Handbækur og kallanir
2. Stuðningur við einstaklinga og fjölskyldur í starfi sáluhjálpar og upphafningar


„2. Stuðningur við einstaklinga og fjölskyldur í starfi sáluhjálpar og upphafningar,“ Valið efni úr Almennri handbók (2023).

„2. Stuðningur við einstaklinga og fjölskyldur,“ Valið efni úr Almennri handbók

Ljósmynd
fjölskyldumynd

2.

Stuðningur við einstaklinga og fjölskyldur í starfi sáluhjálpar og upphafningar

2.0

Inngangur

Sem leiðtogar í Kirkju Jesú Krists, styðjið þið einstaklinga og fjölskyldur við að framfylgja starfi sáluhjálpar og upphafningarverks Guðs (sjá 1.2). Endanlegur tilgangur þessa verks er að hjálpa öllum börnum Guðs að hljóta blessanir eilífs lífs og fyllingu gleði.

Stór hluti starfs sáluhjálpar og upphafningar á sér stað hjá fjölskyldunni. Hvað alla kirkjumeðlimi varðar, er heimilið þungamiðja þessa starfs.

2.1

Hlutverk fjölskyldunnar í áætlun Guðs

Sem hluti af áætlun sinni, hefur himneskur faðir stofnað fjölskyldur á jörðu. Hann væntir þess að fjölskyldur veiti okkur hamingju. Fjölskyldur veita tækifæri til að læra, vaxa, þjóna, iðrast og fyrirgefa. Þær geta hjálpað okkur að búa okkur undir eilíft líf.

Loforð Guðs um eilíft líf felur í sér eilíft hjónaband, börn og allar aðrar blessanir eilífrar fjölskyldu. Þetta loforð á við um þau sem ekki eru gift eða eru án fjölskyldu í kirkjunni.

2.1.1

Eilífar fjölskyldur

Eilífar fjölskyldur verða til þegar kirkjumeðlimir gera sáttmála er þeir meðtaka helgiathafnir innsiglunar í musterinu. Blessanir eilífrar fjölskyldu verða að veruleika þegar meðlimir halda þessa sáttmála og iðrast þegar þeim verður á. Kirkjuleiðtogar hjálpa meðlimum að búa sig undir að taka á móti þessum helgiathöfnum og heiðra sáttmála sína.

Annar liður í stofnun eilífra fjölskyldna, er framkvæmd helgiathafna í musterinu, sem gera meðlimum mögulegt að innsiglast látnum áum sínum.

2.1.2

Eiginmaður og eiginkona

Hjónaband karls og konu er vígt af Guði (sjá Kenning og sáttmálar 49:15). Eiginmanni og eiginkonu er ætlað að þróast saman til eilífs lífs (sjá 1. Korintubréf 11:11).

Eitt skilyrði þess að öðlast eilíft líf, er að karl og kona gangi inn í sáttmála eilífs hjónabands (sjá Kenning og sáttmálar 131:1–4). Par gerir þennan sáttmála þegar það meðtekur helgiathöfn innsiglunar hjónabands í musterinu. Þessi sáttmáli er grundvöllur eilífrar fjölskyldu. Þegar hann er haldinn trúfastlega, mun hjónaband þeirra vara að eilífu.

Líkamlegri nánd eiginmanns og eiginkonu er ætlað að vera falleg og heilög. Hún er vígð af Guði til að skapa börn og til kærleikstjáningar eiginmanns og eiginkonu. Hjartagæska og virðing – ekki eigingirni – ætti að vera ríkjandi í nánu sambandi þeirra.

Guð hefur boðið að kynferðisleg nánd skuli einskorðast við hjónaband karls og konu.

Eiginmaður og eiginkona eru jöfn í augum Guðs. Annað ætti ekki að ráða yfir hinu. Ákvarðanir þeirra ætti að taka í einingu og kærleika, með fullri þátttöku beggja.

2.1.3

Foreldrar og börn

Síðari daga spámenn hafa kennt að „boðorð Guðs til barna hans um að margfaldast og uppfylla jörðina er enn í gildi“ („Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“; sjá einnig Kenning og sáttmálar 49:16–17).

Ástríkur eiginmaður og eiginkona skapa saman fyrirmyndarumhverfi til uppeldis og umönnunar barna. Sérstakar aðstæður geta komið í veg fyrir að foreldrar geti alið börn sín upp í sameiningu. Þó mun Drottinn blessa þau þegar þau leita hjálpar hans og leitast við að halda sáttmála sína við hann.

Foreldrar bera þá mikilvægu ábyrgð að hjálpa börnum sínum að búa sig undir að meðtaka blessanir eilífs lífs. Þau kenna börnum sínum að elska og þjóna Guði og öðrum (sjá Matteus 22:36–40).

„Feður [eiga] að sitja í forsæti fjölskyldu sinnar í kærleika og réttlæti og bera þá ábyrgð að sjá henni fyrir nauðsynjum lífsins og vernda hana“ („Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“). Þegar eiginmaður eða faðir er ekki til staðar á heimilinu, er móðirin í forsæti.

