Ritningar
Myndeftirlíking 2


Myndeftirlíking úr Bók Abrahams

Nr. 2

Myndeftirlíking 2

Skýringar

Atr. 1. Kólob, merkir frumsköpunin, næst því himneska eða bústaði Guðs. Fremst í stjórn en síðust í tímatali. Tímatalið er samkvæmt himneskum tíma, en einn dagur að himneskum tíma merkir eina alin. Einn dagur á Kólob samsvarar þúsund árum að jarðnesku tímatali, sem Egyptar nefna Jah-oh-eh.

Atr. 2. Stendur næst Kólob og Egyptar nefna Oliblis og er næstæðsta ráðandi sköpunin í grennd við hið himneska eða bústað Guðs. Hún hefur einnig lykilvald varðandi aðrar plánetur, samkvæmt því sem Guð opinberaði Abraham, þegar hann færði fram fórn á altarinu, sem hann hafði reist Drottni.

Atr. 3. Er ætlað að sýna Guð í hásæti sínu, íklæddan krafti og valdi, með kórónu eilífs ljóss á höfði sér. Sýnir einnig hin miklu lykilorð hins heilaga prestdæmis, eins og þau voru opinberuð Adam í aldingarðinum Eden sem og Set, Nóa, Melkísedek, Abraham og öllum þeim, sem prestdæmið var opinberað.

Atr. 4. Samsvarar hebreska orðinu Raukeeyang, sem merkir víðátta eða festing himna. Einnig tala, sem á egypsku merkir eitt þúsund og samsvarar tímatali Oliblis, sem er hið sama og snúningur og tímatal Kólobs.

Atr. 5. Nefnist á egypsku Enish-go-on-dosh. Þetta er einnig ein hinna ráðandi reikistjarna og Egyptar segja að sé sólin, sem fái birtu sína frá Kólob fyrir tilstilli Kae-e-vanras, sem er lykillinn mikli, eða með öðrum orðum, hinn ráðandi kraftur, sem stjórnar fimmtán öðrum föstum plánetum eða stjörnum, sem og Floeese eða tunglinu, jörðunni og sólinni í árlegum snúningi þeirra. Þessi pláneta fær kraft sinn fyrir tilstilli Kli-flos-is-es, eða Hah-kó-ká-bím, stjarnanna, sem sýndar eru með tölunum 22 og 23, fá birtu sína frá snúningi Kólobs.

Atr. 6. Sýnir fjórðunga jarðarinnar.

Atr. 7. Sýnir Guð í hásæti sínu að opinbera gegnum himnana hin miklu lykilorð prestdæmisins. Ennfremur opinberar hann Abraham tákn heilags anda í dúfulíki.

Atr. 8. Áletrun, sem ekki má opinbera heiminum, en höfð skal í hinu heilaga musteri Guðs.

Atr. 9. Á ekki að opinberast á þessum tíma.

Atr. 10. Sama.

Atr. 11. Sama. Geti heimurinn ráðið í þessar tölur, þá verði svo. Amen.

Atriði 12, 13, 14, 15, 16, 17, 18, 19, 20 og 21 mun Drottinn útskýra á sínum tíma.

Ofangreind þýðing er gefin eins og við höfum rétt til að gefa hana á þessum tíma.