Aðgangur að krafti Guðs fyrir tilstuðlan sáttmála
Þegar þið gangið sáttmálsveginn, frá skírn til musteris og í gegnum lífið, lofa ég ykkur krafti til að fara á móti hinum náttúrlega, veraldlega straumi.
Síðastliðinn nóvember naut ég þeirra forréttinda að vígja Belém-musterið í Brasilíu. Það var ánægja að vera með vígðum meðlimum kirkjunnar í norðurhluta Brasilíu. Ég komst þá að því að Belém væri inngangur að landsvæðinu þar sem er að finna kraftmesta fljót heims, Amasonfljótið.
Þrátt fyrir kraft fljótsins, gerist nokkuð tvisvar á ári sem virðist ónáttúrulegt. Þegar sólin, tunglið og jörðin eru í nær beinni línu, flæðir kraftmikil sjávarfallabylgja upp eftir fljótinu, á móti eðlilegum straumi vatnsins. Allt að sex metra háar öldur1 sem ná allt að 50 km2 upp með ánni, hafa verið skjalfestar. Þetta fyrirbæri, sem er yfirleitt kallað flóðalda, er á staðnum kallað pororoca eða „mikið öskur,“ vegna þess mikla hávaða sem fylgir öldunni. Við getum ályktað að jafnvel hið mikla Amasonfljót láti undan himneskum krafti.
Í lífi okkar er náttúrlegt flæði eins og í Amasonfljótinu; við gerum gjarnan það sem okkur er eðlislægt. Líkt og Amasonfljótið gerir, þá getum við með liðsinni himins gert það sem virðist óeðlilegt. Það er okkur þrátt fyrir allt ekki eðlislægt að vera auðmjúk, hógvær eða fús til að beygja vilja okkar undir vilja Guðs. Aðeins ef við gerum það getum við umbreyst, snúið aftur og lifað í návist Guðs og náð eilífum örlögum okkar.
Ólíkt Amasonfljótinu, getum við valið hvort við látum undan himneskum krafti eða „fylgjum straumnum.“3 Það getur verið erfitt að fara gegn straumnum. En þegar við látum undan „umtölum hins heilaga anda“ og losum okkur úr sjálfselskum viðjum hins náttúrlega manns,4 getum við hlotið umbreytandi kraft frelsarans í lífi okkar, kraft til að gera erfiða hluti.
Russell M. Nelson forseti kenndi okkur hvernig ætti að gera þetta. Hann lofaði: „Sérhver einstaklingur sem gerir sáttmála í skírnarfonti og í musteri – og heldur þá – hefur aukinn aðgang að krafti Jesú Krists … [til að lyfta] okkur ofar aðdráttarafli þessa fallna heims.“5 Með öðrum orðum, þá getum við haft aðgang að krafti Guðs, en aðeins þegar við tengjumst honum með helgum sáttmálum.
Áður en jörðin var sköpuð, kom Guð sáttmálum á fót sem leið fyrir okkur, börn hans, til að geta sameinast honum. Samkvæmt eilífu, óbreytanlegu lögmáli, tilgreindi hann hinar óumsemjanlegu forsendur umbreytingar okkar, björgunar og upphafningar. Í þessu lífi gerum við þessa sáttmála með þátttöku í prestdæmishelgiathöfnum og með því að lofa að gera það sem Guð væntir af okkur, og í staðinn heitir Guð okkur ákveðnum blessunum.6
Sáttmáli er skuldbinding sem við ættum að búa okkur undir, skilja vel og virða algerlega.7 Að gera sáttmála við Guð er frábrugðið því að gefa léttvægt loforð. Í fyrsta lagi, er prestdæmisvalds krafist. Í öðru lagi, hefur veiklulegt loforð ekki þann tengjandi styrk sem þarf til að lyfta okkur ofar aðdráttarafli eðlislægs flæðis. Við gerum aðeins sáttmála þegar við höfum í hyggju að skuldbinda okkur sérstaklega til að uppfylla þá.8 Við verðum sáttmálsbörn Guðs og erfingjar ríkis hans, sérstaklega þegar við samsömum okkur algerlega sáttmálanum.
