Jólasamkomur
11craven


12CRAVEN-1

Jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins

6. desember 2020

 

 

Reifar og himneskt faðmlag 

Systir Becky Craven 

annar ráðgjafi í aðalforsætisráði Stúlknafélagsins 

Ein af uppáhalds jólaminningum mínum varð til þegar ég var sex ára. Það var aðfangadagskvöld og ég var sofandi í efri kojunni sem ég átti með litlu systur minni á heimili okkar í Berlín, Þýskalandi. Ég hlakkaði nokkuð mikið til þess að jóladagsmorgun rynni upp – svo mikið að ég gæti ekki hafa verið í mjög djúpum svefni, því einhvern tíma um miðja nótt vaknaði ég við bjölluhljóm. Þá heyrði ég dyrnar á herbergi okkar ískra er þær opnuðust. Þegar ljósið úr hin herberginu féll á andlit mitt, settist ég snögglega upp og leit til dyranna. Það sem ég sá var ótrúlegt! Í dyragættinni stóð jólasveinninn. Ég er ekki að grínast – það var hann! Hann kallaði upp: „Hó, hó, hó“ og spurði síðan hvort ég myndi vilja fylgja honum inn í stofuna og sjá upplýst jólatréið. Mér var brugðið og ég var algerlega orðlaus, en ég flýtti mér niður stigann á kojunni og fylgdi honum fram í stofuna þar sem móðir mín og eldri bróðir stóðu við tréð. Þegar ég leit í kringum herbergið, sá ég pabba minn hvergi – hvernig gat hann verið að missa af þessu? Mamma sagði að hann væri að fara út með ruslið, en vá hvað hann var lengi að því! Enn þann dag í dag finnst mér leiðinlegt að hann skyldi aldrei fá tækifæri til að hitta jólasveininn. Jólasveinninn spurði hvort ég hefði verið stillt telpa og ég var svo glöð að geta sagt honum að ég hefði verið það. Eftir að vera viss um að hann smakkaði allar smákökurnar og mjólkina sem við höfðum borið fram fyrir hann, fór ég aftur í rúmið og nokkrum klukkustundum seinna vaknaði ég upp til ánægjulegs jóladagsmorguns.

Afi eiginmanns míns, Heaton Lunt, átti mjög ólíkan jóladagsmorgun er hann var ungur drengur í nýlendunum í Mexíkó, seint á 19. öldinni. Hann segir frá þessu í sögu sinni: „Jólin komu og kindurnar voru í stíu undir hlöðunni, þar sem var hlýtt, því það var snjór á jörðunni. Ég fór einstaklega snemma á fætur jóladagsmorgun til að kanna hvort kindunum mínum liði vel. Ég heyrði jarm í fjósinu sem hljómaði mjög veiklulega. Ég fór þangað inn og sá að Nellý hafði eignast tvö agnarlítil lömb – tvílembinga. Ég hljóp tilbaka að húsinu eins hratt og ég gat … [og] klappaði saman lófunum og sagði við mömmu: ‚Ég fékk bestu jólagjöfina af ykkur öllum, Nellý gamla eignaðist tvö lítil lömb.‘ Allir krakkarnir skildu appelsínurnar sínar og dótið eftir á borðinu og hlupu út í hlöðu til að sjá litlu lömbin hennar Nellýjar. Það var mesta undur sem við höfðum nokkru sinni upplifað á jólum.“1 Það sem var enn ótrúlegra, næstu jól og mörg jól þar á eftir, fæddu kindur Heatons lömb á jóladagsmorgni.

Þegar ég heyrði þessa sögu fyrst, beindist hugur minn og hjarta strax að öðru lambi sem fæddist þennan fyrsta jóladagsmorgun, Jesú Kristi, lambi Guðs. Á sama hátt og Heaton hljóp til að sjá nýju lömbin sín, get ég ímyndað mér að hirðarnir hafi flýtt sér til að sjá hinn nýfædda son Guðs. Getið þið gert ykkur í hugalund hvað þeirra hefur beðið í þessari lítillátu og heilögu umgjörð. Ég sé fyrir mér þar sem ástríkur Jósef hugar að eiginkonu sinni, Maríu, er þau hugleiða fæðingu hins fyrirheitna Messíasar. Frásögn Maríu um að hún hafi vafið barnið reifum er mér einstaklega ljúf.

