Hin fullkomna gjöf
Ár eitt, um þremur dögum fyrir jól í æsku hans, stóð eiginmaður minn, Rob, tvær eldri systur sínar að því að taka utan af tveimur jólagjöfum þeirra. Þegar þær voru svo búnar að kíkja í pakkana, pökkuðu þær þeim inn aftur. Systur Robs sögðu við hann: „Ef þú segir mömmu ekki frá þessu, skulum við sýna þér hvernig þetta er gert.“
Hann lét að lokum freistast, sérstaklega vegna þess að það var pakki á stærð við körfubolta undir jólatrénu, sem var merkur honum.
Honum fannst þó pakkinn óvenju léttur þegar hann bar hann laumulega upp í herbergið sitt. Hann opnaði hann varlega og uppgötvaði að hann var tómur, nema hvað það var miði í honum. Á miðanum stóð: „Ég veit hvað þú ert að gera. Ekki spilla jólunum þínum. Knús, mamma.“ Hann lærði sína lexíu og þar með lauk hinu stórtæka uppátæki að kíkja í jólapakkana.
Hugleiðið minningar ykkar um jólin, fallegu skreytingarnar, englasönginn og ógleymanlega ilminn. Enn ljúfari eru þó hinar hjartnæmu æskuminningar margra okkar um heilagleika jólanna – fæðingarhátíðar frelsara okkar. Þessar helgu tilfinningar hverfa aldrei frá okkur.
Þær vakna í hvert sinn sem við hugsum um litlu jötuna í Betlehem, þar sem svo margir spádómar aldanna uppfylltust undir stjörnubjörtum himninum – þar sem frelsari okkar og lausnari kom í heiminn sem konungur konunganna og Drottinn drottnanna.
Oft heyrum við að jólin séu fyrir börnin, en erum við ekki öll börn í hjarta? Dag einn voru móðir og níu ára dóttir hennar önnum kafnar við jólainnkaupin. Á hraðferð í gegnum skartgripadeild stórverslunar tók dóttirin eftir stórum auglýsingaborða sem hékk yfir sýningarskáp. Á borðanum stóð stórum rauðum stöfum: „Gjöfin sem aldrei missir gildi sitt.“
Dóttirin las orð borðans, hugleiddi þau eitt augnablik og brosti síðan. Hreykin sagði hún við móður sína: „Mamma, ég veit hvaða gjöf það er sem aldrei missir gildi sitt.“
„Nú, hver er hún?“ spurði móðir hennar, er þær flýttu sér í gegnum mannþröngina.
Dóttirin mælti sakleysislega: „Það er Jesús!“
Móðir hennar svaraði ranglega: „Nei elskan. Það eru demantar.“
Jesaja minnir okkur á: „Smásveinn mun gæta þeirra.“1
Þegar ég notaði eina leitarvél Alnetsins, fann ég mörg þúsund hluti auglýsta með orðtakinu „Gjöfin sem aldrei missir gildi sitt.“ Hvað sem við reynum, þá finnum við engar efnislegar gjafir, sem við gefum, er endast að eilífu.
Leyfið mér aftur á móti að segja ykkur frá einni ljúfri jólaminningu af tveimur einstaklingum sem ég trúi að hafi ávallt verið mjög örlátir. Það voru foreldrar mínir, Aldo og Eleanor Harmon.
Snjóþungur vetur var í litla bænum okkar þetta árið, en það kom ekki í veg fyrir að pabbi færi með okkur í leit að hinu fullkomna jólatré. Loks, þegar tréð var komið heim og í trjáfótinn, voru jólakúlurnar, englaskrautið og glimmerið sett á tréð af kærleika. Fátæklegt heimilið okkar var formlega tilbúið fyrir jólin.
Leikafanga-vörulistarnir komu með pósti og við systkinin flettum síðunum og óskuðum okkur jólafjársjóðs. Ilmurinn af piparkökum og jólakökum fyllti heimili okkar og desember leið hægt áfram á jóladagatalinu. Við skildum óvænta glaðninga eftir á tröppunum hjá nágrönnunum og reyndum að þjóna fjölskyldum sem höfðu þörf fyrir smá jólaglaðning.
Á hverju kvöldi, eftir að ég fór að sofa, varði móðir mín miklum tíma einsömul í lokuðu herbergi sínu. Það eina sem ég heyrði var suðið í saumavélinni hennar. Hún saumað hvort eð er svo mikið af fötum á okkar að ég hugsaði ekki mikið um það.
