12. Kapítuli
Nefí sér fyrirheitna landið í sýn; réttlæti, misgjörðir og fall íbúa þess; komu Guðslambsins meðal þeirra; að lærisveinarnir tólf og postularnir tólf muni dæma Ísrael; og viðurstyggð og óhreinindi þeirra sem hnignar í vantrú. Um 600–592 f.Kr.
1 En svo bar við, að engillinn sagði við mig: Sjá, líttu á niðja þína sem og á niðja bræðra þinna. Og ég leit upp og sá fyrirheitna landið, og ég sá mikla fólksmergð, já, fjöldi þeirra var sem sandkornanna á sjávarströndu.
2 Og svo bar við, að ég sá fjölda manns safnast saman til orrustu, hver á móti öðrum. Og ég sá hernað og ófriðartíðindi, og að miklu blóði var úthellt með sverði meðal þjóðar minnar.
3 Og svo bar við, að ég sá margar kynslóðir hverfa vegna styrjalda og sundurþykkju í landinu. Og ég sá margar borgir, svo margar að ég kom ekki tölu á þær.
4 Og svo bar við, að ég sá niðdimmt mistur yfir fyrirheitna landinu. Ég sá eldingar og heyrði þrumur, jarðskjálfta og alls konar háreysti. Og ég sá jörðina og klettana klofna, ég sá fjöll hrynja og molna sundur, ég sá sprungur myndast á sléttum jarðarinnar og ég sá margar borgir sökkva og margar brenna í eldi. Og ég sá margar hrynja til grunna vegna jarðskjálfta.
5 En svo bar við, að eftir að hafa séð allt þetta sá ég myrkurhjúpinn hverfa af yfirborði jarðar. Og sjá. Ég sá mergð af fólki, sem ekki hafði fallið vegna hins mikla og skelfilega dóms Drottins.
6 Og ég sá himnana ljúkast upp og Guðslambið stíga niður af himni. Og hann steig niður og sýndi sig þeim.
7 Og ég sá einnig og ber því vitni, að heilagur andi kom yfir tólf aðra. Þeir voru vígðir af Guði og útvaldir.
8 Og engillinn talaði til mín og sagði: Sjá lærisveina lambsins, tólf að tölu, sem útvaldir eru til að veita niðjum þínum þjónustu.
9 Og hann sagði við mig: Manst þú eftir hinum tólf postulum lambsins? Sjá. Það eru þeir, sem dæma munu hinar tólf ættkvíslir Ísraels. Þess vegna munu þeir dæma þjónana tólf af þinni ætt, því að þið eruð af ætt Ísraels.
10 Og þessir tólf þjónar, sem þú sérð, munu fella dóm yfir niðjum þínum. Og sjá. Þeir eru réttlátir um allan aldur, því að vegna trúar þeirra á Guðslambið eru klæði þeirra hvítþvegin í blóði hans.
11 Og engillinn sagði við mig: Sjá! Og ég leit upp og sá þrjá ættliði lifa og líða hjá í réttsýni. Og klæði þeirra voru jafn hvít og klæði Guðslambsins. Og engillinn sagði við mig: Þau hafa verið hvítþvegin í blóði lambsins vegna trúar þeirra á hann.
12 Og ég, Nefí, sá einnig marga af fjórða ættlið, sem lifðu og dóu í réttlæti.
13 Og svo bar við, að ég sá mannskarana á jörðunni safnast saman.
14 Og engillinn sagði við mig: Líttu á niðja þína og á niðja bræðra þinna.
15 En svo bar við, að ég leit upp og sá þá, sem af mér voru komnir, safnast saman í hópa á móti niðjum bræðra minna. Og þeir voru saman komnir til að leggja til orrustu.
16 Og engillinn talaði til mín og mælti: Sjá uppsprettu hins sauruga vatns, sem faðir þinn sá, já, sjálft fljótið, sem hann talaði um. Og dýpt þess er dýpt heljar.
17 Og niðdimm þokan táknar freistingar djöfulsins, sem blinda augu og herða hjörtu mannanna barna og leiða þau út á breiða vegu, svo að þau farist og séu glötuð.
18 Og hin mikla, rúmgóða bygging, sem faðir þinn sá, táknar hégómlega ímyndun og dramb mannanna barna. Og mikið og skelfilegt hyldýpi skilur þau að, já, jafnvel orð réttvísi hins eilífa Guðs og Messíasar, en hann er það Guðslamb, sem heilagur andi ber vitni um, frá upphafi veraldar til líðandi stundar og frá líðandi stundu og að eilífu.
19 Og meðan engillinn mælti þessi orð, bæði sá ég og greindi, að niðjar bræðra minna áttu í deilum við niðja mína í samræmi við orð engilsins. Og vegna dramblætis niðja minna og freistinga djöfulsins sá ég niðja bræðra minna bera niðja mína ofurliði.
20 Og svo bar við, að ég leit upp og sá, að fólk af ættstofni bræðra minna hafði yfirbugað niðja mína og lifði fjölmennt áfram á jörðunni.
21 Og ég sá þá safnast saman í fjölmenna hópa. Og ég sá hernað og ófriðartíðindi meðal þeirra, og í hernaði og ófriðartíðindum sá ég marga ættliði líða undir lok.
22 Og engillinn sagði við mig: Sjá. Þessu fólki mun hnigna í vantrú.
23 Og svo bar við, að þegar því hafði hnignað í vantrú, sá ég það verða að dökku, viðbjóðslegu og óhreinu fólki, sem fylltist leti og annarri viðurstyggð.