„32. Iðrun og kirkjuaðildarráð,“ Valið efni úr Almennri handbók (2023).
„32. Iðrun og kirkjuaðildarráð,“ Valið efni úr Almennri handbók
32.
Iðrun og kirkjuaðildarráð
32.0
Inngangur
Meirihluti iðrunar fer fram á milli einstaklingsins, Guðs og þeirra sem hafa orðið fyrir áhrifum af syndum einstaklingsins. Hins vegar þarf biskup eða stikuforseti stundum að aðstoða meðlimi kirkjunnar í iðrunarferli þeirra.
Þegar biskup og stikuforseti aðstoða meðlimi við iðrun, sýna þeir kærleika og umhyggju. Þeir fylgja fordæmi frelsarans sem upplyfti einstaklingum og aðstoðaði þá við að snúa frá synd og að Guði (sjá Matteus 9:10–13; Jóhannes 8:3–11).
32.1
Iðrun og fyrirgefning
Til að koma miskunnaráætlun sinni til leiðar, sendi himneskur faðir eingetinn son sinn, Jesú Krist, til að friðþægja fyrir syndir okkar (sjá Alma 42:15). Jesús tók á sig þá refsingu sem lögmál réttlætis krefst fyrir syndir okkar (sjá Kenningu og sáttmála 19:15–19; sjá einnig Alma 42:24–25). Bæði faðirinn og sonurinn sýndu altæka elsku sína til okkar með þessari fórn (sjá Jóhannes 3:16).
Þegar við iðkum „trú til iðrunar,“ fyrirgefur himneskur faðir okkur og veitir okkur miskunn fyrir friðþægingu Jesú Krists (Alma 34:15; sjá einnig Alma 42:13). Þegar við erum hreinsuð og okkur fyrirgefið, getum við að lokum erft Guðs ríki (sjá Jesaja 1:18; Kenning og sáttmálar 58:42).
Iðrun er meira en bara að breyta hegðun. Í henni felst að snúa frá synd og að himneskum föður og Jesú Kristi. Hún leiðir að umbreytingu hjarta og huga (sjá Mósía 5:2; Alma 5:12–14; Helaman 15:7). Fyrir iðrunina verðum við nýjar manneskjur, í sátt við Guð (sjá 2. Korintubréf 5:17–18; Mósía 27:25–26).
Ein af mestu blessunum himnesks föður, sem hann hefur gefið með syni sínum, er tækifæri okkar til að iðrast.
32.2
Tilgangur takmarkana eða afturköllunar kirkjuaðildar
Ef meðlimur drýgir alvarlega synd, aðstoðar biskupinn eða stikuforsetinn hann eða hana við að iðrast. Sem hluta af þessu ferli, kann hann að þurfa að takmarka einhverja þætti kirkjuaðildarinnar um tíma. Í sumum tilfellum verður hann að afturkalla kirkjuaðild einstaklingsins um tíma.
Takmörkun eða afturköllun kirkjuaðildar er ekki gerð til að refsa. Þessi aðgerð er öllu heldur stundum nauðsynleg til að hjálpa einstaklingnum við að iðrast og upplifa breytingu hjartans. Þetta veitir einstaklingnum einnig tíma til að búa sig andlega undir að endurnýja og halda sáttmála sína á ný.
Þríþættur tilgangur takmarkana eða afturköllunar kirkjuaðildar er eftirfarandi.
32.2.1
Stuðla að verndun annarra
Fyrsti tilgangurinn er að stuðla að verndun annarra. Stundum stafar líkamleg eða andleg ógn af einstaklingi. Þetta getur til dæmis sýnt sig í árásargirni, líkamlegum skaða, kynferðisofbeldi, fíkniefnaneyslu, svikum og fráhvarfi. Biskup eða stikuforseti fylgir innblæstri við verndun annarra þegar einhver er ógnandi á þennan eða annan máta (sjá Alma 5:59–60).
