Aðalráðstefna
Þörf er á friðflytjendum
Aðalráðstefna apríl 2023


19:4

Þörf er á friðflytjendum

Þið hafið sjálfræði til að velja sundrung eða sættir. Ég hvet ykkur eindregið til að velja að vera friðflytjendur, núna og alltaf.

Kæru bræður og systur, það er ánægjulegt að vera meðal ykkar. Á síðastliðnum sex mánuðum hafið þið stöðugt verið í huga mér og í bænum mínum. Ég bið þess að heilagur andi miðli því sem Drottinn vill að þið heyrið þegar ég tala núna til ykkar.

Meðan á skurðlækninganámi mínu stóð fyrir mörgum árum, aðstoðaði ég skurðlækni við að aflima fót sem var fullur af smitandi drepi. Aðgerð þessi var erfið. Síðan, til að auka á spennuna, stóð einn í teyminu illa að verki og skurðlæknirinn brást reiður við. Í miðju reiðikastinu fleygði hann skurðhnífnum útötuðum í sýklum. Hann lenti í framhandleggnum á mér!

Allir í skurðstofunni – nema skurðlæknirinn sem missti stjórn á sér – urðu skelfingu lostnir yfir þessum hættulega gjörningi skurðlæknisins. Sem betur fer, sýktist ég ekki. En þessi upplifun hafði varanleg áhrif á mig. Nákvæmlega á þessu augnabliki hét ég sjálfum mér að hvað sem gerðist á skurðstofunni minni, þá myndi ég aldrei missa stjórn á skapi mínu. Ég hét því líka þann dag að fleygja aldrei neinu frá mér í reiði – hvort sem það væri skurðhnífur eða hvasst orð.

Ég velti jafnvel nú fyrir mér, áratugum síðar, hvort óhreini skurðhnífurinn sem lenti í handleggnum á mér, hafi verið eitraðri en þær eitruðu deilur sem sýkja samfélagslegar umræður okkar og alltof mörg persónuleg sambönd á okkar tíma. Siðferði og velsæmi virðast horfin á þessum tíma andstæðra fylkinga og ástríðufullra ágreiningsmála.

Dónaskapur, aðfinnslur og illt umtal um aðra er allt of almennt. Of margir spekingar, stjórnmálamenn, skemmtikraftar og annað áhrifafólk lætur móðganir stöðugt falla. Ég hef miklar áhyggjur af því að svo margir virðast trúa að algjörlega ásættanlegt sé að fordæma, rægja og baknaga hvern þann sem ekki er á sama máli og þeir sjálfir. Margir virðast óðfúsir að skaða mannorð annars með aumkunarverðum og átakanlegum ásökunum!

Reiðin sannfærir aldrei. Andúð byggir engan upp. Deilur leiða aldrei til innblásinna lausna. Því miður sjáum við stundum atferli sundrungar innan okkar eigin raða. Við heyrum um þá sem gera lítið úr maka sínum og börnum, sem nota reiði til að stjórna öðrum og sem refsa fjölskyldumeðlimum með „þögulri meðferð.“ Við heyrum af ungmennum og börnum sem leggja í einelti og af starfsfólki sem rægir vinnufélaga sína.

Kæru bræður og systur, þetta ætti ekki að gera. Sem lærisveinar Jesú Krists, eigum við að vera fyrirmynd að samskiptum við aðra – einkum þegar við höfum ólíkar skoðanir. Ein einfaldasta leiðin til að bera kennsl á sannan fylgjanda Jesú Krists er að sjá hversu samúðarfull breytni fólks er við aðra.

Frelsarinn dró þetta skýrt fram í prédikunum sínum fyrir fylgjendum í báðum heimshlutum. „Sælir eru friðflytjendur,“ sagði hann.1 „Slái einhver þig á hægri kinn þá bjóð honum einnig hina.“2 Og síðan setti hann auðvitað fram boð sem er okkur öllum áskorun: „Elskið óvini yðar, blessið þá, sem bölva yður, gjörið þeim gott, sem hata yður og biðjið fyrir þeim, sem misnota yður og ofsækja.“3

Fyrir dauða sinn, bauð frelsarinn postulum sínum tólf að elska hver annan, eins og hann hafði elskað þá.4 Og síðan sagði hann: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“5

Boðskapur frelsarans er skýr: Sannir lærisveinar hans byggja upp, lyfta, uppörva, sannfæra og innblása – hversu erfiðar sem aðstæðurnar eru. Sannir lærisveinar Jesú Krists eru friðflytjendur.6

