Jólasamkomur
„Og þið getið líka vitað það“


11:55

„Og þið getið líka vitað það“

Jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins

Sunnudagur, 5. desember 2021

Kæru bræður og systur, jólin í minni bernsku byggðust að miklu leiti á hefðum frá heimalandi foreldra minna. Móðir mín hafði flutt til Bandaríkjanna frá Svíþjóð og faðir minn frá Finnlandi.1 Í jólaundirbúningnum skreyttum við jólatréð með heimagerðu skrauti og móðir mín bakaði og bakaði og bakaði. Svo langt sem ég veit, þá var hún skyld Lundgren, ömmu systur Craig. Hátíðarhöldin okkar á aðfangadagskvöld hófust með stórkostlegu hlaðborði með hefðbundnum kræsingum sem mamma hafði tekið til – kjötbollum, hrísgrjónagraut og nóg af brauði, kökum og smákökum. Aðfangadagshátíðinni lauk með komu Jultomten jólasveinsins – sem kom með gjafir handa öllum börnunum. Áður en Jultomten kom, bauð móðir mín alltaf bróður mínum, systrum og mér að koma saman til að hlýða á föður minn lesa jólasöguna í Nýja testamentinu.

Faðir minn var hæglátur maður og fámáll, bæði á móðurmáli sínu og ensku sem hann lærði á fullorðinsaldri. Hann var ónærgætilega heiðarlegur og sparsamur á hrósið. Hann var aldrei hugmyndaríkur og ýkti aldrei. Á aðfangadagskvöldi las hann úr 2. Lúkasi. Hann las um Jósef og Maríu fara til Betlehem, engilinn birtast hirðunum, fæðingu Jesú og Maríu ígrunda í hjarta sínu allt sem gerst hafði. Faðir minn lét þó ekki staðar numið í versi 19; hann hélt áfram að lesa frásögnina um Maríu og Jósef fara með Jesúbarnið í musterið í Jerúsalem til að færa fórn í samræmi við lögmál Móse.

Faðir minn las:

„Þá var í Jerúsalem maður er Símeon hét. …

Heilagur andi … hafði … vitrað honum að hann skyldi ekki deyja fyrr en hann hefði séð Krist Drottins.

Að leiðsögn andans kom hann í helgidóminn. Og er [María og Jósef] færðu þangað sveininn Jesú …

tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:

Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara, eins og þú hefur heitið mér

því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,

sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða.“2

Þegar hér var komið staldraði faðir minn alltaf við. Hann gaf síðan vitnisburð sinn. Alltaf lýsti hann yfir staðfastlega, á ensku með sterkum hreim, án nokkurra orðalenginga: „Ég get kannski ekki haldið þessu litla Jesúbarni í fangi mér, en ég veit, alveg eins og Símeon vissi, að það barn var sonur Guðs, frelsari minn og lausnari. Hann er er raunverulegur og hann lifir.“ Eftir þessa yfirlýsingu, horfði hann á hvert okkar með sínum hvössu ljósbláu augum, kinkaði kolli með áherslu og sagði: „Og þið getið líka vitað það.“

Faðir minn og móðir vissu hvað barnið í Betlehem var og hverju það myndi áorka þegar það yxi úr grasi. Þessi vitneskja breytti þeim. Þau þráðu ekki bara að við börnin tryðum orðum þeirra3, heldur að við myndum vita fyrir okkur sjálf, svo við myndum líka breytast. Hvattur af vitnisburði foreldra minna, gekk ég sáttmálsveginn með þrá til að „vita það líka.“

Þegar ég var 11 ára, bjó fjölskyldan okkar í Gautaborg, Svíþjóð. Trúboðsforsetinn bauð öllum unglingunum að lesa Mormónsbók. Tæknilega séð átti boðið ekki við um mig, en bróðir minn var djákni á þeim tíma og hann tók áskoruninni. Ég vildi alltaf vera eins og bróðir minn og gera það sem hann gerði, svo ég tók líka þátt. Foreldrar mínir höfðu gefið mér og systkinum mínum hverju fyrir sig ritningasett og ég byrjaði að lesa á hverju kvöldi.

Nokkrum mánuðum síðar hvatti Gösta Malm forseti, ráðgjafi í trúboðsforsætisráðinu,4 unglingana sem voru að lesa Mormónsbók til að spyrja Guð um sannleiksgildi hennar. Ég ákvað að ég myndi einmitt gera það. Þetta kvöld beið ég þar til bróðir minn hafði sofnað. Ég klifraði út úr rúminu, kraup á kalt gólfið og tók að biðja. Mér leið fljótt eins og mér væri sagt: „Ég hef verið að segja þér allan tímann að hún er sönn.“ Um leið kom yfir mig ólýsanlegur friður. Ég vissi fyrir mig sjálfan með krafti heilags anda að Mormónsbók er sönn.5

Rétt eins og lofað er í Formála Mormónsbókar, þá fékk ég líka að vita „með [krafti heilags anda], að Jesús Kristur er frelsari heimsins, að Joseph Smith er … spámaður [hans] á þessum síðustu dögum, og að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er ríki Drottins, stofnað enn á ný á jörðu til undirbúnings síðari komu Messíasar.“6 Þessi vitneskja, ásamt síðari vitnisburðum, breytti mér, alveg eins og gerst hafði með foreldra mína.

