Hósanna sé æðstum Guði
Sigurinnreið Jesú Krists í Jerúsalem og atburðir vikunnar sem fylgdu á eftir, eru dæmi um kenningu sem við getum tileinkað okkur í lífi okkar í dag.
Í dag, eins og fram hefur komið, sameinumst við kristnum mönnum um allan heim til að heiðra Jesú Krist á þessum pálmasunnudegi. Fyrir næstum tvö þúsund árum, markaði pálmasunnudagur upphaf síðustu viku jarðneskrar þjónustu Jesú Krists. Þetta var mikilvægasta vika mannkynssögunnar.
Það sem hófst sem boðun um Jesú sem hins fyrirheitna Messíasar í sigurgöngu hans inn í Jerúsalem, lauk með krossfestingu hans og upprisu.1 Að guðlegri skipan, batt friðþægingarfórn hans enda á jarðneska þjónustu hans, sem gerði okkur kleift að lifa með himneskum föður okkar um eilífð.
Ritningin segir að vikan hafi byrjað með því að mannfjöldi stóð við borgarhliðið til að sjá „[spámanninn] Jesú frá Nasaret í Galíleu.“2 Þau „tóku þá pálmagreinar, fóru út á móti honum og hrópuðu: Hósanna! Blessaður sé sá, sem kemur í nafni Drottins, konungur Ísraels!“3
Þessi frásögn Biblíunnar, um svo löngu liðinn tíma, minnir mig á kirkjuverkefni í Takoradi, Gana, sem mér var falið. Merkilegt nokk, þá var ég þarna á pálmasunnudegi.
Ég átti að skipta Takoradi Gana stikunni til að stofna Mpintsin Gana stikuna. Í dag eru yfir eitt hundrað þúsund meðlimir kirkjunnar í Gana.4 (Við bjóðum velkominn Ga Mantse, hans hátign Nii Tackie Teiko Tsuru II konung, frá Accra, Gana, sem er meðal okkar í dag.) Á samkomu með þessum heilögu fann ég djúpstæða elsku þeirra og hollustu við Drottin. Ég lýsti yfir mikilli elsku minni til þeirra og að forseti kirkjunnar elskaði þá. Ég vísaði til orða frelsarans sem Jóhannes skráði: „Að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.“5 Þeir nefndu hana „Ég elska þig-ráðstefnuna.“6
Þegar ég horfði yfir sætaraðir þessara kæru bræðra og systra og fjölskyldna þeirra í kapellunni, gat ég séð í andlitum þeirra ljóma vitnisburðar og trúar á Jesú Krist. Ég skynjaði þrá þeirra til að eiga aðild að víðtækri kirkju hans. Og þegar kórinn söng, sungu þau eins og englar.
Eins og á pálmasunnudag forðum daga, voru þetta lærisveinar Jesú Krists sem voru samankomnir til að lofa hann, eins og þau gerðu sem voru við hliðið í Jerúsalem og hrópuðu með pálmagreinar í höndum: „Hósanna …! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins!“7
Jafnvel sóknarbörn í nágrannakirkju höfðu pálmasunnudag í heiðri. Þegar ég talaði úr ræðustólnum, tók ég eftir þeim út um gluggann er þau gengu glöð niður götuna og veifuðu pálmagreinum sem þau höfðu í höndum, svipað og þau gera sem eru á þessari mynd. Það var sjón sem ég mun aldrei gleyma, er við tilbáðum öll konung konunganna þennan dag.
