Andi jólanna
Jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins
Sunnudagur 5. desember 2021
Kæru bræður og systur, ég er þakklátur fyrir að vera meðal ykkar á þessari heimslægu jólasamkomu. Hin dásamlega tónlist og orð hafa snert hjörtu okkar. Þau hafa fært okkur hinn sanna anda jólanna, gleðina sem hlýst af því að tilbiðja og elska Drottin Jesú Krist. Við erum tengd honum böndum kærleika og hollustu.
Þessi tilbeiðslutilfinning vex í hvert sinn sem ég les ritningarvers sem hjálpa mér að vita hver hann var og er. Með þeim lestri og bænargjörð, hef ég komist til þekkingar á Jesú sem Jehóva, sem, undir handleiðslu himnesks föður okkar, var skapari allra hluta. Páll lýsti því á þennan hátt:
„Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna.
En nú í lok þessara daga hefur hann til okkar talað í syni sínum sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gert.
Hann, sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans og ber allt með orði máttar síns, hreinsaði okkur af syndum okkar og settist til hægri handar hátigninni á hæðum.
Hann er orðinn englunum þeim mun meiri sem hann hefur að erfðum tekið ágætara nafn en þeir.
Því við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt: Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig? Eða: Ég vil vera honum faðir og hann skal vera mér sonur?
Og aftur er hann leiðir frumburðinn inn í heimsbyggðina segir hann: Allir englar Guðs skulu tilbiðja hann.“1
Við fæðingu Jesú í Betlehem sungu englar vissulega og eins og spáð var, birtist ný stjarna til að lýsa upp himinhvolfið til heiðurs komu sonar Guðs í jarðlífið.
Hann gnæfir yfir okkur og samt vekja atburðir sem tengjast jarðneskri fæðingu hans okkur tilfinningu um að hann sé nálægur okkur. Hann kaus að stíga niður úr hásæti sínu, til hægri handar föðurins, til að taka á sig dauðleika. Hann gerði það af kærleika til sérhvers sonar og dóttur föður síns sem myndi fæðast í heiminn. Hann gerði það af elsku til ykkar – og til mín.
Hann hefði getað fæðst við hvaða aðrar aðstæður sem var. Samt fæddist Jesús við fábrotnar aðstæður í litlu þorpi. Hirðar tóku honum opnum örmum. Nokkrir vitrir menn voru síðar leiddir af innblæstri til að tilbiðja hann. Stjórnmálaleiðtogi fyrirskipaði að hann skyldi drepinn. Fara þurfti með hann til framandi lands til að varðveita líf hans. Þegar engill sagði jarðneskum foreldrum hans að hann gæti snúið aftur til lands síns, fóru þau með hann til Nasaret. Þar varði hann næstum 30 árum, ólst upp og starfaði sem trésmiður, áður en opinber þjónusta hans hófst.
Þið gætuð velt því fyrir ykkur, eins og ég, hvers vegna nauðsynlegt var fyrir hinn fullkomna son Guðs að vera sendur í slíka erindagjörð. Minnist þess hvernig hann lýsti auðmjúku samþykki köllunar sinnar:
„Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gera vilja minn heldur vilja þess er sendi mig.
En sá er vilji þess sem sendi mig að ég glati engu af öllu því sem hann hefur gefið mér heldur reisi það upp á efsta degi.
Því sá er vilji föður míns að hver sem sér soninn og trúir á hann hafi eilíft líf og ég mun reisa hann upp á efsta degi.“2
Jesús sýndi kærleika sinn og auðmýkt. Þrátt fyrir valdastöðu sína og hátign hjá föður sínum, valdi Jesús almúgamenn sem jarðneska lærisveina sína, þar á meðal fiskimenn, tollheimtumann og vandlætingarmann.
Hann prédikaði og átti samneyti við líkþráa, sjúka, limlesta, fyrirlitna. Hann elskaði og meðtók þá lítilmótlegustu meðal þeirra, þótt hann væri kominn niður frá hallargörðum himins. Hann þjónaði þeim, elskaði þá og hughreysti þá.
Hin undraverða góðvild og gæska hans og hófsemi varð jafnvel meiri við lok hins jarðneska verks hans. Hann mætti andstöðu og hatri, sem hann vissi að væri hluti af verkinu sem hann hafði verið kallaður til og gengist við. Hann átti að þjást fyrir syndir og veikleika allra sem í jarðlífið kæmu.
Þið munið eftir orðum Jakobs, þegar hann kenndi um friðþægingu Jesú Krists:
„Ó, hve mikill er heilagleiki Guðs vors! Því að hann þekkir allt, og ekkert er það til, sem hann ekki veit.
Og hann kemur í heiminn til að frelsa alla menn, vilji þeir hlýða á rödd hans. Því að sjá, hann ber þjáningar allra manna, já, þjáningar hverrar lifandi veru, bæði karla, kvenna og barna, sem tilheyra fjölskyldu Adams.
