Jólasamkomur
14oaks


Fagnaðarboðskapur friðarins

Á þessum jólum fagnar allur hinn kristni heimur fæðingu Jesú Krists, „Friðarhöfðingjans.“ Við fögnum öll yfirlýsingu engilsins um þá fæðingu:

Ljósmynd
Fjárhirðar horfðu upp í bjart ljós.

„Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. …

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“1

Góða lýsingu á því hvernig hinir kristnu heiðra frelsarann má finna í orðum Charles Dickens, sem hann skrifaði fyrir sín eigin börn:

Ljósmynd
Ljósmynd af Charles Dickens

„Kæru börnin mín, mér finnst brýnt að þið vitið eitthvað um sögu Jesú Krists. Allir ættu að þekkja hann. Enginn maður sem lifað hefur var ríkari að gæsku, vinsemd, mildi og sorg yfir öllum sem breyttu rangt.“

Þetta voru aðfararorð Dickens. Hér eru lokaorð hans:

Ljósmynd
Ljósmynd af Charles Dickens

„Hafið hugfast! – Það er kristilegt að gera ætíð gott – jafnvel þeim sem gera okkur illt. Það er kristilegt að elska náungann eins og sjálfan sig og breyta við alla menn, eins og við viljum að þeir breyti við okkur. Það er kristilegt að vera ljúfur, líknsamur og fús til að fyrirgefa og geyma þá eiginleika hljóðlega í eigin hjarta og aldrei hreykja sér af þeim eða af bænum sínum eða af elsku sinni til Guðs, en ætíð að sýna að við elskum hann með því að reyna að gera allt rétt af auðmýkt. Ef við gerum þetta og höfum lífsins lexíur Drottins okkar, Jesú Krists, hugfastar, og reynum lifa eftir þeim, getum við vonast átt von og fullvissu um að Guð muni fyrirgefa okkur syndir okkar og mistök og gera okkur mögulegt að deyja í friðsæld.“2

Líkt og Dickens skrifaði, þá munu „lífsins lexíur Drottins okkar, Jesú Krists,“ leiða okkur til friðar. Páll postuli sagði kenningar frelsara okkar vera „fagnaðarboðskap friðarins.“3

Hugtakið friður hefur ýmsar merkingar í ritningunum. Þegar Jesús sagði: „Friður sé með yður,“ var hann augljóslega að tala um þann frið sem spámaðurinn Jesaja ræddi um: „Og ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu.“4 Frelsarinn uppfyllti þennan spádóm. Hann sagði: „Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér.“5

Ljósmynd
Jesús talar við postula sína

Þegar Drottinn Jesú Kristur gaf postulunum síðustu fyrirmæli sín, sagði hann: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“6

Ljósmynd
Jesús vitjar fólksins í Ameríku

Nokkru síðar, er frelsarinn vitjaði hinna réttlátu í nýja heiminum, vitnaði hann í þessi orð Jesaja: „Og öll börn þín verða frædd um Drottin, og mikill verður friður barna þinna.“7

Það sem frelsari okkar kenndi um frið í lífi okkar sem einstaklinga á einnig við um fjölskyldufrið, þjóðarfrið og heimsfrið.

Frelsarinn og postular hans höfðu enga fyrirætlun um heimsfrið, aðra eneinstaklingsbundið réttlæti. Þeir boðuðu enga andstöðu gegn stjórn Rómar eða staðbundinna harðstjóra hennar. Þeir prédikuðu einstaklingsbundið réttlæti og kenndu að börn Guðs ættu að elska óvini sína8 og „[hafa] frið við alla menn.“9

Stríð og átök eru afleiðing ranglætis; friður er ávöxtur réttlætis. Blessanir fagnaðarerindisins eru altækar og sömuleiðis forskrift friðar: Haldið boðorð Guðs.

