Safnað heim heilu og höldnu
Við erum í einstæðri stöðu til að safna saman Ísrael beggja vegna hulunnar af meiri krafti en áður samkvæmt áætlun föðurins.
Russell M. Nelson forseti, ástkær spámaður okkar, hefur lagt mikla áherslu á að sérleg ábyrgð okkar er að taka þátt í samansöfnun Ísraels og búa heiminn undir síðari komu Jesú Krists.1 Faðir anda okkar þráir að börnum sínum verði safnað heim heilu og höldnu.
Áætlun himnesks föður til að safna saman börnum sínum til okkar himnesku heimkynna byggist ekki á veraldlegum árangri, efnahagslegri stöðu, menntun, kynþætti eða kyni. Áætlun föðurins byggir á réttlæti, því að halda boðorð hans og að taka við helgiathöfnum og virða þá sáttmála sem við gerum.2
Hin guðlega kenning um að við erum öll bræður og systur og að „allir eru jafnir fyrir Guði“ liggur að baki hins mikla verks samansöfnunarinnar. Þessi kenning er í samhljómi við þá sem þrá innilega að fólk af mismunandi efnahagsstöðu og kynþætti geti lifað betra lífi. Við fögnum og tökum þátt í slíkum verkefnum. Við þráum enn fremur að öll börn Guðs komi til hans og hljóti þær eilífu blessanir sem hann býður með fagnaðarerindi sínu.3 Í inngangi Drottins að Kenningu og sáttmálum, segir hann: „Hlýðið á, þér sem í fjarlægð dveljið og þér sem dveljið á eyjum sjávar, hlustið saman.“4
Mér þykir vænt um að allra fyrsta vers Kenningar og sáttmála tilgreini fólkið sem er á „eyjum sjávar.“ Ég hef verið kallaður þrisvar til að þjóna sérstaklega og búa á eyjum sjávar. Ég þjónaði fyrst sem ungur trúboði á Bretlandseyjum, annað skipti sem nýr aðalvaldhafi á Filippseyjum og síðan sem svæðisforseti á Kyrrahafseyjum, en til þeirra teljast margar pólýnesískar eyjar.
Öll þrjú svæðin hafa með góðum árangri safnað saman trúuðum til hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists. Trúboðar komu fyrst til Bretlandseyja árið 1837. Þetta var einu ári eftir að Joseph Smith vígði Kirtland-musterið, þar sem Móse veitti „lyklana að samansöfnun Ísraels frá hinum fjórum heimshlutum og … ættkvíslirnar tíu [voru leiddar] úr landinu í norðri.“5 Árangurinn í upphafi á Bretlandseyjum er þjóðsagnakenndur. Árið 1851 var meira en helmingur meðlima kirkjunnar skírðir trúskiptingar sem bjuggu á Bretlandseyjum.6
Árið 1961 heimsótti öldungur Gordon B. Hinckley Filippseyjar og hrinti af stað fastatrúboðsverkinu. Á þeim tíma var aðeins einn filippseyskur Melkísedeksprestdæmishafi. Þótt ótrúlegt megi virðast, eru meðlimir kirkjunnar á Filippseyjum í dag yfir 850.000. Ég dáist að Filippseyingum; þeir búa yfir djúpri og varanlegri elsku til frelsarans.
Trúboðsstarfið á eyjum Pólýnesíu nú á dögum er mögulega minna þekkt. Það byrjaði árið 1844, þegar Addison Pratt kom til þess staðar þar sem nú er Franska Pólýnesía.7 Margir Pólýnesíubúar trúðu þá þegar á eilífar fjölskyldur og höfðu tekið við Jesú Kristi sem frelsara sínum. Í dag eru næstum 25 prósent Pólýnesíubúa, á eyjum Pólýnesíu, meðlimir kirkjunnar.8
Ég hlustaði eitt sinn á 17 ára stúlku frá fjarlægri tahítískri eyju, sem var meðlimur í sjöunda ættlið. Hún vottaði áum sínum virðingu, sem höfðu verið skírðir árið 1845 á Tubuai, tveimur árum áður en fyrritíðar meðlimir kirkjunnar komu í Saltvatnsdalinn.9
Kenning okkar er skýr með það að öllum þjóðum verður afmörkuð stund og tími til að taka á móti og bregðast við boðskap fagnaðarerindisins. Þessi dæmi eru bara brot af mikið stærri heildarmynd. Nelson forseti hefur stöðugt lagt áherslu á að samansöfnun Ísraels sé mesta áskorun, mesti málstaður og mesta verk á jörðu á okkar tímum.10
Fram að endurreisn kirkju Jesú Krists, að meðtalinni fram komu Mormónsbókar og opinberunum og prestdæmislyklum sem Joseph Smith voru veitt, var skilningur á samansöfnun Ísraels sundurlaus og takmarkaður.11
Hið einkennandi nafn „Ísrael“ var titill sem gefinn var Jakobi.12 Það varð að tákni um niðja Abrahams í gegnum Ísak og Jakob. Upphaflegt fyrirheit og sáttmáli til föður Abrahams eru kunngerð í Abraham 2:9–10, sem að hluta hljóðar svo:
„Ég [mun] gjöra þig að mikilli þjóð. …
Og ég mun blessa [allar þjóðir] fyrir nafn þitt, því að allir þeir, sem meðtaka þetta fagnaðarerindi, skulu kenndir við nafn þitt og teljast niðjar þínir, og þeir munu rísa á fætur og blessa þig sem föður sinn.“
Á þinginu á himnum í fortilverunni var sáluhjálparáætlunin rædd og studd. Hún hafði að geyma ákveðin lögmál og helgiathafnir prestdæmisins sem voru innleidd fyrir grundvöllun veraldar og byggjast á samansöfnuninni.13 Hún felur einnig í sér hina gildandi sjálfræðisreglu.
