Jólasamkomur
Fyrir hina réttlátu, þýða jólin að allt muni fara vel


Fyrir hina réttlátu, þýða jólin að allt muni fara vel

Jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins 2022

Sunnudagur, 4. desember 2022

Ég þakka Nelson forseta og Æðsta forsætisráðinu fyrir þau forréttindi að fá að flytja ræðu í kvöld. Fjölskyldan mín hefur haft jólahefðirnar í heiðri í okkar eigin landi og í Frakklandi, Þýskalandi og Brasilíu. Hvar sem við búum, hvað öll okkur varðar sem trúum á og fylgjum Jesú Kristi, er einn dásamlegur sannleikur óbreytanlegur: Við gleðjumst yfir því að sá sem kallaður var frá upphafi, sá sem vænst var um aldir, sá sem var hinn eingetni föðurins, hann kom – á hádegisbaugi tímans, við fábrotnustu aðstæður – hann kom. Og vegna þess að hann kom, munu þeir milljarðar sem lifað hafa á þessari jörðu, lifa aftur og eiga kost á, ef þeir kjósa það, að erfa eilíft líf, mestu allra gjafa Guðs.

Í hinni fallegu sögu um fæðingu hans á jólunum, eru margar lexíur sem læra má.

Hér er lexían sem ég hyggst miðla ykkur í kvöld: Þrátt fyrir allar áhyggjurnar og óvissuna, erfiðleikana og raunirnar sem fylgja þessu dauðlega lífi, mun allt að lokum fara vel hjá hinum réttlátu – þeim sem hafa trú og traust á Drottin.

Hugleiðið þessi fallegu fordæmi.

Réttlát kona að nafni Elísabet og eiginmaður hennar, Sakaría, voru nú á efri árum og sorgmædd yfir að hafa ekki orðið barna auðið. Samt voru þau trúföst og treystu á Drottin.

Þótt það sé ekki skráð í ritningunum, sem Sakaría og Elísabet gætu hafa fundið fyrir og sagt sín á milli, þá hjálpar söngleikurinn Frelsari heimsins okkur að hugleiða það sem kann að hafa búið í hjörtum þeirra. Sakaría segir við Elísabetu: „Það á ekki fyrir okkur að liggja að eignast börn. Við setjum þó saman traust okkar á Drottin.“ Þau syngja síðan: „Eilíflega gef ég Guði, en geri ekki vilja minn. … Eigi það ekki að verða, mun ég eilíflega gefa honum og staldra við og bíða. … Ég … læt hann mig leiða … uns minn tími, dagar og ár hafa liðið hér.“1

Kraftaverkið gerðist síðan. Í ritningunum er skráð að engillinn Gabríel hafi birtist Sakaría í musterinu. Engillinn sagði: „Elísabet kona þín mun fæða þér son og þú skalt láta hann heita Jóhannes. … Og hann mun … búa Drottni altygjaðan lýð.“2

Sakaría svarði: „Ég er gamall og kona mín hnigin að aldri.“3

Gabríel svaraði: „Nú verður þú mállaus og getur ekki talað til þess dags er þetta kemur fram vegna þess að þú trúðir ekki orðum mínum. En þau munu rætast á sínum tíma.“4

Hugsið ykkur þær tilfinningar sem Elísabet og Sakaría hafa upplifað. Í mörg ár höfðu þau beðið fyrir börnum, en ekkert gerst. Þau héldu áfram að halda boðorðin og treysta á Drottin. Síðan birtist engill Sakaría, en í kjölfarið gat hann ekki mælt fram orð. Hann gæti hafa tekið að efast um stöðu sína frammi fyrir Drottni. Á tilsettum tíma fæddist þó barnið. Sakaría fékk aftur málið. Barnið varð spámaðurinn Jóhannes, sem greiddi frelsaranum leið. Þrátt fyrir alla óvissuna og erfiðleikana, þá fer allt vel að lokum hjá hinum réttlátu.

Næst er hin ástkæra María kynnt í jólasögunni, sem var útvalin til að verða móðir sonar Guðs. Samt eru áhyggjur og óvissa í lífi hennar. Gabríel birtist Maríu og sagði frá göfugri köllun hennar. María spurði: „Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“5 Gabríel útskýrði að kraftur heilags anda myndi koma yfir hana og kraftur hins hæsta myndi yfirskyggja hana og hún myndi geta son Guðs og nafn hans yrði Jesús.

Hugsið um þá gleði og hamingju sem hún hlýtur að hafa upplifað með heimsókn engils Guðs, um auðmýkt hennar við þá hugsun að hún yrði móðir hins langþráða Messíasar. Þegar hún hins vegar sagði Jósef frá þessu, var ekki allt óútkljáð. Jósef var réttlátur maður og vildi ekki kalla skömm yfir Maríu, en hann var óviss um hver hin rétta leið væri. Í vandræðum og óvissu Jósefs kom til hans engill í draumi: „Jósef, … óttast þú ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda. Hún mun son ala og hann skaltu láta heita Jesú því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum hans.“6

Vissulega getum við skilið Maríu í erfiðleikum hennar og óvissu og velt fyrir okkur hvernig þessi ótrúlegasta blessun myndi gerast. Jósef var líka áhyggjufullur og órólegur. Samt var nú ljóst að þau áttu að fara þessa leið saman. María hlýtur að hafa verið glöð að vita að engill hafði birst Jósef. Jósef hlýtur að hafa glaðst yfir því að vita að þetta væri vilji Guðs. Þrátt fyrir alla óvissuna og erfiðleikana, þá fer allt vel að lokum hjá hinum réttlátu.

