Eftir fjórða dag
Þegar við sækjum fram í trú á Jesú Krist, mun fjórði dagurinn alltaf verða. Hann mun alltaf koma okkur til hjálpar.
Í dag er pálmasunnudagur, eins og við höfum verið minnt á í morgun, sem vísar til sigurinnreiðar frelsarans í Jerúsalem og upphafs þeirrar helgu viku sem fór á undan hinnar mikilu friðþægingu hans og átti eftir að fela í sér þjáningar, krossfestingu og upprisu.
Stuttu fyrir fyrirspáða innreið Jesú Krists í borgina, var hann algjörlega skuldbundinn í þjónustu sinni þegar hann fékk skilaboð frá kærum vinum, Maríu og Mörtu, að bróðir þeirra, Lasarus, væri veikur.1
Þótt Lasarus væri alvarlega veikur, „var [Drottinn] samt um kyrrt á sama stað í tvo daga. Að þeim liðnum sagði hann við lærisveina sína: ‚Förum aftur til Júdeu.‘“2 Áður en þeir hófu ferðina til heimilis vinar hans í Betaníu, „sagði Jesús [lærisveinum sínum] berum orðum: ‚Lasarus er dáinn.‘“3
Þegar Jesús kom til Betaníu og hitti fyrst Mörtu og síðan Maríu, heilsuðu þær honum og sögðu, ef til vill vegna vonbrigða þeirra yfir síðbúinni komu hans: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn.“4 Marta sagði enn fremur: „Drottinn, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag.“5
Þessir fjórir dagar voru Maríu og Mörtu þýðingarmiklir. Samkvæmt ákveðnum kenningum rabbína var talið að andi hins látna væri áfram þrjá daga í líkamanum og veitti það von um að líf væri enn mögulegt. Á fjórða degi var sú von hins vegar glötuð, mögulega vegna þess að líkaminn var byrjaður rotna og „nálykt“ kominn af honum.6
María og Marta voru örvæntingarfullar. „Þegar Jesús sá [Maríu] gráta … komst hann við, varð djúpt hrærður
og sagði: ‚Hvar hafið þið lagt hann?‘ Þau sögðu: ‚Drottinn, kom þú og sjá.‘”7
Á þessum tímapunkti sjáum við eitt af mestu kraftaverkunum í jarðneskri þjónustu frelsarans. Fyrst segir Drottinn: „Takið steininn frá!“8 Síðan, eftir að hafa þakkað föður sínum, „hrópaði hann hárri röddu: ‚Lasarus, kom út!‘
Hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. Jesús segir við fólkið: ‚Leysið hann og látið hann fara.‘“9
Við, líkt og María og Marta, höfum tækifæri til að upplifa allt sem jarðlífið hefur að bjóða, jafnvel sorg10 og veikleika.11 Sérhvert okkar mun upplifa sorgina sem fylgir því að missa ástvin. Ferð okkar um jarðlífið gæti falið í sér veikindi okkar sjálfra eða lamandi veikindi ástvinar; þunglyndi; kvíða; eða aðrar áskoranir er varða geðheilsu; fjárhagserfiðleika; svik; synd. Og stundum fylgir þessu vonleysi. Ég er ekkert öðruvísi. Ég hef upplifað ógrynni áskorana, eins og þið, sem af þessu líf má vænta. Hugur minn laðast að þessari frásögn um frelsarann og því sem hún kennir mér um samband okkar við hann.
Þegar áhyggjur þjaka okkur leitum við til frelsarans, eins og María og Marta, eða biðjum föðurinn um guðlegt inngrip. Sagan af Lasarusi kennir okkur reglur sem við getum tileinkað okkur í lífinu, er við tökumst á við persónulegar áskoranir.
Þegar frelsarinn kom til Betaníu höfðu allir misst trúna á að hægt væri að bjarga Lasarusi – fjórir dagar höfðu liði og hann var farinn. Stundum finnst okkur í þrengingum okkar eins og Kristur sé of seinn og þá reynir á von okkar og trú. Vitnisburður minn er sá að þegar við sækjum fram í trú á Jesú Krist, mun fjórði dagurinn alltaf verða. Hann mun alltaf koma okkur til hjálpar eða endurvekja okkur von. Hann hefur lofað:
„Hjarta yðar skelfist ekki.“12
„Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar.“13
Stundum gæti virst sem hann komi ekki fyrr en á hinum táknræna fjórða degi, eftir að öll von er horfin. En af hverju svona seint? Thomas S. Monson forseti kenndi: „Faðir okkar á himnum, sem gefur okkur svo margt til að gleðjast yfir, veit líka að við lærum og þroskumst og styrkjumst við að takast á við og standast raunir sem á vegi okkar verða.“14
Jafnvel spámaðurinn Joseph Smith stóð frammi fyrir gríðarmikilli fjórða dags upplifun. Munið þið eftir sárri bæn hans? „Ó Guð, hvar ert þú? Og hvar er tjaldið, sem hylur skýli þitt?“15 Þegar við treystum á hann megum við búast við svari sem þessu: „Sonur minn [eða dóttir], friður sé með sál þinni. Mótlæti þitt og þrengingar munu aðeins vara örskamma stund.“16
Annar boðskapur sem við lærum af sögunni um Lasarus er hvert okkar hlutverk gæti verið í því guðlega inngripi sem við vonumst eftir. Þegar Jesús nálgaðist gröfina, sagði hann fyrst við þá sem þar voru: „Takið steininn frá!“17 Með þeim mætti sem frelsarinn býr yfir, hefði hann ekki fyrir kraftaverk getað fært steininn áreynslulaust? Það hefði verið tilkomumikil sjón og ógleymanleg upplifun, en hann sagði við hina: „Takið steininn frá!“
Í öðru lagi, þá „hrópaði [Drottinn] hárri röddu: ‚Lasarus, kom út!‘“18 Hefði ekki verið áhrifaríkara ef Drottinn hefði sjálfur komið Lasarusi fyrir við grafarmunnann, svo hann væri sýnilegur fólkinu um leið og steinninn var fjarlægður?
