Jólasamkomur
„Kom, lát lofgjörð um hann hljóma“


„Kom, lát lofgjörð um hann hljóma“

Jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins 2023

Sunnudagur, 3. desember 2023

Kæru bræður og systur, hvílík gleði það er að halda enn eina jólahátíð þegar við minnumst fæðingar frelsara okkar og lausnara, Drottins okkar, Jesú Krists.

Í hvert sinn sem barn fæðist er það heilög stund. Horfið á einn langaafastrákinn okkar halda á litla bróður sínum í fyrsta sinn.

[Myndband]

Það er engin furða að himneskir herskarar hafi á hinni helgu nótt fyrir 2000 árum nærri litla bænum Betlehem sungið af gleði! Engill kenndi fjárhirðum þennan stórkostlega sannleika:

„Því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum:

Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“1

Núna, kæru bræður og systur: „Kom, lát lofgjörð um hann hljóma.”2

Jólin hafa í áranna rás breytt mér eins og mörgum ykkar. Æskuminningar mínar eru mótaðar af kreppunni miklu á fjórða áratugnum. Peningar voru af skornum skammti. Gjafir voru einstaklega verðmætar.

Foreldrar mínir sáu til þess að jólin væru töfrum líkust fyrir mig og systkini mín. Á hverju ári lékum við jólasveina fyrir aðra fjölskyldu. Við útbjuggum viðeigandi gjafir og afhentum þær á aðfangadagskvöldi. Þegar við ókum frá heimili þeirra og sáum tárvot andlit þeirra og veifandi hendur, fundum við hina sönnu gleði þess sem gefur.

Ég elskaði jólatónlist þá – og geri enn. Ég og systir Nelson elskum að hlusta á og syngja með Messías, eftir Handel. Ég elska hebresku merkingu orðsins hallelúja. Það þýðir bókstaflega: „Lof sé Drottni Guði Jehóva.”3 Orð sem sungin eru í þessu tónverki eiga ekki aðeins við um fæðingu Drottins, heldur um þúsund ára ríki hans:

Því að barn er oss fætt,

sonur er oss gefinn,

og á herðum hans skal höfðingjadómurinn hvíla.

Og hann mun kallaður: Hinn dásamlegi, ráðgjafi,

Guðhetja,

Eilífðarfaðir,

Friðarhöfðingi.4

Það var snemma á fullorðinsárum mínum sem ég öðlaðist djúpstæðan vitnisburð um Guð föðurinn og hans elskaða son Jesú Krist. Ég komst að því sjálfur að Jesús Kristur var fæddur af Maríu mey, sem var „dýrmætt og útvalið ker.”5 Ég vissi að hann er í raun sonur Guðs6 og megin persónan í allri mannkynssögunni.

Hugsið bara um hið óskiljanlega umfang þess sem Jesús Kristur afrekaði – allt samkvæmt vilja föður síns! Jesús var þegar Guð þegar hann laut svo lágt að koma til jarðar og fullgera mikilvægasta afrekið fyrir hvert og eitt okkar. Afrek sem bókstaflega bjargaði og breytti lífum. Afrek sem ekkert okkar gat gert fyrir okkur sjálf.

Frelsarinn leið „alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar,“7 „svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess.“8

Undanfarna mánuði hef ég lært miklu meira um sársauka og hreinsandi áhrif hans. Hjarta mitt hefur tregað vegna frelsara okkar þegar ég hef reynt að ímynda mér umfang þjáningar hans. Dauðlegur hugur minn getur einfaldlega ekki skilið hvernig hann tók á sig allan sársauka, allar syndir, alla angist og allar þrengingar allra sem hafa lifað!

Í æðsta samúðarverki, sem stangast á við jarðneskan skilning eða lýsingu, lagði frelsarinn sig undir óviðjafnanlega andlega og líkamlega kvöl.

