Jólasamkomur
Frelsarinn borinn er


Frelsarinn borinn er

Jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins 2022

Sunnudagurinn 4. desember 2022

Opnum hjörtu okkar til að meðtaka

Friður og hlýja andlegrar tónlistar fyllir sálu okkar.

Gleðileg jól!

Það var desember 1943 og heimurinn var á kafi í Síðari heimstyrjöldinni. Allir höfðu áhyggjur af ástvinum sínum á fjarlægum ströndum og áhyggjurnar af fjárhags og matarskorti heimavið voru allsráðandi. Þar sem einstaklega vel var farið með úrræði fjölskyldunnar, þá vakti það föður mínum, Harold Hillman, níu ára dreng, mikla furðu að fá slíka undraverða jólagjöf – lestarsett. Þetta var ekki bara einhver lest, þessi lest ferðaðist eftir teinunum á eigin krafti. Engin þörf á að ýta henni. Það virtist nær ómögulegt að slík undraverð gjöf væri raunveruleg. Það sem Harold elskaði þessa lest.

Nokkrum árum seinna, er líða tók að jólum, var heimurinn að brjótast undan stríðinu. Aðstæður í litla bænum St. Anthony, Idaho, höfðu þó ekki batnað, heldur í raun versnað fyrir fjölskyldu föður míns. Faðir Harolds hafði verið alvarlega veikur, svo nærri lá dauða. Það var enginn að fara að fá neinar gjafir – þar með taldir Harold og yngri bróðir hans, Arnold.

Nokkrum dögum fyrir jól, kom faðir Harolds til hans og spurði lágt: „Harold, værir þú fús til að gefa Arnold lestina þína, svo að hann fái jólagjöf í ár?“

Hafði hann heyrt rétt í föður sínum? Dýrmætu lestina hans? Þetta var bón allra bóna.

Jólamorgunn rann upp og Arnold skríkti af gleði er hann fékk alveg eins lest og Harold átti.

Arnold tók fljótt eftir því að Harold lék sér ekki lengur með lestina sína. Þegar tíminn leið, gerði Arnold sér grein fyrir því að þessi dýrmæta gjöf var ekki „alveg eins“ og lestin hans Harolds – hún var lestin hans Harolds! Þegar Arnold gerði sér grein fyrir þýðingunni að baki gjöfinni, varð lestin ómetanleg.

Fyrir mér er þessi fjölskyldusaga gjöf – og ekki bara vegna þess að hún minnir mig á ástkæran föður minn og aðdáunarverðan bróður hans. Það sem er enn mikilvægara er að hún minnir mig á fórn – fórn og elsku ástkærs sonar Guðs – hvers fæðingar við fögnum.

Jesús Kristur var og er fyrsta og ævarandi jólagjöfin okkar. Ég ber þessu vitni: Hann fæddist, hann lifði og hann dó fyrir okkur og hann lifir – enn!

Hve blessuð við erum að vera þiggjendur þessarar gleðilegu gjafar. Með orðum ástkærs jólalags: „Fagna þú veröld, fagna hátt, því frelsarinn borinn er!“1

Öldungur Neal A: Maxwell kenndi: „Með hliðsjón af öllu því sem Guð hefur gefið okkur, ættum við að vera góðir þiggendur, en það erum við ekki. Okkur, sem teljum að við séum nokkuð sjálfbjarga og sjálfstæð, finnst oft óþægilegt að þiggja, jafnvel erfitt. …

[Samt] eru gjafir Guðs, ólíkt árstíðabundnum gjöfum, eilífar og óforgengilegar, eins og óslitin jól, sem taka aldrei enda!“2

Hvernig meðtökum við þá slíka dýrindis gjöf á viðeigandi hátt? Hvernig veljum við daglega gjöf frelsara okkar, elsku hans og altæka friðþægingu?

Fjarlægjum okkur örlítið héluðum gluggarúðum og máluðum sælgætisstöfum og lærum af auðmjúku hlutskipti þeirra sem íklæddust sandölum og tóku fyrst á móti Kristi.

Meðtaka heilagleika hans

Þegar fæðing frelsarans nálgaðist, þrengdu María og Jósef sér í gegnum hina erilsömu Betlehem, en gistihúsin voru full. Var enginn sem hafði rúm handa þeim? Var enginn til að veita þeim hvíld? María vissi hvaða gjöf hún bar, en enginn hafði rúm til að meðtaka hana, til að meðtaka hann.

Við getum ekki vitað fyllilega hvernig Maríu og Jósef leið á þessari stundu, en ég hef alltaf ímyndað mér þau halda áfram af hljóðum styrk og trausti. Hafandi meðtekið boð engilsins um að „óttast … ekki,“3 gátu þau nú látið af öllum væntingum um þægilega gistingu í undirbúningi sínum fyrir fæðingu Jesú og komið sér fyrir í hljóðu, auðmjúku gripahúsi. Það sem þeim hlýtur að hafa fundist vera hráslagalegt umhverfi, átti ekki eftir að vera það lengi. Drottinn myndi fljótlega fylla upp í þann tómleika með heilagleika.

