Jólasamkomur
Mikil gleðitíðindi


14:6

Mikil gleðitíðindi

Jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins 2022

Sunnudagur, 4. desember 2022

Gleðileg jól! Þakkir til allra þeirra sem með boðskap sínum, tónlist og þjónustu, hafa boðað „mikil gleðitíðindi“ á þessari jólatíð.

Hundruð milljóna fagna fæðingu Jesú Krists á þessari jólatíð. Allur heimurinn ætti að gera það. Hann var og er mesta fordæmi lífs sem lifað hefur verið.

I.

Jafnvel að veraldlegum skilningi, hefur hið jarðneska líf Jesú frá Nasaret haft meiri áhrif á þennan heim og sögu hans, en líf nokkurs sem lifað hefur. Hann hefur verið meginviðfangsefni spámanna og skálda í þúsundir ára. Mikilfenglegasta list og tónlist hins vestræna heims, hefur verið helguð því að fagna fæðingu, lífi og hlutverki Jesú Krists. Heimspekingar og guðfræðingar hafa varið ævi sinni í að rannsaka kenningar hans. Þessar kenningar hafa innblásið ótal kærleiksverk, sem staðfesta hinna hreinu ást Krists.

Engum hafa verið helgaðir fleiri minnisvarðar vegna lífs síns og kenninga, en Drottni Jesú Kristi. Þetta felur auðvitað í sér hinar stóru dómkirkjur sem þekja meginlönd Evrópu og Ameríku, sem margar hverjar voru meira en öld í byggingu. Nú nýlega hefur Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu 171 vígt og starfrækt musteri og 129 til viðbótar í endurnýjun, nýbyggingu, hönnun eða hafa nýlega verið tilkynnt af Russell M. Nelson forseta á aðalráðstefnu í október. Þessi hús Drottins eru í öllum heimsálfum og í 74 löndum heims. Þar helgum við líf okkar því að fylgja Jesú Kristi.

Milljónir hafa gefið líf sitt – og það sem mikilvægara er, milljónir hafa lagað líf sitt að Drottni, Guði Ísraels, Jehóva, Jesú Kristi, frelsara okkar. Gordon B. Hinckley forseti tók ekki of djúpt í árinni er hann lýsti yfir: „Fordæmi hans [var] áhrifaríkast að gæsku og friði í öllum heiminum.“1

II.

Við getum séð mikilvægan tilgang og tákn í hinni guðlegu boðun um fæðingu hins eingetna sonar Guðs. Við lærum af frásögnum Nýja testamentisins að boðanir um fæðingu Kristsbarnsins á austurhveli jarðar voru færðar þremur ólíkum hópum, hver með afar mismunandi eiginleika. Þeir sem tóku á móti hinni himnesku boðun um fæðinguna voru hinir auðmjúkustu, hinir heilögustu og hinir vitrustu.

Fyrsta boðunin var til hirðanna í hæðunum við Betlehem. Engill og himneskur kór boðuðu „mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: … [frelsara], sem er Kristur Drottinn.“2 Líklega voru hirðarnir útvaldir til að taka á móti þessum gleðitíðindum, vegna þess að þeir voru lítillátir og auðmjúkir. Þeir voru því einkar móttækilegir fyrir boðskap himins, sem þeir sýndu með því að vitja hins nýfædda. Í ritningunni segir: „Þeir [skýrðu] frá því er þeim hafði verið sagt um barn þetta.“3 Starf þeirra sem fjárhirðar og lömbin sem þeir gættu, voru hvort tveggja fyrirmyndir sem frelsarinn notaði við kennslu sína. Og þegar Jesús kom til Jóhannesar skírara í upphafi þjónustu sinnar, sagði sá spámaður: „Sjá, Guðs lamb sem ber synd heimsins.“4

Önnur boðunin um fæðingu Messíasar, var í musterinu í Jerúsalem til tveggja heilagra verkamanna, en guðrækið líf þeirra gerði þá hæfa til að taka á móti vitni heilags anda. Þegar María og Jósef komu með Jesúbarnið í musterið fyrir fórnina sem tengd var frumburðinum, urðu Símeon og Anna bæði vitni að því að hann var Messías. Ritningin segir frá því að Símeon hafi tekið barnið í fangið og lofað Guð fyrir að leyfa sér að sjá „hjálpræði [hans],“ „ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð [hans] Ísrael.“ Og Anna, „spákona,“ „kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla sem væntu lausnar Jerúsalem.“5

Þriðji hópurinn lærði um þessa undraverðu fæðingu. Biblían, lítillega breytt af Joseph Smith, greinir frá því að „vitringar [komu] frá austri til Jerúsalem og sögðu: ‚Hvar er barnið sem fæddist sem Messías Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp í austri og erum komnir að veita honum lotningu.‘“6

Af yfirlýstri fyrirspurn þeirra, getum við ekki efast um að þeir hafi verið leiddir af Drottni í hans heilaga tilgangi. Biblían kennir: „Það sem Guðs er, þekkir enginn maður, nema hann hafi anda Guðs.“7 Vitringar þessir voru frá öðru landi og annarri menningu, svo vitnisburður þeirra var áminning um að Messías fæddist fyrir alla. Auk þess kann að hafa verið annar tilgangur. Verðmæti gullsins og hinna gjafanna sem vitringarnir færðu, gæti hafa hjálpað Maríu og Jósef að flýta ferð sinni til Egyptalands og dvelja þar til að bjarga Kristsbarninu þegar lífi þess var ógnað af ranglátri tilskipan Heródesar konungs.8

