Aðalráðstefna
Ófullkomna uppskeran
Aðalráðstefna apríl 2023


11:2

Ófullkomna uppskeran

Frelsarinn er reiðubúinn til að samþykkja auðmjúkar fórnir okkar og fullkomna þær með náð sinni. Með Kristi er engin uppskera ófullkomin.

Ég lærði sem ungur drengur að meta dramatískar árstíðabreytingar í suðvestur Montana, þar sem ég ólst upp. Eftirlætis árstíðin mín var haust – uppskerutíminn. Fjölskylda mín vonaðist eftir og bað fyrir því að erfiðisvinna til margra mánaða yrði verðlaunuð með ríkulegri uppskeru. Foreldrar mínir höfðu áhyggjur af veðrinu, heilbrigði skepnanna og nytjaplantanna og mörgu öðru sem þau höfðu litla stjórn á.

Þegar ég óx úr grasi, varð ég enn betur meðvitaður um mikilvægi alls þessa. Lífsafkoma okkar var bundin við uppskeruna. Faðir minn kenndi mér um búnaðinn sem við notuðum til að skera kornið. Ég fylgdist með þegar hann fór með vélabúnaðinn á akurinn, skar litla kornslægju og fór síðan aftur fyrir þreskivélina til að ganga úr skugga um að eins mikið korn og mögulegt var hefði lent í safngeyminum og ekki farið utan með honum með hisminu. Hann endurtók þetta nokkrum sinnum og stillti vélina í hvert skipti. Ég hljóp með og rótaði í hisminu með honum og þóttist vita hvað ég væri að gera.

Eftir að hann var orðinn sáttur með stillingar vélarinnar, fann ég nokkur frækorn í hisminu á jörðinni og sýndi honum með vandlætingarsvip. Ég mun ekki gleyma því sem faðir minn sagði við mig: „Þetta er nógu gott og það besta sem þessi vél getur gert.“ Ég var ekki alveg sáttur við þessa útskýringu og íhugaði ófullkomleika þessarar uppskeru.

Stuttu síðar, þegar kalt varð í veðri á kvöldin, fylgdist ég með þúsundum svana, gæsa og anda í farflugi koma niður á akrana til að nærast á löngu ferðalagi sínu suður á bóginn. Þær átu afgangskornið úr hinni ófullkomnu uppskeru okkar. Guð hafði fullkomnað hana og ekki eitt fræ fór til spillis.

Það er gjarnan freistandi í þessum heimi og jafnvel í kirkjumenningunni að vera gagntekinn af fullkomnun. Samfélagsmiðlar, óraunhæfar væntingar og oftar en ekki sjálfsgagnrýni okkar vekja tilfinningar vanmáttarkenndar – að við séum ekki nógu góð og verðum það aldrei. Sumir misskilja jafnvel boð frelsarans: „Verið því fullkomin.“1

Munið að fullkomnunarárátta er ekki það sama og að fullkomnast í Kristi.2 Fullkomnunarárátta felur í sér ógerlegan, sjálfsskapaðan samanburðarmælikvarða við aðra. Hún veldur sektarkennd og kvíða og getur orsakað það að við viljum draga okkur í skel og einangrast.

Að fullkomnast í Kristi er ekki það sama. Það er ferlið – ástúðlega leitt af heilögum anda – að verða líkari frelsaranum. Staðlarnir eru settir fram af gæskuríkum og alvitrum himneskum föður og afmarkast skýrt af sáttmálunum sem okkur er boðið að taka á móti. Þeir létta af okkur þungri byrði sektarkenndar og vanmáttarkenndar og leggja áherslu á hver við erum fyrir augliti Guðs. Þótt þetta ferli lyfti okkur og knúi okkur til að verða betri, þá erum við mæld út frá persónulegri skuldbindingu okkar við Guð, sem við sýnum með viðleitni okkar til að fylgja honum í trú. Þegar við göngumst við boði frelsarans um að koma til hans, áttum við okkur fljótlega á að okkar besta er nógu gott og að náð ástríks frelsara muni brúa bilið með þeim hætti sem við fáum vart ímyndað okkur.

Við getum séð þessa reglu í reynd þegar frelsarinn mettaði fimm þúsund manns.

„Jesús leit upp og sá að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: ‚Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?‘ …

Filippus svaraði honum: ‚Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki svo að hver fengi lítið eitt.‘

Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann:

‚Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska en hvað er það handa svo mörgum?‘“3

Hafið þið einhvern tíma íhugað hvað frelsaranum hlýtur að hafa fundist um þennan pilt, sem með trú barnsins bauð fram það sem hann hlýtur að hafa vitað að væri allt of lítið fyrir þessar aðstæður?

„Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu.

Þegar fólkið var orðið mett segir Jesús við lærisveina sína: ‚Safnið saman leifunum svo ekkert spillist.‘“4

Frelsarinn fullkomnaði hina auðmjúku fórn.

Stuttu eftir þessa upplifun sendi Jesús lærisveina sína á undan sér á báti. Brátt voru þeir í miðjum stormi úti á vatninu um miðja nótt. Þeir urðu hræddir þegar þeir sáu draugalega mannsmynd ganga í átt að sér á vatninu.

„En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: ,Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.‘

Pétur svaraði honum: ‚Ef það ert þú, Drottinn, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.‘

Jesús svaraði: ,Kom þú!‘ Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans.

