Jólasamkomur
12nielson


12NIELSON-0

Jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins

6. desember 2020

Friðarhöfðinginn

(Jesaja 9:6)

Öldungur Brent H. Nielson

í forsætisráði hinna Sjötíu

Á öðrum tíma og á öðrum stað, langt, langt í burtu frá þessum stað, var faðir minn, Norman Nielson, mjög ungur maður, á öðru ári af fjórum, að berjast á sjónarsviði Kyrrahafseyja í Síðari heimsstyrjöldinni. Hann var loftvarnasérfræðingur og bjó í frumskógum Papúa í Nýju-Gíneu, Á aðfangadag 1943 skrifaði þetta bréf til ekkjunnar, móður sinnar: „Eins og þú sérð á dagsetningunni þá eru jól í dag. Ég fór á fætur klukkan 7:00, fékk mér morgunmat og vann síðan til klukkan 15:00 og fór síðan niður að læk til að þvo fötin mín og baða mig. Í kvöldmatinn fengum við mjög lítinn skammt af kalkún, nokkrar sætar kartöflur, korn, fyllingu og rúsínuböku. Ég hefði svo mikið viljað vera heima með þér og fjölskyldunni, setja fæturnar undir borðið og borða aftur allt það sem við vorum vön að hafa þegar við vorum saman fyrir nokkrum árum. Við erum vonsviknir yfir að jólapakkarnir okkar bárust ekki fyrir jól. Margir okkar fengu ekkert um jólin. Ég minnist þess að þú sagðir mér oft að maður sakni aldrei vatnsins fyrr en brunnurinn þornar upp.“

Á þessu umliðna ári skrifuðu eiginkona mín, Marcia og systir mín, Susan, sögu fjögurra ára þjónustu föður míns í Síðari heimsstyrjöldinni. Þær tóku saman öll bréfin sem hann skrifaði heim til móður sinnar. Ég verð að segja að þegar ég las þetta dapurlega jólabréf var ég svolítið vantrúaður. Þótt þetta kunni að virðast ykkur léttvægt, þá vildi ég einhvern veginn breyta atburðarás þessa jóladags, því þetta var pabbi minn, sem ég elskaði. Ég hrópaði í hjarta mínu: „Hversu miklar þjáningar er hægt að leggja á þennan unga mann frá Idaho?“ Hann missti föður sinn af hjartaáfalli, aðeins 12 ára gamall. Hann var alinn upp af móður sinni, var kallaður í herinn og bjó nú í frumskógi mitt í hræðilegu stríði. Gat hann ekki allavega fengið gjöf á jólum? Þegar ég íhugaði aðstæður hans, fann ég andann tala til mín: „Brent, þú veist hvernig þessi saga endar. Pabbi þinn fékk að lokum mikilvægustu gjöfina og lifði áfram trúföstu lífi, með jólin sem sinn eftirlætis tíma ársins.“

Þegar ég las áfram í sögu föður míns, kom ég að einu af síðustu bréfunum sem hann sendi heim til móður sinnar, í febrúar árið 1945. Í fjögur ár, undir forystu Douglas MacArthur hershöfðingja, hafði hann háð orrustur allt frá Darwin, Ástralíu, til Papúa Nýju-Gíneu og Leyte-flóa á Filippseyjum og lok Manila, þar sem hann lauk herþjónustu sinni og sneri aftur heim. Mestan tímann sem hann þjónaði í stríðinu voru engar samkomur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, en þegar hann kom til Filippseyja, undir lok þjónustu sinnar, tókst honum að finna kirkjusamkomu. Eftir að hafa farið á þá samkomu, skrifaði hann móður sinni þetta áhugaverða bréf: „Ég fór í kirkju í gær, en var ekki mjög hrifinn af ræðunni. Móðir, margt sem áður var afar mikilvægt, virðist afar léttvægt nú. Þar á ég ekki við trú mína á Guð, sem líklega er jafn sterkt og áður, heldur lít ég á Guð sem kærleiksríkan og umhyggjusaman einstakling, fremur en þann [sem] stendur stöðugt yfir þér til að refsa fyrir öll mistök sem maður gerir.“