Howard W. Hunter forseti kenndi þetta:

Ljósmynd
Howard W. Hunter

Friðurinn sem heimurinn þráir er tímabil án óvildar; en menn skilja ekki að friður er ástand sem menn hljóta einungis samkvæmt skilyrðum og ákvæðum Guðs og á engan annan hátt. …

…Ef við lítum til mannsins og leiða heimsins, sjáum við umrót og uppnám. Ef við aðeins snúum okkur til Guðs, finnum við frið hinni eirðarlausu sál. …

„Slíkur friður er okkur skjól frá umróti heimsins.“10

Í nútíma opinberun segir: „En lærið að sá, sem vinnur réttlætisverk, hlýtur sín laun, já, frið í þessum heimi og eilíft líf í komanda heimi.“11

Friður er loforð frelsarans og friður er markmið okkar. Þessi fyrirheitni friður er tilfinning velferðar og æðruleysis sem fylgir því að halda boðorð hans. Spencer W. Kimball forseti sagði:

Ljósmynd
Spencer<nb/>W. Kimball

„Friður er ávöxtur réttlætis. Hann er hvorki hægt að kaupa með peningum, né semja um eða versla með. Hann verður að verðskulda.“12 Við syngjum: „Fagnaðarerindisins ljúfi friður,“13 og í öðrum dásamlegum sálmi syngjum við saman þessa lagrænu bæn:

„Lát frið þinn ríkja á jörðu

og lát hann hefjast hjá mér.“14

Friður getur ekki ríkt meðal þjóða, án þess að við fáum þróað almennt réttlæti meðal fólksins sem þar dvelur. Á erfiðum árum síðari heimsstyrjaldarinnar kenndi öldungur John A. Widtsoe þetta:

Ljósmynd
John A. Widstoe

„Eina leiðin til að byggja upp friðsælt samfélag, er að innræta körlum og konum að vera friðelskandi og stuðla að friði. Hver einstaklingur hefur þannig, samkvæmt kenningu Krists og kirkju hans, heimsfrið í eigin hendi.

„Það gerir mig ábyrgan fyrir heimsfriði og þig, sem einstakling, ábyrgan fyrir heimsfriði. Þessi ábyrgð verður ekki yfirfærð á einhvern annan.”15

Um þrjátíu árum síðar kenndi annar aðalleiðtogi, Eldred G. Smith, sama sannleika:

„Ef hver einstaklingur hefði sálarfrið, þá væri friður í fjölskyldunni. Ef friður ríkir í hverri fjölskyldu, þá ríkir friður meðal þjóðarinnar. Ef friður ríkir meðal þjóða, þá ríkir heimsfriður.

Syngjum ekki aðeins: ,Lát frið þinn ríkja á jörðu og lát hann byrja í mér,‘ heldur meinum það í raun. Verði það mitt markmið – ykkar markmið.“16

Ein eftirlætis jólasagan mín var gefin út í Deseret News fyrir yfir 30 árum. Í henni er sagt frá 11 ára stúlku og því sem hún lærði í angist yfir að fá ekki sína þráðu gjöf og friðinum sem hún fann af því að skilja merkingu þess að við fögnum með gjöfum á jólum. Ég miðla þessu einkum börnunum og unglingunum meðal okkar.

11 ára stúlka var döpur yfir að hafa ekki fengið nýju brúðuna sem hún hafði svo lengi þráð.

Ljósmynd
Móðir talar við dóttur sína

Móðir hennar reyndi að hugga hana og sagði: „Þú ert að vaxa upp úr svona hlutum.“ Hafði hún virkilega „vaxið upp úr jólunum“? velti stúlkan fyrir sér. Faðir hennar útskýrði:

Ljósmynd
Faðir talar við dóttur sína

„Elsku, kæra litla stúlkan mín. Það felst svo mikill sársauki og gleði í uppvexti. Nei, barn, þú hefur ekki vaxið upp úr jólunum. Eitthvað miklu mikilvægara er að gerast hjá þér. Þú ert að vaxa úr grasi til að skilja að margt hefur dýpri og mikilvægari merkingu en þú fékkst skilið sem barn. Þú hefur heyrt sagt að við gefum gjafir um jólin vegna þess að fjárhirðarnir og vitringarnir færðu Kristsbarninu gjafir, en ég skal segja þér frá fyrstu raunverulegu jólagjöfinni.“

Hann lýsti síðan hinni miklu elsku sem himneskur faðir okkar bar til síns elsta sonar, „sem hafði verið honum trúr í gegnum umrót og uppreisn og jafnvel hjálpað honum við sköpun heimsins sem við lifum í.“ Hann sagði henni hvernig himneskur faðir hefði gefið okkur soninn, Drottin Jesú Krist, til að vera frelsari okkar.