Hugtakið sáttmálsvegur vísar til nokkurra sáttmála sem færa okkur nær Kristi og tengja okkur við hann. Við höfum með þessum böndum sáttmála aðgengi að eilífum krafti hans. Vegurinn byrjar með trú á Jesú Krist og iðrun, á eftir koma skírn og meðtaka heilags anda.9 Jesús Kristur sýndi okkur hvernig ætti að stíga inn á veginn þegar hann tók skírn.10 Samkvæmt frásögnum Matteusar og Lúkasar í Nýja testamentinu, talaði himneskur faðir beint til Jesú við skírn hans og sagði: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.“ Þegar við hefjum sáttmálsgöngu okkar með skírninni, get ég ímyndað mér himneskan föður segja eitthvað svipað við okkur: „Þú ert elsku barnið mitt sem ég hef yndi af. Haltu áfram.“11
Í skírninni og þegar við meðtökum sakramentið,12 vitnum við um að við erum fús til að taka á okkur nafn Jesú Krists.13 Í þessu samhengi, höfum þá boðorð Gamla testamentisins í huga: „Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma.“14 Þetta hljómar líklega fyrir nútímaeyrum okkar eins og bann gegn því að nota nafn Drottins á óvirðandi hátt. Boðorðið felur það í sér, en fyrirmæli þess eru jafnvel enn djúpstæðari. Hebreska orðið sem þýðist hér sem „leggja [e. take]“ þýðir að „lyfta upp“ eða „bera,“ eins og maður myndi gera við borða sem tengir mann við einstakling eða hóp.15 Orðið sem þýðist sem „hégómi“ þýðir „tómt“ eða „blekkjandi.“16 Boðorðið um að leggja ekki nafn Drottins við hégóma gæti þess vegna þýtt: „Þú skalt ekki telja þig til lærisveina Jesú Krists nema þú hyggist koma vel fram fyrir hans hönd.“
Við verðum lærisveinar hans og komum vel fram fyrir hans hönd þegar við tökum vísvitandi og stigvaxandi á okkur nafn Jesú Krists fyrir tilstuðlan sáttmála. Sáttmálar okkar gefa okkur kraft til að halda okkur á sáttmálsveginum, því samband okkar við Jesú Krist og himneskan föður hefur breyst. Við erum tengd þeim með böndum sáttmála.
Sáttmálsvegurinn leiðir til helgiathafna musterisins, svo sem musterisgjafarinnar.17 Musterisgjöfin er gjöf Guðs á helgum sáttmálum sem tengja okkur honum enn frekar. Í musterisgjöfinni gerum við í fyrsta lagi sáttmála um að halda boðorð Guðs; í öðru lagi, um að iðrast með sundurkrömdu hjarta og sáriðrandi anda; í þriðja lagi, að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists. Þetta gerum við með því að iðka trú á hann, gera sáttmála við Guð með því að meðtaka helgiathafnir sáluhjálpar og upphafningar, halda þessa sáttmála út ævina og leggja okkur fram við að lifa eftir hinum tveimur mestu boðorðum um að elska Guð og náungann. Í fjórða lagi, gerum við sáttmála um að halda skírlífislögmálið og, í fimmta lagi, að helga okkur og öllu því sem Drottinn blessar okkur með til að byggja upp kirkju hans.18
Með því að gera og halda musterissáttmála, lærum við meira um ætlunarverk Drottins og hljótum fyllingu heilags anda.19 Við hljótum leiðsögn fyrir líf okkar. Við þroskumst í lærisveinshlutverki okkar svo við höldum ekki áfram að vera eilíf, fáfróð börn.20 Þess í stað lifum við með eilífri sýn og finnum til meiri hvatningar til að þjóna Guði og öðrum. Við hljótum aukna getu til að fullnægja tilgangi okkar í jarðlífinu. Við erum varin gegn hinu illa21 og kraftur okkar eykst til að standast freistingar og iðrast þegar við hrösum.22 Þegar við gerum mistök, hjálpar minningin um sáttmálana við Guð okkur að snúa aftur á veginn. Með því að ná tengingu við kraft Guðs, verðum við okkar eigin pororoca, getum synt á móti straumi heimsins, út æviskeiðið og inn í eilífðina. Hlutskipti okkar breytist í raun, vegna þess að sáttmálsvegurinn leiðir til upphafningar og eilífs lífs.23
Að halda sáttmála sem gerðir eru í skírnarfontum og í musterum veitir okkur einnig styrk til að standast raunir og sorgir jarðvistarinnar.24 Kenningin sem tengist þessum sáttmálum léttir leiðina fyrir okkur og veitir von, huggun og frið.