En er hann sá ofviðrið varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: ‚Drottinn, bjarga þú mér!‘

Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: ‚Trúlitli maður, hví efaðist þú?‘“5

Bræður og systur, þetta voru eflaust ekki endalok samtalsins. Ég held að þegar Pétur og frelsarinn hafi gengið arm í arm til baka að bátnum, Pétur rennandi blautur og mögulega liðið afar kjánalega, að frelsarinn gæti hafa sagt eitthvað þessu líkt: „Ó, Pétur, ekki óttast eða hafa áhyggjur. Ef þú gætir séð sjálfan þig eins og ég sé þig myndu efasemdir þínar dofna og trú þín aukast. Ég elska þig, kæri Pétur; þú steigst út úr bátnum. Fórn þín er viðunandi og jafnvel þótt þú hafir hrasað, mun ég ávallt vera til staðar til að lyfta þér upp úr djúpinu og fórn þín verður fullkomnuð.“

Öldungur Dieter F. Uchtdorf kenndi:

„Ég held að frelsarinn Jesús Kristur myndi vilja að þið sæjuð, fynduð fyrir og vissuð að hann er styrkur ykkar. Að með hans hjálp eru engin takmörk fyrir því hverju þið getið fengið áorkað. Möguleikar ykkar eru takmarkalausir. Hann myndi vilja að þið sæjuð ykkur sjálf eins og hann sér ykkur. Það er afar frábrugðið því hvernig heimurinn sér ykkur. …

Hann veitir þreyttum mátt og vanmáttugum eykur hann styrk.“6

Við verðum að hafa hugfast að hver sem okkar besta, en ófullkomna fórn er, þá getur frelsarinn fullkomnað hana. Engu skiptir hversu lítilfjörleg viðleitni okkar virðist vera, við megum aldrei vanmeta kraft frelsarans. Einfalt vinsemdarorð, stutt en einlæg þjónustuheimsókn eða Barnafélagslexía sem kennd er með kærleika, getur með hjálp frelsarans veitt huggun, mildað hjörtu og breytt eilífum lífum. Klaufskar tilraunir okkar geta leitt til kraftaverka og við getum í leiðinni tekið þátt í hinni fullkomnu uppskeru.

Við erum oft sett í aðstæður sem fá okkur til að vaxa. Kannski finnst okkur við ekki valda verkinu. Við gætum litið á fólkið sem við þjónum með og fundist eins og við gætum aldrei jafnast á við það. Bræður og systur, ef ykkur líður þannig, horfið þá á hina sérstöku karla og konur sem sitja aftan við mig og ég þjóna með.

Ég finn sársauka ykkar.

Ég hef þó lært að alveg eins og fullkomnunarárátta er ekki það sama og að vera fullkomnuð í Kristi, þá er sjálfssamanburður ekki það sama og að reyna að líkjast honum. Þegar við berum okkur saman við aðra, getur útkoman aðeins orðið á tvo vegu. Annað hvort lítum við á okkur sem betri öðrum og verðum dómhörð og gagnrýnin, eða við lítum á okkur sem lakari öðrum og verðum kvíðin, sjálfsgagnrýnin og missum kjarkinn. Að bera okkur saman við aðra er sjaldan gagnlegt, ekki upplyftandi og stundum beinlínis niðurdrepandi. Raunar getur slíkur samanburður verið andlega skemmandi og komið í veg fyrir að við hljótum þá andlegu hjálp sem við þurfum. Hins vegar getur tilraun til að líkjast þeim sem við berum virðingu fyrir og hafa kristilega eiginleika, verið lærdómsrík og upplyftandi og getur hjálpað okkur að verða betri lærisveinar Jesú Krists.

Frelsarinn gaf okkur fordæmi að fylgja þegar hann líkti eftir föðurnum. Hann leiðbeindi Filippusi lærisveini sínum: „Ég hef verið með yður allan þennan tíma og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: Sýn þú oss föðurinn?“7

Hann kenndi síðan: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig mun einnig gera þau verk sem ég geri.“8

Sama hversu lítilfjörleg viðleitni okkar virðist vera, ef við erum einlæg mun frelsarinn nota okkur til að áorka ætlunarverki sínu. Ef við einfaldlega gerum okkar besta og treystum honum fyrir því sem upp á vantar, getum við orðið hluti af þeim kraftaverkum sem umlykja okkur.

Öldungur Dale G. Renlund sagði: „Þið þurfið ekki að vera fullkomin, en við þörfnumst ykkar því að hver sá sem er reiðubúinn getur gert eitthvað.“9

Og Russell M. Nelson forseti kennir okkur: „Drottinn ann erfiði.“10

Frelsarinn er fús til að samþykkja auðmjúkar fórnir okkar og fullkomna þær með náð sinni. Með Kristi er engin uppskera ófullkomin. Við verðum að hafa hugrekki til að trúa því að náð hans er fyrir okkur – að hann muni hjálpa okkur, bjarga okkur úr djúpinu þegar við sökkvum og fullkomna ófullkomnar tilraunir okkar.

Í dæmisögunni um sáðmanninn lýsir frelsarinn sæðinu sem gróðursett er í góða jörð. Sumt bar hundraðfaldan ávöxt, sumt sextugfaldan og sumt þrítugfaldan. Allir eru hluti af fullkominni uppskeru hans.11

Spámaðurinn Moróní bauð öllum: „Já, komið til Krists, fullkomnist í honum. … Og ef þér hafnið öllu óguðlegu og elskið Guð af öllum mætti yðar, huga og styrk, þá bregst yður eigi náð hans, en fyrir náð hans náið þér fullkomnun í Kristi.“12

Bræður og systur, ég vitna um Krist, sem hefur máttinn til að fullkomna jafnvel okkar auðmjúkustu fórnir. Gerum okkar besta, höfum meðferðis það sem við getum og leggjum ófullkomna fórn okkar við fætur hans í trú. Í nafni hans, sem er meistari hinnar fullkomnu uppskeru, já, Jesús Kristur, amen.