„6.–12. febrúar. Jóhannes 2–4: ‚Ykkur ber að fæðast að nýju,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir sunnudagaskólann: Nýja testamentið 2023 (2022)
„6.–12. febrúar. Jóhannes 2–4,“ Kom, fylg mér – Fyrir sunnudagaskólann: 2023
6.–12. febrúar
Jóhannes 2–4
„Ykkur ber að fæðast að nýju“
Gott er að lesa Jóhannes 2–4 til að búa sig undir kennsluna. Skráið andleg hughrif sem ykkur berast og notið þessi lexíudrög til að öðlast meiri skilning og finna kennsluhugmyndir.
Hvetjið til miðlunar
Skrifið þrjár forsagnir á töfluna: Jóhannes 2 , Jóhannes 3 og Jóhannes 4 . Meðlimir bekkjarins gætu gefið sér nokkrar mínútur til að lesa yfir þessa kapítula og skrifa síðan vers undir hverja forsögn sem hjálpaði þeim að skilja betur kenningu og atburði kapítulans. Ræðið þau vers sem skrifuð voru.
Kennið kenninguna
Kraftaverk Jesú Krists „[opinberuðu dýrð hans].“
-
Í lexíudrögum þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur er lagt til að Jóhannes 2:1–11 sé lesinn út frá sjónarhorni einhvers sem var viðstaddur þegar Jesús breytti vatni í vín. Meðlimir bekkjarins gætu miðlað þeirri innsýn sem þeir öðluðust með því að gera þetta. Hvað lærum við um frelsarann af þessum versum? Hvernig opinberaði þetta kraftaverk dýrð Guðs? (sjá vers 11).
Við getum staðið vörð um helga staði og hluti.
-
Til að hjálpa meðlimum bekkjarins að læra um frásögnina þegar Jesús rak víxlarana út úr musterinu, gætuð þið beðið þá að íhuga aðra hluti en musterin sem Drottinn lítur á sem helga. Hvernig getum við hjálpað við að viðhalda heilagleika þessara helgu hluta?
Við verðum að endurfæðast til að komast aftur í Guðs ríki.
-
Hvernig gætum við útskýrt fyrir einhverjum merkingu þess að endurfæðast? Íhugið að biðja meðlimi bekkjarins að æfa sig í að svara þessari spurningu með sessunaut sínum. Þegar þeir gera þetta, gætu þeir rætt spurningar eins og þessa: Hvað lærum við af orðum Jesú í Jóhannesi 3:3–7? Hvernig stuðla iðrun, skírn og staðfesting að endurfæðingu okkar? Tilvitnanirnar í „Fleiri heimildir“ gætu auðgað umræðurnar.
-
Sumir telja að fólk geti í raun ekki breyst. Nikódemus er þó dæmi um þann sem breyttist eftir að hafa orðið fylgjandi fagnaðarerindis Jesú Krists. Til að hjálpa meðlimum bekkjarins að skilja þetta, gætuð þið boðið þeim að kanna Jóhannes 3:1–2; Jóhannes 7:45–52; og Jóhannes 19:38–40. Hvað lærum við af þessum ritningarversum um viðhorf og trú Nikódemusar? Hvernig breyttist hann með tímanum? Getum við miðlað dæmum um fólk sem hefur breyst vegna fagnaðarerindisins?
Jesús Kristur býður okkur „lifandi vatn“ og „mat“ þess að vinna verk Guðs.
-
Líkami okkar þarf daglega mat og vatn. Jesús vísaði til þessara grunnþarfa þegar hann kenndi bæði samversku konunni og lærisveinum sínum (sjá Jóhannes 4:5:34). Til að stuðla að skilningi meðlima bekkjarins á því sem frelsarinn kenndi, gætuð þið hengt myndir af mat og vatni á töfluna og boðið meðlimum bekkjarins að skrifa undir hvora mynd þau sannindi andlegs matar og vatns sem Jesús kenndi. Hvernig svalar frelsarinn andlegum þorsta okkar og seður hungur okkar?
-
Að ígrunda þróun vitnisburðar samversku konunnar um Jesú Krist, getur hjálpað meðlimum bekkjar ykkar að velta fyrir sér hvernig þeir hafi fengið vitneskjuna um að hann er Messías. Leitið sem bekkur að þeim orðum sem samverska konan notaði til að vísa til frelsarans í Jóhannesi 4:6–30. Hvað gefa þessi orð til kynna um þekkingu hennar á því hver Jesús var? Hvernig höfum við vaxið í vitnisburði okkar um að hann er frelsari okkar?
Fleiri heimildir
Merking endurfæðingar.
Öldungur Bednar kenndi: „Sú breyting … er mikil en ekki smávægileg – andleg endurfæðing og gagnger breyting á tilfinningum okkar og þrám, hugsunum okkar og gjörðum og eigin upplagi. Vissulega er fagnaðarerindi Jesú Krists þess eðlis að það leiðir til algjörrar og gagngerrar breytingar á eigin eðli, ef við reiðum okkur á ‚verðleika, miskunn og náð heilags Messíasar‘ (2. Nefí 2:8). Þegar við ákveðum að fylgja meistaranum, veljum við að breytast – að endurfæðast andlega“ („Við verðum að endurfæðast,“ aðalráðstefna, apríl 2007).
Dallin H. Oaks forseti kenndi: „Við endurfæddumst þegar við gengum í sáttmálssamband við frelsara okkar, með því að fæðast af vatni og anda og taka á okkur nafn Jesú Krists. Við getum endurnýjað þessa endurfæðingu hvern hvíldardag þegar við tökum sakramentið. Síðari daga heilagir staðfesta að þeir sem hafa endurfæðst á þennan hátt eru getnir andlega af Jesú Kristi (sjá Mósía 5:7; 15:9–13; 27:25). Hvað sem því líður, til að tilætlaðar blessanir verði að veruleika í endurfæddu ástandi okkar, þurfum við að halda sáttmála okkar og standast allt til enda“ („Have You Been Saved?,“ Ensign, maí 1998, 56).