Þessi vitneskja – að Jesús Kristur er sonur Guðs og að hann var krossfestur fyrir syndir heimsins – er andleg gjöf.7 Þessi gjöf er ekki bundin tilteknu prestdæmisembætti eða tilteknu kyni; heldur stendur hún öllum þeim til boða sem gera sig hæf fyrir hana. Við erum ekki beðin að færa frelsaranum gull, reykelsi og myrru að gjöf til að verða hæf fyrir þessa dásamlegu andlegu gjöf. Við erum beðin að gefa okkur sjálf.8 Amalekí, spámaður í Mormónsbók, sárbað fólkið: „Og nú, … vildi [ég] að þér kæmuð til Krists, sem er hinn heilagi Ísraels, og tækjuð við hjálpræði hans og endurlausnarkrafti. Já, komið til hans og leggið fram sálir yðar óskiptar sem fórn til hans. … Og svo sannarlega sem Drottinn lifir, munuð þér hólpnir verða.“9

Þegar ég varð eldri sá ég foreldra mína þjóna öðrum. Ég sá þá halda sáttmála sem þau höfðu gert við Guð. Ég sá þau sinna heimilis- og heimsóknarkennslu af kostgæfni og leitast við að annast þau sem þau þjónuðu. Ég sá þau taka þátt í helgiathöfnum musterisins og taka á móti kirkjuköllunum. Á hverju ári, á aðfangadagskvöldi, bar faðir minn vitni með Símeon um frelsarann Jesú Krist. Í áranna rás bauð faðir minn tengdabörnum sínum og barnabörnum að „vita það líka.“

Áratugum eftir bernskuupplifun mína af Mormónsbók, var ég kallaður sem aðalvaldhafi Sjötíu og falið að tala á aðalráðstefnu. Systur mínar sáu til þess að hinn 92 ára faðir minn gæti horft á ráðstefnuna – og einkum hlustað á mína ræðu. Eftir aðalráðstefnuna, fór ég heim til hans. Ég spurði: „Pabbi, horfðir þú á ráðstefnuna?“ Hann svaraði: „Já.“ Ég spurði: „Heyrðir þú mig tala?“ Hann svaraði: „Já.“ Af nokkurri óþreyju lét ég út úr mér: „Jæja, pabbi, hvað fannst þér? Hann svaraði: „Ó, þetta var allt í lagi. Ég var næstum stoltur.“

Eftir langa stund sagði hann: „Dale, það er nokkuð sem ég þarf að segja þér.“ Ég áttaði mig þá á því, að á meðan ég var að fiska eftir hrósi, var faðir minn niðursokkinn í eitthvað langtum mikilvægara en að skjalla mig. Hann hélt áfram: „Í nótt dreymdi mig draum. Mig dreymdi að ég dæi og ég sá frelsarann. Hann tók mig í fang sér og sagði mér að syndir mínar væru fyrirgefnar. Það vakti svo góða tilfinningu.“ Það var allt sem faðir minn sagði upphátt. Svipurinn á andliti hans sagði heilmargt; hann þekkti Jesú Krist. Hann vissi að barnið í Betlehem, sem hafði „vaxið að vexti og visku og náð hjá Guði og mönnum,“10 væri hjálpræði sitt, að sonur Guðs hafði vaxið upp og friðþægt fyrir syndir sínar. Faðir minn vissi það löngu fyrir þennan draum. Draumurinn var einfaldlega ljúf miskunn – gjöf – frá ástríkum himneskum föður til gamals manns, sem lést tveimur mánuðum síðar. Af öllum þeim jólagjöfum sem ég hef nokkru sinni fengið, er mér efst í huga sú gjöf vitnisburðar og trúar sem faðir minn og móðir hafa verið mér.

Biðjið himneskan föður ykkar á þessum jólum um þá andlegu gjöf að vita um lifandi veruleika frelsara heimsins. Jólin eru dásamlegur og eðlilegur tími til að læra um líf hans og reyna að líkja eftir persónuleika hans og eiginleikum. Þegar þið gerið það, getið þið vitað að Jesús er Kristur, sonur Guðs og að hann friðþægði fyrir syndir ykkar. Þessi vitneskja er betri og varanlegri en nokkur gjöf sem Jultomten hefði nokkurn tíma getið gefið, af því að hún fær breytt manni. Þið munið komast að því að frelsarinn hefur unun af því að bæta það sem þið fáið ekki bætt, að græða sár sem þið fáið ekki grætt, að gera það heilt sem er óbætanlega brotið, umbuna fyrir hvers kyns ósanngirni og græða varanlega sködduð hjörtu.

Á sama hátt og jarðneskur faðir minn, veit ég að ég get ekki haldið þessu litla Jesúbarni í fangi mér, en ég veit, alveg eins og Símeon vissi, að það barn var sonur Guðs, frelsari minn og frelsari ykkar, lausnari minn og lausnari ykkar. Hann er er raunverulegur og hann lifir. Þið getið líka vitað það. Í nafni Jesú Krists, amen.