Í dag er pálmasunnudagur. Við erum að búa okkur undir að minnast mikilvægasta og óviðjafnanlegasta atburðar sem skráður hefur verið á jörðu, sem er friðþæging og upprisa Drottins Jesú Krists. Eitt það besta sem við gerum til að heiðra frelsarann er að verða friðflytjandi.7

Friðþæging frelsarans gerði okkur mögulegt að sigrast á öllu illu – þar með talið sundrungu. Verið alveg viss um þetta: Deilur eru af hinu illa! Jesús Kristur lýsti yfir að þeir sem haldnir eru „anda sundrungar“ eru ekki hans, heldur „djöfulsins, sem er faðir sundrungar og [djöfullinn] egnir menn til deilna og reiði hvern gegn öðrum.“8 Þeir sem ala á deilum eru að taka blaðsíðu úr leikbók Satans, hvort sem þeim er það ljóst eða ekki. „Enginn getur þjónað tveimur herrum.“9 Við getum ekki lagt Satan lið með munnlegum árásum og síðan talið að við getum áfram þjónað Guði.

Kæru bræður og systur, það skiptir miklu máli hvernig við komum fram við hvort annað! Það skiptir miklu máli hvernig við tölum við og um aðra á heimilinu, í kirkjunni, á vinnustaðnum og á netinu. Í dag bið ég okkur að hafa samskipti við aðra á æðri og helgari hátt. Leggið vandlega við hlustir. „Sé eitthvað dyggðugt, fagurt, háleitt eða lofsvert“10 sem við getum sagt um aðra manneskju – hvort heldur við hana sjálfa eða að baki hennar – þá ætti það að vera fyrirmynd okkar að samskiptum.

Ef hjón í deild ykkar skilja eða ungur trúboði kemur of snemma heim eða ungmenni efast um vitnisburð sinn, þurfa þau ekki á dómi ykkar að halda. Þau þurfa að upplifa kærleika Jesú Krists sem endurspeglast í orðum ykkar og gjörðum.

Ef vinur á samfélagsmiðlum hefur sterkar pólitískar eða félagslegar skoðanir, sem brjóta í bága við allt sem þið trúið á, munu reiðileg og niðurlægjandi andmæli ykkar ekki hjálpa. Að byggja brýr skilnings, mun krefjast miklu meira af ykkur, en það er einmitt það sem vinur ykkar þarfnast.

Deilur hrekja andann í burtu – alltaf. Deilur ýta undir þá röngu hugmynd að átök séu besta leiðin til að leysa ágreining; en þær eru það aldrei. Deilur er valkostur. Að vera friðflytjandi er valkostur. Þið hafið sjálfræði til að velja sundrung eða sættir. Ég hvet ykkur eindregið til að velja að vera friðflytjendur, núna og alltaf.11

Bræður og systur, við getum bókstaflega breytt heiminum – einni manneskju og einum samskiptum í senn. Hvernig? Með því að sýna hvernig leysa má einlægan skoðanaágreiningi með gagnkvæmri virðingu og háleitri umræðu.

Skiptar skoðanir eru hluti af lífinu. Á hverjum degi starfa ég með dyggum þjónum Drottins sem líta ekki alltaf vandamálin sömu augum. Þeir vita að ég vil heyra hugmyndir þeirra og einlægar tilfinningar um allt sem við ræðum – einkum viðkvæm mál.

Dallin H. Oaks forseti og Henry<nb/>B. Eyring forseti

Mínir tveir góðu ráðgjafar, Oaks forseti og Eyring forseti, tjá tilfinningar sínar af mikilli fyrirmynd – einkum þegar þá gæti greint á. Þeir gera það af hreinni ást til hvors annars. Hvorugur gerir því skóna að hann viti best og þurfi því að verja stöðu sína af hörku. Hvorugur sýnir að hann þurfi að keppa við hinn. Vegna þess að báðir eru þeir fylltir kærleika, „[hinni hreinu] ást Krists“,12 getur andi Drottins leitt umræður okkar. Hve ég elska og heiðra þessa tvo frábæru menn!

Kærleikur er mótefnið við deilum. Kærleikur er hin andlega gjöf sem hjálpar okkur að afklæðast hinum náttúrlega manni, sem er sjálfhverfur, varnarsinnaður, hrokafullur og afbrýðisamur. Kærleikur er helsta einkenni hins sanna fylgjenda Jesú Krists.13 Kærleikur er einkennandi fyrir friðflytjanda.