Russell M. Nelson forseti hefur hvatt okkur til að gera pálmasunnudag „sannlega heilagan með því að minnast ekki bara pálmagreina sem veifað var við innreið Jesú í Jerúsalem, heldur lófa hans.“ Nelson vitnaði síðan í Jesaja, sem talaði um loforð frelsarans: „[Ég gleymi þér ekki],“ með þessum orðum: „Sjá, ég hef rist þig á lófa mína.“8
Drottinn veit af eigin raun að jarðlífið er erfitt. Sár hans minna okkur á að hann hafi „beygt sig undir allt“9 til að hjálpa okkur þegar við þjáumst og til að vera okkur fyrirmynd, svo við fáum „[haldið stefnu okkar]“10 á hans vegi, svo að „Guð [verði] með [okkur] alltaf að eilífu.“11
Pálmasunnudagur var ekki bara atburður, enn ein síða í sögunni með dagsetningu, tíma og stað. Sigurinnreið Jesú Krists í Jerúsalem og atburðir vikunnar sem fylgdu á eftir, eru dæmi um kenningu sem við getum tileinkað okkur í lífi okkar í dag.
Við skulum skoða nokkrar hinna eilífu kenninga sem fléttast í gegnum þjónustu hans sem lýkur í Jerúsalem.
Fyrsta: Spádómur. Sakaría, spámaður Gamla testamentisins, spáði til að mynda um sigurinnreið Jesú Krists í Jerúsalem og lýsti jafnvel að hann myndi ríða á asna.12 Jesús sagði fyrir um upprisu sína þegar hann bjó sig undir innreið sína í borgina, er hann sagði:
„Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða
og framselja hann heiðingjum, að þeir hæði hann, húðstrýki og krossfesti. En á þriðja degi mun hann upp rísa.“13
Önnur: Samfélag heilags anda. Joseph Smith kenndi: „Enginn getur vitað að Jesús er Drottinn, nema fyrir heilagan anda.“14 Frelsarinn lofaði lærisveinum sínum15 við Síðustu kvöldmáltíðina16 í efri salnum:17 „Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa.“18 Þeir yrðu ekki einir við að útbreiða sannleika fagnaðarerindisins, heldur hefðu þeir hina fullkomnu gjöf heilags anda sér til leiðsagnar. „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður,“ lofaði hann, „ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur.“19 Með gjöf heilags anda höfum við sömu fullvissu – að við getum „[ætíð haft anda hans með okkur]“20 og „fyrir kraft heilags anda [getum við] fengið að vita sannleiksgildi allra hluta.“21
Þriðja: Að vera lærisveinn. Að vera sannur lærisveinn er fyrst og fremst ófrávíkjanleg skuldbinding, hlýðni við eilíf lögmál og kærleikur til Guðs. Án þess að efast. Fólkið sem fagnaði með pálmagreinum, lofaði hann sem Messías. Það var einmitt það sem hann var. Það laðaðist að honum, kraftaverkum hans og kenningum hans. En aðdáun margra varði ekki lengi. Sumir sem áður höfðu hrópað „hósanna“22, snerust fljótlega gegn honum og hrópuðu: „Krossfestu hann.“23
Fjórða: Friðþæging Jesú Krists.24 Á síðustu dögum sínum, eftir pálmasunnudag, framfylgdi hann hinni ótrúlegu friðþægingu sinni, allt frá þjáningunum í Getsemane til háðsins við réttarhöldin, pyntingarnar á krossinum og greftrunarinnar í lánaðri gröf. En það var ekki látið hér við sitja. Með hátign köllunar sinnar, sem endurlausnari allra barna himnesks föður, steig hann út úr gröfinni þrem dögum síðar, upprisinn25 eins og hann hafði sagt fyrir um.
Erum við alltaf þakklát fyrir hina óviðjafnanlegu friðþægingu Jesú Krists? Finnum við hreinsandi kraft hennar einmitt núna? Af þeirri ástæðu fór Jesús Kristur, höfundur og fullkomnari hjálpræðis, til Jerúsalem til að frelsa okkur öll. Slá þessi orð Alma á streng í hjarta okkar: „Ef þér hafið fundið umbreytingu í hjörtum yðar og hafi yður langað til að syngja söng hinnar endurleysandi elsku, þá spyr ég: Finnið þér slíkt nú?“26 Ég get með sanni sagt að kórinn í Takoradi hafi sungið „söng hinnar endurleysandi elsku“ á þeim pálmasunnudegi.
