Jólasamkomur
Sælir eru friðflytjendur


Sælir eru friðflytjendur

Jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins 2021

Sunnudagur 5. desember 2021

Enn á ný hefur okkar ástkæra Æðsta forsætisráð boðið okkur að koma saman er við hefjum jólahaldið. Þótt hefðir og siðir þjóðanna séu mismunandi, erum við öll þakklát og blessuð fyrir að vera saman – að vera sameinuð í því að tilbiðja frelsara okkar Jesú Krist og fagna fæðingu hans fyrir meira en tveimur árþúsundum.

Ein eftirlætis hefðin á Bassett-heimilinu, sem og á mörgum heimilum ykkar, er að leikgera fæðingarsöguna. Að lesa frásagnir Jesaja, Lúkasar, Matteusar, Nefís og Mormóns, með jólasálmum og lifandi flutningi sem sýnir Maríu, Jósef og Jesúbarnið, hefur verið hvetjandi og andríkt – en þó ekki alltaf.

Eitt aðfangadagskvöldið brast t.d. smábarnahjörð okkar í einn samtaka grátkór. Grátur þeirra breiddist fljótt út til hirðanna og englanna og jafnvel barnsins sjálfs vafið reifum. Árið eftir höfðum við enga hjörð. Enginn þorði að leika sauðkind af ótta við að kindur væru á einhvern hátt orsök hræðilegs og hörmulegs grátkórs. Eitt árið urðu stafir fjárhirðanna að geislasverðum og enn annað árið vildi enginn vera vitringur eða engill, en kröfðust þess í stað að klæðast risaeðlu- og höfrungabúningum frá hrekkjavöku. Eftirminnilegasta leikgerðin okkar var ef til vill þegar hið nýfædda barn valt út úr allt of hárri og óstöðugri jötunni og féll í átt að grýttu eldstæðinu, aðeins til að verða gripið rétt ofan við gólfið. Ég mun eigna mér heiðurinn af þeirri neyðarbjörgun, þótt fallið hafi líka algjörlega verið mitt klúður.

Heims um ból? Helg eru jól? Betur færi ef fæðingarsögur okkar yrðu kallaðar „ringulreið í jötu.“ Ég verð að viðurkenna að þegar líða tekur að jólum, velti ég oft fyrir mér hvort við ættum ef til vill að prófa jólahefð sem í raun vekur frið?

Friður – hið ljúfa og vænlega ástand sem við þráum öll, ekki aðeins á jólunum heldur alltaf. Um allan heim á okkar tíma virðist hins vegar vera stöðugt erfiðara að finna frið. Þegar ég lærði Kenningu og sáttmála á þessu ári, var ég minntur á opinberun sem greinir frá okkar tíma:

„Og á þeim degi … verður öll jörðin … í uppnámi og hjörtu mannanna bregðast þeim.“1

Hvar getum við fundið hinn dásamlega frið sem allur heimurinn þráir í uppnámsástandi okkar tíma?

Russell M. Nelson forseti hefur sagt:

„Fagnaðaerindi Jesú Krists er nákvæmlega það sem þörf er á í þessum lúna heimi átaka og erja.

Sérhvert barn Guðs verðskuldar tækifæri til að hlýða á og meðtaka græðandi, endurleysandi boðskap Jesú Krists. Enginn annar boðskapur er nauðsynlegri hamingju okkar – nú og alltaf.“2

Boðskapur endurreisnarinnar er boðskapur jólanna. Ljós stjörnunnar sem leiddi fjárhirðana til barnsins í jötunni svarar til ljósstólpans sem steig niður þar til hann hvíldi á Joseph – hvort tveggja undanfari mikils fagnaðar og boðunar til heimsins um Krist.

Boðskapur Jesaja til okkar þjakaða heims er enn: „Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla, hann skal nefndur: Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.“3

Öldungur Quentin L. Cook kenndi: „Eitt kærasta nafn Drottins og frelsara okkar, Jesú Krists, er ‚Friðarhöfðingi‘ [Jesaja 9:6]. … Ríki hans mun að lokum verða stofnað og þar mun ríkja friður og elska.“4

Þegar við lesum orðin í Lúkasi þetta árið, þá vona ég að þið íhugið orð „himneskra hersveita sem lofuðu Guð“ og sögðu: „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.“5 Ég hef ígrundað þessi orð og fannst það geta verið viðeigandi fyrir okkur að íhuga þetta sem yfirlýsingu: „Á jörðu ríkir nú friður.“ „Friður hefur borist!“ gætu þeir hafa lýst yfir. Því þetta kvöld, í þessu fábrotna fjárhúsi, hafði þessi „Friðarhöfðingi“ bókstaflega komið til jarðar.