Þegar við auðmýkjum okkur frammi fyrir Guði og biðjum af öllum hjartans mætti, mun Guð veita okkur kærleika.14

Þeir sem eru blessaðir með þessari gjöf, eru þolinmóðir og vingjarnlegir. Þeir öfunda ekki aðra og eru ekki uppteknir af eigin mikilvægi. Þeir láta ekki auðveldlega ögrast og hugsa ekki illt um aðra.15

Bræður og systur, hin hreina ást Krists er svarið við deilumálunum sem herja á okkur í dag. Kærleikur knýr okkur til að „bera hver annars byrðar,“16 fremur en að auka byrðar hver annars. Hin hreina ást Krists gerir okkur mögulegt „að standa sem vitni Guðs, í öllu og allsstaðar“17einkum í spennuþrungnum aðstæðum. Kærleikur gerir okkur mögulegt að sýna hvernig karlar og konur tala og breyta – einkum þegar þau standa í eldlínunni.

Ég er þó ekki að tala um „frið keyptan of dýru verði.“18 Ég er að tala um að koma fram við aðra á þann hátt að það samræmist því að halda sáttmálana sem þið gerið þegar þið meðtakið sakramentið. Við lofum því að hafa frelsarann ávallt í huga. Ég býð ykkur að minnast Jesú Krists í aðstæðum sem eru þrungnar spennu og deilum. Biðjið fyrir því að hafa hugrekki og visku til að mæla og breyta eins og hann myndi gera. Við verðum friðflytjendur Friðarhöfðingjans þegar við fylgjum honum.

Þegar hér er komið gæti hvarflað að ykkur að þessi ábending gæti virkilega hjálpað einhverjum sem þið þekkið. Þið vonist ef til vill eftir að hún muni hjálpa honum eða henni að vera vinsamlegri við ykkur. Ég vona að svo verði! En ég vona líka að þið lítið djúpt í eigið hjarta til að meta hvort þar leynist dramb eða öfund sem stendur í vegi þess að þið verðið friðflytjendur.19

Ef ykkur er alvara með að hjálpa við að safna saman Ísrael og þróa sambönd sem vara gegnum eilífðirnar, þá er núna tíminn til að losa sig við biturleika. Núna er tíminn til að hætta að standa fast á því að það sé annaðhvort ykkar leið eða engin leið. Núna er tíminn til hætta að gera það sem fær aðra til að tippla á tánum af ótta við að raska ró ykkar. Núna er tíminn til að grafa stríðsvopn ykkar.20 Ef ykkar munnlega vopnabúr er fullt af móðgunum og ásökunum, þá er núna tíminn til að segja skilið við það.21 Þið munuð rísa sem andlega sterkur karl eða kona Krists.

Musterið getur hjálpað í viðleitni okkar. Þar erum við gædd krafti Guðs, sem veitir okkur getu til að sigrast á Satan, hvatamanni allrar sundrungar.22 Varpið honum burt úr samböndum ykkar! Athugið að við ávítum líka andstæðinginn í hvert sinn sem við greiðum úr misskilningi eða neitum að láta misbjóða okkur. Í stað þess getum við sýnt hina mildu miskunn sem er einkennandi fyrir hina sönnu lærisveina Jesú Krists. Friðflytjendur standa í vegi andstæðingsins.

Við skulum sem fólk verða hið sanna ljós á fjallinu – ljós sem „fær eigi dulist.“23 Við skulum sýna að til er friðsamleg, lofsverð leið til að leysa flókin mál og upplýsandi leið til að vinna úr ágreiningi. Þegar þið sýnið þann kærleika sem einkennir hina sönnu fylgjendur Jesú Krists, mun Drottinn efla viðleitni ykkar umfram ykkar háleitustu ímyndun.

Net fagnaðarerindisins er stærsta net í heimi. Guð hefur boðið öllum að koma til sín, „svörtum [og] hvítum, ánauðugum [og] frjálsum, karli [og] konu.“24 Það er staður fyrir alla Það er þó enginn staður fyrir fordóma og fordæmingu eða sundrung af einhverju tagi.

Kæru bræður og systur, það besta á enn eftir að veitast þeim sem verja ævi sinni við að byggja upp aðra. Í dag býð ég ykkur að meta ykkur sem lærisvein í ljósi þess hvernig þið komið fram við aðra. Ég blessa ykkur, að þið megið gera allar þær breytingar sem gætu virst nauðsynlegar, svo að breytni ykkar sé göfug, lofsverð og til fyrirmyndar sönnum fylgjenda Jesú Krists.

Ég blessa ykkur að tileinka ykkur bænaranda í stað baráttufýsnar, skilning í stað andúðar og frið í stað sundrungar.

Guð lifir! Jesús er Kristur. Hann er höfuð þessarar kirkju. Við erum hans þjónar. Hann mun hjálpa okkur að verða friðflytjendur hans. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.