Og hann ber þessar þjáningar, til þess að upprisa allra manna verði að veruleika, svo að allir geti staðið frammi fyrir honum á hinum mikla dómsdegi.“3
Barnið í jötunni í Betlehem var sonur Guðs, sem faðirinn sendi til að verða frelsari okkar. Hann var hinn eingetni sonur föðurins í holdinu. Hann er fyrirmynd okkar.
Til að hafa anda jólanna, þá verðum við að reyna að elska eins og hann elskaði. Orð hans til ykkar og mín eru: „Elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður.“4
Þið getið fundið anda jólanna, eins og ég hef gert, í þessum orðum. Ég hef fundið ljósið og bjartsýnina sem kemur frá áhrifum heilags anda þegar ég hugsa um og ígrunda fordæmi frelsara heimsins.
Ef til vill finnst mér ljúfasta hugsunin hafa verið sú að Drottinn er fús til að liðsinna okkur í öllu sem að höndum ber. Eins og Mormón kenndi:
„Guð, sem veit alla hluti og er eilífur og ævarandi, sjá, hann sendi engla til að þjóna mannanna börnum og kunngjöra þeim um komu Krists, en í Kristi kemur allt hið góða.
Og eigin munni kunngjörði Guð einnig spámönnunum, að Kristur kæmi.
Og sjá. Á ýmsan hátt opinberaði hann mannanna börnum hið góða, en allt, sem gott er, kemur frá Kristi. Án hans væru mennirnir fallnir, og ekkert gott gæti þeim hlotnast.
Með þjónustu engla og með hverju orði, sem gekk fram af Guðs munni, hófu menn því að iðka trú á Krist. Og með trú höndluðu þeir þannig allt hið góða, og þannig var það fram að komu Krists.
Og eftir að hann kom, frelsuðust menn einnig fyrir trú á nafn hans, og fyrir trú verða þeir synir [og dætur] Guðs. Og sannlega sem Kristur lifir, svo mælti hann þessi orð til feðra vorra og sagði: Allt, sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni og gott er, sjá, það mun yður veitast, ef þér biðjið í trú og trúið, að yður muni hlotnast.“5
Á þessu tímabili biðja mörg ykkar um styrk til að takast á við raunir sem virðast reyna á þolrifin til hins ýtrasta. Ég ber vitni um að frelsarinn og faðirinn hafa heyrt ákall ykkar um líkn og það sem er gott fyrir ykkur og fyrir þá sem þið elskið og þjónið.
Svörin munu koma eins og þau gerðu hjá spámanninum Joseph Smith. Ykkur mun finnast bæn Josephs um liðsinni líkjast ykkar eigin bæn. Þið munuð finna kærleika Drottins til Josephs og til ykkar sjálfra í hughreystandi svari hans við ákalli Josephs. Joseph bað:
„Ó Guð, hvar ert þú? Og hvar er tjaldið, sem hylur skýli þitt?
Hversu lengi munt þú halda að þér hendi þinni og hversu lengi mun auga þitt, hið hreina auga þitt, horfa frá hinum eilífu himnum á rangindi þau, sem fólk þitt og þjónar þínir eru beittir, og eyra þitt daufheyrast við ákalli þeirra?“6
Drottinn svaraði, eins og hann gæti svarað ykkur og mér:
„Friður sé með sál þinni. Mótlæti þitt og þrengingar munu aðeins vara örskamma stund–
Og ef þú stenst það vel, þá mun Guð upphefja þig í upphæðum. Þú munt fagna sigri yfir öllum óvinum þínum.
Vinir þínir standa með þér og þeir munu hylla þig aftur með heitu hjarta og hlýjum höndum.“7
Ég veit sjálfur af eigin raun að loforðin eru örugg fyrir ykkur, fyrir mig og fyrir ástvini ykkar. Drottinn hefur upplifað sársauka okkar. Hann valdi að gera það af elsku til okkar. Hann veit hvernig ykkur má hjálpa til að finna frið í mótlæti, jafnvel mitt í prófraunum. Hann mun senda vini sem engla ykkur til stuðnings „með heitu hjarta og hlýjum höndum.“ Okkar eigin hjörtu munu breytast til batnaðar, er við stöndumst persónulegar prófraunir í trú á hann.8 Með þessari breytingu, munum við sjálf verða þeir vinir sem Drottinn getur sent sem engla til annarra.
Sem vitni hans, ber ég vitni um að barnið sem fæddist í Betlehem er Jesús Kristur, hinn elskaði sonur Guðs. Ég lofa, er þið biðjið himneskan föður í trú og í nafni Jesú Krists, að andinn mun vekja ykkur og ástvinum ykkar tilfinningu friðar.
Ég tjái ykkur elsku mína og ósk um að þið megið eiga gleðileg jól – nú í ár og alltaf. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.