Öldungur Orson F. Whitney kenndi: „Allur sársauki sem við líðum verður ekki til einskis. Hann verður okkur til lærdóms, þroskunar eiginleika eins og þolinmæði, trúar, æðruleysis og auðmýktar. Allt sem við líðum og allt sem við þolum, einkum er við göngum í gegnum það með þolinmæði, byggir upp persónuleika okkar, hreinsar hjörtu okkar, útvíkkar sálir okkar og gerir okkur ljúfari og kærleiksríkari, verðugri þess að vera kölluð börn Guðs … og það er með sorg og þjáningum, erfiði og þrengingum sem við öðlumst þann lærdóm sem við komum hingað til að öðlast og sem mun gera okkur líkari föður okkar og móður á himnum“ (í Spencer W. Kimball, Faith Precedes the Miracle [1972], 98).
Öldungur David A. Bednar sagði: „Á einhverjum tímapunkti í lífi okkar, verður okkur boðið að ganga í okkar eigin Síonarfylkingu. Tímasetning þessa boðs verður mismunandi og hinar sérstöku hindranir sem verða á leið okkar verða ólíkar. En viðvarandi og stöðug viðbrögð okkar við þessu óhjákvæmilega boði munu að lokum veita svarið við spurningunni: ‚Hver er Drottins megin?‘“ („On the Lord’s Side: Lessons from Zion’s Camp,” Ensign, júlí 2017, 35).