Drottinn Jesú Kristur kennir okkur hirðisþjónustu
Með aðstoð frelsara okkar getum við elskað ástkæra sauði hans og þjónað þeim eins og hann myndi gera.
Drottinn Jesús Kristur sagði:
„Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. …
Eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina.“1
Í grísku þýðingu ritninganna þýðir orðið góður einnig „fallegur, mikilfenglegur:“ Þannig að í dag langar mig að tala um góða hirðinn, fallega hirðinn, mikilfenglega hirðinn, jafnvel Jesú Krist.
Í Nýja testamentinu er hann kallaður „hinn [mikli] hirðir sauðanna,“2 „æðsti hirðir,“3 og „hirðir og biskup sálna [okkar].“4
Í Gamla testamentinu skrifaði Jesaja: „Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga.“5
Í Mormónsbók er hann kallaður „góði hirðirinn“6 og „[hinn mikli] og [sanni hirðir].“7
Í Kenningu og sáttmálum segir hann: „Ég er þess vegna mitt á meðal yðar, og ég er góði hirðirinn.“8
Á okkar dögum hefur spámaður okkar Russell M. Nelson forseti sagt: „Góði hirðirinn annast alla sauðina í hjörð sinni af kærleika, og við erum hinir sönnu aðstoðarhirðar hans. Forréttindi okkar er að skynja elsku hans og að auki að elska sjálf vini og nágranna – metta, annast og næra þá – eins og frelsarinn væntir af okkur.“9
Nýlegar hefur Nelson forseti sagt: „Aðalsmerki hinnar sönnu lifandi kirkju mun ætíð verða skipulagt og hnitmiðað þjónustustarf í þágu einstakra barna Guðs og fjölskyldna þeirra. Þar sem þetta er kirkjan hans, þá munum við, sem þjónar hans, huga að hinum eina, á sama hátt og hann gerði. Við munum þjóna í hans nafni, með hans krafti og valdi og af gæsku hans.“10
Þegar farísear og fræðimenn mögluðu gegn Drottni og sögðu: „Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim,“11 svaraði hann þeim með því að segja þeim þrjár fallegar sögur sem við köllum dæmisöguna um týnda sauðinn, dæmisöguna um týndu drökmuna og dæmisöguna um týnda soninn.
Það er áhugavert að þegar Lúkas, höfundur guðspjallsins, er að kynna þessar þrjár sögur notar hann orðið dæmisaga í eintölu en ekki fleirtölu.12 Það virðist sem Drottinn sé að kenna eina einstaka lexíu með þremur sögum – sögum sem tala um mismunandi tölur, 100 sauði, 10 drökmur og 2 syni.
Lykiltalan í hverri þessara frásagna er hinsvegar talan einn. Lexían sem við gætum dregið af þeirri tölu er að þið gætuð verið aðstoðarfjárhirðar fyrir hundrað öldunga og verðandi öldunga í öldungasveit ykkar eða ráðgjafar tíu stúlkna eða kennarar tveggja Barnafélagsbarna, en samt þjónið þið þeim, annist þau og elskið þau eitt í einu, einstaklingsbundið. Þið segið aldrei: „En heimskulegir sauðir,“ eða „ég þurfti svo ekkert á þessum pening að halda“ eða „hann er nú aldeilis uppreisnargjarn sonur.“ Ef þið, og ég, höfum „hreina ást Krists,“ með okkur,13 þá munum við, líkt og maðurinn í sögunni með týndu sauðina, „[skilja] þá níutíu og níu eftir … og [fara] eftir þeim sem týndur er þar til [… þar til … þar til við finnum] hann.“14 Eða eins og konan í frásögninni um týndu drökmuna, þá munum við „[kveikja] … á lampa, [sópa] húsið og [leita] vandlega uns [við finnum] hana.“15 Ef við höfum „hreina ást Krists“ í okkur, munum við fylgja fordæmi föðurins í sögunni um týnda soninn; „Er hann var enn langt í burtu sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann.“16
Fáum við skynjað hina brýnu þörf í hjarta mannsins sem týndi aðeins einum sauði? Eða hina brýnu þörf í hjarta konunnar sem týndi aðeins einni drökmu? Eða hina ólýsanlegu elsku og samúð sem var í hjarta föður týnda sonarins?
