Jólasamkomur
Sjá jólin skýrum augum


Sjá jólin skýrum augum

Ég hef unun af þessum árstíma, þegar við komum saman sem fjölskyldur og ástvinir, til að fagna fæðingu frelsara okkar, Jesú Krists, og færa þakkir fyrir líf hans og óendanlega friðþægingu. Ég hrífst af því ótalmarga umhverfis sem minnir á þennan sérstaka tíma og upplifi enn spenning og tilhlökkun æskuáranna, hvort sem jólin voru haldin í hinu kalda Englandi eða hinni brennheitu Arabíu.

Líklega eins og margir aðrir, glímdi ég við jólaljósin í síðustu viku og reyndi að finna einu peruna sem olli því að slokknaði á öllum hinum perum jólaseríunnar. Þegar ljósaperan fannst loks og önnur var sett í staðinn, kviknuðu öll ljósin og léttir og gleði vöknuðu sem hljótast af minniháttar sigrum.

Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri á aðventu jólanna, er að sitja við jólatréð, með öll önnur ljós slökkt, og horfa á tréð pírðum augum, þakið hinum hvítu, litlu ljósum, svo birtan dofni. Þegar ég píri augun, mildast og magnast ljósgeislar hverrar peru og endurkastast af hinu rauðglitrandi jólaglingri. Áhrifin verða töfrandi. Oft er jólasöngur hafður í forgrunni, þar sem sungið er: „Fagna þú veröld, fagna hátt, því frelsarinn borinn er“1 og „lát sérhvert hjarta hýsa hann, vorn himinborna konungsmann.“2

Þegar ég horfi þannig á ljósin á trénu verða skýr og óskýr á víxl, varð mér hugsað um hið guðlega hlutverk frelsara okkar, sem við sjáum skýrum augum á slíkum hljóðum stundum. Hann sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“3 Ég hugsa um hina helgu nótt fæðingar hans og fyllist þakklæti fyrir gjöf gleði, vonar og kærleika, sem faðirinn gaf með því að senda eingetinn son sinn til jarðar.4

Slíkar hljóðar íhugunarstundir gætu verið alltof fáar í ysi og þysi aðventunnar. Í desember eru veislur og hljómleikar, mót og gjafir. Dagskráin verður þétt og stundum hlöðum við svo miklu á okkur sjálf að gleði jólanna verður minni en ekki meiri.

Þessi orð Nelsons forseta vega því þungt: „Gleðin sem við finnum hefur lítið að gera með okkar lífsins aðstæður, en þess meira með það sem við einblínum á í lífinu. Þegar við einblínum á sáluhjálparáætlun Guðs … og Jesú Krist og fagnaðarerindi hans, þá getum við fundið gleði, þrátt fyrir það sem gerist – eða gerist ekki – í lífi okkar. Gleðin á rætur í honum og er sökum hans. Hann er uppspretta allrar gleði.“5

Á þessum tíma er tilvalið fyrir okkur að íhuga á hvað við einblínum. Hvers væntið þið af þessari jólatíð? Hvað þráið þið einlæglega fyrir ykkur sjálf og ástvini ykkar, er þið komið saman á þessum allra helgasta degi?

Tvær og hálf vika eru nú til jóla. Íhugið dagskrá ykkar fram að þeim tíma. Þið gætuð verið hlaðin of mörgum skyldum og öllu því sem koma þarf í verk. Er dagskrá ykkar of þétt? Eru ákveðnar hefðir og skyldur sem valda óþarfa álagi og streitu og standa í vegi þess að þið fáið fagnað og endurspeglað fæðingu Krists? Hvernig gætuð þið einfaldað dagskrá þessara jóla og ráðgert betur þau næstu?

Við þurfum að gæta þess að verða ekki svo önnum kafin og úrvinda af því að reyna að gera sem mest, að við missum af jólunum og getum ekki, í óeiginlegri merkingu, kropið við jötuna, vegsamað hinn nýfædda konung og fært honum okkar persónulegu gjöf.