Eins og segir svo eftirminnilega í Lúkasi 2:7: „Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.“

Frelsari okkar – hin dýrðlega gjöf lífs, vonar og fyrirheits – var kominn til jarðar.

Getum við undirbúið rúm í hjörtum okkar til að meðtaka Krist og leyfa heilagleika hans að fylla tómarúm okkar? Eins og María og Jósef, getum við treyst honum, stundum jafnvel mitt í yfirþyrmandi aðstæðum? Leiðsögnin – jafnvel kraftaverkin – sem við sjáum í lífi okkar, munu eflaust ekki birtast í hamaganginum, né á sviði eða íþróttaleikvöngum, en á hljóðum stöðum þar sem við búum og störfum – þar sem við leitum hjálpar. Hvenær sem auðmjúk þörf okkar kemur fram, getum og munum við fá svörin við hvísluðum bænum okkar.

Meðtaka boð hans um að láta verkin tala

Er það ekki stórkostlegt að sumir þeirra sem fyrst tóku á móti lambinu voru fjárhirðar?

Nóttin lá yfir jörðunni þegar hinir lotningarfullu fjárhirðar komu saman undir skínandi ljóssúlu er himinn og jörð mættust í mikilfenglegum atburði fæðingar frelsarans.

„Og engillinn sagði við þá, verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, …

Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“4

Við elskum að þessir trúföstu fjárhirðar hafi ekki frestað því að meðtaka, heldur farið í flýti til að hitta konung sinn. Af þeim lærum við að orðið meðtaka felur í sér verk. Lúkas segir okkur að fjárhirðarnir „fóru með skyndi og fundu … ungbarnið sem lá í jötu.“5

Oft meðtökum við ekki hin hljóðu skilaboð frá Drottni, því þau passa ekki snyrtilega inn í dagatalið okkar, áætlanir eða tímasetningu. Jólasagan minnir okkur á að vera eins og hinir trúföstu fjárhirðar sem hikuðu ekki við að gera það sem nauðsynlegt var til að taka á móti konungi sínum.

Tókuð þið eftir því að Lúkas kom gleðilegri hvatningu inn í jólasöguna, það að meðtaka hann er að miðla honum, er hann útskýrði: „Þegar þeir sáu [Jesú] skýrðu þeir frá því er þeim hafði verið sagt um barn þetta“?6 Þessir fjárhirðar meðtóku þennan boðskap frá himnum, fóru í flýti og þegar í stað urðu þeir boðberar himna, boðuðu „fagna þú veröld,“ og sögðu öllum að „frelsarinn borinn er!“7

Meðtaka með þolgæði trúar

Snúum okkur nú að vitringunum. Þeir eru áberandi meðal hinna miklu leitenda Jesú Krists. Þeir vörðu lífi sínu í að fylgjast trúfastlega með himneskum yfirlýsingum og þegar þær svo birtust, skildu þeir eftir þægindi heimilisins, störf, fjölskyldur og vini til að fylgja stjörnunni og finna konung þeirra.

Ólíkt fjárhirðunum, þá var ferð þeirra samfelld ferð sem tók langan tíma. Þeir urðu að leita og spyrjast fyrir og bíða og síðan að gera það aftur, þar til þeir sáu ungbarnið og Maríu, móður þess. Þeir gáfu gjafir sem voru mjög dýrmætar, krupu niður og tilbáðu hann.8

Ég hef oft hugleitt: Þegar við meðtökum Krist, leitum við trúfastlega að honum og leyfum að hann leiði ferð okkar til óþekktra staða og einstaklinga? Hvernig getum við tjáð þakklæti okkar í þeim gjöfum eða tilbeiðslu sem við leggjum fram?

Sælir eru þiggjendur

Svo þarna er hún – hin merka jólasaga.

Kæru vinir, blessaðir eru þiggjendur. Eins ástkær og lestargjöfin var föður mínum og ljúfar gjafir tíma og fjársjóða sem fjölskyldur gefa alls staðar, þá fölna þær gjafir í samanburði við það að meðtaka hina sönnu gjöf jólanna – Jesú Krist.

„Því að hvað gagnar það manninum, ef gjöf er honum gefin og hann veitir gjöfinni ekki viðtöku?“9

Hugleiðið þessa ritningargrein í ljósi þessa eilífa sannleika: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“10

Ég ann því loforði að hver sá sem muni sannarlega þiggja gjöf Krists sem gefin var þessa helgu nótt, mun öðlast eilíft líf.

Því sjáum við að í gegnum daglegt framlag okkar við að meðtaka Krist enn fyllilegar, verðum við eins og spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti hefur boðið: „fólk sem er hæft, reiðubúið og verðugt til að taka á móti Drottni þegar hann kemur aftur; fólk sem þegar hefur valið Jesú Krist.“11

Hve dásamlegt það er að ímynda okkur þann dag er við munum hrópa enn á ný: „Fagna þú veröld, fagna hátt [hvert og eitt okkar], því frelsarinn borinn er!“12 Í nafni Jesú Krists, amen.

Prenta