Musteris- og ættarsögustarf – Eitt og sama starfið
Lykilþáttur í áætlun himnesks föður er að sameina fjölskylduna í þessu lífi og um eilífð.
Ég er þakklátur fyrir áframhaldandi byggingu mustera í þessari „[ráðstöfun] í fyllingu tímanna“ (Kenning og sáttmálar 128:18). Frá fyrstu dögum endurreisnarinnar hafa trúfastir heilagir fært margar fórnir til að taka á móti helgiathöfnum og sáttmálum musterisins. Eftir undursamlegt fordæmi þeirra, eftir margar fjárhagslegar fórnir árið 1975 til að ferðast frá Mexíkóborg, vorum ég og ástkær eiginkona mín, Evelia, í fylgd kærra foreldra okkar, innsigluð um eilífð sem eiginmaður og eiginkona í Mesa musterinu í Arisóna árið 1975. Þann dag, þegar við vorum sameinuð með valdi prestdæmisins í húsi Drottins, upplifðum við sannlega lítið brot af himni.
Starfsemi og tilgangur mustera
Sú reynsla hefur kennt mér að meta mun betur hvernig hinir heilögu í Kirtland, Ohio, fullgerðu loks, eftir þriggja ára erfiðisvinnu og miklar fórnir, hið fallega musteri sitt vorið 1836 – það fyrsta í þessari ráðstöfun. Í mars á sama ári komu yfir þúsund manns saman í musterinu og við útidyr þess fyrir vígsluathöfnina. Spámaðurinn Joseph Smith stóð upp til að flytja vígslubænina, sem hann hafði hlotið með opinberun (sjá Kenning og sáttmálar 109). Í henni greindi hann frá mörgum hinna einstöku blessana sem veitast þeim sem verðuglega fara í musteri Drottins. Kórinn söng síðan sálminn „Andi Guðs“ og söfnuðurinn stóð upp og hrópaði Hósanna „af slíkum [krafti] að … þakið virtist rifna af byggingunni“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 307).
Einni viku síðar greindi spámaðurinn frá því þegar Drottinn birtist í musterinu, og sagði:
„Því að sjá, ég hef veitt þessu húsi viðtöku og nafn mitt skal vera hér. Og af miskunn mun ég opinbera mig fólki mínu í þessu húsi.
Og frægð þessa húss mun breiðast til annarra landa, og þetta er upphaf þeirra blessana, sem úthellt verður yfir fólk mitt“ (Kenning og sáttmálar 110:7, 10).
Eftir þessa og fleiri sýnir, birtist Elía spámaður, sem tekinn var til himins án þess að smakka dauðann, spámanninum Joseph Smith og Oliver Cowdery og sagði:
„Sjá, sá tími er nú að fullu kominn, sem talað var um fyrir munn Malakís – er vitnaði að hann [Elía] yrði sendur, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kæmi –
Til að snúa hjörtum feðranna til barnanna og barnanna til feðranna, til þess að öll jörðin verði ekki lostin banni –
Þess vegna eru lyklar [þessarar ráðstöfunar] seldir yður í hendur, og með því skuluð þér vita, að hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins er í nánd, já, fyrir dyrum“ (Kenning og sáttmálar 110:14–16).
Musteris- og ættarsögustarf
Eftir að Drottinn hafði endurreist Joseph Smith innsiglunarlyklana, hófst sáluhjálparstarfið beggja vegna hulunnar í okkar ráðstöfun (sjá 1. Korintubréf 15:22, 29; Kenning og sáttmálar 128:8–18).
Öldungur Boyd K. Packer kenndi: „Þessi stórmerki atburður fór að mestu fram hjá heiminum, en hann varð örlagaríkur hverri sál sem lifað hefur og lifa mun. Hljóðlega tóku hjólin að snúast. Kirkjan hafði það á stefnuskrá sinni að reisa musteri.
Það gerist í heiminum hér og þar, á eðlilegan og sjálfsagðan hátt, að því er talið er, að fólk, stofnanir og félög fá áhuga á ættfræðirannsóknum. Þetta hefur allt gerst eftir að Elía birtist í Kirtland-musterinu“ (The Holy Temple [1980], 141).
„Allt frá þessum degi, 3. apríl 1836, hafa hjörtu barnanna tekið að snúa til feðranna. Eftir það voru helgiathafnirnar engin tilraunastarfsemi heldur stöðugar. Við höfum innsiglunarvaldið. Ekkert vald er því æðra. Þetta vald gefur öllum helgiathöfnum, sem framkvæmdar eru með réttu valdi, bæði fyrir lifendur og látna, gildi og eilífan varanleika“ (Búa sig undir að fara í hið heilaga musteri [2002], 28).