Þessa síðustu örlagaríku viku jarðlífsþjónustu sinnar, sagði Jesús Kristur dæmisöguna um meyjarnar tíu.27 Hann var að kenna þeim sem voru tilbúnir til að taka á móti honum um endurkomu sína, ekki með pálmagreinum, heldur með ljós fagnaðarerindisins hið innra. Hann dró upp mynd af logandi ljóslömpum með varaolíu til að viðhalda loganum, til að lýsa fúsleika til að lifa að hans hætti, hans sannleika og deila ljósi hans.
Þið þekkið söguna. Meyjarnar tíu tákna meðlimi kirkjunnar og brúðguminn táknar Jesú Krist.
Meyjarnar tíu tóku lampana sína og „fóru til móts við brúðgumann.“28 Fimm voru vitrar, tilbúnar með olíu á lömpum sínum og eitthvað til vara og fimm voru heimskar, lamparnir dimmir og engin olía til nota. Þegar kallið kom, „sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann,“29 tóku hinar fimm sem voru „[vitrar] á móti sannleikanum og [höfðu] hinn heilaga anda sér til leiðsagnar“30 og voru tilbúnar fyrir „[konung sinn og löggjafa],“31 svo að „dýrð hans [myndi] hvíla á þeim.“32 Hinar fimm voru í ofvæni að reyna að finna olíu. Þá var það um seinan. Skrúðgangan fór fram án þeirra. Þegar þær bönkuðu á og báðu um inngöngu, svaraði Drottinn: „Ég þekki yður ekki.“33
Hvernig myndi okkur líða ef hann segði við okkur: „Ég þekki yður ekki!“
Við, eins og meyjarnar tíu, höfum lampa; en höfum við olíu? Ég óttast að einhverjir séu bara að reyna að komast af á lítilli, þunnri olíu, of upptekin af hinum veraldlega þrýstingi til að undirbúa sig almennilega. Olía hlýst með því að trúa og fara eftir spádómum og orðum lifandi spámanna, einkum Nelsons forseta, ráðgjafa hans og postulanna tólf. Olía fyllir sál okkar þegar við hlýðum á og skynjum heilagan anda og breytum eftir þeirri guðlegu leiðsögn. Olía hellist inn í hjörtu okkar þegar val okkar sýnir að við elskum Drottin og við elskum það sem hann elskar. Olía hlýst með því að iðrast og leita sér lækningar með friðþægingu Jesú Krists.
Ef þið reynið að fylla það sem sumir kalla „reynslubanka“ er þetta einmitt málið: Fyllið bankann ykkar af olíu í formi lifandi vatns Jesú Krists,34 sem er táknrænt fyrir líf hans og kenningar. Að haka við fjarlægan stað eða einstakan viðburð mun aftur á móti aldrei lækna eða fullnægja sál ykkar; að lifa eftir kenningunni sem Jesús Kristur kenndi mun gera það. Ég minntist á það hér áður: Aðhyllist spádóma og spádómskenningar, bregðist við hvatningu heilags anda, verðið sannir lærisveinar og leitið lækningakrafts friðþægingar Drottins okkar. Þessi reynslubanki mun leiða ykkur þangað sem þið viljið fara – aftur til föður ykkar á himnum.
Þessi pálmasunnudagur í Takoradi var mér afar sérstök upplifun, því ég átti hann með trúföstum söfnuði bræðra og systra. Þannig hefur það verið í heimsálfum og á eyjum um allan heim. Hjarta mitt og sál, eins og ykkar, þráir að hrópa: „Hósanna sé æðstum Guði.“35
Þótt við stöndum ekki við hliðið í Jerúsalem í dag, með pálmagreinar í höndum, mun sá tími koma, eins og spáð er í Opinberunarbókinni, að „mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum, [mun standa] fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddur hvítum skikkjum og hafði pálmagreinar í höndum.“36
Ég skil eftir blessun mína sem postuli Jesú Krists, að þið munið kappkosta að lifa réttlátlega og vera meðal þeirra sem með pálmagreinar í höndum munu fagna syni Guðs, hinum mikla lausnara okkar allra. Í nafni Jesú Krists, amen.