Er ekki athyglisvert, að kraftaverkið um fæðingu Krists og nokkuð af merkingu þess atburðar, hafi aðeins verið kunngjört hinum auðmjúkustu, heilögustu og vitrustu? Líkt og öldungur James E. Talmage kenndi í Jesus the Christ: „Sannlega vakti Guð upp vitni fyrir sig til að mæta öllum stéttum og skilyrðum manna – vitnisburður engla fyrir hina fátæku og lítillátu; vitnisburður fyrir hinn drambláta konung og hina hrokafullu presta í Júdeu.“9

Að hugsa um Símeon og Önnu, getur innblásið okkur til að verða eins og þau og bæta við vitnisburði okkar um hina heilögu fæðingu og tilgang hennar á þessari jólahátíð.

III.

Fyrir okkur er ekkert nýtt við að fagna fæðingu Krists. Boðskapurinn er sígildur og kunnuglegur. Hann var kenndur Adam. Hann var boðaður Ísraelsmönnum. Hann var opinberaður niðjum föður Lehís. Sí og æ lýstu spámenn yfir meginsannleika kenninga og friðþægingar Jesú Krists. Endurtekið lýstu þeir yfir ætlunarverki hans og kenndu tilskipan hans um að börn Guðs elskuðu og þjónuðu Guði og hvert öðru. Þessar endurteknu yfirlýsingar í gegnum aldirnar, eru mikilvægasti boðskapur allrar eilífðar. Hvað þá varðar sem fylgja Kristi, þá á ekki að endurskoða þessar yfirlýsingar. Þær á að endurnýja í lífi okkar allra.

Jólin vekja hjá okkur þrá til að sýna fleirum elsku en vinum og vandamönnum. Hin himneska yfirlýsing, „friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum,“10 takmarkaðist ekki við þá sem við þegar berum kærleiksríkar tilfinningar til. Í henni felst að við sýnum kunningjum, ókunnugum og jafnvel óvinum gæsku. Jólin eru líka tími fyrirgefningar, tími til að græða gömul sár og laga sambönd sem hafa farið úrskeiðis.

Jólin eru tími til að láta af hroka og ögrunum, draga úr gagnrýni, iðka þolinmæði og minnka ágreining meðal fólks. Við ættum að sýna öllum einlæga vináttu, þeim sem eru og eru ekki okkar trúar og hlíta tilskipuninni sem Guð lét spámanninn Móse færa Ísraelsmönnum:

„Þegar aðkomumaður dvelur hjá ykkur skuluð þið ekki sýna ójöfnuð.

Aðkomumaður, sem dvelur hjá ykkur, skal njóta sama réttar og innborinn maður. Þú skalt elska hann eins og sjálfan þig.“11

Jólin eru tími til að hafa hugfast að við erum öll börn föður á himnum, sem gaf eingetinn son sinn, til að allir yrðu endurleystir frá dauða, og hefur boðið öllu mannkyni blessanir sáluhjálpar og upphafningar, bundið sömu skilyrðum.

Sem fylgjendur Krists, ættum við að vera vingjarnlegust og tillitssömust allra manna, hvar sem er. Við ættum að kenna börnum okkar að vera vingjarnleg og tillitssöm við alla. Við ættum auðvitað að forðast hvers kyns félagsskap og iðju sem stofna iðkun okkar í voða eða veikir trú okkar og tilbeiðslu. Það ætti þó ekki að koma í veg fyrir samstarf við fólk af öllum skoðanahópum – trúaða og vantrúaða.

Fyrir nokkrum áratugum sagði Thomas S. Monson forseti þessi orð:

„Hirðarnir til forna leituðu barnsins Jesú. En við leitum Jesú Krists, eldri bróður okkar, málsvara okkar hjá föðurnum, lausnara okkar, höfundar hjálpræðis okkar; hans sem í upphafi var hjá föðurnum; hans sem tók á sig syndir heimsins og dó svo fúslega, svo að við gætum lifað að eilífu. Þetta er sá Jesús sem við leitum að.“12

Síðari daga heilagir eru í einkar góðri stöðu til að fagna frelsunarboðskap Jesú Krists allt árið um kring. Við höfum gjöf heilags anda, sem gegnir því hlutverki að vitna um föðurinn og soninn.13 Við erum börn föður á himnum sem lýsti yfir: „Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“14 Og spámenn frelsara okkar, Jesú Krists, sem er Drottinn Guð Ísraels, hafa kunngjört fagnaðarerindi hans:

„Að hann kom í heiminn, sjálfur Jesús, til að verða krossfestur fyrir heiminn, og til að bera syndir heimsins, og til að helga heiminn og hreinsa hann af öllu óréttlæti –

Svo að fyrir hann gætu allir þeir frelsast, sem faðirinn hafði falið honum á vald og gjört með honum –

Sem gjörir föðurinn dýrðlegan og frelsar öll handaverk hans.“15

Við lýsum því yfir í hinni endurreistu kirkju hans „að fyrir friðþægingu Krists geti allir menn orðið hólpnir með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins.“16 Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.