Ungu mæður, og við öll, eruð þið úrvinda? Á hvað einblínið þið? Ef til vill gætuð þið sleppt því að senda jólakortin þetta árið eða látið af miðla-innblásnum væntingum til ykkar sjálfra. Gjaldið, hvort heldur í tíma eða peningum, dregur úr getu ykkar til að einblína á frelsarann og finna fyrir jólagleði hans.

Ungu feður, og við öll hin, á hvað einblínið þið? Ef til vill gætu jólin verið einföld þetta árið, með fleiri heimagerðum gjöfum og gjöfum þjónustu, vegna þess að álagið er of mikið og gjaldið of hátt við að kaup þær – og óþarft – og það dregur úr getu ykkar til að einblína á frelsarann og finna jólafriðinn hans.

Musterisþjónusta á jólatíma getur verið einkar gefandi. Musterið skerpir sýn okkar, eykur gleði okkar og sameinar fjölskyldur hér og hinumegin hulunnar. Íhugið musterisþjónustu í stað annars atburðar, sem ekki uppfyllir þá þrá ykkar að njóta jólafriðar. Þessar helgiathafnir – friðurinn og prestdæmiskrafturinn sem þær veita þeim sem virða þær – eru aðeins mögulegar vegna hins eingetna sonar föðurins, þess „lambs sem slátrað var frá grundvöllun veraldar,“6 hvers fæðingar við fögnum nú.

Á aðventu þessara jóla skulum við gera meira af því sem er mikilvægt og minna af því sem er það ekki. Við skulum reyna að vinna verk Jesú frá Nasaret – hugga sorgmædda, græða bugaða, vitja fanga, næra hungraða, klæða nakta og tala máli hinna mállausu, afskiptalausu, gleymdu og fyrirlitnu.7

Megi þau ykkar sem eigið í þrengingum þessi jól finna kærleiksgjöf frelsarans sem er sérstaklega sniðin ykkur. Margir takast á við ástvinamissi á þessum tíma, vegna sjúkdóms, aldurs eða eftir hræðilegt slys. Margir minnast ástvinamissis sem átti sér stað á liðnum jólum og þetta verður þeim sársaukafullur tími. Sumir syrgja yfir ákvörðunum ástvina sinna á þessum tíma. Aðrir eru einmanna, án fjölskyldu, upplifa umrót eða standa frammi fyrir afar ólíkum jólum frá því sem áður var.

Trúið að sérstök gjöf felist í þessum jólum fyrir ykkur. Leitið kyrrlátra, einverustunda, þar sem þið getið íhugað, beðist fyrir og upplifað kærleika og gæsku þess sem með fæðingu sinni gerir alla gleði í lífi allra mögulega. Loforðið er að dag einn muni „dauðinn ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“8 „Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta. … Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“9

Ljósmynd
Jesús Kristur heldur á olíulampa

Gefið ykkur tíma til að finna kyrrð, staldra við og íhuga. Horfið upp á við. Einblínið á hina miklu gjöf hans – að þið vitið hver þið í raun eruð og að raunir ykkar hér eru skammvinnar og gleðin hér er einungis upphafið að komandi gleði. Hafið hugfast að „gleðin sem við finnum hefur lítið að gera með aðstæður okkar í lífinu, en þess meira með það sem við einblínum á í lífinu.“

„Og nú býð eg yður að leita þessa Jesú, sem spámennirnir og postularnir hafa ritað um, svo að náð Guðs föðurins, og einnig Drottinn Jesús Kristur og heilagur andi, sem ber þeim vitni, megi vera og haldast í yður að eilífu.“10 Megum við segja: „Guðs kristni í heimi, krjúp við jötu lága. Sjá, konungur englanna fæddur er. … Himnar og heimar láti lofgjörð hljóma.“11

Í nafni Jesú Krists, amen.

Prenta