Aðalráðstefna
Haldið bara áfram – í trú
Aðalráðstefna apríl 2023


11:4

Haldið bara áfram – í trú

Að iðka trú á frelsara okkar, Jesú Krist, hjálpar okkur að sigrast á vanmáttarkennd, sama hvaða hindrunum við mætum.

Öldungur George A. Smith hlaut leiðsögn frá spámanninum Joseph Smith á miklum erfiðleikatímum: „Hann sagði að ég mætti aldrei láta hugfallast, hverjir sem erfiðleikarnir væru er kynnu að umlykja mig. Þótt ég sykki í dýpstu gjá Nova Scotia og Klettafjöllin hryndu ofan á mig, mætti ég ekki láta hugfallast, heldur standa keikur, efla trú og sýna hugrekki, þá stæði ég að lokum efst á tindinum.“1

Hvernig gat spámaðurinn Joseph sagt þetta – við einhvern sem þjáðist? Af því að hann vissi að þetta var satt! Hann upplifði þann sannleika. Joseph lenti ítrekað í miklum erfiðleikum í lífi sínu. Þegar hann þó iðkaði trú á Jesú Krist og friðþægingu hans og hélt bara áfram, þá sigraði hann að því er virtist óyfirstíganlegar hindranir.2

Í dag langar mig að endurnýja bón Josephs um að láta ekki vanmáttarkennd yfirbuga okkur þegar við stöndum frammi fyrir vonbrigðum, sársaukafullri reynslu, okkar eigin ófullkomleika eða öðrum áskorunum.

Þegar ég segi vanmáttarkennd er ég ekki að tala um erfiðari áskoranir þunglyndis, kvíðaraskana eða annarra sjúkdóma sem krefjast sérstakrar meðferðar.3 Ég er bara að tala um hina venjulegu gömlu vanmáttarkennd sem fylgir upp- og niðursveiflum lífsins.

Ég er innblásin af hetjunum mínum, sem halda bara áfram – í trú – sama hvað.4 Í Mormónsbók lesum við um Sóram, þjón Labans. Þegar Nefí fékk látúnstöflurnar, stóð Sóram frammi fyrir því vali að fylgja Nefí og bræðrum hans út í óbyggðirnar eða mögulega týna lífinu.

Hvílíkir valkostir! Fyrstu viðbrögð Sórams voru að flýja, en Nefí hélt honum og sór þess eið að ef hann færi með þeim, yrði hann frjáls og ætti stað með fjölskyldu þeirra. Sóram taldi í sig kjark og fór með þeim.5

Sóram tókst á við miklar þrengingar í nýju lífi sínu, en samt hélt hann áfram í trú. Það er ekkert sem bendir til þess að Sóram hafi haldið fast í fortíð sína eða haft gremju í garð Guðs eða annarra.6 Hann var sannur vinur Nefís, spámanns, og hann og niðjar hans bjuggu við frelsi og farsæld í fyrirheitna landinu. Það sem hafði verið mikil hindrun á vegi Sórams, leiddi að lokum til ríkulegra blessana, vegna trúmennsku hans og fúsleika til að halda áfram – í trú.7

Nýlega hlustaði ég á hugrakka systur segja frá því hvernig hún þraukaði í gegnum erfiðleika.8 Hún átti við nokkrar áskoranir að etja og einn sunnudag sat hún í Líknarfélaginu og hlustaði á kennara sem hún hélt að lifði fullkomnu lífi – algjörlega andstæðu sínu eigin. Hún var þreytt og niðurdregin. Henni fannst hún ekki standast samanburð – eða jafnvel tilheyra – svo hún stóð upp og fór og ætlaði aldrei aftur að koma í kirkju. Þegar hún gekk að bílnum sínum fann hún fyrir greinilegri tilfinningu: „Farðu inn í kapelluna og hlustaðu á sakramentissamkomuræðuna. Hún efaðist um hvatninguna en fann hana aftur greinilega, svo hún fór inn á samkomuna.

Boðskapurinn var nákvæmlega það sem hún þurfti. Hún fann fyrir andanum. Hún vissi að Drottinn vildi að hún yrði hjá honum, væri lærisveinn hans og færi í kirkju, svo hún gerði það.

Vitið þið fyrir hvað hún var þakklát? Að hún hafi ekki gefist upp. Hún hélt bara áfram – í trú á Jesú Krist, jafnvel þegar á reyndi og hún og fjölskylda hennar njóta ríkulegrar blessunar er hún sækir fram.

Guð himins og jarðar mun hjálpa okkur að sigrast á vanmáttarkennd og öllum hindrunum sem verða á vegi okkar, ef við lítum til hans, fylgjum hvatningu heilags anda9 og höldum bara áfram – í trú.

Sem betur fer þá getur Drottinn styrkt trú okkar þegar við erum veik og vanmáttug. Hann getur aukið getu okkar umfram okkar eigin. Ég hef upplifað það. Fyrir meira en 20 árum, var ég óvænt kallaður svæðishafi Sjötíu og mér fannst ég afar ófullnægjandi. Eftir þjálfunarverkefni mín, átti ég að vera í forsæti á fyrstu stikuráðstefnu minni.10 Ég og stikuforsetinn skipulögðum hvert smáatriði af nákvæmni. Skömmu fyrir ráðstefnuna, hringdi Boyd K. Packer forseti, þáverandi forseti Tólfpostulasveitarinnar, til að athuga hvort hann gæti verið þar með mér. Ég var hissa og samþykkti það auðvitað. Ég spurði hvernig hann vildi hafa framvinduna, þar sem hann yrði í forsæti. Hann lagði til að við hættum við áætlanir okkar og byggjum okkur undir að fylgja andanum. Sem betur fer hafði ég enn 10 daga til að læra, biðja og undirbúa mig.

