15. Kapítuli
Drottinn agar Nefíta vegna þess að hann elskar þá — Lamanítar sem snúast til trúar eru ákveðnir og staðfastir í trú sinni — Drottinn verður Lamanítum miskunnsamur á síðari dögum. Um 6 f.Kr.
1 Og sjá, ástkæru bræður mínir. Ég segi yður, að ef þér iðrist ekki, munu hús yðar leggjast í auðn.
2 Já, ef þér iðrist ekki, munu konur yðar hafa ærna ástæðu til að hryggjast á þeim degi, sem þær hafa börn sín á brjósti, því að þér munuð reyna að flýja en ekkert hæli finna. Já, og vei sé þeim, sem barnshafandi eru, því að þær verða þungar á sér og geta ekki flúið. Þær verða því troðnar niður og skildar eftir og farast.
3 Já, vei sé þessari þjóð, sem nefnist Nefíþjóðin, ef hún iðrast ekki, þegar hún sér öll þessi tákn og undur, sem verða sýnd henni, því að sjá. Hún hefur verið útvalin þjóð Drottins. Já, Nefíþjóðina hefur hann elskað og hann hefur einnig agað hana. Já, á dögum misgjörða þjóðarinnar hefur hann agað hana, vegna þess að hann elskar hana.
4 En sjá, bræður mínir. Hann hefur fyrirlitið Lamaníta, vegna þess að breytni þeirra hefur stöðugt verið ill og það vegna syndsamlegra arfsagna feðra þeirra. En sjá. Hjálpræðið hefur borist þeim með prédikunum Nefíta, og þess vegna hefur Drottinn lengt daga þeirra.
5 Og ég vildi, að þér sæjuð, að meiri hluti þeirra fylgir vegi skyldunnar og gengur gætilega frammi fyrir Guði, og þeir gæta þess að halda boðorð hans, reglur og ákvæði, í samræmi við lögmál Móse.
6 Já, ég segi yður, að meiri hluti þeirra gjörir svo, og þeir kappkosta af óþreytandi elju að leiða aðra bræður sína til þekkingar á sannleikanum. Þess vegna bætist daglega við fjölda þeirra.
7 Og sjá. Þér vitið sjálfir, því að þér hafið orðið vitni að því, að jafn margir þeirra og leiddir hafa verið til vitneskju um sannleikann og um ranglátar og viðurstyggilegar arfsagnir feðra sinna og hafa verið leiddir til trúar á heilagar ritningar, já, spádóma hinna heilögu spámanna, sem skráðir eru og sem leiða þá til trúar á Drottin og til iðrunar, þeirrar trúar og iðrunar, sem umbreytir hjörtum þeirra —
8 Þér vitið þess vegna sjálfir, að þeir sem svo langt komast, eru ákveðnir og staðfastir í trúnni og því, sem gjört hefur þá frjálsa.
9 Og þér vitið einnig, að þeir hafa grafið stríðsvopn sín og þeir óttast að syndga, ef þeir taka þau upp aftur. Já, þér getið séð, að þeir óttast að syndga — því að sjá, þeir vilja heldur leyfa óvinum sínum að troða á sér og drepa sig og vilja ekki lyfta sverðum sínum gegn þeim, og það vegna trúar sinnar á Krist.
10 Og vegna staðfestu sinnar í því, sem þeir nú trúa á, og vegna staðfestu sinnar, þegar eitt sinn er búið að upplýsa þá, sjá, þá mun Drottinn blessa þá og lengja daga þeirra, þrátt fyrir misgjörðir þeirra —
11 Já, jafnvel þótt þeim hnigni í vantrú, mun Drottinn lengja daga þeirra, þar til sá tími kemur, er feður vorir hafa talað um, og einnig spámaðurinn Senos og margir aðrir spámenn, um endurreisn bræðra vorra, Lamanítanna, til þekkingar á sannleikanum —
12 Já, ég segi yður, að á síðari tímum munu fyrirheit Drottins ná til bræðra vorra, Lamaníta, og þrátt fyrir miklar þrengingar þeirra, þrátt fyrir að þeir verði hraktir fram og aftur um yfirborð jarðar, eltir, drepnir og þeim tvístrað, og þeir eigi hvergi athvarf, þá mun Drottinn verða þeim miskunnsamur.
13 Og samkvæmt spádóminum munu þeir á ný leiddir til sannrar þekkingar, þekkingar á lausnara sínum og hinum mikla og sanna hirði og teljast meðal sauða hans.
14 Þess vegna segi ég yður, bærilegar verður þeim en yður, ef þér iðrist ekki.
15 Því að sjá. Hefði þeim verið sýnd slík máttarverk sem yður hafa verið sýnd, já, þeim, sem hnignað hefur í vantrú vegna arfsagna feðra sinna, þá getið þér sjálfir séð, að þeim hefði aldrei aftur hnignað í vantrú.
16 Þess vegna segir Drottinn: Ég mun ekki með öllu tortíma þeim, heldur snúa þeim á ný til mín á viskudegi mínum, segir Drottinn.
17 Og sjá nú, segir Drottinn um Nefíþjóðina. Ef þeir hvorki iðrast né gæta þess að fara að vilja mínum, þá mun ég tortíma þeim gjörsamlega vegna vantrúar þeirra, segir Drottinn, þrátt fyrir hin mörgu máttarverk, sem ég hef unnið meðal þeirra. Og svo sannarlega sem Drottinn lifir, mun þetta koma fram, segir Drottinn.