Á þessum fyrsta jóladegi lýstu hersveitir engla yfir að friður hefði borist. Fyrir þeirra tíma, lýsti Jakob yfir: „Vér þekktum til Krists og lifðum í von um dýrð hans mörg hundruð árum fyrir komu hans. Og vér lifðum ekki einir í von um dýrð hans, heldur einnig allir hinir heilögu spámenn, sem á undan oss komu.“6

Jesaja spáði líka um okkar tíma, er hann ritaði: „Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur.“7

Hvaða dásamlega fólk er það þá sem flytur frið? Frelsarinn lýsti yfir við lærisveina sína, bæði í Galíleu og í landi Nægtarbrunns: „Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.“8

Benjamín konungur kenndi að auki: „Og vegna sáttmálans, sem þér hafið gjört, skuluð þér nefnast börn Krists, synir hans og dætur hans. Því að sjá. Á þessum degi hefur hann getið yður andlega, því að þér segið, að hjörtu yðar hafi breyst fyrir trú á nafn hans. Þess vegna eruð þér af honum fædd og eruð orðin synir hans og dætur hans.“9

Þið og ég erum sáttmálsbörn Jesú Krists, hvert okkar er barn hans. Hafið hugfast að hann lýsti yfir að friðflytjendur myndu verða kallaðir börn Guðs. Okkar – börnum Guðs – ber því að vera friðflytjendur. Það er sáttmálsskylda okkar. Þið og ég komum góðu til leiðar í hinum þjakaða heimi, er við reynum að vera friðflytjendur – á heimilum okkar, í söfnuðum okkar, í samfélögum okkar, jafnvel um heim allan, með góðvild, góðverkum og orðum – augliti til auglitis, sem og stafrænt. Við skulum trúfastlega „boða frið“ er við vitnum um hann í orði og verki.

Við lesum aftur í Lúkasi:

„Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins sögðu hirðarnir sín á milli: ,Förum beint til Betlehem að sjá það sem gerst hefur og Drottinn hefur kunngjört okkur.‘

Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið sem lá í jötu.

Þegar þeir sáu það skýrðu þeir frá því er þeim hafði verið sagt um barn þetta.“10

Við skulum líka „[fara] með skyndi“ og „skýra frá“ boðskap friðar „um barn þetta.“ Þetta er boðskapurinn sem trúboðar kenna ástvinum okkar og vinum; þetta er hinn lifandi boðskapur sem þjónustutrúboðar miðla þegar þeir þjóna eins og frelsarinn myndi gera. Þetta er boðskapurinn sem við boðum þegar við elskum, miðlum og bjóðum þeim sem umhverfis eru til að taka þátt í voninni og friðinum sem finna má í fagnaðarerindi Jesú Krists.

Aftur að hinni óskipulegu, leikgerðu jólasögu Bassett-fjölskyldunnar, sem við reynum að gera á hverjum jólum – af hverju höldum við í þessa hefð, hvetjum börn okkar og barnabörn til að endurskapa þessa fallegustu nótt allra nótta, er englar færðu góð tíðindi mikillar gleði?

Svarið er einfalt og dásamlegt: „Vér tölum um Krist, vér fögnum í Kristi, vér prédikum um Krist, vér spáum um Krist og vér færum spádóma vora í letur, svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna.“11

Já, við sjáum að öll jörðin er í uppnámi og hjörtu mannanna bregðast þeim. Þrátt fyrir áskoranir, frammi fyrir andstöðu og mitt í uppnáminu, skulum við halda áfram að boða frið, á þessum tíma og alltaf, er við búum okkur og aðra umhverfis undir hina miklu endurkomu Friðarhöfðingjans, já Drottins, frelsarans og lausnarans, Jesú Krists. Með orðum Nelsons forseta: „Sérhvert barn Guðs verðskuldar tækifæri til að hlýða á og meðtaka hinn græðandi, endurleysandi boðskap Jesú Krists.“

Megum við vera boðberar friðar er við fögnum fæðingu, lífi og verki frelsara okkar á þessari jólahátíð og alltaf. Það er bæn mín í nafni Jesú Krists, amen.

Prenta