32.2.2
Hjálpa einstaklingi að fá aðgang að endurleysandi krafti Jesú Krists fyrir iðrun
Annar tilgangurinn er að hjálpa einstaklingi að fá aðgang að endurleysandi krafti Jesú Krists fyrir iðrun. Í þessu ferli geta hann eða hún orðið hrein aftur og verðug þess að meðtaka allar blessanir Guðs.
32.2.3
Vernda heilindi kirkjunnar
Þriðji tilgangurinn er að vernda heilindi kirkjunnar. Það kann að vera nauðsynlegt að takmarka eða afturkalla kirkjuaðild einstaklingsins ef hegðun hans eða hennar skaðar kirkjuna verulega (sjá Alma 39:11). Heilindi kirkjunnar eru ekki vernduð með því að fela eða gera lítið úr alvarlegum syndum – heldur með því að takast á við þær.
32.3
Hlutverk dómara í Ísrael
Biskupar og stikuforsetar eru kallaðir og settir í embætti sem dómarar í Ísrael (sjá Kenning og sáttmálar 107:72–74). Þeir hafa prestdæmislykla til að vera fulltrúar Drottins við að hjálpa meðlimum kirkjunnar að iðrast (sjá Kenning og sáttmálar 13:1; 107:16–18).
Biskupar og stikuforsetar aðstoða við iðrunina með persónulegri ráðgjöf. Slík aðstoð kann að fela í sér óformlegar takmarkanir á sumum forréttindum kirkjuaðildar um einhvern tíma.
Við sumar alvarlegar syndir aðstoða leiðtogar við iðrun með því að setja kirkjuaðildarráð (sjá 32.6). Slík aðstoð kann að fela í sér formlegar takmarkanir á sumum forréttindum kirkjuaðildar eða afturköllun aðildar um einhvern tíma.
Biskupar og stikuforsetar sýna kærleika og umhyggju er þeir hjálpa meðlimum við iðrun. Leiðandi í því eru samskipti frelsarans við konuna sem staðin var að hórdómi (sjá Jóhannes 8:3–11). Þótt hann hafi ekki sagt henni að syndir hennar væru fyrirgefnar, fordæmdi hann hana ekki. Í stað þess sagði hann henni að „syndga ekki framar“ – að iðrast og breyta lífi sínu.
Þessir leiðtogar kenna að það sé „fögnuður á himni yfir einum syndara, sem tekur sinnaskiptum“ (Lúkas 15:7). Þeir eru þolinmóðir, sýna stuðning og jákvæðni. Þeir hvetja til vonar. Þeir kenna og bera vitni um að vegna friðþægingarfórnar frelsarans geti allir iðrast og orðið hreinir.
Biskupar og stikuforsetar leita leiðsagnar andans til að vita hvernig aðstoða skal hvern einstakling við iðrun. Aðeins fyrir alvarlegustu syndirnar, hefur kirkjan sett viðmið um til hvaða aðgerða leiðtogar hennar ættu að grípa (sjá 32.6). Engar tvær aðstæður eru eins. Sú ráðgjöf sem leiðtogar veita og iðrunarferlið sem þeir bjóða fram, verður að vera innblásið og kann að vera mismunandi fyrir hvern einstakling.
32.4
Játning, trúnaður og tilkynning til yfirvalda
32.4.1
Játning
Iðrun krefst þess að syndir séu játaðar fyrir himneskum föður. Jesús sagði: „Þannig getið þér vitað hvort maðurinn iðrast synda sinna ‒ sjá, hann játar þær og lætur af þeim“ (Kenning og sáttmálar 58:43; sjá einnig Mósía 26:29).
Þegar meðlimir kirkjunnar drýgja alvarlegar syndir, felur iðrun þeirra einnig í sér játningu frammi fyrir biskupi þeirra eða stikuforseta. Hann getur þá notað lyklana að fagnaðarerindi iðrunar fyrir þeirra hönd (sjá Kenning og sáttmálar 13:1; 84:26–27; 107:18, 20). Þetta hjálpar þeim að læknast og snúa aftur á veg fagnaðarerindisins fyrir kraft friðþægingar frelsarans.
