Ritningar
2 Nefí 16


16. Kapítuli

Jesaja sér Drottin — Syndir Jesaja fyrirgefnar — Hann er kallaður til að spá — Hann spáir því að Gyðingar hafni kenningum Krists — Leifarnar munu snúa aftur — Samanber Jesaja 6. Um 559–545 f.Kr.

1 Árið, sem Ússía konungur andaðist, sá ég einnig Drottin sitja á veldisstóli, og hann var hár og gnæfandi, og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn.

2 Yfir honum stóðu serafarnir og hafði hver þeirra sex vængi; með tveimur huldu þeir ásjónur sínar, með tveimur huldu þeir fætur sína, en með tveimur flugu þeir.

3 Og þeir kölluðu hver til annars og sögðu: Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn hersveitanna. Öll jörðin er full af hans dýrð.

4 Og við raust þeirra skulfu dyrastafirnir, og húsið varð fullt af reyk.

5 Þá sagði ég: Vei mér! Það er úti um mig, því að ég er maður með óhreinar varir og bý meðal fólks með óhreinar varir, því að augu mín hafa séð konunginn, Drottin hersveitanna.

6 Einn serafanna flaug þá til mín og hélt á glóandi koli, sem hann hafði tekið af altarinu með töng -

7 Og hann lagði það að vörum mér og sagði: Sjá, þetta hefur snortið varir þínar, misgjörð þín er burtu tekin og synd þín afplánuð.

8 Og ég heyrði einnig rödd Drottins, og hann sagði: Hvern á ég að senda? Hver vill vera erindreki vor? Þá sagði ég: Hér er ég, send þú mig.

9 Og hann sagði: Far og seg þessu fólki: Hlýðið gaumgæfilega, en það skildi þó ekki. Horfið á vandlega, en það varð einskis vísara.

10 Gjör þú hjarta þessa fólks tilfinningalaust, sljóvga heyrn þess og ljúk aftur augum þess, nema það sjái með augum sínum, heyri með eyrum sínum og skilji með hjarta sínu og snúist og læknist.

11 Þá spurði ég: Hversu lengi, Drottinn? Hann svaraði: Þar til borgirnar standa í eyði óbyggðar og húsin mannlaus og landið verður gjöreytt —

12 Og Drottinn hefur rekið fólkið langt í burtu, því að eyðistaðirnir skulu margir í miðju landinu.

13 En samt mun tíundi hluti þeirra eftir, og þeir munu snúa aftur, og af þeim verður etið eins og af linditrénu og eikinni, sem halda merg sínum óskertum, þegar þau fella lauf. Þannig mun og hið heilaga sæði verða mergur þeirra.

      • Þ.E. um 750 f.Kr.

      • Þ.E. faldur eða laf klæðisins.

      • HEB undirstaða þröskuldanna titraði.

      • HEB afskorinn; þ.e., vitundin um eigin syndir og syndir þjóðar hans var yfirþyrmandi.

      • Þ.E. tákn um hreinsun.

      • Þ.E. Eins og tré, þótt lauf þess sé fokið út í veður og vind er enn í því líf og frjómagn.