Eftir nokkrar aldir sem máttugur lýður, þar með talið í stjórnartíð Sáls, Davíðs og Salómons, var Ísrael tvístrað. Ættkvísl Júda og hluti af ættkvísl Benjamíns urðu að konungsríkinu Júda. Þeir sem eftir voru, þekktar sem ættkvíslirnar tíu, urðu að konungsríkinu Ísrael.14 Eftir að hafa lifað aðskilið í 200 ár, átti fyrsta tvístrun Ísraels sér stað 721 f. Kr. þegar ættkvíslirnar tíu voru herleiddar af Assýríukonungi.15 Þær fóru síðar til landanna í norðri.16
Árið 600 f. Kr., í upphafi Mormónsbókar, leiddi faðir Lehí hóp Ísraelsmanna til Ameríku. Lehí skildi tvístrun Ísraels, sem hann var hluti af. Nefí vitnar í Lehí, þar sem hann segir að Ísraelsætt megi „líkja … við olífutré, sem greinarnar myndu brotnar af og þeim tvístrað um allt yfirborð jarðar.“17
Í hinum svokallaða Nýja heimi, lýkur sögu Nefíta og Lamaníta eins og hún birtist í Mormónsbók um það bil árið 400 e. Kr. Afkomendur föður Lehís eru dreifðir um Norður- og Suður-Ameríku.18
Þessu lýsir Mormón greinilega í 3. Nefí 5:20, sem segir: „Ég er Mormón og beinn afkomandi Lehís. Ég hef ástæðu til að blessa Guð minn og frelsara minn Jesú Krist fyrir að leiða feður okkar út úr landi Jerúsalem.“19
Hápunktur í sögu Ísraels er bersýnilega fæðing, boðskapur, þjónusta og verk Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists.20
Eftir eilífðarmótandi dauða og upprisu frelsarans, tvístraðist Júda öðru sinni eins og kunnugt er, milli 70 e. Kr. og 135 e. Kr. þegar kúgun og ofsóknir Rómverja urðu til þess að Gyðingar dreifðust um heiminn eins og hann var þá þekktur.
Nelson forseti hefur kennt: „Mormónsbók kom fram sem tákn um að Drottinn hafi tekið að safna saman sáttmálsbörnunum.“21 Mormónsbók, þýdd af spámanninum Joseph Smith með gjöf og krafti Guðs, er því ætluð afkomendum Lehís, hinum tvístraða Ísrael og Þjóðunum, sem eru ættleiddar í ættkvíslir Ísraels. Fyrrisögn kapítulans 1. Nefí 22 segir að hluta: „Ísrael mun tvístrað um alla jörðina – Þjóðirnar munu fóstra og næra Ísrael með fagnaðarerindinu á síðustu dögum.“ Titilsíða Mormónsbókar segir að einn tilgangur bókarinnar sé „að sannfæra Gyðingana og Þjóðirnar, um að Jesús er Kristur.“ Með endurreisninni og Mormónsbók, hefur hugtakið samansöfnun Ísraels útvíkkast gífurlega.22
Þeir sem taka við fagnaðarerindi Jesú Krists, hvert svo sem rekja mætti ættir þeirra, verða hluti af hinum samansafnaða Ísrael.23 Þessi samansöfnun og hin fjölmörgu musteri sem verið er að byggja og hafa verið tilkynnt, setja okkur í einstæða stöðu til að safna saman Ísrael beggja vegna hulunnar af meiri krafti en áður, samkvæmt áætlun föðurins.