Nýlega tókum við á móti nýju barnabarni, stúlku, inn í fjölskyldu okkar. Ég horfði á það dag einn, er móðir hennar vafði hana inn í mjúkt reifateppi og hélt henni þétt að sér. Að vefja reifum, þýðir einfaldlega að vefja þétt. Reifar og teppi hafa verið notuð í gegnum mannkynssöguna til að hugga og sefa og jafnvel róa niður órólegt barn. Þegar ég horfði á tengdadóttur okkar vefja nýja barnið sitt reifum, hugsaði ég til annarra sem kannski þarfnast reifa, jafnvel sýndarreifa. Ljúft orð, eyra sem hlýðir á eða skilningsríkt hjarta getur veitt huggun og sefað þjakaða sál annars.

Fyrir nærri þremur árum upplifði tengdarsonur okkar alvarlegan heilsubrest. Til að finna svörin, fór hann í margar rannsóknir og aðgerðir sem komu loks með það svar að hann þarfnaðist hjartaaðgerðar. Þegar tengdasonur okkar fór í aðgerðina, sendi dóttir okkar skilaboð til tengdaforeldra sinna til að halda þeim upplýstum um stöðu sonar þeirra. Tengdamóðir hennar sendi henni síðan þessi huggandi orð frá fjarlægu landi þar sem þau þjónuðu í trúboði: „Sendum ykkur himneskt faðmlag.“

Augnabliki síðar gekk hjúkrunarfræðingur hjá en stoppaði. Hún horfði inn í tárfyllt augu hennar og spurði hvort hún myndi vilja fá teppi, en hún afþakkaði það og sagði að það væri í lagi með sig. Hjúkrunarfræðingurinn fór, en kom strax aftur með hlýtt teppi. Hún vafði því þétt utan um dóttur okkar og sagði við hana: „Mér finnst eins og þú þarfnist himnesks faðmlags.“

Lamb Guðs, sem einnig kallast hinn góði hirðir, þekkir alla í hjörð sinni. Á neyðarstundu sendir hann oft jarðneska engla, eins og þennan hugulsama hjúkrunarfræðing, til dóttur okkar, til að vefja okkur og faðma kærleiksríku faðmlagi.2 Hann kom til jarðar til að færa þeim mönnum frið sem hann hefur velþóknun á.3 Hann huggar þá sem þarfnast huggunar og syrgir með syrgjendum.4

Þegar ég hugleiði þær mörgu leiðir sem Drottinn elskar og annast um hvert okkar, finn ég þrá til að gera meira til að miðla öðrum þeim kærleika. Ég óska þess einnig að bera kennsl á hin himnesku faðmlög og reifar sem ég hef meðtekið en átt erfitt með að þekkja sem slík.

Í heimi sem er í svo mikilli þörf fyrir frið, geta ljúf orð okkar, kærleiksverk og góðvild verið leið til að umvefja aðra hlýjum reifum. Ég hef lært að skilja að því meira sem við fylgjum hvatningunni til að þjóna öðrum, því fleiri himnesk teppi gefur Drottinn okkur til að miðla öðrum. Hvaða hvatningu hafið þið meðtekið? Hvern þekkið þið sem þarfnast himnesks faðmlags? Persónulegt faðmlag okkar eða sýndarfaðmlag, getur breytt öllu í lífi ástvinar eða jafnvel ókunnugs aðila.

Ég bið þess að við skynjum ekki bara elsku, samúð og frið frelsara okkar, þegar við fögnum fæðingar hans, heldur að við miðlum líka öðrum þessum blessunum. Þegar ég hugleiði gjöf Guðlambsins, barnsins sem vafið var reifum og lagt í jötu, enduróma ég orð Heatons unga. Hann er „mesta undur sem við höfðum nokkru sinni upplifað á jólum [eða munum upplifa á jólum].“5

Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Heaton Lunt, „Pacheco, in the Colonies of Mexico—Lamb Story.“ Persónulegar heimildir.

  2. Sjá 2. Nefí 1:15.

  3. Sjá Lúkas 2:14.

  4. Sjá Mósía 18:9.

  5. Heaton Lunt, „Pacheco, in the Colonies of Mexico—Lamb Story.“ Persónulegar heimildir.

Prenta