7. Kapítuli
Synir Lehís snúa aftur til Jerúsalem og bjóða Ísmael og heimilisfólki hans að slást í för með sér — Laman og fleiri gera uppreisn — Nefí hvetur bræður sína til að trúa á Drottin — Þeir hneppa hann í bönd og áforma tortímingu hans — Kraftur trúarinnar bjargar honum — Bræður hans biðja hann fyrirgefningar — Lehí og fylgdarlið hans færa fórnir og brennifórnir. Um 600–592 f.Kr.
1 Og nú vil ég, að þið vitið, að svo bar við, að loknum spádómum föður míns, Lehís, fyrir niðjum sínum, að Drottinn talaði til hans enn á ný og kvað það ekki rétt, að hann, Lehí, færi aðeins með fjölskyldu sína út í óbyggðirnar, heldur skyldu synir hans taka sér dætur að eiginkonum, svo að þeir gætu alið upp niðja fyrir Drottin í fyrirheitna landinu.
2 Og svo bar við, að Drottinn bauð honum að ég, Nefí, og bræður mínir skyldum hverfa til lands Jerúsalem enn á ný og hafa Ísmael og fjölskyldu hans með okkur út í óbyggðirnar.
3 Og svo bar við, að ég, Nefí, hélt aftur af stað ásamt bræðrum mínum út í óbyggðirnar, upp til Jerúsalem.
4 Og svo bar við, að við héldum til heimkynna Ísmaels, unnum hylli hans og fluttum honum því orð Drottins.
5 Og svo bar við, að Drottinn mildaði hjarta Ísmaels og einnig heimilisfólks hans, svo að þau slógust öll í för með okkur, og við héldum niður í óbyggðirnar til tjalds föður okkar.
6 Og svo bar við, sjá, að á leið okkar í óbyggðunum risu Laman og Lemúel, tvær dætra Ísmaels og tveir synir Ísmaels og fjölskyldur þeirra gegn okkur, já, gegn mér, Nefí, og Sam og föður sínum, Ísmael, konu hans og hinum dætrum hans þremur.
7 Og svo bar við, að tilgangur uppreisnarinnar var sá að hverfa aftur til lands Jerúsalem.
8 Þar sem ég var hryggur vegna þess hve harðbrjósta þau voru, mælti ég, Nefí, nú til þeirra, já, bæði til Lamans og Lemúels, og sagði: Sjá, þið eruð eldri bræður mínir, en hvernig má það vera, að þið eruð svo harðbrjósta og blindir í anda, að ég, yngri bróðir ykkar, verð að tala um fyrir ykkur, já, og veita ykkur fordæmi?
9 Hvernig má það vera, að þið hafið ekki farið að orðum Drottins?
10 Hvernig má það vera, að þið minnist þess ei, að hafa séð engil Drottins?
11 Já, og hvernig hafið þið mátt gleyma því mikla, sem Drottinn hefur fyrir okkur gjört með því að bjarga okkur úr höndum Labans og færa okkur umráð yfir heimildaskránum?
12 Já, og hvernig má það vera, að þið hafið gleymt því, að það er á Drottins valdi að gjöra allt það fyrir mannanna börn, sem hann vill, svo framarlega sem þau trúa á hann? Verum honum þess vegna trúir.
13 Og ef við erum honum trúir, mun fyrirheitna landið falla okkur í skaut. Og vita skuluð þið síðar meir, að orð Drottins um tortímingu Jerúsalem rætast, því að allt það, sem Drottinn hefur mælt um tortímingu Jerúsalem, hlýtur að koma fram.
14 Því að sjá. Andi Drottins hættir brátt að takast á við þá. Því að sjá. Spámönnunum hafa þeir hafnað og varpað Jeremía í fangelsi. Og þeir hafa sóst eftir lífi föður míns og þar með flæmt hann úr landi.
15 Sjá, ég segi ykkur nú, að hverfið þið aftur til Jerúsalem, munuð þið einnig farast með þeim. Og ef þið veljið það, farið þá upp til landsins, og minnist þeirra orða, sem ég tala til ykkar, að ef þið farið, þá munuð þið einnig farast, því að andi Drottins hvetur mig til að mæla svo.
16 Og svo bar við, að þegar ég, Nefí, hafði mælt þessi orð við bræður mína, þá reiddust þeir mér. Og svo bar við, að þeir lögðu á mig hendur, því að sjá, þeir voru ákaflega reiðir. Og þeir lögðu mig í bönd, því að ætlun þeirra var að fyrirkoma mér og skilja mig eftir í óbyggðunum og láta mig verða villidýrum að bráð.
17 En svo bar við, að ég tók að biðja til Drottins og mælti: Ó Drottinn, bjarga mér úr höndum bræðra minna vegna trúar minnar á þig, já, gef mér jafnvel kraft til að slíta af mér böndin, sem ég er fjötraður.
18 Og sjá. Svo bar við, að þegar ég hafði mælt þessi orð, losnuðu böndin af höndum mér og fótum, og ég stóð andspænis bræðrum mínum og talaði aftur til þeirra.
19 Og svo bar við, að þeir reiddust mér enn og reyndu að leggja á mig hendur. En sjá. Ein dætra Ísmaels, já, einnig móðir hennar og einn sona Ísmaels, tóku minn málstað við bræður mína nægilega til að milda hjörtu þeirra. Og þeir hættu að reyna að taka mig af lífi.
20 Og svo bar við, að þeir hryggðust vegna ranglætis síns og það svo mjög, að þeir krupu fyrir mér og báðu mig að fyrirgefa sér allt, sem þeir hefðu gjört mér á móti.
21 Og svo bar við, að ég fyrirgaf þeim fölskvalaust allt, sem þeir höfðu gjört, og hvatti þá til að biðja Drottin Guð sinn fyrirgefningar. Og svo fór, að þeir gjörðu svo. Og er þeir höfðu beðið til Drottins, lögðum við enn af stað og héldum til tjalds föður okkar.
22 Og svo bar við, að við komum niður til tjalds föður okkar. Og þegar ég, ásamt bræðrum mínum og öllu heimafólki Ísmaels, komum niður að tjaldi föður míns, fluttu þau Drottni Guði sínum þakkir og færðu honum bæði fórnir og brennifórnir.