Spencer W. Kimball forseti hafði þetta að segja um bókstaflega samansöfnun Ísraels: „Núna felur samansöfnun Ísraels í sér inngöngu í hina sönnu kirkju og … því að öðlast þekkingu á hinum sanna Guði. … Hver manneskja hefur tekið við hinu endurreista fagnaðarerindi og leitast nú við að tilbiðja Drottin á sinni eigin tungu með hinum heilögu í því landi sem hún býr, hefur samhæft sig lögmálinu um samansöfnun Ísraels og er erfingi allra blessana sem hinum heilögu eru lofaðar á þessum síðustu dögum.“24
„Samansöfnun Ísraels felur nú í sér trúarumbreytingu.“25
Líkt og það væri séð í gegnum skýra linsu, þá njóta meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu þeirra miklu forréttinda að elska, miðla, bjóða og hjálpa við samansöfnun Ísraels, að hljóta fyllingu sáttmálsblessana Drottins. Þetta nær til Afríkubúa og Evrópubúa, Suður- og Norður-Ameríkubúa, Asíubúa, Ástralíubúa og þeirra sem búa á eyjum sjávar. „Því að sannlega er rödd Drottins til allra manna.“26 „Þessi samansöfnun mun halda áfram þar til hinir réttlátu eru saman komnir í söfnuði hinna heilögu í þjóðum heimsins.“27
Enginn hefur talað jafn hreint út um samansöfnunina og Russell M. Nelson forseti: „Alltaf þegar þið gerið eitthvað til hjálpar einhverjum – beggja vegna hulunnar – að taka skref í átt að því að gera sáttmála við Guð og taka á móti hinum mikilvægu helgiathöfnum skírnar og musteris, eruð þið að hjálpa við samansöfnun Ísraels. Svo einfalt er það.“28
Hvernig stendur kirkjan í dag? Á þeim 62 árum frá því að ég hóf trúboðsþjónustu mína árið 1960, hefur fjöldi fastatrúboða sem þjóna í köllun frá spámanninum aukist úr 7.683 í 62.544. Fjöldi trúboðsstöðva hefur aukist úr 58 í 416. Fjöldi meðlima hefur aukist úr um það bil 1.700.000 í um það bil 17.000.000.
Kóvid-19 faraldurinn hafði tímabundið áhrif á tækifæri okkar til að miðla fagnaðarerindinu. Hann veitti okkur líka reynslu varðandi nýja tækni, sem mun bæta verulega samansöfnunina. Við erum þakklát fyrir að meðlimir og trúboðar auka nú starf samansöfnunar hins tvístraða Ísraels. Það er áframhaldandi vöxtur alls staðar, sérstaklega í Suður-Ameríku og Afríku. Við kunnum einnig að meta að svo margir um víða veröld hafi brugðist við kröftugu boði Nelsons forseta um aukna trúboðsþjónustu. Þrátt fyrir þetta, getur skuldbinding okkar um að elska, miðla og bjóða aukist mjög.
Nauðsynlegur hluti þessa trúboðsstarfs, er að meðlimir verði fordæmi og leiðarljós29 hvar sem þeir búa.30 Við getum ekki dulist. Kristilegt fordæmi okkar um góðvild, réttlæti, gleði og einlægan kærleika til allra manna getur ekki aðeins verið þeim leiðarljós, heldur líka skilningur um að örugga höfn sé að finna í helgiathöfnum sáluhjálpar og upphafningar í hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists.
Vitið að undursamlegar blessanir felast í því að miðla fagnaðarerindi Jesú Krists. Ritningarnar tala um hamingju og frið, fyrirgefningu synda, vernd frá freistingum og kraft frá Guði til stuðnings.31 Þegar við íhugum hvað bíður handan þessa jarðlífs, þá verðum við undir það búin að miðla fagnaðarerindinu með þeim sem eru „í myrkri og syndafjötrum í hinum mikla andaheimi hinna dánu.“32
Sérleg bæn mín í dag er að hvert barn, piltur, stúlka, fjölskylda og sveit, Líknarfélag og bekkur endurskoði hvernig við, hvert fyrir sig og sem heild, tökum á móti hinni áhrifamiklu leiðsögn um að hjálpa við samansöfnun Ísraels, sem Drottinn og okkar ástkæri spámaður hafa veitt okkur.
Við virðum sjálfræði. Í þessum stundlega heimi munu ekki margir bregðast við og taka þátt í samansöfnun Ísraels. Það munu samt margir gera og Drottinn væntir þess að þeir sem tekið hafa við fagnaðarerindinu muni keppa að því að vera leiðarljós sem hjálpar öðrum að koma til Guðs. Það gerir bræðrum okkar og systrum um allan heim mögulegt að njóta himneskra blessana og helgiathafna hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists og vera safnað heim heilu og höldnu.
Ég ber mitt örugga postullega vitni um guðleika Jesú Krists og um áætlun himnesks föður fyrir okkur, í nafni Jesú Krists, amen.