Þegar dró nær jólum, var móðir mín hinsvegar úrvinda. Hún lá veik uppi í rúmi á aðfangadag. Þegar læknirinn sagði föður mínum að hún yrði að vera hið minnsta viku rúmliggjandi, varð ég áhyggjufull – en einnig mjög vonsvikin. Hvernig gátu jólin verið án mömmu? Hvernig væri þá hægt að upplifa jól? Hver átti auk þess að elda jólamatinn?
Þegar faðir minn hugsaði ástúðlega um mömmu, áttaði hann sig á að það félli í hans hlut að elda jólamatinn. Enn og aftur hafði ég áhyggjur! Þótt hann væri vitur og hæfileikaríkur maður, þá var eldamennska ekki ein af hans sterku hliðum.
Á aðfangadagsmorgun kraup ég og bað þess að móðir mín læknaðist fyrir kraftaverk og að jóladagsmorgun yrði eins og hann hafði alltaf verið – fjölskyldan saman komin umhverfis jólatréð. Á jóladagsmorgni fylltumst við vonbrigðum þegar elskuleg móðir okkar lá enn mjög veik í rúminu. Þegar við opnuðum gjafirnar, var ég undrandi yfir að komast að því að í mínum pakka voru handgerð brúðuföt sem móðir mín hafði saumað fyrir mig þessi desemberkvöld. Ég gat ekki beðið eftir að hlaupa til hennar og vefja örmum mínum um háls hennar. Hve hún hafði fórnað sér fyrir mig.
Elsku pabbi reyndi á allan mögulegan hátt að gera jóladag þess árs eðlilegan fyrir okkur, eins eðlilegan og framast var unt án mömmu. Honum tókst það. Að loknum okkar einfalda kvöldmat, sofnaði minn kæri pabbi í stólnum við arninn, á meðan ég lék mér við systkini mín og brúðuna mína og nýju fötin hennar. Móðir mín kæra náði sér eftir mikla hvíld og allt varð gott aftur. Foreldrar mínir voru mér sú lífsins gjöf sem aldrei missti gildi sitt.
Hugleiðum þessi orð eitt augnablik. Væri sú gjöf sem aldrei missti gildi sitt ekki hin fullkomna gjöf? Í fyrsta lagi, þá myndi hin fullkomna gjöf segja eitthvað um þann sem gefur gjöfina. Í öðru lagi, þá myndi hún endurspegla eitthvað varðandi þarfir þess sem fékk gjöfina. Að lokum myndi gjöfin, ef hún væri raunverulega hin fullkomna gjöf, halda verðgildi sínu, ekki aðeins um tíma heldur eilífð.
Uppfyllir ástkær frelsari okkar, já, frelsari alls heimsins, ekki þessar kröfur? Segir gjöf fæðingar Jesú Krists, þjónusta og friðþægingarfórn eitthvað um gefanda gjafarinnar? Vissulega. „Því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn.“2 Faðir okkar á himnum fórnaði syni sínum af hreinni ást til okkar, barna hans.
Sýnir gjöf Jesú Krists að himneskur faðir okkar vissi nákvæmlega hvers við þörfnuðumst? Aftur, afdráttarlaust, já! Við erum fallin að eðlisfari og við þörfnumst sárlega frelsara og lausnara. Eins og Nefí kenndi okkur, þá gerir Jesús Kristur „aðeins það, sem heiminum er til góðs, því að svo elskar hann heiminn.“3
Lokaskilyrðið fyrir hinni fullkomnu gjöf? Hún verður að halda verðgildi sínu að eilífu. Mormónsbók segir greinilega að friðþæging Jesú Krists sé algjör og eilíf.4
Munið þið eftir auglýsingaborðanum í skartgripadeildinni? Litla telpan vissi ósjálfrátt hver hin sanna gjöf var. Í þessum myrka heimi, leitum við ljóss heimsins handan skartgripa. Frelsarinn kenndi sjálfur:
„Haldið því ljósi yðar á loft, til að það lýsi heiminum. Ég er ljósið, sem þér skuluð halda á loft.“5
„Ég er ljósið sem skín í myrkrinu.“6
Ég ber vitni um að Jesús Kristur er hin fullkomna gjöf – gjöfin sem aldrei missir gildi sitt. Megum við öll varðveita þann sannleika í hjörtum okkar þessi jól og um eilífð. Hann lifir. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.