Síður áberandi gjafir
Jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins 2021
5. desember 2021
Aðfaraorð
Þegar ég var ung var hápunktur jólanna koma ömmu og afa Lundgren. Á hverju ári lögðu þau í langa ferð á gömlum bíl til að heimsækja okkur. Við elskuðum þau og við elskuðum sænsku pönnukökurnar hennar ömmu – búnar til með ferskum sýrðum rjóma sem hún kom með frá bónda í heimabæ sínum. Hún stóð við eldavélina löngum stundum og bjó til pönnukökur, þar til við vorum pakksödd. Nú hafa tvær kynslóðir barna til viðbótar vaxið úr grasi og gætt sér á þessum sænsku pönnukökum. Í hvert sinn sem við búum þær til, minnumst við ömmu Lundgren og kærleiksgjafar hennar.
Sumar bestu gjafirnar eru gjafir tíma okkar og hæfileika. Ég tel slíkar gjafir vera heilagar gjafir.
Gjafir
Þetta er tímabil þess að bíða eftir nýjum gjöfum. Í kvöld skulum við þó staldra við til að íhuga gjafir sem þið hafið þegar fengið – og hver hefur gefið þær og af hverju.
Guð hefur gefið hverju okkar gjafir. Ef til vill finnst ykkur þið ekki hæfileikarík, en þið hafið andlegar gjafir frá Guði til að geta blessað aðra og komist nær honum.1
Hvaða gjafir hefur Guð gefið ykkur?
Satt best að segja, þá hef ég aldrei litið á mig sem hæfileikaríka manneskju. Ég er ekki mikill söngvari eða dansari eða íþróttamaður eða listamaður eða stærðfræðingur eða … eða … eða … ég er bara mjög … venjuleg.
Stundum hef ég horft á frábærar gjafir annarra og fundist ég lítilmótleg. Ég er þó að læra hversu tilgangslaus og jafnvel eyðileggjandi slíkur samanburður er. Það sem er meira um vert, þá hafa augu mín lokist upp fyrir hinum helga krafti „síður áberandi gjafa“ Guðs og gleðinni yfir þeim, sem staðfestingu á kærleika hans og trausti.
Öldungur Marvin J. Ashton kenndi að andlegar gjafir Guðs feli í sér þær sem eru „síður áberandi,“ þar á meðal „gjöfina að spyrja; gjöfina að hlusta; gjöfina að hlýða á og nota hina kyrrlátu, lágu rödd; gjöfina að geta grátið; gjöfina að forðast deilur; gjöfina að vera viðkunnanlegur; … gjöfina að leita þess réttláta; gjöfina að fella ekki dóma; gjöfina að leita til Guðs eftir leiðsögn; gjöfina að vera lærisveinn; gjöfina að bera umhyggju fyrir öðrum; gjöfina að geta ígrundað; gjöfina að flytja bæn.“2
Hjálpar þessi upptalning ykkur að sjá gjafir ykkar í nýju ljósi? Hún hjálpar mér.
Þessar hljóðu gjafir gera jafn mikið til að lyfta börnum Guðs, eins og aðrar sem við viðurkennum og látum meira með3 – hljóðar gjafir sem gera okkur mögulegt að ná mikilvægasta tilgangi lífs okkar. Því miður höldum við stundum aftur af okkur og látum bregðast að meta gjafir okkar eða miðla þeim af ótta við að þær séu ekki eins fágaðar, fullkomnar eða fallegar og við hefðum viljað.
Þegar við látum bregðast að meta þessar síður áberandi gjafir, glötum við því tækifæri að lyfta börnum hans – og við glötum því tækifæri að finna kærleika Guðs.4
Spilið söng gjafa ykkar
Ég ætla að segja ykkur frá annarri gjöf – gjöf frá afa mínum Lundgren. Afi vildi alltaf leika á fiðluna. Fiðlan hans var þó ónotuð og rykug í mörg ár á hillunni hans og síðan á minni – engin tónlist heyrðist frá strengjum hennar.
Berið þetta saman við fiðlu sex ára barnabarns míns, Scarlett. Hún hefur gjöf að miðla okkur í kvöld.
[Scarlett leikur á fiðluna]
Takk fyrir, Scarlett. Þetta var dásamlegt. Ég elska þig.
