Ritningar
2 Nefí 23


23. Kapítuli

Tortíming Babýlonar er dæmigerð um tortíminguna við síðari komuna — Það verður dagur brennandi reiði og refsingar — Babýlon mun að eilífu fallin — Samanber Jesaja 13. Um 559–545 f.Kr.

1 Spádómur um Babýlon, er vitraðist Jesaja Amozsyni.

2 Reisið merki á fjallinu háa. Kallið hárri röddu til þeirra. Takið í hönd þeirra, svo að þeir fari inn um hlið hinna eðalbornu.

3 Ég hef gefið vígðum liðsmönnum mínum fyrirmæli og kallað á kappa mína, því að reiði mín nær ekki til þeirra, sem finna fögnuð í hátign minni.

4 Heyr þysinn á fjöllunum eins og af mannmergð. Heyr gnýinn af hinum samansöfnuðu þjóðum. Drottinn hersveitanna er að kanna orrustuliðið.

5 Þeir koma frá fjarlægu landi, frá himins enda, já, Drottinn og vopn réttmætrar reiði hans til að tortíma gjörvallri jörðinni.

6 Kveinið, því að dagur Drottins er nálægur. Hann kemur sem tortíming frá hinum almáttuga.

7 Þess vegna verða allar hendur lémagna og sérhvert mannshjarta bráðnar —

8 Þeir skelfast, harmkvæli og þrautir gagntaka þá, angistarfullir stara þeir hver á annan og andlit þeirra verða sem eldslogi.

9 Sjá, dagur Drottins kemur, grimmilegur, með heilagri og brennandi reiði til að gjöra jörðina að auðn og afmá syndarana af henni.

10 Því að stjörnur himinsins og stjörnumerkin láta eigi ljós sitt skína. Sólin er myrk í risu sinni og tunglið ber eigi birtu sína.

11 Og ég mun hegna jarðríki fyrir illsku sína og hinum ranglátu fyrir misgjörðir sínar. Ég mun lækka rostann í hinum dramblátu og lægja hroka hinna skelfilegu.

12 Ég mun gjöra manninn dýrmætari en skíragull, jafnvel torgætari en Ofírgull.

13 Og á degi hans heilögu reiði mun ég skaka himininn, og jörðin skal hrærast úr stað sínum fyrir brennandi reiði Drottins hersveitanna.

14 Eins og fældar skógargeitur og eins og hjörð án hirðis skal hver maður leita aftur til þjóðar sinnar og hver flýja heim í land sitt.

15 Og hver sá, sem dramblátur reynist, mun lagður í gegn, og hver sá, sem leggur hinum ranglátu lið, mun falla fyrir sverði.

16 Og ungbörnum þeirra mun verða slegið við stein fyrir augum þeirra, hús þeirra verða rænd og konur þeirra smánaðar.

17 Sjá, ég æsi upp Medíumenn gegn þeim, sem meta eigi silfur og gull, né hafa yndi af því.

18 Bogar þeirra munu og tæta unga menn í sundur; og þeir þyrma ekki lífsafkvæmum. Þeir líta ekki miskunnaraugum til barna.

19 Svo skal fara fyrir Babýlon, þessari prýði konungsríkjanna og drembidjásni Kaldverja, sem þá er Guð umturnaði Sódómu og Gómorru.

20 Hún skal aldrei framar verða byggð mönnum. Kynslóð eftir kynslóð skal þar enginn búa. Enginn Arabi skal reisa þar tjöld sín né nokkrir hjarðmenn bæla þar fénað sinn.

21 En villidýr eyðimerkurinnar skulu liggja þar og hús þeirra fyllast af ömurlegum skepnum. Og uglur munu dveljast þar og skógartröll stíga þar dans.

22 Og villidýr eyjanna munu ýlfra í yfirgefnum húsum þeirra og drekar í lystihöllum. Og tími hennar nálgast og dagar hennar munu eigi undan dragast. Því að ég mun tortíma henni fljótt. Já, ég mun sýna lýð mínum miskunn, en hinir ranglátu munu farast.