Minnast og muna eftir
Jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins 2023
Sunnudagur, 3. desember 2023
Þar sem ég bý virðist náttúran frá og með nóvembermánuði fara að dofna hvarvetna umhverfis mig. Skrjáfandi græn lauf, sem áður bærðust blítt og sungu fyrir mig að vori og sumri, falla af hrjóstrugum trjánum og föllnu þurru laufin gefa frá sér molnandi hljóð undir fótum mínum. Glaðir fuglar hljóðna og ljúfur ilmur blaða og blóma virðist hverfa úr lofti. Það sem ég hef yndi af og uppörvar mig í hinum náttúrlega heimi hörfar um tíma og kyrrðin og berangurinn tekur við – þegar dregur að lokum árs og rétt áður en ég gleymi að vera glöð – berst gjöf jólanna.
Og þá í mínu heimshorni hinnar miklu veraldar Guðs, vaknar minning. Ég minnist þess að gefa trjánum gaum, sem alltaf verða græn og gefa frá sér angandi viðar- og moldarilm. Ég minnist þess að hafa leitað djúprauðra eða sláandi hvítra blóma og berja og hlustað á kunnugleg sálmalög sem snertu hjörtu og heyrðust á heimilum og í tilbeiðsluhúsum og boðuðu „heiminum fögnuð,“ er ég leita jólatákna sem „himinn og jörð syngja“ með mér og bjóða mér að muna eftir.
Eitt af undrum þessarar árstíðar, er að svo virðist sem allur hinn kristni heimur og margir handan landamæra okkar, verji þessum tíma markvisst í að leita að og fylla líf sitt af minningartáknum um jólin.
Jólin eru brúin sem við ferðumst yfir á leiða okkar inn í nýja árið. Og á leið okkar yfir hana, er okkur boðið að íhuga kraftaverk „[Drottins hins eilífa Guðs] er skapað hefir endimörk jarðarinnar,“1 sem fæddist við auðmjúkar aðstæður í borg Davíðs og var „[reifaður og lagður í jötu].“2 Þegar við förum í jólapílagrímsferð okkar, getum við ef til vill séð okkur sjálf sem vitra karla og konur nútímans og ef til vill horft á stjörnur ofan við sígræn trén og ljósið sem glitrar allt umhverfis og „[glaðst harla mjög],“3 yfir táknunum sem sett eru upp fyrir okkur til að leiðbeina okkur og beina okkur til Jesú Krists, til hans sem er „ljós heimsins.“4 Ef við finnum ilm af ákveðnu kryddi liggandi í loftinu í þessari jólatíð, minnir það okkur ef til vill á að hafa með okkur gjafir til að gefa „syni hins lifanda Guðs“5 – ekki „gull og reykelsi og myrru,“6 heldur tilbeiðslufórn okkar „sundurkramda hjarta og sáriðrandi anda.“7 Og til þeirra meðal okkar sem elska og annast börn, erum við ef til vill lík nútíma hirðum sem „[gætum hjarðar okkar],“8 sem hlusta eftir jarðneskum englum sem Drottinn sendir með boð um að „óttast ekki,“ vegna þess að þeir koma til að segja okkur hvar frelsara okkar er að finna.9 Munum við ekki eftir því að hvísla þessum [„góðu tíðindum mikils fagnaðar],“ í eyru barna okkar sem vitnisburði? Svo að þegar þau, í barnslegri undrun, virða fyrir sér hin rauðu, grænu, gullnu og hvítu jólaljós, þá minnast þau hinnar tæru og fullkomnu friðþægingarfórnar frelsara síns, Jesú Krists, sem býður þeim gjöf hjálpræðis og nýtt og eilíft líf.
Jólin gera okkur kleift að fara í andlega ferð til Betlehem til að öðlast vitni fyrir okkur sjálf um frelsara okkar, Jesú Krist, og síðan að gefa vitnisburðinn áfram og með leystar tungur og fúsa fætur og hendur til að gera það „[kunnugt]“10 og bera vitni um allt sem við höfum fengið að vita um hann. Við getum farið þessa pílagrímsferð til frelsarans með því að minnast og muna eftir.
Guð gefur okkur gjöf minningar svo við gleymum ekki gefandanum, svo að við fáum skynjað takmarkalausa elsku hans til okkar og lært að elska hann til baka. Hinn forni spámaður Moróní hvetur okkur til að muna að „sérhver góð gjöf kemur frá Kristi.“11 Frelsari okkar gefur gjafir ekki eins og heimurinn gefur – stundlegar, hlutdrægar og eyðast með tímanum. Jesús Kristur veitir varanlegar gjafir, jafnvel nauðsynlegar gjafir, þar á meðal:
-
Gjafir andans, svo sem þekkingu, visku, vitnisburð og trú.12
-
Gjöf heilags anda.
-
Gjöf eilífs lífs.
Og þegar við hugleiðum yfir ævina stórar og smáar „góðar gjafir“ sem hafa borist í líf okkar, getum við séð hönd Drottins bjarga okkur, styrkja okkur og veita okkur líkn?
