Jólasamkomur
15nelson


Guðlegar gjafir

Russell M. Nelson

6. desember 2020

Kæru bræður og systur, þetta hefur verið yndislegt kvöld. Við höfum upplyfst í anda af fallegri tónlist og boðskap. Systir Craven hefur yljað hjörtum okkar með hugsunum sínum um himnesk faðmlög og yfirbreiðslur huggunar. Öldungur Nielson hefur hrært okkur með því að rifja upp líf föður síns, sem missti af jólunum í þrjú ár í röð vegna herskyldu. Öldungur Holland hefur veitt okkur innblástur með því að kenna um líf frelsara heimsins.

Mig langar að nota tækifærið og þakka ykkur fyrir viðbrögðin við hinu nýlega boði mínu að fylla samfélagsmiðla af þakklætisorðum fyrir margar blessanir okkar. Milljónir brugðust við því. Ég er einkar þakklátur fyrir að þið biðjið áfram daglega til himnesks föður okkar, að þið þakkið honum fyrir leiðsögn hans, vernd, innblástur og umfram allt gjöf ástkærs sonar hans, Jesú Krists.

Jólin vekja yndislegar minningar. Fyrir aðeins ári fengum ég og Wendy tækifæri til að fagna jólatíðinni með yndislegri lítilli telpu, Claire Crosby, sem söng kært jólalag. Ég ætla að sýna hluta af upptökunni okkar sem gerð var fyrir verkefnið „Ljós fyrir heiminn.“1

Líkt og öldungur Holland minnti okkur á, þá var þessi blessaða nótt fyrir meira en tveimur árþúsundum, sannlega nótt sem helgaðist af fæðingu þess sem forvígður var til að vekja frið á þessari jörðu og hvetja til góðvildar meðal manna.2 Jesús Kristur var fæddur til að blessa allt mannkyn, í fortíð, nútíð og framtíð.

Þegar við svo syngjum „Heims um ból,“ þá vitum við að líf þessa barns í Betlehem hófst ekki þar og því lauk ekki á Golgata. Í fortilverunni var Jesús smurður af föður sínum til að verða Messías, Kristur, frelsari og lausnari alls mannkyns. Hann var forvígður til að friðþægja fyrir okkur. „Hann var særður vegna okkar synda og kraminn vegna okkar misgjörða.“3 Hann koma til að gera ódauðleika að raunveruleika og eilíft líf mögulegt fyrir alla sem lifa munu.4

Það þýðir að sérhvert okkar mun rísa upp – þar á meðal þeir sem eru ykkur kærir og hafa látist á þessu erfiða ári og dvelja nú hinum megin hulunnar. Það þýðir að sérhvert okkar getur haldið áfram á braut framfara. Það þýðir að við getum vonast eftir betri tíð.

Hafið þið einhvern tíma íhugað ástæðu þess að Drottinn kaus að fæðast þar sem fæddist? Hann hefði getað fæðst hvar sem er á jörðinni. Samt valdi hann landið sem hann helgaði.

Jesús fæddist í Betlehem. Það orð er á hebresku bet lehem, sem merkir „hús brauðs.“ Hve viðeigandi að hann, sem er „brauð lífsins,“5 hafi komið frá „húsi brauðs.“

Hann fæddist við fábrotnar aðstæður meðal dýranna. Þar fæddist „Guðslambið“6 á páskatíð, meðal dýra sem búin voru undir páskafórnir. Einhvern daginn yrði hann svo sem „lamb sem leitt er til slátrunar.“7 Hann var bæði lambið og hirðirinn.

Við fæðingu hans, sem kallaður er „góði hirðirinn,“8 voru hirðar þeir fyrstu sem tilkynnt var um hans helgu fæðingu.9

Við fæðingu hans, sem kallaður var „stjarnan skínandi, morgunstjarnan.“10 birtist ný stjarna í himnum.11

Við fæðingu hans, sem kallaði sig sjálfan „ljós heimsins,“12 var myrkrið hvarvetna um heim gert útlægt, sem tákn um hans helgu fæðingu.13

Jesús var skírður í lægsta ferskvatni jarðar, til tákns um hversu djúpt hann færi til að frelsa okkur og síðan rísa þaðan yfir alla hluti – að nýju, til að frelsa okkur.14 Með eigin fordæmi, kenndi hann að við getum líka risið úr djúpi okkar eigin áskorana – sorgar, veikleika og áhyggja – til okkar æðstu dýrðlegu möguleika og guðlegra örlaga. Allt er þetta mögulegt í krafti miskunnar hans og náðar.