Gjöfum okkar frá himneskum föður ber að miðla. Fiðlan hennar Scarlett er ekki dýr og við gætum fundið veilur í hljóðfærinu eða tækninni, en vegna þess að hún lagði sig alla fram, þá hefur hún gefið gjöf og vakið gleði.
Látið ekki gjafir Guðs til ykkar, jafnvel þær síður áberandi, verða ónotaðar eða vanmetnar. Takið gjafirnar sem hann hefur gefið ykkur af hillunni. Ef þið hafið geymt þær af óframfærni, dustið þá af þeim rykið og reynið. Bjóðið þær Guði og börnum hans. Gjafirnar sem við höfum frá himneskum föður, ber að nota og miðla. Allar gjafir ykkar frá Guði, hversu ófullgerðar sem þær eru, vekja gleði og eru lofsöngur þegar þið færið þær honum.
Hafið með ykkur þá gjöf að hlusta af kærleika og heimsækið einmana vin. Hafið þið þá hæfileika að forðast deilur og vera viðkunnanlegur? Aldrei áður hefur verið meiri þörf fyrir þessar gjafir. Gefið þær fjölskyldu ykkar, vinum og samferðafólki. Segið ferðalanga að þið elskið hann og bjóðið honum til borðs í eldhúsinu. Kennið andlega lexíu. Skrifið vingjarnlega athugasemd. Notið gjafir ykkar til að liðsinna og byggja upp Síon og fólkið umhverfis. Guð þarfnast alls mögulegs. Hann hefur gefið allar gjafir til að lyfta börnum sínum. Látið hina innri tónlist ekki vera ósungna, faðmlagið ógefið, fyrirgefninguna óboðna.
Taka á móti gjöf hans
Á jólunum 1832 áttu hinir heilögu erfitt og stóðu frammi fyrir borgaralegri og pólitískri ólgu. Spámaðurinn Joseph Smith hafði nýverið spáð fyrir um borgarastyrjöld.5 Þetta var nú ekki upplífgandi.
Þann 27. desember, hlaut Joseph aðra opinberun – sem var „friðarboðskapur“ frá Drottni.6 Á þessum erfiðu tímum minnti Drottinn Joseph á gjafirnar sem hann hafði gefið hinum heilögu – síðast en ekki síst gjöf frelsarans Jesú Krists og vonina um eilíft líf.
Leiðin til að gleðjast á þeim jólum var að sjá og taka á móti gjöfum Guðs; fyrst og fremst hina „óumræðilegu gjöf“7 frelsarans. Hið sama á við um þessi jól.
Í opinberuninni sem Joseph hlaut, spurði Drottinn hann eftirfarandi spurningar:
„Því að hvað gagnar það manninum, ef gjöf er honum gefin og hann veitir gjöfinni ekki viðtöku? Sjá, hann gleðst ekki yfir því, sem honum er gefið, né heldur gleðst sá, sem gjöfina gefur.“8
Lokaorð
Ég vona að við fáum öll séð og tekið á móti gjöfunum sem Guð hefur gefið okkur – en einkum vona ég að við getum öll glaðst í Guði, gjafara þessara gjafa.
Ég er þakklát fyrir hina óumræðilegu gjöf sonar hans – sonar sem kom til jarðar sem barn, vafinn reifum af ungri móður og lagður í jötu. Barn sem myndi læra setning á setning ofan og vaxa náð fyrir náð, þar til hann legði líf sitt í sölurnar sem fórn fyrir syndir mínar. Fyrir syndir ykkar. Fyrir syndir allra sem hafa lifað og munu einhvern tíma lifa á jörðinni.
Við syngjum orð hins vinsæla sálms:
„Fagna þú veröld, fagna hátt. Lát sérhvert hjarta hýsa hann, vorn himinborna konungsmann.“9
Gjöf Jesú Krists hefur verið gefin og hvað hefur hún kostað? Spurningin er, munum við taka á móti honum? Munum við bjóða honum inn og láta hann ríkja? Hvernig?
Ég ber vitni um að það mun færa sanna gleði að taka á móti konungi okkar og gjöfum hans – gleði fyrir heiminn og gleði í heiminn.
„Þökk sé Guði fyrir [hina] óumræðilegu gjöf“10 sonar hans, í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.