Jólasamkomur
13soares


Englaskarar okkar tíma

Gott kvöld, kæru bræður og systur. Mér finnst það blessun að fá að tala til ykkar í kvöld, þegar við fögnum dýrðlegasta atburði mannkynssögunnar – komu sonar Guðs í heiminn. Fæðing Krists, líf hans og friðþæging eru gjöf himnesks föður til okkar allra.

Þegar við fögnum fæðingu frelsarans á þessum gleðilega tíma ársins, virðist stöðug og varanleg elska Guðs fylla sál okkar enn ríkulegar, snúa hjörtum okkar að fjölskyldunni, vinum og samferðafólki og gera okkur næmari fyrir þeim sem gætu verið einmana eða þarfnast huggunar og friðar.

Ég hef ætíð hrifist af því, að í frásögnum Lúkasarguðsjalls um atburði og fæðingu Jesú, er sagt frá nokkrum dæmum um þá sem fylltust huggun og friði við þær aðstæður. Dæmi um það eru þegar kærleiksríkur himneskur faðir sendi engla sína til að vitja hinna félagslega einangruðu fjárhirða þessa nótt, til að kunngjöra fæðingu sonar síns og þegar fjárhirðarnir brugðust við og vitjuðu Maríu og Jósefs, sem önnuðust hið nýfædda barn fjarri heimili sínu í Galíleu.

Hin langa ferð Jósefs og Maríu frá Nasaret til Betlehem, til að skrásetja sig, var ekki tilviljun, því um aldir höfðu fornir spámenn sagt fyrir um fæðingu frelsara heimsins í Betlehem, Davíðsborg.1 Við sjáum að himneskur faðir var afar vel kunnugur öllum kringumstæðum sem tengdust fæðingu hans eingetna sonar. „En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.“2

Þegar ég hugsa um félagslegar aðstæður fjárhirðana og ungu hjónanna, Maríu og Jósef, velti ég fyrir mér hvernig birting englaskarans á völlum fjárhirðanna og koma fjárhirðanna til Maríu og Jósefs vakti hverju þeirra huggun, frið og gleði.

Englarnir gætu hafa vakið fjárhirðunum þráða huggun um að Guð vissi af og treysti þeim til að vera hin fyrstu útvöldu vitni um hið nýfædda lamb Guðs. Fjárhirðarnir gætu hafa vakið Maríu og Jósef langþráða huggun um að aðrir vissu um hið guðlega kraftaverk sem þau voru hluti af.3

Nútíma fjárhiðar eru vissulega meðal okkar – karlar og konur sem starfa langt fram á nótt og árla morguns, við að afla sér viðurværis. Sumir þessara nútíma fjárhirða gætu verið öryggisverðir, starfsfólk sjúkrahúsa, neyðarþjónustu, sólarhringsverslana og bensínstöðva og fréttastofa. Stundum gætu þeir sem eru á næturvöktum upplifað sig einangraða frá félagslegum samskiptum við þá sem vinna að degi til. Nútíma Jósefar og Maríur eru líka til, sem hafa flutt frá eigin heimalandi og reyna að laga sig að nýjum lífsháttum, þar sem þau fagna mikilvægum dögum, svo sem jólum, afmælisdögum, giftingum og dauðsföllum.

Þegar jólin nálgast, velti ég fyrir mér hvort við gætum orðið líkari englaskaranum, með því að vitja nútíma fjárhirða, til að færa þeim hina góðu fregn um Krist, frið og huggun. Ég velti líka fyrir mér hvort við getum orðið líkari fjárhirðunum, með því að bregðast við ákallinu um að vitja og þjóna nútíma Jósefum og Maríum umhverfis í samfélögum okkar, til að veita fullvissu um að Guð elski þau, vaki yfir þeim og annist þau.