Ég og eiginkona mín, Maria Isabel, þjónuðum í Mið-Ameríku og vorum staðsett í Gvatemalaborg. Þar fékk ég tækifæri til að hitta Juliu, trúfastan meðlim kirkjunnar. Ég fékk hugboð um að spyrja hana um fjölskyldu hennar. Móðir hennar hafði dáið úr krabbameini árið 2011. Faðir hennar hafði verið trúr leiðtogi í stiku sinni og þjónað sem biskup og ráðgjafi stikuforseta síns í nokkur ár. Hann var sannur aðstoðarhirðir Drottins. Julia sagði mér frá óþreytandi framtaki hans við að heimsækja og þjóna. Hann gladdist sannarlega í því að næra og annast dýrmæta sauði Drottins. Hann giftist aftur og hélt áfram að þjóna í kirkjunni.
Nokkrum árum seinna, skildi hann og nú varð hann að koma einn til kirkju á nýjan leik. Honum fannst hann utanveltu og einnig að sumir gagnrýndu hann vegna skilnaðar hans. Hann hætti að mæta í kirkju er neikvæður andi fyllti hjarta hans.
Julia talaði vel um þennan aðstoðarhirði, sem var duglegur, elskulegur og brjóstgóður maður. Ég man vel eftir því að mjög knýjandi tilfinning kom í huga minn er hún lýsti honum. Mig langaði bara að gera eitthvað fyrir þennan mann, mann sem hafði gert svo mikið fyrir svo marga öll þessi ár.
Hún gaf mér farsímanúmerið hans og ég hóf að hringja í hann, í von um að fá að hitta hann persónulega. Eftir nokkrar vikur og fjölda mörg símtöl án árangurs, svaraði hann loks símanum.
Ég sagði við hann að ég hefði hitt Juliu dóttur hans og að ég hefði heillast af því hvernig hann hefði þjónað, sinnt hirðisþjónustu og elskað hina dýrmætu sauði Drottins í svo mörg ár. Hann átti ekki von á slíkri athugasemd. Ég sagði honum að mig langaði virkilega að hitta hann persónulega. Hann spurði mig hver tilgangurinn væri með slíkri heimsókn. Ég svaraði honum: „Mig langar verulega að hitta föður svo yndislegrar dömu.“ Í nokkrar sekúndur var þögn í símanum – sekúndur sem mér virtust vera heil eilífð. Hann sagði einfaldlega: „Hvar og hvenær?“
Daginn sem ég hitti hann, bauð ég honum að miðla mér nokkrum af upplifunum sínum af heimsóknum, hirðisþjónustu og að þjóna dýrmætum sauðum Drottins. Þegar hann var að segja mér sumar af þessum hjartnæmu sögum tók ég eftir að tónninn í rödd hans breyttist og sami andinn sem hann hafði upplifað svo oft sem aðstoðarhirðir, kom aftur. Nú fylltust augu hans tárum. Ég vissi að þetta var rétta augnablikið fyrir mig, en ég fann að ég vissi ekki hvað ég átti að segja. Ég bað í huga mínum: „Faðir hjálpaðu mér.“
Skyndilega heyrði ég mig segja: „Bróðir Florian, sem þjónn Drottins biðst ég afsökunar á því að hafa ekki verið til staðar fyrir þig. Viltu fyrirgefa okkur. Gefðu okkur annað tækifæri til að sýna þér að okkur þykir vænt um þig. Að við þörfnumst þín. Að þú ert okkur mikilvægur.“
Næsta sunnudag kom hann aftur. Hann átti langt samtal við biskup sinn og varð virkur. Nokkrum mánuðum seinna lést hann – en hann hafði komið tilbaka. Hann hafði komið aftur. Ég ber því vitni að með aðstoð frelsara okkar getum við elskað ástkæra sauði hans og þjónað þeim eins og hann myndi gera. Svo þarna í Gvatemalaborg, færði Drottinn Jesús Kristur enn einn dýrmætan sauð í hjörð sína. Og hann kenndi mér lexíu um hirðisþjónustu sem ég gleymi ekki. Í nafni hins góða hirðis, fallega hirðis, mikilfenglega hirðis, já, Jesú Krists, amen.