Það sem andinn kenndi mér, er að á afar erfiðum tímum, er faðir minn tók þátt í hræðilegu stríði, þar sem margir hermenn, hjúkrunarfræðingar, sjómenn, flugmenn og saklausir borgarar týndu lífi sínu, hvoru megin sem þeir voru, fann hann gjöfina – hann fann sanna merkingu jólanna. Hann komst að því að hann átti kærleiksríkan himneskan föður sem skildi hann og vakti yfir honum. Mikilvægasta lexía lífsins sem honum lærðist, var þessi: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“1 Í erfiðleikum sínum, þegar honum var ýtt út að þolmörkum, fann faðir minn kærleiksríkan og gæskuríkan himneskan föður. Það sem faðir minn fann, færði honum frið og gleði og hamingju í heimi fylltum ringulreið, sársauka og þjáningum. Að stríðinu loknu, kom hann heim með þessa gjöf.

Ég er ekki viss um hvort mér hefði tekist að lifa af erfiðleikana sem faðir minn tókst á við á þessum þremur jólum fjarri heimili sínu, en ég veit að honum lærðist og mér lærðist að hin sanna gjöf jólanna, gefin af föður okkar á himnum, er frelsarinn Jesús Kristur. Á þessum jólum eru sum okkar fjarri fjölskyldunni eða einangruð frá henni, vegna aðstæðna heimsins, jafnvel þótt þau búi nærri. Á þessu ári gæti sumum liðið eins og pabba mínum leið á aðfangadag 1943. Við gætum jafnvel velt fyrir okkur hvers vegna við fengum engar gjafir eða heimsóknir. Ef við hins vegar lítum upp og horfum til Guðs og lifum, munum við uppgötva að Jesús Kristur er besta gjöfin. Að opna þá gjöf, gefur okkur lykil að yndislegu og friðsælu lífi.

Í 4. kapítula Markúsar í Nýja testamentinu tókust lærisveinar frelsarans á við skelfilega reynslu. Þeir voru á bát með frelsaranum á Galíleuvatni þegar mikill stormur skall á. Lærisveinarnir urðu hræddir og frelsarinn talaði við þá og sagði: „Hví eruð þið hræddir, hafið þið enn enga trú?“2 Ákveðinni röddu bauð hann vindum og vatni að vera kyrrum. Lærisveinarnir spurðu þá þessarar áhrifamiklu spurningar, sem ég bið ykkur að íhuga þessi jól: „Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum.“3 Ég ætla að reyna að svara þessari spurningu. Jesús Kristur er „Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.“4 „[M]eð honum, fyrir hann, og af honum eru og voru heimarnir skapaðir.“5 Hann er frelsari og lausnari okkar; hann er hinn frumgetni föðurins.

Jesaja lýsir frelsaranum þannig: „Veistu ekki eða hefur þú ekki heyrt að Drottinn er eilífur Guð sem skapaði endimörk jarðar? Hann þreytist ekki, hann lýist ekki, viska hans er órannsakanleg. … Þeir sem vona á Drottin fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir, þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.“6

Það var á þessum grunni sem frelsarinn býður okkur öllum á þessum jólum og alltaf: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. … Því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“7 Boð hans til okkar er „komið.“

Von mín á þessum jólum, hverjar sem aðstæður okkar eru, hvar sem við erum og hvort sem við erum aðskilin fjölskyldu og vinum, er sú að við höfum hugfast að hann, frelsarinn Jesús Kristur, er gjöfin; að þegar við komum til hans, mun hann létta byrðar okkar; og að við megum uppgötva hann, eins og faðir minn gerði mitt í skelfilegu stríði. Frelsarinn sagði: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“8 Þegar við treystum honum, munum við finna frið og hamingju, hverjar sem aðstæður okkar eru.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og bið þess að þið munuð á þessu ári, er hinn lúni heimur gleðst, meðtaka og meta gjöfina sem okkar kærleiksríki faðir gaf okkur, er hann leyfði fórn síns eingetna sonar. Ég ber mitt persónulega vitni um þann kærleiksríka himneska föður og hinn fullkomna son hans, Friðarhöfðingjann. Í nafni Jesú Krists, amen.

Prenta