Ritningar
Helaman 4


4. Kapítuli

Fráhverfingar meðal Nefíta sameinast Lamanítum og ná Sarahemla á sitt vald — Ósigur Nefíta er afleiðing ranglætis þeirra — Kirkjan lamast, og fólkið verður máttvana líkt og Lamanítar. Um 38–30 f.Kr.

1 Og svo bar við, að á fimmtugasta og fjórða ári var mikil sundrung í kirkjunni og einnig svo miklar deilur meðal manna, að það leiddi til mikilla blóðsúthellinga.

2 En uppreisnarmennirnir voru drepnir eða reknir úr landi, og þeir gengu konungi Lamaníta á hönd.

3 Og svo bar við, að þeir reyndu að egna Lamaníta til styrjaldar gegn Nefítum. En sjá. Lamanítar voru svo hræddir, að þeir vildu ekki hlusta á orð þessara fráhverfinga.

4 En svo bar við, að á fimmtugasta og sjötta stjórnarári dómaranna yfirgáfu nokkrir fráhverfingar Nefíta og fóru til Lamaníta. Og þeim tókst ásamt hinum að egna þá til reiði gegn Nefítum. Og allt það ár bjuggu þeir sig undir styrjöld.

5 Og á fimmtugasta og sjöunda ári réðust þeir gegn Nefítum og hófu eyðingarstarf sitt, já slíkt, að á fimmtugasta og áttunda stjórnarári dómaranna tókst þeim að leggja Sarahemlaland undir sig, já, og einnig öll lönd allt að landinu, sem næst var Nægtarbrunni.

6 Og Nefítar og herir Morónía voru hraktir inn í land Nægtarbrunns —

7 En þar víggirtu þeir sig gegn Lamanítum, frá vestursjónum og allt til austurs. Það var ein dagleið fyrir Nefíta eftir þeirri línu, sem þeir víggirtu og settu heri sína til varnar landi sínu í norðri.

8 Og þannig höfðu þessir fráhverfingar Nefíta með hjálp fjölmenns hers Lamaníta náð undir sig öllum landsvæðum Nefíta í suðurhluta landsins. Og allt þetta gjörðist á fimmtugasta og áttunda og níunda stjórnarári dómaranna.

9 Og svo bar við, að á sextugasta stjórnarári dómaranna tókst Morónía ásamt herjum sínum að ná mörgum landshlutum. Já, þeir unnu aftur margar borgir, sem fallið höfðu í hendur Lamanítum.

10 Og svo bar við, að á sextugasta og fyrsta stjórnarári dómaranna tókst þeim að ná aftur helmingi landsvæða sinna.

11 En Nefítar hefðu ekki orðið fyrir þessu mikla tapi og því mikla mannfalli, sem varð meðal þeirra, ef ekki hefði verið vegna ranglætisins og viðurstyggðarinnar, sem meðal þeirra var, já, einnig meðal þeirra, sem töldu sig til kirkju Guðs.

12 Og það var vegna drambsins í hjörtum þeirra yfir sínum miklu auðæfum. Já, það var vegna þess, að þeir kúguðu hina fátæku, en þeir héldu mat sínum frá hinum hungruðu, héldu klæðum sínum frá hinum nöktu og lustu hina auðmjúku kinnhest, drógu dár að því, sem heilagt var, afneituðu anda spádóms og opinberunar, myrtu, rændu, lugu, stálu, drýgðu hór, vöktu miklar deilur og sneru til Nefílands til Lamaníta —

13 Og vegna þessa mikla ranglætis þeirra og vegna þess að þeir hældust um af eigin mætti, voru þeir upp á sinn eigin styrk komnir. Þess vegna vegnaði þeim ekki vel, heldur þrengdu Lamanítar að þeim, lustu þá og hröktu, þar til þeir höfðu glatað eignarhaldi á nærri öllu landi sínu.

14 En sjá. Morónía prédikaði margt fyrir fólkinu vegna misgjörða þess, og Nefí og Lehí, sem voru synir Helamans, prédikuðu einnig margt fyrir fólkinu. Já, þeir spáðu mörgu varðandi misgjörðir fólksins og hvað biði þess, ef það iðraðist ekki synda sinna.

15 Og svo bar við, að fólkið iðraðist, og sem það iðraðist, svo tók því að vegna vel.

16 Því að þegar Morónía sá, að fólkið iðraðist, vogaði hann sér að leiða það stað úr stað og borg úr borg, þar til það hafði endurheimt helming eigna sinna og helming allra landa sinna.

17 Og þannig lauk sextugasta og fyrsta stjórnarári dómaranna.

18 Og svo bar við, að á sextugasta og öðru stjórnarári dómaranna tókst Morónía ekki að endurheimta fleiri lönd af Lamanítum.

19 Þess vegna létu þeir af því áformi sínu að ná því, sem eftir var af löndum sínum, því að svo mikill var fjöldi Lamaníta, að útilokað var fyrir Nefíta að ná frekara valdi yfir þeim. Þess vegna setti Morónía alla heri sína til varnar þeim landshlutum, sem hann hafði tekið.

20 Og svo bar við, að vegna þess hve Lamanítar voru fjölmennir, voru Nefítar haldnir miklum ótta um, að þeir yrðu sigraðir, troðnir niður og drepnir og þeim tortímt.

21 Já, þeir tóku að minnast spádóma Alma og einnig orða Mósía. Og þeir sáu, að þeir höfðu verið þrjóskufullir og haft boðorð Guðs að engu —

22 Og þeir sáu, að þeir höfðu breytt lögum Mósía og troðið undir fótum sér þau lög, sem Drottinn hafði boðið honum að færa lýðnum. Og þeir sáu, að lög þeirra voru spillt orðin og þeir orðnir ranglátir, jafnvel svo ranglátir, að þeir líktust Lamanítum.

23 Og vegna misgjörða þeirra tók kirkjunni að hnigna, og að þeim sótti efi um spádómsandann og anda opinberunar. Og dómar Guðs blöstu við þeim.

24 Og þeir sáu, að þeir voru orðnir máttvana, líkt og bræður þeirra, Lamanítar, og að andi Drottins varðveitti þá ekki lengur. Já, hann hafði dregið sig í hlé frá þeim, vegna þess að andi Drottins dvelur ekki í vanhelgum musterum —

25 Þess vegna hætti Drottinn að vernda þá með undursamlegum og óviðjafnanlegum krafti sínum, því að þeir voru orðnir trúlausir og hörmulega ranglátir. Og þeir sáu, að Lamanítar voru miklu fjölmennari en þeir og að ef þeir héldu ekki fast við Drottin Guð sinn, hlytu þeir óhjákvæmilega að farast.

26 Því að sjá. Þeir sáu, að styrkur Lamaníta var eins mikill og þeirra eigin styrkur, jafnvel maður á móti manni. Og þannig höfðu þeir brotið stórlega af sér. Já, vegna lögmálsbrota sinna voru þeir þannig á fáum árum orðnir máttvana.