Ég og fjölskylda mín upplifðum sjálf slíkar tilfinningar huggunar og friðar, af nokkrum ólíkum tilefnum, sem nútíma englaskari fær vakið. Í kvöld ætla ég að segja frá einu slíku tilviki. Árið 2003 fluttum við frá heimalandi okkar til Utah. Þann vetur skall á einn mesti snjóstormur sem komið hafði yfir Utah í nokkur ár. Við höfðum aldrei séð neitt þessu líkt áður, þar sem við vorum alin upp meðal pálmatrjáa og sandstranda. Heimili okkar var staðsett á hornlóð á hæð í Bountiful, með langri gangstétt. Þegar byrjaði að snjóa tók eiginkona mín hugdjörf að snjóblása heimreiðina og gangstéttina, því sjálfur hafði ég misst fótana þar á svellinu nokkrum dögum áður, á gangi til eins nágranna okkar, og brotið úlnlið. Slysið leiddi til skurðaðgerðar og stórt gifsi var sett á handlegginn, sem ég hafði í nokkra mánuði. Þegar mín kæra eiginkona byrjaði að snjóblása í fyrsta sinn á ævi sinni, hafði hún ekki hugmynd um að hún þyrfti að breyta stefnu blásarans eftir að hafa hreinsað heimreiðina öðru megin. Þegar hún því fór hinu megin til að hreinsa snjóinn, hafði blásarinn blásið snjónum þangað. Hún fór fram og til baka án nokkurs árangurs. Hvílíkt klandur! Hún fékk síðan mikla eyrnabólgu af því að vera svo lengi úti í kuldanum og varð næstum heyrnarlaus í tvo mánuði. Á sama tíma meiddist sextán ára sonur minn á baki í sleðaferð og þurfti að vera rúmliggjandi svo að meiðsl hans næðu að gróa. Þannig var ástandið á heimilisfólkinu, einn rúmfastur, annar heyrnarlaus, enn annar í gifsi og öll skjálfandi af kulda. Ég er viss um að nágrönnunum fannst ekki sjón að sjá okkur. Á einum af þessum köldu morgnum í bítið, um klukkan fimm, vaknaði ég við hljóð í snjóblásara fyrir utan gluggann. Ég horfði út um gluggann og sá nágranna minn, bróður Blaine Williams, hinumegin götunnar. Næstum sjötugur hafði hann farið út úr sínu hlýja og þægilega heimili og snjóhreinsað heimreiðina og gangstéttina okkar, því hann vissi að við gætum ekki gert það sjálf. Á sama hátt og hann hafði komið, án þess að gera vart við sig, kom annar vinur, bróðir, Daniel Almeida, á heimili okkar til að aka mér niður í Salt Lake til vinnu, þar sem ég gat ekki ekið með hið fyrirferðarmikla gifsi. Af gæsku voru þeir þarna fyrir mig á hverjum morgni, þar til fjölskylda mín hafði náð sér og við urðum sjálfbjarga að nýju. Á þessari köldu jólahátíð 2003, voru þessir engilbræður sendir til okkar, á sama hátt og þjónustuenglarnir voru forðum sendir hinum fátæku hirðum. Þessir tveir bræður fylgdu fordæmi frelsara okkar og tóku þarfir okkar fram yfir sínar eigin.

Kæru bræður og systur, líf frelsarans var fullkomið fordæmi um elsku og gæsku til allra manna. Hann gleymdi sjálfum sér ætíð í þjónustu við aðra. Öll hans verk endurspegluðu óeigingirni, hvern dag lífs hans, og takmörkuðust ekki við ákveðinn tíma eða helgidaga. Þegar við snúum hjörtum okkar að öðrum, eins og frelsarinn gerði, lofa ég að við munum finna dýpri merkingu jólanna. Ef við gerum það, munum við vissulega finna óendanlega möguleika til að gefa öðrum af okkur sjálfum af gæsku og yfirlætisleysi. Þannig getum við kynnst frelsaranum betur og fundið frið fyrir okkur sjálf og gæsku til allra manna, sem að stórum hluta mun ákvarða þann kærleika, frið og styrk sem við getum fundið og miðlað öðrum. Þegar við fetum í fótspor frelsarans, gætum við hlustað eftir fótataki sandala hans og leitað hinnar styrku handar smiðsins. Ef við leitum frelsarans í öllu sem við gerum, fullvissa ég ykkur um að jólin verða þá ekki bara dagur eða árstími, heldur stöðugt ríkjandi í huga og hjarta og við munum alltaf njóta gleði og kærleika þeirra. Ég ber vitni um að Jesús Kristur, barnið sem fæddist í Betlehem, er í raun frelsari og lausnari heimsins.

Gleðileg jól til ykkar allra. Ég segi þetta í nafni Jesú Krists, amen.

Prenta