Ljósmynd
Faðir les fyrir dóttur sína

Hann las í Mormónsbók hvernig þessi sonur „mun … stíga niður af himni, dveljast í musteri úr leir. … Og sjá, hann mun líða freistingar, líkamlegan sársauka, hungur, þorsta og þreytu, meir en maðurinn fær þolað, nema fjörtjón hljótist af. Því að sjá. Blóð drýpur úr hverri svitaholu, svo mikil verður angist hans vegna ranglætis og viðurstyggðar þjóðar hans. Og hann skal kallast Jesús Kristur, sonur Guðs, faðir himins og jarðar“ (Mósía 3:5, 7–8).

Faðir hennar lauk aftur bókinni og sagði:

Ljósmynd
Faðir talar við dóttur sína

„Þótt faðir okkar á himnum hafi vitað að hans ástkæri sonur ætti allt þetta í vændum, þá gaf hann heiminum hann, af sínum óendanlega kærleika og alvisku. Síðari hluti þessarar stórfenglegu gjafar er sá að Kristur, sonurinn, sem líka vissi af öllu þessu, gaf sig sjálfan fúslega, svo við mættum öðlast eilíft líf.“

Mörgum árum síðar skrifaði konan sem þroskaðist upp úr þessari litlu stúlku þessi orð:

Ljósmynd
Sofandi lítil telpa

„Þetta var fyrsta jólanóttin sem ég man eftir að hafa ekki farið að sofa með jólabrúðuna mína á koddanum. Ég hafði nokkuð betra. Ný og hrífandi friðartilfinning ríkti hið innra. Ég hafði fundið gjöf sem ekki slitnaði eða glataðist, gjöf sem ég gæti aldrei vaxið upp úr, heldur gjöf sem ég yrði að vaxa inn í með Guðs hjálp. Ég bað þess … að ég myndi dag einn eignast raunveruleg börn og þá myndi ég þekkja hvað í raun fælist í gjöf kærleikans. “17

Ég lýk með því að vitna í kenningu Russells M. Nelson forseta á síðustu jólasamkomu Æðsta forsætisráðsins: „Jesús Kristur er óviðjafnanleg gjöf Guðs – gjöf föðurins til allra barna sinna.“18

„Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“19

Ég bið þess að eilífur sannleikur megi gagntaka allt sem við gerum á þessum jólum, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Lúkas 2:11, 13–14.

  2. Charles Dickens, The Life of Our Lord (1934), 11, 127.

  3. Sjá Efesusbréfið 6:15; Rómverjabréfið 10:15.

  4. Jesaja 32:17.

  5. Jóhannes 16:33.

  6. Jóhannes 14:27.

  7. 3. Nefí 22:13.

  8. Sjá Matteus 5:44.

  9. Rómverjabréfið 12:18.

  10. Teachings of Presidents of the Church: Howard W. Hunter (2015), 51, 56.

  11. Kenning og sáttmálar 59:23.

  12. Teachings of Spencer W. Kimball (2011), 157.

  13. „Sweet Is the Peace the Gospel Brings,“ Hymns, nr. 14.

  14. Texti sálmsins „Let There Be Peace on Earth,“ eftir Jill Jackson og Sy Miller er bundinn höfundarrétti. © 1955, 1983 Jan-Lee Music, ASCAP, alþjóðlegur höfundarréttur. Allur réttur áskilinn.

  15. John A. Widtsoe, „The Nature of Peace,“ í Conference Report, okt. 1943, 113.

  16. Eldred G. Smith, „Peace,“ Ensign, júlí 1972, 118.

  17. Janice Jensen Barton, „The Christmas I Remember Best,“ Deseret News, 24. des. 1959, forsíða.

  18. Russell M. Nelson, „Fjórar gjafir frá frelsaranum,“ jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins 2018.

  19. Jóhannes 3:16.

Prenta