Tilgangur játningar er að hvetja meðlimi að létta af sér byrðum, svo þeir geti fyllilega leitað aðstoðar Drottins við að breytast og læknast. Játning hjálpar við að öðlast „sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda“ (2. Nefí 2:7). Sjálfviljug játning sýnir að einstaklingur þráir að iðrast.
Þegar meðlimur játar, fylgja biskup eða stikuforseti leiðbeiningum ráðgjafar í 32.8. Hann leitar leiðsagnar í bæn varðandi viðeigandi aðstæður til að hjálpa meðlimnum að iðrast. Hann hugleiðir hvort kirkjuaðildarráð gæti verið hjálplegt. Ef kirkjureglur krefjast kirkjuaðildarráðs, útskýrir hann þetta (sjá 32.6).
Stundum hefur meðlimur brotið á maka eða öðrum fullorðnum einstaklingi. Sem hluta af iðruninni ætti hann eða hún vanalega að játa fyrir þeim einstaklingi og leita fyrirgefningar. Ef ungmenni drýgir alvarlega synd, er vanalega hvatt til þess að samráð sé haft við foreldra hans eða hennar.
32.4.4
Trúnaður
Biskupar, stikuforsetar og ráðgjafar þeirra hafa þá helgu ábyrgð að vernda allar trúnaðarupplýsingar sem þeim er miðlað. Þessar upplýsingar kunna að koma upp í viðtölum, ráðgjöf og játningum. Sama trúnaðarskylda á við um alla sem taka þátt í kirkjuaðildarráði. Trúnaður er nauðsynlegur, því ekki er víst að meðlimir játi syndir sínar eða leiti ráða, ef því sem þeir miðla er ekki haldið í trúnaði. Trúnaðarbrot er brestur á trausti meðlima og veldur því að þeir missa traust á leiðtogum sínum.
Í samræmi við trúnaðarskyldu þeirra, þá geta biskup, stikuforseti eða ráðgjafar þeirra einungis miðlað slíkum upplýsingum í eftirfarandi tilfellum:
-
Þeir þurfi að ræða við stikuforseta meðlims, trúboðsforseta eða biskup varðandi það að hafa kirkjuaðildarráð eða tengd málefni.
-
Einstaklingurinn flytur í nýja deild (eða prestdæmisleiðtogi er leystur af) á meðan að aðildarmál eða önnur alvarleg mál eru í vinnslu.
-
Biskup eða stikuforseti kemst að því að kirkjumeðlimur sem býr fyrir utan deildina eða stikuna kann að eiga aðild að alvarlegri synd.
-
Það er nauðsynlegt að veita upplýsingar á meðan á kirkjuaðildarráði stendur.
-
Meðlimur velur að veita leyfi fyrir því að leiðtoginn miðli ákveðnum einstaklingum upplýsingum.
-
Það kann að vera nauðsynlegt að miðla takmörkuðum upplýsingum um ákvarðanir aðildarráðs.
Til að aðstoða leiðtoga við verndun annarra og að fylgja landslögum, veitir kirkjan aðstoð frá fagaðilum. Til að fá þessa leiðsögn, hringja leiðtogar í hjálparlínu kirkjunnar í ofbeldismálum án tafar, þar sem það er mögulegt (sjá 38.6.2.1). Þar sem það er ekki í boði, hefur stikuforsetinn samband við lagalega ráðgjöf á svæðisskrifstofunni.
Aðeins í einu tilfelli er biskupi eða stikuforseta leyfilegt að veita trúnaðarupplýsingar, án þess að leita slíkra ráða fyrst. Það er þegar upplýsingaveita er nauðsynleg til að forðast lífshættulegan skaða eða alvarleg meiðsl og það er enginn tími til að leita leiðsagnar. Í slíkum tilfellum er skyldan til að vernda aðra mikilvægari en trúnaðarskyldan. Leiðtogar ættu að hafa samband við yfirvöld þegar í stað.