Mitt í skrælnaðri og rykugri eyðimörk, kenndi frelsarinn lexíur sem þeir fengu einungis fyllilega metið sem vissu hvernig það var að skrælna af þorsta.

Við konuna við brunnin sagði Jesús:

„Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta

en hvern sem drekkur af vatninu er ég gef honum mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind sem streymir fram til eilífs lífs.“15

Þetta ritningarvers minnir mig á ljúfa upplifun sem ég átti með öldungi Mark E. Petersen.16 Hann var þá meðlimur í Tólfpostulasveitinni og áður en ég var kallaður til þeirrar sveitar naut ég þeirra forréttinda að fara með honum til landsins helga, sem reyndist síðasta ferð hans í jarðlífinu.

Öldungur Petersen þjáðist mjög af krabbameini. Á langri og sársaukafullri nóttu fyrir hann, reyndi ég hvað ég gat að hugga hann. Ég sá að hann gat einungis borðað og drukkið afar lítið í einu. Daginn eftir var ráðgert að hann flytti langa ræðu.

Morgunn kom. Öldungur Petersen fór hugrakkur að norðurströnd Galíleuvatns þar sem fjölmennur söfnuður beið hans. Hann kaus að kenna úr fjallræðu frelsarans. Þegar öldungur Petersen las versið „Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu,“17 fylltust augu hans tárum. Hann lagði frá sér athugasemdir sínar, leit upp og sagði: „Vitið þið hvað virkilega felst í því að hungra og þyrsta?“ Ég vissi að hann vissi það virkilega. Hann kenndi síðan: „Þegar ykkur virkilega hungrar og þyrstir eftir réttlæti, getið þið orðið kristilegri.“ Öldungur Petersen var lifandi fordæmi um það. Stuttu eftir þetta lauk hans jarðneska lífi.18

Alltaf er ég velti fyrir mér hungri og þorsta eftir réttlæti, hugsa ég til þessa virðulega postula sem helgaði eina af sínum síðustu prédikunum því að kenna hvað það virkilega merkir að leita Drottins Jesú Krists, að hungra og þyrsta eftir réttlæti, að verða líkari honum.

Þetta árið byrjuðum ég og systir Nelson snemma á því að huga að jólaerindum okkar fyrir fjölskylduna. Snemma í nóvember tilkynnti systir Nelson að við værum tilbúin fyrir jólin. Ég svaraði um hæl: „Ó, það er gott! Núna getum við einblínt á frelsarann.“

Á þessu fordæmislausa ári, þegar nánast hver einasta manneskja í heiminum hefur orðið fyrir áhrifum heimsfaraldurs, er ekkert mikilvægara sem við getum gert á þessum jólum en að einblína á frelsarann og gjöfina sem líf hans í raun merkir fyrir hvert okkar.

„Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“19

Sonur Guðs lofaði okkur síðan að „hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“20 Hve ólýsanlegar og óviðjafnalegar gjafir frá föðurnum og syninum!

Ég þakka Guði fyrir gjöf hans elskaða sonar. Ég þakka líka Drottni Jesú Kristi fyrir óviðjafnanlega fórn hans og þjónustu. Fyrri koma Jesú var næstum öllum leynd. Við síðari komu hans, mun dýrð Drottins „birtast, og allt hold mun sjá það.“21 Hann mun síðan „[ríkja sem] Drottinn drottna og konungur konunga.“22

Ég vil nú, sem réttmætur þjónn frelsarans, kalla blessun yfir sérhvert ykkar, elsku bræður mínir og systur. Megið þið og fjölskyldur ykkar vera blessaðar með friði, með aukinni getu til að heyra rödd Drottins og hljóta opinberun og skynja hversu mikið faðir okkar og sonur hans elska ykkur, hugsa um ykkur og eru fúsir til að leiðbeina öllum sem til þeirra leita. Ég tek undir orð Morónís og „býð [ykkur] að leita þessa Jesú, sem spámennirnir og postularnir hafa ritað um, svo að náð Guðs föðurins, og einnig Drottinn Jesús Kristur og heilagur andi … megi vera og haldast í [ykkur] að eilífu.“23 Það er bæn mín, í nafni Jesú Krists, amen.

Prenta