Að vera í forsæti fjölskyldunnar, er sú ábyrgð að hjálpa við að leiða fjölskyldumeðlimi aftur til dvalar í návist Guðs. Þetta er gert með því að þjóna og kenna af mildi, hógværð og hreinni ást, að fordæmi Jesú Krists (sjá Matteus 20:26–28). Að vera í forsæti fjölskyldunnar, felur í sér að leiða fjölskyldumeðlimi með reglubundinni bæn, trúarnámi og öðrum þáttum tilbeiðslu. Foreldrar starfa í einingu við að uppfylla þessar skyldur.

„Meginábyrgð mæðra er að annast börnin“ („Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“). Að annast, er að næra, kenna og styðja að fordæmi frelsarans (sjá 3. Nefí 10:4). Í samstarfi og einingu við eiginmann sinn, hjálpar móðir fjölskyldu sinni að læra trúarlegan sannleika og þróa trú á himneskan föður og Jesú Krist. Saman skapa þau umhverfi kærleika í fjölskyldunni.

„Við þessa helgu ábyrgð ber feðrum og mæðrum skylda til að hjálpa hvort öðru sem jafningjar“ („Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“). Í anda bænar eiga þau samráð við hvort annað og Drottin. Þau taka ákvarðanir saman í einingu og kærleika, með fullri þátttöku beggja.

2.2

Starf sáluhjálpar og upphafningar á heimilinu

Æðsta forsætisráðið sagði: „Heimilið er grundvöllur réttláts lífs“ (bréf Æðsta forsætisráðsins, 11. febrúar 1999).

Til að styðja meðlimi við að framfylgja starfi sáluhjálpar og upphafningar á heimilinu, hvetja kirkjuleiðtogar þau til að skapa heimili þar sem andinn hefur nærveru. Þeir hvetja líka meðlimi til að virða hvíldardaginn, læra og nema fagnaðarerindið á heimilinu og hafa heimiliskvöld vikulega.

2.2.3

Trúarnám og lærdómur á heimilinu

Trúarkennsla og nám er heimamiðað og kirkjustutt. Kirkjuleiðtogar hvetja alla meðlimi til að læra fagnaðarerindið á heimilinu á hvíldardegi og vikuna á enda.

Lagt er til að við lærum ritningarnar á heimilinu eins og útskýrt er í ritinu Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur.

2.2.4

Heimiliskvöld og aðrar athafnir

Síðari daga spámenn hafa ráðlagt kirkjumeðlimum að hafa vikulegt heimiliskvöld. Það er helg stund fyrir einstaklinga og fjölskyldur til að læra fagnaðarerindið, styrkja vitnisburð, skapa einingu og njóta hvers annars.

Heimiliskvöldið er sveigjanlegt eftir aðstæðum meðlima. Það getur verið haft á hvíldardegi eða öðrum dögum og tímum. Það getur falið í sér:

  • Trúarnám og kennslu (nota má efnið í Kom, fylg mér að vild).

  • Þjónustu við aðra.

  • Að syngja eða spila sálma og Barnafélagssöngva (sjá Kafla 19).

  • Stuðning við fjölskyldumeðlimi í Eigin framþróun Barna og unglinga.

  • Fjölskyldufund til að setja sér markmið, leysa vandamál og samræma tímaáætlanir.

  • Dægrastyttingu.

Einhleypir meðlimir og aðrir geta komið saman í hópum utan hefðbundinnar hvíldardagsþjónustu, til að taka þátt í heimiliskvöldi og styrkja hver annan með trúarnámi.

2.2.5

Stuðningur við einstaklinga

Kirkjuleiðtogar aðstoða meðlimi sem skortir fjölskyldustuðning.

Leiðtogar hjálpa þessum meðlimum og fjölskyldum þeirra að njóta vináttu, heilbrigðrar félagslegrar upplifunar og vaxa andlega.

2.3

Samband heimilis og kirkju

Starf sáluhjálpar og upphafningar hefur heimilið að þungamiðju og nýtur stuðnings kirkjunnar. Eftirfarandi reglur gilda í sambandinu á milli heimilis og kirkju.

  • Leiðtogar og kennarar virða hlutverk foreldra og aðstoða þá.

  • Sumar samkomur og fundir í kirkjunni eru nauðsynleg í hverri deild eða grein. Þar má nefna sakramentissamkomu og námsbekki og sveitarfundi sem höfð eru á hvíldardegi. Margir aðrir fundir, athafnir og dagskrár eru ekki nauðsynleg.

  • Kirkjuþjónusta og þátttaka felur í sér ákveðna fórn. Drottinn mun blessa meðlimi er þeir þjóna og fórna í kirkju hans. Þó ætti sá tími sem gefinn er til kirkjuþjónustu ekki að draga úr getu meðlima til að sinna skyldum sínum á heimilinu, í vinnunni og annars staðar.

Prenta