32.6
Alvarleiki syndar og kirkjureglur
Alvarleiki syndar er mikilvægur þáttur í að ákveða aðstæður sem munu (1) hjálpa við að vernda aðra og (2) hjálpa einstaklingi að iðrast. Drottinn hefur sagt að hann „[geti] ekki litið á synd með minnsta votti af undanlátssemi“ (Kenning og sáttmálar 1:31; sjá einnig Mósía 26:29). Þjónar hans mega ekki hunsa merki um alvarlega synd.
Alvarlegar syndir eru markviss og stórvægileg brot gegn lögmálum Guðs. Flokkar alvarlegra synda eru tilgreindir hér að neðan:
-
Ofbeldisbrot og misnotkun
-
Kynferðislegt siðleysi
-
Sviksamleg brot
-
Trúnaðarbrestur
-
Ýmis önnur brot
Þegar kirkjuaðildarráðs er krafist eða kann að vera nauðsynlegt
Tegund syndar |
Kirkjuaðildarráðs er krafist |
Kirkjuaðildarráð kann að vera nauðsynlegt |
---|---|---|
Tegund syndar Ofbeldisbrot og misnotkun | Kirkjuaðildarráðs er krafist
| Kirkjuaðildarráð kann að vera nauðsynlegt |
Tegund syndar Kynferðislegt siðleysi | Kirkjuaðildarráðs er krafist
| Kirkjuaðildarráð kann að vera nauðsynlegt
|
Tegund syndar Sviksamleg brot | Kirkjuaðildarráðs er krafist
| Kirkjuaðildarráð kann að vera nauðsynlegt
|
Tegund syndar Trúnaðarbrestur | Kirkjuaðildarráðs er krafist
| Kirkjuaðildarráð kann að vera nauðsynlegt
|
Tegund syndar Ýmis önnur brot | Kirkjuaðildarráðs er krafist
| Kirkjuaðildarráð kann að vera nauðsynlegt
|
32.6.3
Þegar stikuforseti ráðfærir sig við svæðisforsætisráð um hvort kirkjuaðildarráð sé nauðsynlegt eða aðrar aðgerðir
Sum mál krefjast aukinnar næmni og leiðsagnar. Til að vita hvernig best er að hjálpa, verður stikuforsetinn að ráðfæra sig við svæðisforsætisráð um aðstæður í þessum kafla.
32.6.3.2
Fráhvarf
Málefni fráhvarfs hafa oft áhrif út fyrir umráð deildar eða stiku. Á því þarf að taka án tafar, til að vernda aðra.
Biskupinn ráðfærir sig við stikuforsetann um hvort honum finnist aðgerðir meðlimsins geti fallið undir fráhvarf.
Eins og það er notað hér, á orðið fráhvarf við það þegar meðlimur gerist sekur um eftirfarandi:
-
Fer endurtekið, skýrt og vísvitandi gegn opinberri afstöðu kirkjunnar, kenningu hennar, reglum eða leiðtogum.
-
Heldur ítrekað áfram að kenna sem kenningu kirkjunnar, það sem er ekki kenning kirkjunnar, eftir að hafa verið leiðréttur af biskupi eða stikuforseta.
-
Sýnir ítrekaða vísvitandi hegðun um að veikja trú og starf kirkjumeðlima.
-
Heldur áfram að fylgja kenningum fráhvarfshópa eftir leiðréttingu biskups eða stikuforseta.
-
Gengur formlega í aðra kirkju og boðar kenningar hennar.
32.6.3.3
Fjárdráttur á sjóðum kirkjunnar
Ef meðlimur dregur sér fé úr sjóðum kirkjunnar eða stelur verðmætum eigum kirkjunnar, ráðfærir stikuforsetinn sig við svæðisforsætisráð um hvort kirkjuaðildarráð sé nauðsynlegt eða hvort grípa skuli til annarra aðgerða.