Þótt hugur okkar og hjörtu kunni að reika og hverfa frá honum, fullvissar stöðugleiki hans okkur um að Drottinn gleymir okkur ekki – á jólum eða öðrum tíma. Drottinn hefur sagt að við séum rist á lófa hans.13 Hans loforð eru alltaf haldin. Hann minnist sáttmálana sem hann gerði við okkur og feður okkar. Hann heyrir og minnist bæna okkar til himnesks föður, hvort sem við förum á knén eða biðjum úr leynum eða varðveitum bænir í hjörtum okkar. Hann man, eins og Russell M. Nelson forseti hefur kennt, að „grípa inn í líf þeirra sem á hann trúa.“14 Hann man eftir að fyrirgefa okkur eins oft og við iðrumst. Hann man eftir að tala til okkar gegnum ritninguna og spámenn, til að hjálpa okkur að finna leiðina heim aftur – sama hversu langt frá við höfum villst og hversu lengi. Og hann man eftir að senda anda sinn til að takast áfram á við okkur þegar við reynum að standa við heilagt loforð okkar um að „hafa hann ávallt í huga.“15
Spencer W. Kimball forseti kenndi: „Þegar þið leitið í orðabók að mikilvægasta orðinu, … gæti það verið muna. Vegna þess að þið hafið öll gert sáttmála, … er okkur brýnast að muna.“ Hann heldur áfram: „Þess vegna fara allir á sakramentissamkomu á hverjum hvíldardegi – til að meðtaka sakramentið og hlusta á prestana biðja þess að þau megi ‚hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans, sem hann hefur gefið þeim.‘ … Hugfast er orðið. Hugfast er dagskráin.”16
Að muna eftir Guði, hvetur okkur til að vekja kraft okkar andlega skriðþunga og býður okkur að starfa á guðlegan hátt. Skoðum þessar kenningar sem Nelson forseti hefur boðið okkur að hafa hugfastar:
-
„Látið Guð ríkja í lífi ykkar“ og „gefið honum sanngjarnan hluta af tíma ykkar.“
-
„Leitið og væntið kraftaverka.“
-
„Bindið enda á deildur í … lífi ykkar“17 og verið friðflytjendur.18
Jólin geta verið tækifæri til að bregðast við þessum boðum og nýta ríkulega eðlislæga tilhneigingu okkar til að muna eftir að hugsa meira um Jesú Krist, vera móttækileg fyrir því að hugleiða kraftaverk fæðingar hans og að skynja og tileinka okkur meiri samfélagsvitund við börn Guðs Minningartáknin sem eru einkennandi fyrir jólin þekkjast oft þegar við:
-
Munum eftir að koma jólakveðjum á framfæri til vina, fjölskyldu og ókunnugra.
-
Munum eftir að gefa gjafir sem kærleikstjáningu.
-
Munum eftir að vera örlát við þá sem eru í neyð og gestrisin við þá sem koma inn á heimili okkar.
-
Munum eftir að leggja áherslu á mikilvægi fjölskyldusamkoma og hefða sem gera jólin öðruvísi og sérstök.
Fyrir marga á þessum árstíma er djúp elska okkar á því að tilreiða sömu máltíðirnar, endursegja sömu ættarsögur og skreyta jólatrén okkar með skrauti sem við tökum fram á hverju ári, mikilvæg athöfn sem varðveitir eðlislæga þrá okkar til að muna eftir upplifunum sem eru mikilvægar fyrir okkur. Sérstakar máltíðir, ákveðnar sögur og frídagar, geta þjónað sem minningar allra uppsafnaðra minninga okkar. Sterkari þrá okkar til að vera kærleiksríkari á þessum árstíma, getur jafnvel vakið athygli á þeim ásetningi okkar að muna eftir því að vera þakklát. Hin sérstaka elska sem fyllir okkur með komu jólanna, veitir okkur líka tækifæri til að beina þrám okkar og verkum að Jesú Kristi: „Hafið hugfast, að það er á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs, sem þið verðið að byggja undirstöðu ykkar.“19 Minnist þess að þegar við nálgumst lok einhvers árs og förum yfir brúna inn í nýtt ár – sem vitrir karlar og vitrar konur, sem vökulir hirðar – að það er með styrk handar Drottins20 sem við gerum það.
Svo hvar sem þið búið í heiminum, munið eftir að gefa gaum að margvíslegum táknum sem bjóða ykkur að leita að Kristi. Í öllu því sem við leggjum áherslu á á þessum árstíma, með hverri kveðju sem við sendum, fyrir hverja manneskju sem við höfum í huga, skulum við ekki gleyma að minnast hins sanna gjafa – hans sem gleymir okkur aldrei og veitir okkur kraft til að minnast sín gegnum anda hans, á jólum og alla tíð. Hann færir „heiminum gleði“ og býður hjörtum okkar að „búa sér rúm“21 til að taka á móti konungi okkar. Hann er hinn öruggi grundvöllur sem við ferðumst á. Hann er ljós heimsins og sonur hins lifandi Guðs. Um það vitna ég í hans nafni, já Jesú Krists, amen.