Jólasamkomur
Mest allra gjafa jólanna


Mest allra gjafa jólanna

Jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins 2022

Sunnudagurinn 4. desember 2022

„Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins sögðu hirðarnir sín á milli: ,Förum beint til Betlehem að sjá það sem gerst hefur og Drottinn hefur kunngjört okkur.‘

Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið sem lá í jötu.“1

Þessi einföldu ritningarvers Lúkasar í Nýja testamentinu kalla myndrænt fram í huga okkar hinn helga atburð fæðingar Jesú Krists, sem haldinn er hátíðlegur um víða veröld.

Í heimalandi okkar, Portúgal, er ástsæl hefð fyrir því að endurskapa þennan atburð ritninganna með uppsetningu jólasviðsmyndarinnar. Jólasviðsmyndir finnast á ýmsum stöðum um landið allt í jólavertíðinni – hefð sem einnig er viðhöfð á mörgum heimilum. Við uppsetningu jólasviðsmyndar þarf oft að verða sér úti um mosa, hey, steina og önnur náttúruefni til að búa til sem raunverulegastan bakgrunn fyrir sviðsmyndina.

Sú jólahefð að setja upp jólasviðsmynd með foreldrum okkar og síðar eigin börnum var verkefni sem okkur var kært á bernsku- og unglingsárunum. Að setja upp jólasviðsmyndina, var ein af mínum eftirlætis uppákomum á þessum tíma árs.

Allar litlu skrautstytturnar sem notaðar voru til að setja upp jólasviðsmyndina og umhverfi hennar geymdum við í trékassa. Oft höfðum við einnig lítið líkan af þorpinu okkar sem sviðsmynd. Á jólunum, ár hvert, bættum við nokkrum nýjum styttum eða hlutum við safnið. Þar voru styttur af þorpsbúum, húsum, bændum og dýrum og vind- og vatnsmyllum og náttúruhlutum sem sýna áttu hæðir og dali, tré og akra. Endurvarpandi speglabrot voru notuð til að tákna ár og læki. Stundum var jafnvel brúm stillt upp. Og fyrir miðju alls þessa voru auðvitað mikilvægustu stytturnar, þær sem ritningarnar lýstu svohljóðandi: sauðahjörð og „hirðar úti í haga [sem] gættu um nóttina hjarðar sinnar“;2 engillinn sem sagði hirðunum að vera óhræddir og kunngerði fæðingu frelsarans og boðaði „mikinn fögnuð … öllum lýðnum“;3 stytturnar af Maríu og Jósef, áberandi staðsettar umhverfis jötuna.4 Svo var stjarnan, sem ritningarnar segja að hafi veitt vitringunum mikla gleði og leitt þá á ferð sinni til að finna Jesú.5

Það var undir öllum fjölskyldumeðlimum komið að útbúa jólasviðsmyndina. Yfir nokkra daga eða jafnvel nokkrar vikur, var sviðsmyndin smám saman búin til og sett saman með öllum styttunum á sínum stað.

Yfir hátíðarnar dáðumst við að jólasviðsmyndinni og minntumst atburðarins sem lýst er í frásögnum Matteusar og Lúkasar, sem gera þessa hátíð svo þýðingarmikla. Sögur um trú Maríu og Jósefs voru sagðar; um ferðalag þeirra „úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem“6; og um raunir þeirra við að finna sér samastað þar.

Að lokum rann upp jóladagur, styttan af Jesúbarninu var sett í jötuna og umræðan snerist þá um mikilvægi Jesú Krists í lífi okkar og þess sem hann gerði fyrir okkur7 og að hann væri mesta gjöf allra gjafa.

Þessi jólasálmur dregur saman anda hátíðarinnar:

„Ó barn, í blíðri umsjá Maríu!

Ó litla barn, svo hreint og fagurt!

Umvafið í jötunnar heyi

á guðlegum fyrsta jóladegi!

Vonir allra alda og kynþátta

eru bundnar við þinn geislandi vanga!

Ó barn, hvers dýrð uppfyllir jörð!

Ó litla barn, sem kom auðmjúkt í heiminn!

Hirðarnir leiddir úr fjarska,

stóðu tilbiðjandi undir stjörnu

og vitringarnir féllu á kné

og virðingu vottuðu þér!

Ó barn, sem englar syngja um!

Ó litla barn, konungur okkar!

Smyrsl fyrir allar sorgir liggur

í þínum tæru, skínandi augum!

Ó, dýrmæt gjöf til allra manna

sem erfingjar á himnum!“8

Frelsarinn bar sjálfur vitni um gjöf sína til okkar: „Þetta hef ég talað við yður svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“9

„Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“10

Hvílík einstök gjöf; hvílík himnesk gjöf!

„Í jólavertíðinni er gott að ígrunda og bregðast við þeim blessunum og tækifærum sem við höfum vegna fæðingar, lífs, friðþægingar og upprisu frelsara okkar, Jesú Krists.“11

Ég leiði hugann að þeirri blessun að finna frið og von jafnvel mitt í erfiðleikum og raunum;12 blessun guðlegrar leiðsagnar, bæði á tímum sigurs og örvæntingar;13 blessun aukinnar innsýnar og tilgangs, að vita og trúa því að meira taki við eftir jarðvistina;14 blessun þakklætis, jafnvel þegar við höfum lítið handa á milli; blessun huggunar þegar við erum einmana;15 og blessun þess að geta gefið, jafnvel þegar við eigum ekki mikið.

Þessar blessanir, ásamt mörgum öðrum, höfum við vegna Jesú Krists! Já, vegna ungbarnsins Jesú, sem ég beið svo spenntur eftir að yrði lagður í jötuna á jóladegi í jólasviðsmyndinni okkar! Hann, sem er mesta gjöfin okkar, gaf okkur slíkar dýrmætar blessanir með lífi sínu, fordæmi, kenningu og fórn.

Ég spyr því: Ættum við því ekki að endurgjalda með því, að nota þessar blessanir til að létta byrðar annarra, liðsinna og hvetja þau til að tileinka sér anda þessarar helgu tíðar og fagna hinum góðu tíðindum sem kunngerð voru hirðunum á hinum fyrstu jólum?

Kristur getur umbreytt jólunum okkar út fyrir skrautborða gæsku og ástúðar og umvafið fögnuð okkar kærleika, sem er „hin hreina ást Krists [sem] varir að eilífu.“16 „Þrátt fyrir að tilfinningar okkar rísi og hnígi, þá gerir elska hans til okkar það ekki.“17 Elska hans er jöfn og stöðug út árið og allt líf okkar.

Ef við endurstillum auglit okkar á Krist á jólunum, munum við finna fyrir aukinni elsku hans í lífi okkar og aukinni getu til að elska og þjóna öðrum umhverfis okkur.

Þegar við höfum anda jólanna, höfum við anda Krists. Megum við einblína á Jesú Krist, ljós heimsins, yfir hátíðarnar og megum við láta ljós okkar skína með því að sýna öðrum elsku okkar, samúð okkar og þjónustulund okkar.

Vegna komu hans, er tilgangur með tilveru okkar. Vegna komu hans, er til von. Hann er frelsari heimsins og hann er mesta gjöfin okkar; um það ber ég vitni. Í nafni Jesú Krists, amen.

Prenta