Í þriðja lagi, þegar Lasarus kom út, var hann „vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk vafinn um andlitið. Jesús segir við fólkið: ‚Leysið hann og látið hann fara.‘“19 Ég er viss um að Drottinn hafði getu til að láta Lasarus standa við munnann, þegar hreinan og auðvelt að nálgast hann, með líkblæjurnar snyrtilega brotnar saman.
Hver er tilgangur þess að beina athyglinni að þessum atriðum? Hvert þessara þriggja atriða eiga nokkuð sameiginlegt – ekkert þeirra krafðist notkunar guðlegs máttar Krists. Hann leiðbeindi lærisveinunum varðandi það sem þeir gátu gert. Lærisveinarnir höfðu vissulega getu til að færa sjálfir steininn; Lasarus, eftir að hafa verið reistur upp, gat staðið upp og látið sjá sig við grafarmunnann; og þeir sem elskuðu Lasarus, gátu alveg aðstoðað hann við að fjarlægja líkblæjurnar.
Þó hafði aðeins Kristur máttinn og valdið til að reisa Lasarus frá dauðum. Mín tilfinning er sú að frelsarinn væntir þess að við gerum allt sem við getum og hann gerir það sem aðeins hann getur gert.20
Við vitum að „trú [á Drottin Jesú Krist] er regla verka“21 og að „kraftaverk vekja ekki trú, en sterk trú þróast af hlýðni við fagnaðarerindi Jesú Krists. Með öðrum orðum, trú fæst fyrir réttlætisverk.“22 Þegar við leggjum okkur fram við að gera og halda helga sáttmála og tileinka okkur kenningu Krists í eigin lífi, mun trú okkar ekki aðeins nægja til að styðja okkur allt til fjórða dags, heldur munum við einnig með hjálp Drottins geta fært frá þá steina sem verða á vegi okkar, risið ofar örvæntingu og leyst okkur sjálf úr hvers kyns fjötrum. Á sama tíma og Drottinn væntir þess að við „[gerum] allt, sem í okkar valdi stendur,“23 munið þá að hann mun veita þá hjálp í öllu sem við þörfnumst er við treystum á hann.
Hvernig getum við fært frá steina og byggt á bjargi hans?24 Við getum fylgt leiðsögn spámannanna.
Russell M. Nelson forseti bað okkur til að mynda síðasta október að axla ábyrgð á eigin vitnisburði um frelsarann og fagnaðarerindi hans, að vinna fyrir honum og endurnæra hann og varast að menga hann með falskri heimspeki vantrúaðra. Hann lofaði hverju okkar: „Þegar þið hafið það stöðugt í algjöru fyrirrúmi að styrkja vitnisburð ykkar, fylgist þá með kraftaverkunum gerast í lífi ykkar.“25
Við getum þetta!
Hvernig getum við á táknrænan hátt staðið upp og komið út? Við getum iðrast af gleði og valið að hlýða boðorðunum. Drottinn sagði: „Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er.“26 Við getum lagt okkur fram við að iðrast daglega og sótt áfram af gleði af fúsu hjarta, fyllt elsku til Drottins.
Við getum þetta!
Hvernig getum við með Drottins hjálp leyst okkur sjálf úr öllu sem fjötrar okkur? Við getum fyrst og fremst með ásetningi bundið okkur himneskum föður og syni hans, Jesú Kristi, í gegnum sáttmála. Öldungur D. Todd Christofferson kenndi: „Hver er uppspretta … siðferðilegs og andlegs kraftar [okkar], og hvernig getum við öðlast hann? Uppsprettan er Guð. Aðgengi okkar að þessum krafti er í gegnum sáttmála okkar við hann. … Í þessu guðlega samkomulagi skuldbindur Guð sig til að styðja, helga og upphefja okkur, en við aftur á móti skuldbindum okkur til að þjóna honum og halda boðorð hans.“27 Við getum gert og haldið helga sáttmála.
Við getum þetta!
„Takið steininn frá!“ „[Komið] út.“ „Leysið hann og látið hann fara.“
Leiðsögn, boðorð og sáttmálar. Við getum þetta!
Öldungur Jeffrey R. Holland lofaði: „Sumar blessanir koma fljótt, aðrar seint og enn aðrar koma ekki fyrr en á himnum; en hvað varðar þá sem taka á móti fagnaðarerindi Jesú Krists, þá munu þær koma.“28
Og að lokum: „Verið þess vegna vonglaðir og óttist ei, því að ég, Drottinn, er með yður og mun standa með yður.“29
Þetta er vitnisburður minn, í helgu nafni hans sem alltaf mun koma, já, Jesú Krists, amen.