Við sýnum barninu í Betlehem lotningu einmitt vegna þess að hann færði síðar hina óskiljanlegu og óendanlegu fórn í Getsemanegarðinum og á krossinum á Golgata. Þessi fórn endurleysir hvert okkar þegar við veljum að iðrast og fylgja honum. Síðan, til að kóróna verk sitt á jörðu, reis hann upp úr gröfinni á þriðja degi og veitti hverju okkar hina fordæmalausu blessun upprisu og lífs eftir dauða.

Á þessum tíma árs syngjum við oft með gleði eða segjum: „Við óskum þér gleðilegra jóla.“ Kæru bræður og systur, mín hjartans ósk til handa ykkur er í nokkrum hlutum. Í raun er það ekki ósk mín ykkur til handa, heldur bæn mín fyrir ykkur á þessum helga jólatíma.

Í fyrsta lagi bið ég þess að þið finnið hinn djúpa, eilífa kærleika sem frelsari okkar ber til ykkar persónulega. Jesús Kristur hefur þekkt ykkur frá því í fortilverunni. Hann þekkir og sér ykkur núna. Hann sér gleði ykkar og sorgir. Hann hefur upplifað þær allar.

Hann hefur fullkomna samúð með baráttu þinni og gleðst í hvert sinn sem þið þrýstið fram í réttlæti, á góðum og slæmum tímum.

Ég bið þess að þið eignist ykkar persónulega vitnisburð að Jesús Kristur er sonur Guðs, að hann er fylltur guðlegum krafti og að vegna stórkostlegrar friðþægingarfórnar hans, þurfið þið aldrei að upplifa að þið verðið að mæta erfiðum áskorunum lífsins ein. Ef þið biðjið, leitið og knýið á af alvöru9, munið þið hafa stöðugan aðgang að mætti hans til að hjálpa ykkur, styrkja og gera ykkur heil.10

Ég bið þess að þið notið friðþægingu frelsarans til fulls með því að iðrast daglega, gera líf ykkar sífellt hreinna og leita himneskrar leiðsagnar í öllu sem þið gerið. Með öðrum orðum, bið ég þess að þið upplifið gleðina af því að hugsa ávallt himneskt.

Ég bið þess einnig að þið munið nota jólahátíðina til að hefja tímabil enn meiri persónulegrar tilbeiðslu. Byrjið aftur á því að rannsaka kenningar og friðþægingu Jesú Krists. Enginn á þessari jörðu elskar ykkur eins og hann gerir. Enginn hér skilur ykkur betur eða þekkir raunverulega sorgir ykkar og veikleika. Enginn á jörðu hefur máttinn sem Jesús Kristur hefur. Enginn vill jafn mikið að þið verðið allt það sem þið getið orðið. Enginn talar máli okkar frammi fyrir föðurnum jafn vel og hann gerir.

Sonur hans, Jesús Kristur, er frelsari okkar og lausnari. Hann er sonur Guðs, hinn heilagi Ísraels. Hann er hinn smurði.11 Undir handleiðslu föðurins, er hann skapari alls sem skapað var.12 Jesús Kristur var hinn mikli Jehóva, Guð Gamla testamentisins.13 Hann er hinn fyrirheitni Emanúel.14 Hann er okkar mikla fyrirmynd15 og málsvari okkar hjá föðurnum.16 Vegna hans endurreista fagnaðarerindis, eru allar blessanir prestdæmisins í boði fyrir allt mannkyn er menn koma til hans og eru fullkomnaðir í honum.

Bræður og systur, við skulum lifa í anda „hallelúja“ og lofa alltaf Drottin Guð Jehóva. Kom, við skulum láta, lofgjörð um hann hljóma, Krist Drottin, á þessari dýrðlegu jólahátíð!

Ég veit að Guð lifir! Jesús er Kristur! Þetta er hans kirkja. Hann leiðir áframhaldandi endurreisn fagnaðarerindis síns. Um þetta ber ég vitni, í hinu heilaga nafni, Jesú Krists, amen.

Prenta