Kæru bræður og systur, bygging og rétt notkun mustera hefur verið merki um hina sönnu kirkju Jesú Krists í hverri ráðstöfun. Eftir vígslu Salt Lake musterisins árið 1893, hvatti Wilford Woodruff forseti kirkjumeðlimi til að finna heimildir um forfeður sína og skrá ættartölu sína eins langt aftur og hægt væri, til að koma með nöfn í musterið og framkvæma helgiathafnir sáluhjálpar og upphafningar (sjá The Discourses of Wilford Woodruff [20049, 174).
Ættarsögu- og musterisstarf – eitt verk
Einu ári síðar (1894) hafði sami forseti, Woodruff, umsjón með stofnun Ættfræðifélags Utah. Hundrað árum síðar, árið 1994, sagði öldungur Russell M. Nelson, þáverandi meðlimur Tólfpostulasveitarinnar: „Atburðir þessa sögulega árs gerðu ættarsögurannsóknum og musterisþjónustu að einu verki í kirkjunni („The Spirit of Elijah,“ Ensign, nóv. 1994, 85).
Ættarsögustarf
Kæru bræður og systur, Drottinn hvetur okkur, sem meðlimi kirkju sinnar, til að leggja rækt við eigin ættarsögu, læra af forfeðrum okkar og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að taka á móti helgiathöfnum fagnaðarerindisins í musterunum, til að hjálpa þeim á þróunarferð sinni á sáttmálsveginum, sem mun blessa þá með eilífri fjölskyldu. Það er lykilþáttur í áætlun himnesks föður: Að sameina fjölskylduna í þessu lífi og um eilífð.
Þið sem teljið ykkur ekki geta sinnt þessu starfi, ættuð að vita að þið eruð ekki ein. Við getum öll snúið okkur að þeim verkfærum sem kirkjan hefur búið til og finna má í FamilySearch miðstöðvum, sem áður voru okkur kunnugar sem ættarsögumiðstöðvar. Þessar FamilySearch miðstöðvar hafa verið þannig úr garði gerðar að næstum hver sem er, með lítilli hjálp, getur fundið upplýsingar um forfeður sína og komið þeim í rétt horf til að fara með þær í hús Drottins. Hafið endilega samband við ættarsögurleiðbeinendur deildar eða greinar ykkar, sem munu leiðbeina ykkur hvert skref á þessari ferð ykkar.
Þegar við fylgjum leiðsögn spámannanna og lærum að vinna ættarsögu okkar og framkvæma musterishelgiathafnir fyrir forfeður okkar, munum við upplifa svo mikla gleði að við viljum ekki láta af þessu starfi. Andinn mun fylla hjörtu okkar, vekja hæfileika okkar til að gera þetta og leiðbeina okkur þegar við leitum að nöfnum forfeðra okkar. En höfum þó í huga að ættarsaga er meira en bara að leita nafna, dagsetninga og staða. Það er að sameina fjölskyldur og finna gleði í því að sjá þeim fyrir helgiathöfnum fagnaðarerindisins.
Ég elska innblásna kenningu okkar ástkæra spámanns, Russells M. Nelson forseta, sem hefur sagt: „Musterið er þungamiðja þess að styrkja trú okkar og andlegar varnir, því frelsarinn og kenning hans eru hjarta musterisins. Allt sem kennt er í musterinu, með fræðslu og með andanum, eykur skilning okkar á Jesú Kristi. Hinar nauðsynlegu helgiathafnir hans binda okkur frelsaranum með helgum sáttmálum prestdæmisins. Þegar við síðan höldum sáttmála okkar, gæðir hann okkur sínum græðandi og styrkjandi mætti“ („Musterið og ykkar andlega undirstaða,“ aðalráðstefna, október 2021).
Vissulega er musteris- og ættarsögustarfið eitt og hið sama í kirkjunni.
Ég ber vitni um þann sannleika. Ég veit að þetta er kirkja Drottins Jesú Krists, frelsara okkar og lausnara, sem við minnumst og heiðrum á þessum páskum. Ég veit að hann elskar okkur og þegar við höldum sáttmála okkar og setjum traust okkar á hann, gæðir hann okkur sínum græðandi og styrkjandi mætti. Í nafni Jesú Krists, amen.