Amma mín og afi, Lena Sofia og Matts Leander Renlund, hlutu kraft Guðs fyrir tilstuðlan skírnarsáttmála þeirra, þegar þau gengu í kirkjuna árið 1912 í Finnlandi. Þau voru glöð að vera hluti af fyrstu grein kirkjunnar í Finnlandi.
Leander lést úr berklum fimm árum síðar þegar Lena gekk með tíunda barn þeirra. Þetta barn, faðir minn, fæddist tveimur mánuðum eftir dauða Leanders. Lena jarðsetti síðar meir ekki aðeins eiginmann sinn, heldur einnig sjö af tíu börnum. Hún átti erfitt sem allslaus ekkja. Hún fékk ekki góðan nætursvefn í 20 ár. Hún lagði hart að sér á daginn til að sjá fyrir fjölskyldunni. Á nóttunni, annaðist hún deyjandi fjölskyldumeðlimi. Það er varla hægt að gera sér í hugarlund hvernig hún þraukaði.
Lena þraukaði því hún vissi að látinn eiginmaður hennar og börn gætu verið hennar í eilífðinni. Kenning musterisblessana, þar á meðal sú um eilífar fjölskyldur, færðu henni frið því hún treysti á innsiglunarvaldið. Í jarðlífinu hlaut hún hvorki musterisgjöfina né var hún innsigluð Leander, en Leander var þrátt fyrir það lífsnauðsynlegur áhrifavaldur í lífi hennar og hluti af miklum væntingum hennar til framtíðarinnar.
Árið 1938 sendi Lena inn gögn svo að hægt væri að gera musterishelgiathafnir fyrir látna fjölskyldumeðlimi hennar, meðal þeirra fyrstu sem send voru frá Finnlandi. Eftir að hún dó, framkvæmdu aðrir musterishelgiathafnir fyrir hana og látin börn hennar. Hún fékk musterisgjöfina með staðgengli, Lena og Leander voru innsigluð hvort öðru og látin börn þeirra og faðir minn voru innsigluð þeim. Eins og fleiri, þá dó Lena í trú án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Hún sá þau álengdar, fagnaði þeim og meðtók þau.25
Lena lifði eins og hún hefði nú þegar gert þessa sáttmála í lífi sínu. Hún vissi að skírnar- og sakramentissáttmálarnir bundu hana við frelsarann. Hún „ljúfa lét löngun um helgan stað [frelsarans] vekja vansælu hjarta [hennar] von.“26 Lena taldi það vera mikla mildi Guðs að hafa lært um eilífar fjölskyldur, áður en harmleikir hennar urðu að veruleika. Fyrir tilstuðlan sáttmála, hlaut hún kraft Guðs til að þrauka og rísa ofar hinu niðurdrepandi aðdráttarafli áskorana sinna og þrenginga.
Þegar þið gangið sáttmálsveginn, frá skírn til musteris og í gegnum lífið, lofa ég ykkur krafti til að fara á móti hinum náttúrlega, veraldlega straumi – krafti til að læra, krafti til að iðrast og vera helguð, og krafti til að finna von, huggun og jafnvel gleði er þið standið frammi fyrir áskorunum lífsins. Ég lofa ykkur og fjölskyldum ykkar vörn gegn áhrifum andstæðingsins, sérstaklega þegar þið gerið musterið að miðpunkti í lífi ykkar.
Þegar þið komið til Krists og tengist honum og himneskum föður með sáttmála, gerist nokkuð sem virðist ónáttúrulegt. Þið verðið umbreytt og fullkomnist í Jesú Kristi.27 Þið verðið sáttmálsbarn Guðs og erfingi ríkis hans.28 Ég get ímyndað mér hann segja við ykkur: „Þú ert elsku barnið mitt sem ég hef yndi af. Velkominn heim.“ Í nafni Jesú Krists, amen.