Dagskráin var opin og við vorum á pallinum 20 mínútum áður en leiðtogafundurinn hófst. Ég hallaði mér að stikuforsetanum og hvíslaði: „Þetta er dásamleg stika.“

Packer forseti gaf mér varlega olnbogaskot og sagði: „Engar samræður.“

Ég hætti að tala og aðalráðstefnuræða hans, „Lotning stuðlar að opinberun,“11 kom í hug mér. Ég tók eftir því að Packer forseti var að skrifa niður ritningartilvísanir. Andinn staðfesti fyrir mér að hann væri að fá innblástur fyrir samkomuna. Lærdómur minn var rétt að hefjast.

Packer forseti talaði fyrstu 15 mínúturnar og lagði áherslu á mikilvægi þess að hafa allar samkomur í samræmi við leiðsögn heilags anda.12 Síðan sagði hann: „Við munum nú heyra frá öldungi Cook.“

Á leiðinni í ræðustólinn spurði ég hversu langan tíma hann vildi að ég tæki og hvort hann vildi að ég ræddi um eitthvað ákveðið efni. Hann sagði: „Taktu þér 15 mínútur og haltu áfram eins og þú finnur þig innblásinn til að gera. Ég tók um 14 mínútur og miðlaði öllu sem í hugann kom.

Packer forseti stóð aftur upp og talaði í aðrar 15 mínútur. Hann miðlaði þessu ritningarversi:

„Mælið fram það sem ég blæs yður í brjóst, og þér þurfið ekki að blygðast yðar fyrir mönnum –

yður mun gefið einmitt á þeirri stundu … hvað segja skal.“13

Síðan sagði hann: „Við munum nú heyra frá öldungi Cook.“

Ég var sleginn. Ég hafði aldrei íhugað þann möguleika að ég yrði beðinn um að tala tvisvar á sömu samkomunni. Mér kom ekkert í huga til að segja. Með því að biðja ákaft og treysta á Drottin um hjálp, var ég einhvern veginn blessaður með hugsun, ritningarversi og ég gat talað í aðrar 15 mínútur. Ég fékk mér sæti algjörlega úrvinda.

Packer forseti talaði aftur í 15 mínútur um að fylgja andanum og miðlaði kenningum Páls um að við ættum ekki að tala „með orðum sem mannlegur vísdómur kennir heldur með orðum sem andi Guðs kennir.“14 Eins og þið getið ímyndað ykkur, var ég ofurliði borinn þegar hann fann sig knúinn til að segja í þriðja sinn: „Við munum nú heyra frá öldungi Cook.“

Ég var tómur. Ég hafði ekkert. Ég vissi að það var tími til að iðka sterkari trú. Ég gekk hægt í átt að ræðustólnum, sárbiðjandi Guð um hjálp. Þegar ég steig upp að hljóðnemanum, blessaði Drottinn mig með kraftaverki til að gefa annan 15 mínútna boðskap á einhvern hátt.15

Samkoman tók loks enda, en ég áttaði mig fljótt á því að samkoma fullorðinna myndi hefjast eftir eina klukkustund. Ó nei! Eins og Sóram, langaði mig einlæglega til að flýja, en rétt eins og Nefí hafði gripið hann, vissi ég að Packer forseti myndi grípa mig. Samkoma fullorðinna fylgdi nákvæmlega sama mynstri. Ég talaði þrisvar sinnum í viðbót. Daginn eftir á aðalhlutanum, talaði ég einu sinni.

Eftir ráðstefnuna, sagði Packer forseti af ástúð: „Við skulum gera þetta aftur einhvern tíma.“ Ég elska Boyd K. Packer forseta og met mikils allt það sem ég lærði.

Vitið þið hvað ég er þakklátur fyrir? Að ég hafi ekki gefist upp – eða maldað í móinn. Ef ég hefði látið undan örvæntingarfullri löngun minni til að flýja af þessum samkomum, hefði ég glatað tækifæri til að auka trú mína og hljóta ríkulega úthellingu elsku og stuðnings frá himneskum föður. Ég lærði um miskunn hans, kraftaverk Jesú Krists og friðþægingu hans og máttug áhrif heilags anda. Þrátt fyrir veikleika minn,16 komst ég að því að ég get þjónað; ég get gefið af mér þegar Drottinn er við hlið mér, ef ég held bara áfram – í trú.

Burtséð frá stærð, umfangi og alvarleika þeirra áskorana sem við stöndum frammi fyrir í lífinu, þá upplifum við öll stundir þar sem við viljum hætta, fara, flýja eða mögulega gefast upp. En að iðka trú á frelsara okkar, Jesú Krist, hjálpar okkur að sigrast á vanmáttarkennd, sama hvaða hindrunum við mætum.

Rétt eins og frelsarinn lauk verkinu sem honum var falið að vinna, hefur hann kraftinn til að hjálpa okkur að ljúka því verki sem okkur hefur verið falið.17 Við getum verið blessuð að halda áfram á sáttmálsveginum, sama hversu grýttur hann getur orðið, og hljóta að lokum eilíft líf.18

Eins og spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Standið staðfastir, þið hinir heilögu Guðs, bíðið örlítið lengur og stormar lífsins munu líða hjá og þið munuð hljóta umbun af þeim Guði hvers þjónar þið eruð.“19 Í nafni Jesú Krists, amen.