Eins og við vitum, voru þó enn erfiðleikar framundan; þeir eru það alltaf. Þegar fæðingartími Maríu var í nánd, kröfðust Rómverjar þess að Jósef sneri aftur til Betlehemborgar. María og Jósef ákváðu að þau myndu fara saman. Við elskum öll hina fallegu jólasögu. Þegar komið var til Betlehem var hvergi hægt að fá inni í gistihúsi. Hvílíkar áhyggjur Jósef hlýtur að hafa upplifað. Hvernig gat þetta átt sér stað? Hvers vegna þurfti María, útvalin umfram allar konur, að fæða son hins hæsta í fábrotnu fjárhúsi? Yrði fæðingin þá vandkvæðalaus?

Þetta hefði getað virst svo óvænt, svo ósanngjarnt. Barnið fæddist þó; hann var heilbrigður. Líkt og hið fallega jólalag segir: „Hann enga á vöggu en unir þó sér. Í vöggunni stóru þar Jesús minn er.“7

Áður en nóttin leið, birtist engill fjárhirðum á akri og færði þeim hin miklu gleðitíðindi. Englarnir sungu: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“8

Fjárhirðarnir fóru til Betlehem að finna barnið Jesú. Þegar þeir svo fundu Kristsbarnið, hlýtur Jósef og Maríu að hafa létt mikið og þau látið hughreystast, er þeim varð ljóst að það var tilgangur með erfiðleikunum sem umluktu þau. Englarnir höfðu boðað komu hans og göfugt hlutverk hans. Eftir alla óvissuna og erfiðleikana, þá fer allt vel að lokum hjá hinum réttlátu.

Í hinum nýja heimi voru líka erfiðleikar, óvissa og áhyggjur hjá hinum réttlátu. Spámaðurinn Samúel hafði spáð því að fæðing frelsarans yrði að fimm árum liðnum og að hún yrði sýnd með tákni um nótt án myrkurs. Þegar leið að deginum, var hið óhugsandi í spilunum. „Nú bar svo við, að trúleysingjarnir [höfðu tiltekið] ákveðinn dag [sem markaði að tíminn væri úti], er allir þeir, sem trúðu [að frelsarinn myndi koma], skyldu teknir af lífi, ef táknin … kæmu ekki fram.“9 Hinir vantrúuðu hæddust að hinum trúuðu: „Gleði ykkar yfir þessu og trú ykkar á það hefur þess vegna verið fánýt.“10 Ímyndið ykkur óróleika og áhyggjur hinna réttlátu. Í ritningunum segir að Nefí hafi „[lotið] niður að jörðu og hrópaði kröftuglega til Guðs síns vegna fólks síns.“11 Og þegar Nefí baðst fyrir, „barst honum [rödd Drottins] og sagði: Lyft höfði þínu og ver vonglaður, því að sjá. Tíminn er í nánd og í nótt verður táknið gefið, og á degi komanda kem ég í heiminn.“12

Í ritningunni segir: „Orðin, sem Nefí bárust, komu fram eins og þau voru sögð. Því að sjá. Við sólsetur varð ekkert myrkur. … [Og] allt fólkið … varð svo agndofa, að það féll til jarðar. … [Og] ekkert myrkur féll á þessa nótt, heldur var albjart sem um miðjan dag. … Og … þau [vissu] að þetta var fæðingardagur Drottins.“13

Þrátt fyrir alla erfiðleika og óvissu hina réttlátu – þeirra sem treysta á Guð – mun allt að lokum fara vel, hvort heldur í þessu lífi eða þegar við krjúpum við fætur hans.14

Hvers vegna beið Drottinn fram á síðustu nótt með að segja Nefí að hann myndi fæðast á morgun, ef þið hugsið um hinn helga tíma fæðingar frelsarans? Hann hefði getað sagt honum það vikum eða mánuðum áður. Hvers vegna leyfði hann að Elísabet og Sakaría yrðu öldruð og barnlaus, áður en hann staðfesti að Jóhannes spámaður myndi fæðast þeim? Hvers vegna þurfti María að íhuga málið í hjarta sínu og Jósef að efast um stöðu sína í sögu allra sagna? Hvers vegna var hlutverk jötu og hirða og engla óþekkt áður en atburðirnir gerðust?

Drottinn Guð hefur í Abraham lýst yfir: „Og með þessu munum við reyna þá og sjá hvort þeir gjöra allt, sem Drottinn Guð þeirra býður þeim.“15 Og í orðskviðunum: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar.“16

Á okkar eigin óvissutímum, á dögum rauna og erfiðleika, í lífsbaráttu okkar, skulum við vera trúföst. Jesús kom þá helgu nótt. Hann er frelsari heimsins, friðarhöfðingi, konungur konunganna. Hann lifir og „vonir og ótti allra áranna eru bundin [honum] í kvöld.“17 Ég ber vitni um að allt það sem veldur okkur sorgartárum, erfiðleikum og óvissu verður fært til rétts vegar í honum, hinum ástkæra syni Guðs, ef við erum réttlát. „Fagna þú veröld, fagna hátt, því frelsarinn borinn er.“18 Í nafni Jesú Krists, amen.

Prenta