„4.–10. september. 1. Korintubréf 14–16: ‚Guð er Guð friðar, ekki truflunar,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir sunnudagaskólann: Nýja testamentið 2023 (2022)
„4.–10. september. 1. Korintubréf 14–16,“ Kom, fylg mér – Fyrir sunnudagaskólann: 2023
4.–10. september
1. Korintubréf 14–16
„Guð er Guð friðar, ekki truflunar“
Áður en þið lítið á þessi lexíudrög, lesið þá 1. Korintubréf 14–16. Skráið ykkar fyrstu hughrif um þau sannindi sem munu hjálpa meðlimum bekkjar ykkar og leitið stöðugt eftir frekari leiðsögn andans, er þið búið ykkur undir að kenna.
Hvetjið til miðlunar
Gefið meðlimum bekkjarins nokkrar mínútur til að rifja upp 1. Korintubréf 14–16 og finna vers sem þeim finnst einkar þýðingarmikið. Biðjið þá að finna einhvern í bekknum sem þeir geta miðlað versi sínu og útskýrt ástæðu þess að þeir völdu það.
Kennið kenninguna
Þegar við söfnumst saman, ættum við að leitast eftir að byggja hvert annað upp.
-
Þið getið notað kennslu Páls í 1. Korintubréfi 14 til að minna meðlimi bekkjarins á að við getum öll byggt upp – eða stutt við og uppörvað – hvert annað í kirkju. Einföld leið til að skoða þennan kapítula væri að skrifa spurningu á töfluna, t.d. Hvert ætti markmið okkar að vera þegar við söfnumst saman? Biðjið meðlimi bekkjarins að leita mögulegra svara í 1. Korintubréfi 14. Hægt er að finna fleiri hugmyndir í Moróní 6:4–5 og Kenningu og sáttmálum 50: 17–23. Þegar meðlimir bekkjarins miðla því sem þeir fundu, getið þið spurt þá hvernig þeim finnst ganga hjá bekknum að ná þessum markmiðum. Þeir gætu líka miðlað upplifunum þar sem þeir voru uppbyggðir af því að heyra það sem bekkjarfélagi þeirra miðlaði.
Vegna upprisu Jesú Krists, verðum við öll reist upp.
-
Hvernig getið þið notað vitnisburð Páls í 1. Korintubréfi 15 til að efla vitnisburð meðlima bekkjarins um upprisuna? Ein leið væri að skipta bekknum í tvo hópa og biðja annan þeirra að skoða 1. Korintubréf 15, til að finna þær afleiðingar sem við stæðum frammi fyrir ef Jesús Kristur hefði ekki risið upp. Hinn hópurinn gæti leitað að þeim blessunum sem við hljótum, vegna upprisu hans. Hver hópur gæti síðan skrifað á töfluna það sem þeir lærðu. Hverju gætu þeir bætt við listann eftir að lesa orð öldungs D. Todd Christofferson í „Fleiri heimildir“? Til að hjálpa meðlimum bekkjarins að finna fyrir andanum á meðan þessum umræðum stendur, getið þið sýnt mynd af upprisnum frelsaranum (sjá lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur) eða leikið eða sungið sálm um upprisuna.
-
Þar sem Páll var að svara fólki sem ekki trúði á upprisuna, gæti bekkur ykkar haft gagn af því að leika þessar aðstæður eftir með hlutverkaleik. Hvernig gætu þeir t.d. styrkt trú ástvinar á upprisunni? Hvað finnum við í 1. Korintubréfi 15, sem getur hjálpað okkur að útskýra þörfina fyrir og sannleiksgildi upprisu Jesú Krists? Hvaða fleiri ritningar gætum við notað? (Sjá t.d. Lúkas 24:1–12, 36–46; Alma 11:42–45.)
-
1. Korintubréf 15 er einn af fáum stöðum í ritningunum þar sem skírnar fyrir hina dánu er getið (sjá vers 29; sjá einnig Kenning og sáttmálar 128:18). Ef til vill gætu meðlimir bekkjarins miðlað gleðinni sem þeir upplifðu þegar þeir framkvæmdu skírnir eða aðrar helgiathafnir fyrir áa sína. Hvers vegna gæti Páll hafa vitnað í skírn fyrir hina dánu sem sönnun á upprisunni? Ef það gæti hjálpað að ræða nauðsyn skírnar fyrir hina dánu, sjá þá grein í Gospel Topics [Trúarefni], „Baptisms for the Dead [Skírn fyrir hina dánu]“ (topics.ChurchofJesusChrist.org). Myndbandið „Glad Tidings: The History of Baptisms for the Dead [Gleðifregnir: Saga skírnar fyrir hina dánu]“ (ChurchofJesusChrist.org) útskýrir hvernig þetta atriði var endurreist á okkar tíma.
Fleiri heimildir
Mikilvægi upprisunnar.
Öldungur D. Todd Christofferson kenndi:
„Íhugið eitt augnablik, mikilvægi upprisunnar í því að staðfesta, í eitt skipti fyrir öll, hið sanna auðkenni Jesú frá Nasaret og að leysa miklar heimspekideilur og svara spurningum lífsins. Hafi Kristur í raun bókstaflega risið upp, hlýtur það að benda til þess að hann sé guðleg vera. Enginn dauðlegur maður getur á eigin spýtur lifað aftur, eftir að hafa dáið. Þar sem Jesús reis upp, þá hefur hann ekki aðeins verið trésmiður, kennari, rabbíni eða spámaður. Þar sem Jesús reis upp, hlýtur hann að hafa verið Guð, Já, hinn eingetni sonur föðurins.
Það sem hann kenndi er því sannleikur; Guð getur ekki logið.
Hann var því skapari þessarar jarðar, líkt og hann sagði.
Himin og helja eru því raunveruleg, líkt og hann kenndi.
Það er því til andaheimur, sem hann vitjaði eftir dauða sinn.
Hann mun því koma aftur, líkt og englarnir sögðu, og ‚ríkja sjálfur á jörðu.‘
Þess vegna er upprisa og lokadómur fyrir alla“ („Upprisa Jesú Krists,“ aðalráðstefna, apríl 2014).